
Wikimedia Commons / Helgi Halldórsson
ÖBÍ réttindasamtök hafa fengið til umfjöllunar tillögu um leikskólaleiðina hjá Reykjavíkurborg.
Markmið með breytingunum
Breytingunum er ætlað að ná eftirtöldum markmiðum:
- Auka faglegt starf, stöðugleika og fyrirsjáanleika í leikskólastarfi.
- Bæta starfsaðstæður starfsfólks.
- Draga úr ófyrirséðri fáliðun og bæta mönnun.
- Dvalartími barna verður á bilinu 30–42,5 klst. á viku, en markmiðið er að 38 klst. á viku verði algengasta viðveran, í samræmi við vinnutíma starfsfólks.
- Leikskólastarf verður að mestu skipulagt á tímabilinu 08:00–16:00 mán–fim og 08:00–14:00 á föstudögum.
ÖBÍ styður ofangreind markmið. Aftur á móti telja samtökin að breytt gjaldskrá og aukin greiðlsuþátttaka foreldra ekki vera rétta leið að markmiðunum.
Almennt um breytingarnar
Það er mat ÖBÍ að með þessum breytingum sé annars vegar verið að skapa þrýsting á foreldra að stytta dvalartíma barna sinna og hins vegar sé verið að hækka gjöld fyrir þá sem þurfa heilsdagsvistun.
Við yfirlestur og samanburð á nýju gjaldskránni og þeirri gömlu, kemur í ljós að nýja gjaldskráin er flóknari en sú sem hún leysir af. Að mati ÖBÍ er nýja gjaldskráin ósanngjörn, flókin og tekjumörk of lág sem útiloka marga frá afsláttum.
Dæmi um áhrif aukinnar gjaldtöku á einstæða foreldra og sambúðarfólk:
- Gjöld hjá einstæðum foreldrum með tekjur yfir 542.000 kr. á mánuði geta hækkað um 65–185% eftir dvalartíma barnsins.
- Sambúðarfólk þar sem tekjur hvers aðila er yfir 396.000 kr. koma til með að greiða töluvert hærri gjöld ef það þarf dagvistun í 8 klst. eða meira.
Í neðangreindri mynd sést vel breytingar á leikskólagjöldum hjá einstæðum foreldrum og foreldrum í sambúð. Myndin sýnir vel hve mikið nýja gjaldskráin er flóknari og ósanngjarnari en sú gamla.
Margir einstæðir foreldrar með lágar tekjur þurfa að vinna lengri vinnudag til að geta mætt útgjöldum. Þau eru fljót að fara yfir viðmiðið 542.000 kr. á mánuði, sem eykur kostnað þeirra vegna leikskólagjalda umtalsvert eða um 60%, m.v. 8 tíma leikskóladvöl barns á dag. Þau geta ekki minnkað við sig vinnu til að lækka leikskólagjöld, því það lækkar tekjurnar.
Almennt þarf fólk á lágum launum að vinna lengri vinnudag til að eiga fyrir öllum útgjöldum eins og leigu á húsnæði og mat. Til viðbótar þessu þarf fólk sem hefur ekki tök á að taka frídaga milli jóla og nýárs, og frídaga vegna haust- og vetrarfría, samkvæmt nýju gjaldskránni að greiða sérstaklega fyrir þessa daga sem vegur að hagsmunum fólks með lágar- og meðaltekjur og eykur greiðsluþátttöku þeirra vegna leikskóla.
Fyrirhugaðar breytingar á gjaldskrá leikskóla er ætlað að mynda hvata til að stytta dvöl barns á leikskóla. Slíkt á frekar við um fólk með hærri tekjur sem getur leyft sér að stytta dvölina en fólk með lægri og meðaltekjur getur ekki leyft sér. Því má álykta að þessar breytingar ganga gegn jöfnu aðgengi barna að leikskólum og sem og tekjum foreldra.
Þessar breytingar ganga því gegn hagsmunum fólks með lágar- og meðaltekjur og eykur kostnað þeirra svo um munar. Að því sögðu leggst ÖBÍ gegn þessum breytingum og lýsir yfir vonbrigðum með þær þar sem þær ganga gegn jöfnunarhlutverki leikskóla.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla
Reykjavíkurborg – Skóla- og frístundasvið. Samráð 25.
Umsögn ÖBÍ, 29. október 2025

