ÖBÍ höfðaði málið gegn Tryggingastofnun. Ágreiningur málsins snerist annars vegar um það, hvort Tryggingastofnun hefði haft lagaheimild frá 1. janúar 1994 til 31. desember 1998 til að skerða tekjutryggingu örorkulífeyristaka í hjúskap vegna tekna maka, sem ekki var lífeyristaki, með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna örorkulífeyrisþegans. Hins vegar var ágreiningur um hvort slík skerðing hafi verið heimil eftir að hún hafði verið lögfest 1. janúar 1999. Á þessum tímabilum voru í gildi lög nr. 117/1993 um almannatryggingar og fram til 1. janúar 1999 var ekki ákvæði í lögunum sem heimilaði fyrrnefnda skerðingu vegna tekna maka. Fram að því var slík heimild í reglugerð. Niðurstaða Hæstaréttar var að ekki hefði verið nægjanleg heimild í lögum nr. 117/1993 fyrir ráðherra til að setja reglugerð, sem skerti tilkall lífeyristaka til fullrar tekjutryggingar vegna tekna maka. Samkvæmt því hafi skerðingin verið óheimil á fyrrnefnda tímabilinu. Þrátt fyrir að frá 1. janúar 1999 hefði verið ákvæði sem heimilaði skerðinguna í lögunum var það niðurstaða Hæstaréttar að skerðingin væri óheimil þar sem hún væri andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur taldi það skipulag réttinda örorkulífeyristaka samkvæmt almannatryggingalögum, að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka hans, á þann hátt sem gert væri, ekki tryggja þeim þau lágmarksréttindi sem fælust í 76. gr. stjórnarskrárinnar, svo að þeir fengju notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Hæstiréttur viðurkenndi því að óheimilt hefði verið einnig að skerða tekjutryggingu örorkulífeyristaka í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert var í lögum 117/1993.
» Dómur Hæstaréttar 19. desember 2000 – Mál nr. 125/2000