Skip to main content

Leiðbeiningar fyrir flugfarþega með fatlanir og aðrar skerðingar

Aðgengishópur ÖBÍ  hefur lengi unnið að útgáfu leiðbeininga fyrir flugfarþega með fatlanir og aðrar skerðingar og verið í virku samráði við þjónustuaðila og stofnanir, eins og Isavia og Icelandair.

Á þessu tímabili höfum við séð að jafnt upplýsingar og þjónusta við fólk með fatlanir hafa aukist og batnað, sem má að stórum hluta rekja til þessa samtals. Leiðbeiningarnar ber að líta á sem lifandi skjal sem tekur breytingum eftir því sem þjónustan breytist og batnar.

Við bókun

Við bókun flugferðar er hægt að óska eftir séraðstoð fyrir fólk með skerta ferðafærni, svokallaða PRM þjónustu sem fylgir flugfarþega frá upphafi til enda ferðar.

Beiðni um PRM þjónustu þarf að berast í síðasta lagi 48 tímum fyrir áætlaðan brottfarartíma flugs.

PRM stendur fyrir „Persons with Reduced Mobility“ sem er yfirhugtak fyrir flugfarþega með skerta ferligetu, tilkomna vegna líkamlegrar og/eða vitsmunalegrar skerðingar eða aldurs, og vegna ástands síns þarfnast aðstoðar með að komast leiða sinna um flugvöll.

PRM þjónusta er farþegum að kostnaðarlausu. Þjónustan býðst allt frá því að farþegar koma á flugvöllinn og þar til í sæti flugvélar og eftir lendingu að samgöngutæki á flugvallarsvæðinu.

Til að rétt þjónusta sé veitt þarf að veita upplýsingar um fötlun flugfarþega við pöntun, samkvæmt táknskilgreiningu. Tilkynna þarf einnig ef ferðast er með hjálparhund eða hjálpartæki.
WCHR: Farþegi getur gengið um farþegarými og upp og niður stiga, en þarf að nota hjólastól til að fara um flugstöð.
WCHS: Farþegi getur gengið um farþegarými, en ekki upp og niður stiga og þarf að nota hjólastól til að fara um flugstöð.
WCHP: Farþegi með skerta hreyfigetu í fótleggjum sem getur farið sjálfur um, en þarf aðstoð um borð og frá borði og getur farið á gangastól um farþegarými.
WCHC: Farþegi getur ekki farið um án hjólastóls og þarf aðstoð alla leið, frá komu á flugstöð, um borð í flugvél og þar til flugstöð er yfirgefin á áfangastað.
Deaf: Farþegi með heyrnarskerðingu eða með bæði heyrnar- og málstol.
Blind: Farþegi með sjónskerðingu (ýmist blindur eða sjónskertur).
Deafblind: Farþegi með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
DPNA: Farþegi með vitsmunalega eða hegðunartengda skerðingu.

Ef viðeigandi tákn stendur ekki til boða við bókun ferðar á netinu er ráðlagt að hafa samband við viðkomandi flugfélag eða ferðaskrifstofu til að fá rétta skráningu.

Flugfarþegi getur þurft að breyta nafni aðstoðarmanns á flugmiða með stuttum fyrirvara vegna forfalla. Ráðlagt er að kynna sér reglur flugfélaganna um nafnabreytingu fyrir pöntun flugmiða.

Flugfarþegi sem ferðast með hjálparhund getur óskað eftir að hafa hann hjá sér í farþegarými. Hundar mega ekki vera í sætum eða á ganginum. Taka þarf frá rými fyrir hjálparhund með 48 klst. fyrirvara. Reglur um hjálparhunda í flugi geta verið mismunandi eftir flugfélögum og löggjöf viðkomandi lands. Við komu til Íslands þarf hundurinn að dvelja í einangrun í tvær vikur.

Flugfélagið sem ferðast er með sér um að bóka PRM þjónustuna á bæði brottfarar- og komuflugvöllum. Það er á ábyrgð flugfélagsins að senda PRM beiðnina til flugvallarins a.m.k. 36 klst. fyrir áætlaðan brottfarartíma flugs.

Að komast á Keflavíkurflugvöll

Æskilegt er að flugfarþegi sem pantað hefur PRM þjónustu sé kominn á flugstöð 2,5 klukkustundum fyrir áætlaða brottför flugs.

Hægt er að óska eftir að PRM þjónusta sé veitt allt frá bílastæði, biðstöð strætó eða flugrútu.

Vagnar Strætó bs. og flugrútur sem ganga á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar eru ekki aðgengilegir fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Akstursþjónusta fatlaðra keyrir ekki milli sveitarfélaga.

Hreyfihamlaðir flugfarþegar geta pantað akstur með tölvupósti hjá Kynnisferðum gegnum svokallaða Flybus+ þjónustu, sem útvegar leigubíl á verði flugrútumiða. Panta þarf farið með a.m.k. 48 klst. fyrirvara og taka þarf fram hvort farþegi þurfi á bíl með ramp eða lyftu að halda. Allir farþegar í bílnum þurfa að kaupa flugrútumiða.

Panta þarf leigubíl með rampi eða lyftu með fyrirvara enda eru þeir fáir á götunum.

Flugfarþegi með stæðiskort fyrir hreyfihamlaða getur farið á eigin bíl og lagt í stæði við flugstöðina. Nokkrir aðilar bjóða upp á bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli og er þá bíllinn færður án þjónustugjalds frá flugstöð á langtímastæði og honum skilað aftur við komustæði við heimkomu. Panta þarf þjónustuna fyrirfram. Greitt er fyrir stæðið samkvæmt gjaldskrá viðkomandi fyrirtækis, en betra verð getur fengist ef pantað er á netinu og tímanlega.

Á flugvelli

Hægt er að hringja eftir PRM þjónustu við komu á Keflavíkurflugvöll. PRM kallstaurar eru á tveimur stöðum á brottfararstæði: á bílastæði hreyfihamlaðra brottfararmegin við norðurhlið flugstöðvarinnar og í innritunarsalnum. Að auki eru þrír kallstaurar eftir öryggisleit, einn er staðsettur á verslunar- og veitingasvæði, einn er staðsettur við C hlið og einn við D hlið.

Þegar óskað er eftir PRM þjónustu við kallstaurinn á bílastæði hreyfihamlaðra brottfararmegin við flugstöðina, getur notandi óskað eftir því að vera sóttur út í bíl. PRM starfsmaður tekur þá farangur út úr bílnum ef óskað er og aðstoðar við að koma honum í innritun. Á leið í innritun er haft samband við fyrirtækið sem búið er að panta bílastæði hjá og bíllykli komið í hendur starfsmanns sem sér síðan um að leggja bílnum á langtímastæði.

Nýuppsetta kallstaura er hægt að hækka og lækka og eru þeir meðal annars búnir tónmöskvabúnaði fyrir heyrnarskerta, stafrænum skjá fyrir textatilkynningar, hnöppum með punktaletursmerkingum og lýsandi hnappi til að sýna stöðu kallstaursins.

Biðtími eftir PRM starfsmanni getur verið 10-30 mínútur ef þjónustan hefur verið forbókuð í tæka tíð með því að gefa upp PRM kóða við miðakaup. Hafi PRM kóði ekki verið gefinn upp þegar flugmiðinn var keyptur, getur biðtíminn verið mun lengri.

Ekki þarf að afhenda hjálpartæki við innritun. Flugfarþegar eiga rétt á að nota eigin hjálpartæki í flugstöðinni og afhenda þau við inngang flugvélar fyrir brottför. Heimilt er að taka með sér tvö hjálpartæki í flug.

PRM þjónusta felur í sér fylgd gegnum innritun, öryggisleit og vegabréfaskoðun ef við á og að brottfararhliði.

Hægt er að óska eftir því við PRM starfsmann að koma við í veitingasölu og á salerni. Salerni í flugvélum eru alla jafna mjög óaðgengileg hreyfihömluðu fólki. PRM þjónustan aðstoðar fólk að og frá, en ekki inni á salernum.

Ekki er boðið upp á að versla í Fríhöfn á leiðinni nema að tími sé rúmur, en forpantaðar vörur má ávallt sækja á afgreiðslukassa nr. 8-13 í Fríhöfninni við brottför frá Íslandi. Þessi þjónusta er ekki í boði við heimkomu. Mikilvægt er að framvísa pöntunarnúmeri þegar vörurnar eru sóttar í Fríhöfn.

PRM þjónustan yfirgefur flugfarþegann við brottfararhlið eða annan umsaminn stað og sækir hann aftur áður en innritun í flugið hefst. Fatlaðir flugfarþegar hafa forgang við innritun hjá flestum flugfélögum.

Þjónusta sem starfsmenn PRM sinna ekki:

  • Aðstoð við að borða og/eða drekka.
  • Aðstoð með meðhöndlun og/eða inntöku lyfja. Sama í hvaða formi þau eru.
  • Aðstoð inni á salerni.
  • Aðstoð með persónulegt hreinlæti.
  • Aðstoð við að versla á veitingastöðum eða í verslunum (fyrir utan að sækja fríhafnarpöntun).

Farþegar sem geta ferðast einir, en finna fyrir óöryggi á flugvöllum, geta fengið sólblómaband til að bera um hálsinn á upplýsingaborði flugvallarins. Starfsfólk í flugstöðinni er upplýst um að fólk sem ber bandið gæti þurft viðbótartíma, aukna þolinmæði, skilning og tillitssemi þegar það fer í gegn.

Farið um borð í flugvél

PRM starfsmaður tekur við hjálpartækjum til lestunar við inngang flugvélar. Taka má hjálpartæki með í farangursrými, ef pláss leyfir.

Fyrir afhendingu hjálpartækis er ráðlegt að vera búinn að merkja það vel. Æskilegt er að láta PRM starfsmann fá leiðbeiningar um meðferð rafmagnshjólastóls, svo sem um rafhlöðu, bremsur og stjórnbúnað.

Þá getur verið ráðlegt að taka með sér í farþegarými það sem er lauslegt og viðkvæmt á hjálpartækinu, og jafnvel sessur ef útlit er fyrir rigningu á brottfarar- eða áfangastað.

Hjálpartæki á ekki að líta á sem farangur og eiga starfsmenn að fara með þau síðast í lestina fyrir brottför og taka fyrst út á áfangastað til að hægt sé að afhenda þau við útgang flugvélar sem fyrst eftir lendingu.

Flugfélög hafa oft súrefnistæki um borð, en stundum þarf að greiða fyrir notkunina. Mörg flugfélög leyfa farþegum að taka með sér súrefniskúta í flug. Vísast er að kynna sér reglur og þjónustu flugfélaganna fyrir brottför. Samtök lungnasjúklinga veita félagsmönnum sínum styrk til að niðurgreiða súrefniskaup í flugvélum Icelandair.

PRM starfsmaður aðstoðar farþegann um borð og í sæti flugvélar, með hjálp hjólastóls, lyftu eða annarar aðstoðar sem þörf er á. Auk þess aðstoðar hann við að koma handfarangri fyrir.

Í flugi

Fatlaðir flugfarþegar sem geta ekki fylgst með kynningu á öryggismálum um borð geta fengið sérstaka kynningu frá áhöfn. Það er gert stuttu eftir að farþegi fer um borð í vélina.

Áhöfn getur aðstoðað flugfarþega við að panta mat og stilla á sjónvarpsefni.

Hjólastóla sem komast um ganginn, svokallaða gangastóla, er að finna um borð í flugvélum. Áhöfn getur aðstoðað flugfarþega um farþegarýmið og að salerni. Ekki er þó veitt aðstoð við að nota salernið.

Salerni eru mjög þröng í flestum flugvélum. Skylda er að aðgengilegt salerni sé í breiðþotum, en sú skylda nær ekki yfir minni flugvélar. Þó geta salerni í breiðþotum ekki alltaf talist aðgengileg.

Sé óskað eftir PRM þjónustu fyrir flugfarþega með vitsmuna- og/eða þroskaskerðingu út á DPNA táknið gildir hún jafnframt um borð.

 

Áhöfn aðstoðar flugfarþega ekki við eftirfarandi um borð:

  • sitja við hlið viðkomandi, hvorki við flugtak, á flugi eða við lendingu
  • lyfta og/eða bera flugfarþega
  • að borða og/eða drekka
  • lyfjagjöf
  • nota salerni
  • við að fara á stjá til að eiga í samskiptum

Eftir lendingu

Flugfarþegi með PRM þjónustu getur fengið aðstoð frá borði gegnum öryggisleit og vegabréfaskoðun ef við á. Starfsfólk PRM þjónustu getur aðstoðað við að sækja farangur, í gegnum tollsvæði og að næsta samgöngumáta.

Flugfarþegi á rétt á að fá hjálpartæki sitt afhent við útgang flugvélar eftir lendingu. Þjónustuaðila er skylt að aflesta hjálpartæki á undan farangri til að flýta fyrir tæmingu flugvélar. Flugfarþegi þarf ekki að yfirgefa sæti sitt fyrr en hjálpartæki hans hefur verið afhent við dyr flugvélar.

Flugfélagið er ábyrgt fyrir skemmdum á hjálpartækjum í flugi. Skemmdir á að tilkynna á flugvellinum með skýrslugerð. Hafa þarf samband við þjónustuaðila um viðgerð á hjálpartæki. Bætur eru sóttar hjá flugfélaginu, en mögulegt er að hámarksbætur, sem taka mið af alþjóðlegum samningum, dugi ekki til að greiða tjónið. Mælt er með að tryggingar séu skoðaðar áður en farið er af stað. Hægt er að fá flugvallarhjólastól lánaðan til bráðabirgða á flugstöð og heim.

Hægt er að sækja PRM atvikaskýrslu á heimasíðu Isavia, ef farþegi vill koma með ábendingar um PRM þjónustuna.

Allir eiga að geta ferðast þegar og með þeim hætti sem þeir vilja.

Lagalegur fyrirvari

Öryrkjabandalag Íslands hefur leitast við að hafa upplýsingar um PRM þjónustu í leiðbeiningum þessum áreiðanlegar og réttar. Hins vegar er ekki unnt að ábyrgjast að svo sé í öllum tilvikum. Efnið er sett fram í upplýsinga- og/eða fræðsluskyni eingöngu og því getur Öryrkjabandalag Íslands ekki ábyrgst að flugfarþegar með fatlanir eða aðrar skerðingar fái þjónustuna og/eða eigi lögum samkvæmt óskoraðan rétt á öllu því sem fram kemur í leiðbeiningunum.

1. útgáfa – ágúst 2021