Skip to main content

Eldri dómsmál

Gjaldtaka vegna fæðiskostnaðar starfsmanna

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Akraneskaupstað. Stefnandi er fatlaður maður sem naut sólarhringsþjónustu á heimili sínu frá sveitarfélaginu. Við veitingu þjónustunnar hafði tíðkast það verklag að notandinn legði út fyrir kostnaði vegna fæðis starfsmanns sem veitti þjónustuna og fengi þann kostnað endurgreiddan. Byggt var á því að fyrirkomulagið væri ólögmætt. Eftir að sveitarfélagið breytti verklagi sínu taldi stefnandi sig aðeins fá hluta kostnaðarins endurgreiddan frá sveitarfélaginu og krafðist fullrar endurgreiðslu. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem tók málið ekki fyrir.

» Úrskurður Héraðsdómur Vesturlands, 8. febrúar 2024 – Mál nr. E-191/2022

Barnalífeyrir í tekjuskoðun lífeyrissjóða

Einstaklingur höfðaði málið gegn Stapa lífeyrissjóði. Krafist var viðurkenningar á því að lífeyrissjóðnum væri óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til stefnanda vegna greiðslna barnalífeyris sem stefnandi fékk greiddan frá Tryggingastofnun. Lífeyrissjóðurinn hóf að skerða greiðslur sjóðfélaga sinna vegna barnalífeyris frá Tryggingastofnun í kjölfar ákvörðunar þess efnis frá mars 2015. Fram til þess hafði barnalífeyrir ekki haft áhrif á greiðslur sjóðsins. Hæstiréttur féllst á kröfur stefnanda. Niðurstaðan byggði á því að ólöglega hefði verið staðið að fyrrnefndri breytingu á áhrifum barnalífeyris á greiðslur sjóðsins til sjóðfélaga. Lífeyrissjóðnum hefði borið að vanda til málsmeðferðar við undirbúning ákvörðunar um breytinguna. Skylt hefði verið að gæta þess að raska ekki hagsmunum lífeyrisþega í ríkari mæli en nauðsynlegt var og borið að upplýsa þá fyrir fram um tilefni og ástæður breyttrar framkvæmdar. Ákvörðunin hafi verið tekin af Greiðslustofu lífeyrissjóða sem ekki er bær að lögum að taka slíka ákvörðun. Þá ætti ákvörðunin ekki rætur að rekja til afkomu sjóðsins og lá engin tryggingafræðileg athugun henni til grundvallar. Tilefni breytingarinnar var því óupplýst. Þar að auki þótti undirbúningur og meðferð stjórnar sjóðsins á málinu ófullnægjandi.

» Dómur Hæstaréttar 23. október 2024 – Mál nr. 12/2024

Heimilisuppbót

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Tryggingastofnun eftir að stofnunin synjaði umsókn stefnanda um greiðslu heimilisuppbótar. Tryggingastofnun taldi að stefnandi uppfyllti ekki það skilyrði laga fyrir greiðslu heimilisuppbótar að vera einhleypur og búa einn. Þegar málið var höfðað var yfirstandandi skilnaður á milli stefnanda og fyrrum maka og höfðu þau slitið samvistum. Þar sem þau höfðu ekki komið sér saman um forsjá og umgengni barna þeirra voru þau hins vegar enn skráð í sambúð í þjóðskará og með lögheimil á sama stað. Niðurstaða Hæstaréttar var að ógilda bæri ákvörðun Tryggingastofnunar og að stefnandi ætti rétt á að fá greidda heimilisuppbót. Rétturinn taldi að Tryggingastofnun hefði ekki tekið tillit til gagna um raunverulegar aðstæður og hagi stefnanda né skoðað stöðu hennar heilstætt eins og skylt var samkvæmt lögum, þ.m.t. í ljósi fyrirmæla 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Rétturinn taldi óheimilt að hafna umsókninni af þeirri ástæðu einni að stefnandi væri enn skráður í sambúð samkvæmt þjóðskrá.

» Dómur Hæstaréttar 6. mars 2024 – Mál nr. 30/2023

Ákvæði um sjálfskaparvíti hjá lífeyrissjóð

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Gildi lífeyrissjóði. Stefnandi átti rétt á örorkulífeyrisgreiðslum hjá lífeyrissjóðnum. Sjóðurinn hafnaði því hins vegar að hann ætti rétt á svokölluðum framreikningi. Framreikningur getur myndað verulegan hluta örorkulífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum og átti það við í tilviki stefnanda. Byggði afstaða sjóðsins á því að stefnandi uppfyllti ekki skilyrði framreiknings samkvæmt lögum sem gilda um starfsemi lífeyrissjóða um að hafa ekki orðið fyrir orkutapi (örorku) sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Í málinu var m.a. byggt á því að ákvæði laganna væri í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig því að ekki hefði verið sýnt fram á að orkutap stefnanda væri að rekja til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

» Málinu lauk með gerð dómssáttar þar sem lífeyrissjóðurinn féllst á að stefnandi ætti rétt á framreikningi.

CPAP öndunarvélar

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Landspítalanum og krafðist ógildingar á úrskurði um að spítalanum væri heimilt að krefjast gjalds fyrir notkun svokallaðra CPAP-öndunarvéla. Stefandi sem var örorkulífeyristaki notaði slíka vél vegna öndunarerfiðleika í tengslum við svefn. Landsspítalinn útvegaði vélarnar og krafðist greiðslu gjalds fyrir afnotin. Gjaldið var innheimt á grundvelli reglugerðar með stoð í lögum um sjúkratryggingar. Deilt var um hvort ákvæði laganna geymdi fullnægjandi lagastoð fyrir innheimtu gjaldsins. Héraðsdómur taldi að þar sem lögin kváðu á um heimild til kostnaðarþátttöku væri heimilt að láta þann sem aflar hjálpartækis bera hluta kostnaðarins. Héraðsdómur hafnaði því kröfum stefnanda og Landsréttur staðfesti niðurstöðuna.

» Dómur Landsréttar 6. október 2023 – Mál nr. 293/2022

Bið eftir NPA samningi - krafa um miskabætur

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Mosfellsbæ. Krafist var miskabóta og viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna meðferðar Mosfellsbæjar á umsókn stefnanda um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA samningur). Stefnandi hafði sótt um slíkan samning í október 2018 en samningur var ekki gerðu fyrr en í febrúar 2021. Á tímabilinu sem leið þar á milli reyndi stefnandi ítrekað að fá upplýsingar um stöðu umsóknarinnar en fékk takmarkaðar skýringar. Hæstiréttur mat aðstæður stefnanda sem svo að þann tíma sem umsóknin var til meðferðar hjá sveitarfélaginu hafi stefnandi verið í brýnni þörf fyrir afgreiðslu málsins. Stefnandi bjó við færnisskerðingu og þarfnaðist aðstoðar við allar athafnir daglegs lífs. Þegar stefnandi sótti um samninginn og lengst af málsmeðferðartímanum dvaldi stefnandi á hjúkrunarheimili. Hæstiréttur féllst á kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta frá sveitarfélaginu að upphæð 700.000 kr.

» Dómur Hæstaréttar 4. maí 2022 – Mál nr. 50/2021

Leiðrétting búsetuskerðinga á sérstakri uppbót

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Tryggingastofnun. Stefnandi var lífeyristaki sem átti rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun. Fyrir örorkumat hafði stefandi auk þess að hafa búið á Íslandi búið um tíma Danmörku. Í málinu var deilt um hvort Tryggingastofnun hefði verið heimilt á tilteknu árabili að reikna greiðslur til stefnanda á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hlutfallslega í samræmi við búsetu hér á landi. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt lögum um félagslega aðstoð mætti greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri ef sýnt þætti að hann gæti ekki framfleytt sér án þess og mælt var fyrir um mörk tekna sem miðað skyldi við. Hæstiréttur taldi að með því að binda fjárhæð uppbótar á lífeyri við búsetuhlutfall gæti komið til þess að fjárhæðin skerðist þannig að hún næði ekki þeirri fjárhæð sem miðað var við í lögum um félagslega aðstoð. Með því væri búsetuskerðingin andstæð tilgangi laganna um að lífeyristakar byggju við tiltekna lágmarksframfærslu. Einnig byggð niðurstaðan á því að ákvæðið um heimild til búsetuskerðingar sem var að finna í reglugerð ætti sér ekki lagastoð.

» Dómur Hæstaréttar 6. apríl 2022 – Mál nr. 52/2021

Aðgengi í Reyjanesbæ

Hreyfihamlaður einstaklingur búsettur í Reykjanesbæ höfðaði mál á hendur sveitarfélaginu ásamt Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra (SEM samtökunum). Þess var krafist að sveitarfélagið og eigandi tiltekinna opinberra bygginga yrði gert að ráðast í tilgreindar framkvæmdir og úrbætur á þeim til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Hæstiréttur hafnaði kröfum stefnanda. Að mati dómsins hafði Reykjanesbær fullnægt þeirri skyldu þágildandi laga um málefni fatlaðs fólks að gera sér áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana. Þá hefði Reykjanesbær hrundið áætluninni í framkvæmd með ráðstöfun fjár til málaflokksins og þeim breytingum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem þegar hefði verið ráðist í. Þá vísaði dómurinn til þess að sveitarfélög væru ein bær til að taka ákvarðanir um þess háttar framkvæmdir og úrbætur sem krafist var og hefðu á grundvelli tekjustofna sinna svigrúm til að ákveða forgangsröðun við framkvæmd lögbundinna verkefna. Niðurstaða Hæstaréttar var kærð til Mannréttindadómstóls Evrópu. Byggt var á 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um bann við mismunun og 8. gr. um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu en dómurinn taldi að ekki hefði verið um að ræða brot gegn ákvæðunum.

» Dómur Hæstaréttar 25. október 2018 – Mál nr. 106/2017

» Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 31. maí 2022 – Mál nr. 23077/2019 [á ensku]

Makatenging - fjárhagsaðstoð

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Reykjavíkurborg vegna synjunar á umsókn um fjárhagsaðstoð. Reykjavíkurborg og úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála töldu heimilt að synja kæranda um fjárhagsaðstoð með vísan til tekna maka kæranda. Stefnandi byggði mál sitt á því fyrir dómstólum að synjuninni hefði brotið gegn réttindum stefnanda skv. 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar og meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Í málinu var óumdeilt að ef eingöngu hefði verið tekið tillit til tekna stefnanda á því tímabili, sem um ræddi í málinu, og skilgreindrar grunnfjárhæðar til framfærslu einstaklings samkvæmt reglum stefnda, hefðu tekjur stefnanda verið undir viðmiðunarmörkum. Hæstiréttur vísaði m.a. til þess að skv. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skyldu sveitarfélög sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Sveitarfélög færu sjálf með forræði eigin tekjustofna og hafi á þeim grundvelli svigrúm til að ákveða forgangsröðun lögbundinna verkefna innan ákveðins ramma. Þau hefðu verulegt svigrúm til að meta hvert tilvik fyrir sig út frá skyldum sínum til að veita fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum. Þá taldi rétturinn það geta átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir sambúðarformi. Vísað var í þessu sambandi til hins svokallaða Öryrkjabandalagsdóms II. Hæstiréttur hafnaði því kröfum stefnanda.

» Dómur Hæstaréttar 8. október 2020 – Mál nr. 13/2020

LÍN undanþága

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Lánasjóði íslenskra námsmanna. Stefnandi var með 75% örorkumat og sótti um undanþágu frá greiðslu tekjutengdra afborgana námslána vegna fjárhagserfiðleika. Samkvæmt þágildandi lögum um lánasjóðinn var sjóðnum heimilt að veita undanþágu frá afborgunum námslána ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður væru valdandi slíkum erfiðleikum. Umsókn stefnanda var synjað með vísan til tekjuviðmiða samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Eftir höfðun málsins féllst lánasjóðurinn á að fella málið niður og endurgreiða stefnanda greiðslur sínar með vöxtum.

» Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2019 – Mál nr. E-4070/2017

Fjármagnstekjur maka

Einstaklingur höfðaði mál á hendur Tryggingastofnun vegna skerðinga greiðslna frá Tryggingastofnun vegna fjármagnstekna maka lífeyristakans. Deilt var um hvort ákvæði í lögum um almannatryggingar sem heimilar slíkar skerðingar teldist andstætt 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þáverandi a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar valda tekjur maka ekki slíkum skerðingum en gerð er undantekning hvað varðar fjármagnstekjur. Telst þannig helmingur fjármagnstekna maka til tekna greiðslutakans. Maki stefnanda hafði fengið greiddan söluhagnað sem reiknaðist sem fjármagnstekjur til helminga. Hæstiréttur taldi að til að ákvæðið stæðist ákvæði stjórnarskrár yrðu að búa að baki ákvæðinu málefnaleg sjónarmið og meðalhófs gætt. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt lögunum gæti lífeyristaki óskað eftir að dreifa eigin tekjum sínum sem stöfuðu af fjármagnstekjum sem leystar væru út í einu lagi á allt að 10 ár, þó ekki oftar en einu sinni á hverju tímabili. Rétturinn taldi að skýra yrði orðalag ákvæðisins þannig að það ætti við um fjármagnstekjur hvort sem þær stöfuðu frá eignum lífeyristakans sjálfs eða maka hans. Taldi rétturinn að hefði stefnandi nýtt sér þessa heimild hefðu fjármagnstekjurnar haft mun minni áhrif á bótagreiðslur til hennar. Með vísan til þess taldi rétturinn einnig að meðalhófs hefði verið gætt. Hæstiréttur hafnaði því kröfum stefnanda.

» Dómur Hæstaréttar 15. nóvember 2018 – Mál nr. 795/2017

Lífeyrir TR

Einstaklingur stefndi Íslenska ríkinu og Tryggingastofnun. Byggt var á því að mánaðarlegar greiðslur til stefnanda frá Tryggingastofnun á grundvelli laga um almannatryggingar væru lægri en svo að stefnandi gæti lifað mannsæmandi lífi í skilningi 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Gerð var fjárkrafa sem á ákveðnu tímabili nam mismuninum á annars vegar ákveðnum neysluviðmiðum stjórnvalda og hins vegar því sem hún fékk greitt frá Tryggingastofnun. Hæstiréttur vísaði fjárkröfunni frá dómi. Dómurinn leit svo á að stefnandi væri að fara fram á að dómstólar tækju ákvörðun um málefni sem heyrði undir handhafa löggjafarvaldsins, n.t.t. um fjárhæðir bóta almannatrygginga. Stefnandi gerði líka kröfu um viðurkenningu á því að stefndu hefðu brugðist skyldu sinni samkvæmt þágildandi 69. gr. laga um almannatryggingar (nú 62. gr.). Samkvæmt ákvæðinu skal ákvörðun bóta taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ákvæðinu hafði verið vikið til hliðar með samþykki Alþingis á ákvæði til bráðabirgða á nánar tilgreindum árum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu af viðurkenningarkröfunni. Héraðsdómur taldi að málefnaleg sjónarmið hefðu búið að baki bráðabirgðaákvæðinu sem samþykkt var árið 2010, þ.m.t. þeirri nauðsyn að ná árangri í ríkisfjármálum með margþættum lækkunum á útgjöldum ríkisins.

» Dómur Hæstaréttar 9. febrúar 2017 – Mál nr. 223/2016

Fjárnám í sérútbúinni bifreið fatlaðs manns

Einstaklingur krafðist endurupptöku fjárnámsbeiðni. Deilt var um fjárnám sem gert var í bifreið hans. Byggt var á því að bifreiðin væri undanþegin fjárnámi skv. 2. tl. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 90/1989 þar sem hún væri sóknaraðila nauðsynleg í daglegu lífi þar sem hann væri hreyfihamlaður. Vísað var til þess að sóknaraðilinn hefið notið láns frá Tryggingastofnun og uppbótar vegna bifreiðakaupa á grundvelli laga um félagslega aðstoð auk mánaðarlegrar uppbótar til reksturs bifreiðar. Taldi dómurinn að líta yrði svo á að bifreiðin væri sóknaraðilanum nauðsynleg og féllst því á kröfur hans.

» Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. sept 2017  – Mál nr. Y-11/2016

Sérstakar húsaleigubætur Reykjavíkurborgar

Einstaklingur stefndi Reykjavíkurborg til ógildingar á ákvörðun um synjun á sérstökum húsaleigubótum. Stefnandi var örorkulífeyristaki og leigjandi hjá Brynju, óhagnaðardrifnu leigufélagi. Samkvæmt þágildandi reglum Reykjavíkurborgar var ekki unnt að fá sérstakar húsaleigubætur nema umsækjandi væri leigjandi húsnæðis á almennum leigumarkaði eða væri í leiguíbúð á vegum Félagsbústaða hf. Hæstiréttur féllst á kröfur stefnanda um ógildingu ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að synja umsókninni. Reykjavíkurborg bar að gæta að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þannig að ekki hallaði á stefnanda í samanburði við aðra íbúa sveitarfélagsins sem fengju sérstakar húsaleigubætur. Meðal þeirra voru leigjendur hjá Félagsbústöðum hf. sem að mati Hæstaréttar byggju óumdeilanlega við hliðstætt húsnæðisöryggi og stefnandi.

» Dómur Hæstaréttar 16. júní 2016 – Mál nr. 728/2015

Fjármagnstekjur af slysabótum skerða bætur

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Tryggingastofnun. Stefnandi málsins hafði átt rétt á almannatryggingabótum frá Tryggingastofnun frá árinu 1990. Árið 1996 voru stefnanda dæmdar slysabætur frá tryggingafélagi vegna umferðarslyss. Við ákvörðun fjárhæðar slysabótanna var m.a. gert ráð fyrir því að stefandi fengi vexti af bótunum og að hún fengi almannatryggingabætur frá Tryggingastofnun. Þrátt fyrir þessar forsendur dómsins varð stefnandi fyrir skerðingum á greiðslu frá Tryggingastofnun. Stefnandi var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra greiðslna vegna fjármagnstekna af hinum dæmdu tryggingabótum af Tryggingastofnun. Stefnandi byggði m.a. á því að skerðingin væri óheimil þar sem ekki hafið verið heimild í lögum til að skerða almannatryggingabætur vegna fjármagnstekna þegar stefnandi hóf töku lífeyris. Héraðsdómur hafnaði þeirri málsástæðu. Einnig því að skerðingin færi gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Héraðsdómur hafnaði kröfum stefnanda.

» Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2015 – Mál E-818/2013

Aðgengi við forsetakosningar

Þrír fatlaðir einstaklingar kærðu framkvæmd forsetakosninga árið 2012 til Hæstaréttar og kröfðust þess að kjör forseta yrðu ógilt. Kæran byggði á að kjósendum sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi hafi ekki verið heimilað að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali. Heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Byggt var á því að framkvæmdin bryti í bága við meginreglur um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar. Lagaákvæði sem að þessu lytu væru andstæð stjórnarskrá. Hæstiréttur hafnaði kröfum kærendanna. Rétturinn taldi framkvæmdina hafa verið í samræmi við lög sem giltu um framkvæmd kosninga. Þá taldi rétturinn að kosningar yrðu aðeins ógiltar væru gallar á þeim ef ætla mætti að þeir hefðu áhrif á kosningaúrslit.

» Dómur Hæstaréttar –  júní 2012

Félagslegar bætur TR skerða lífeyrisgreiðslur Gildis

Einstaklingur höfðaði málið gegn Gildi lífeyrissjóði. Í samræmdri reglugerð Sambands almennra lífeyrissjóða var kveðið á um rétt til örorkulífeyris, sem skyldi aldrei vera hærri en sem næmi þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefði sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Ákvæði sama efnis var í eigin samþykktum lífeyrissjóða þ.m.t. hins stefnda lífeyrissjóðs, Gildis. Á aðalfundi Gildis 26. apríl 2006 voru samþykktar tillögur stjórnar sjóðsins um breytingar á greininni, þannig að við bættist að við útreikning tekjumissis skyldi meðal annars tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans og lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum sem hann nyti vegna örorkunnar. Fjármálaráðherra staðfesti breytingarnar 7. júlí 2006. Stefnandi fékk í kjölfarið tilkynningu um lækkun lífeyris síns hjá sjóðnum, þar sem leitt hefði verið í ljós að tekjur stefnanda væru hærri eftir orkutap en fyrir. Örorkulífeyrisgreiðslur stefnanda frá Gildi lækkuðu því eftir að breytingin tók gildi. Stefnandi byggði m.a. á því að lífeyrisrétturinn væri eign sem nyti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og að skerðingin væri einnig í andstöðu við 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur hafnaði kröfum stefnanda. Rétturinn féllst á með Gildi að lífeyrissjóðir hefðu samkvæmt lögum verulegt svigrúm til að ákveða greiðslur lífeyris í samræmi við fjárhag og horfur til framtíðar. Breytingin á samþykktum sjóðsins hefði falið í sér viðbrögð við verulega auknum útgjöldum vegna örorkulífeyristrygginga. Hæstiréttur taldi að stjórnarskrárákvæðin girtu ekki fyrir að réttur stefnanda til lífeyris yrði skertur á þann hátt að lífeyrissjóðurinn takmarkaði fjárhæð lífeyris við það að gera stefnanda jafnsettan og ef orkutap hans hefið ekki orðið.

» Dómur Hæstaréttar 17. desember 2009 – Mál nr. 665/2008

Viðurkenning á samningi um tvöföldun lífeyris

ÖBÍ höfðaði málið á hendur íslenska ríkinu. Á árunum 2002 og 2003 fóru fram umræður á milli ÖBÍ og ráðherra félagsmála um hækkun lífeyris þannig að fjárhæð hans réðist að nokkru af því hve snemma á starfsævinni starfsorka tapaðist. Komist var að samkomulagi sem kynnt var á blaðamannafundi þar sem dreift var fréttatilkynningu um efni þess. Þá var skipaður starfshópur sem skyldi gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar. ÖBÍ höfðaði dómsmál vegna samkomulagsins þar sem ágreiningur var á milli ÖBÍ og íslenska ríkisins um efni þess. ÖBÍ krafðist viðurkenningar á því að komist hefði á samkomulag um að grunnlífeyrir þeirra, sem metnir hefðu verið 75% örorku eða meira 18 ára eða yngri skyldi tvöfaldast en lífeyrisviðauki þeirra sem metnir hefðu verið með sömu örorku 19 ára eða eldri færi lækkandi um 2,04% fyrir hvert aldursár eftir 18 ára aldur til og með 66 ára aldri að teknu til skerðingarákvæða í lögum. Kröfum ÖBÍ var hafnað. Hæstiréttur taldi að í fyrirliggjandi gögnum sem lutu að samkomulaginu kæmi hvergi fram að bundið hefði verið fastmælum hver hækkun yrði á lífeyri hópsins. Einnig að ekki hefði annað verið leitt í ljós en að koma hefði átt í hlut starfshópsins að móta nánari tillögur.

» Dómur Hæstaréttar 24. maí 2007 – Mál nr. 590/2006

Öryrkjabandalagsdómur II

Einstaklingur höfðaði málið á hendur Tryggingastofnun. Eftir Öryrkjabandalagsdóm I (sjá reifun) voru sett lög nr. 3/2001 um breytingar á almannatryggingalögum. Samkvæmt lögunum var örorkulífeyristökum, sem sætt höfðu skerðingu á tekjutryggingu vegna tekna maka, greidd full tekjutrygging árin 1997 og 1998. Tekjutrygging vegna áranna 1999 og 2000 var hins vegar skert með nýjum hætti. Tryggingastofnun taldi sér ekki skylt að greiða vegna áranna 1994 til 1996 þar sem stofnunin taldi kröfur örorkulífeyristaka vegna þeirra ára fyrndar. Stefnandi málsins krafðist þess í málinu að fá greiddar óskertar örorkubætur fyrir árin 1994 til 1996 og 1999 til 2000. Hæstiréttur féllst á það með Tryggingastofnun að kröfur vegna áranna 1994-1996 væru fyrndar. Hins vegar féllst Hæstiréttur á með stefnanda að skerðingar vegna áranna 1999 og 2000 væru óheimilar. Um væri að ræða kröfuréttindi þeirra sem nytu verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og yrðu ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Nýrri skerðingarreglu samkvæmt lögum nr. 3/2001 yrði því ekki heldur, fremur en fyrri lagabreytingu, beitt um greiðslu tekjutryggingar örorkulífeyrisþega á árunum 1999 og 2000.

» Dómur Hæstaréttar 6. október 2003 – Mál nr. 549/2002

Öryrkjabandalagsdómur I

ÖBÍ höfðaði málið gegn Tryggingastofnun. Ágreiningur málsins snerist annars vegar um það, hvort Tryggingastofnun hefði haft lagaheimild frá 1. janúar 1994 til 31. desember 1998 til að skerða tekjutryggingu örorkulífeyristaka í hjúskap vegna tekna maka, sem ekki var lífeyristaki, með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna örorkulífeyrisþegans. Hins vegar var ágreiningur um hvort slík skerðing hafi verið heimil eftir að hún hafði verið lögfest 1. janúar 1999. Á þessum tímabilum voru í gildi lög nr. 117/1993 um almannatryggingar og fram til 1. janúar 1999 var ekki ákvæði í lögunum sem heimilaði fyrrnefnda skerðingu vegna tekna maka. Fram að því var slík heimild í reglugerð. Niðurstaða Hæstaréttar var að ekki hefði verið nægjanleg heimild í lögum nr. 117/1993 fyrir ráðherra til að setja reglugerð, sem skerti tilkall lífeyristaka til fullrar tekjutryggingar vegna tekna maka. Samkvæmt því hafi skerðingin verið óheimil á fyrrnefnda tímabilinu. Þrátt fyrir að frá 1. janúar 1999 hefði verið ákvæði sem heimilaði skerðinguna í lögunum var það niðurstaða Hæstaréttar að skerðingin væri óheimil þar sem hún væri andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur taldi það skipulag réttinda örorkulífeyristaka samkvæmt almannatryggingalögum, að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka hans, á þann hátt sem gert væri, ekki tryggja þeim þau lágmarksréttindi sem fælust í 76. gr. stjórnarskrárinnar, svo að þeir fengju notið þeirra mannréttinda, sem 65. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um. Hæstiréttur viðurkenndi því að óheimilt hefði verið einnig að skerða tekjutryggingu örorkulífeyristaka í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert var í lögum 117/1993.

» Dómur Hæstaréttar 19. desember 2000 – Mál nr. 125/2000