Skip to main content

Þingsályktun um nýja þýðingu á SRFF 2021

151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1402 — 568. mál.

Þingsályktun

um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Alþingi ályktar að nota skuli nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. fylgiskjal I með tillögu til þingsályktunar þessarar, í stað þýðingar á samningnum sem birtur var sem fylgiskjal í auglýsingu nr. 5/2016 í C-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2021.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 960 — 568. mál.
Stjórnartillaga.

Tillaga til þingsályktunar 

um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Frá dómsmálaráðherra.

Alþingi ályktar að í stað þeirrar þýðingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fylgdi með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. þingsályktun nr. 61/145, skuli koma ný þýðing sem fylgir með þingsályktun þessari.

Greinargerð.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks taki við af fyrri þýðingu.

Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í mars 2007 og full­gilti hann í september 2016. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mann­réttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra. Samningurinn var þýddur yfir á íslensku fyrir fullgildingu hans. Opinber þýðing samningsins fylgdi tillögu þeirri er varð að þingsályktun nr. 61/145 árið 2016. Sú þýðing, ásamt enskri frumútgáfu samn­ings­ins, var fylgiskjal með auglýsingu nr. 5/2016 sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2017.

Árið 2018 skipaði dómsmálaráðherra vinnuhóp til þess að skrifa fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fulltrúi félagsmála­ráðuneytisins fer með formennsku í hópnum og leiðir vinnuna. Auk þess eiga sæti í hópnum fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og utanríkis­ráðu­neytinu.

Vinnuhópurinn leitaðist við að eiga víðtækt samráð við fatlað fólk og aðra hagsmunaaðila við undirbúning skýrslunnar. Fljótlega eftir að vinnan hófst komu fram fjölmargar ábendingar um þýðinguna á samningnum. Hópurinn áttaði sig fljótt á því að núverandi þýðing væri ekki í nógu góðu samræmi við frumtextann. Meðal annars er talað um fatlað fólk sem frávik í núverandi þýðingu sem verður að teljast niðrandi og í engu samræmi við þá hugmyndafræði sem samningurinn boðar. Þá eru sumar þýðingar einfaldlega taldar rangar, svo sem að tala um freedom of movement sem umferðarfrelsi. Loks hefur verið bent á að sumar þýðingar þrengi verulega merkingu frumtextans, svo sem að þýða access to justice sem aðgang að réttar­vörslu­­kerfinu og legal capacity sem gerhæfi.

Mikilvægt er að íslenskar þýðingar á alþjóðlegum mannréttindasamningum séu í samræmi við frumtexta þeirra og dragi ekki úr vernd þeirra réttinda sem þar er kveðið á um. Tók dóms­málaráðherra því ákvörðun um að fela vinnuhópnum að endurskoða þýðinguna.

Farið var yfir þýðinguna með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá fræða­samfélaginu, hagsmunasamtökum og öðrum aðilum með aðstoð sérfræðings í réttindum fatlaðs fólks. Drög að nýrri þýðingu voru svo birt til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda 12. desember 2019 (mál nr. S-306/2019). Umsagnir bárust frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroska­hjálp. Umsagnaraðilar fögnuðu því almennt að verið væri að endurskoða þýðinguna og töldu breytingarnar vera til bóta og betur í samræmi við grundvallarhugmyndir samningsins. Þó var nokkrum athugasemdum komið á framfæri varðandi orðalag sem leitast hefur verið við að taka tillit til. Þá var haldinn sérstakur fundur með Öryrkjabandalagi Íslands og Lands­samtök­unum Þroskahjálp þar sem farið var yfir nýju þýðinguna og þeim gefinn kostur á að koma sínum tillögum á framfæri. Leitast var við að ná góðri sátt um þýðinguna og um leið tryggja að hún endurspeglaði sem best frumtexta samningsins. Félagsmálaráðuneytið hefur farið yfir löggjöf sem tekur mið af samningnum og staðfest að ekki er talin þörf á lagabreyt­ingum vegna nýju þýðingarinnar. Jafnframt er gert ráð fyrir að utanríkisráðuneytið muni, verði þings­ályktunartillaga þessi samþykkt, annast endurbirtingu samningsins í nýrri þýðingu með auglýs­ingu í C-deild Stjórnartíðinda sem komi í stað eldri auglýsingar nr. 5/2016.

Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á þýðingunni eru eftirfarandi atriði:

  • Ekki er lengur talað um frávik í tengslum við fatlað fólk og er hugtakið respect for difference nú þýtt sem virðing fyrir fjölbreytni.
  • Liberty of movement er nú þýtt sem ferðafrelsi en var áður þýtt sem umferðarfrelsi.
  • Access to justice nú þýtt sem aðgangur að réttinum en var áður aðgangur að réttarvörslukerfinu.
  • Equal recognition before the law er nú þýtt sem jöfn viðurkenning fyrir lögunum en var áður þýtt sem réttarstaða til jafns við aðra.
  • Security of the person er nú þýtt sem öryggi einstaklingsins en var áður mannhelgi.
  • Health er nú þýtt sem heilbrigði en var áður þýtt sem heilsa.
  • Legal capacity er nú þýtt sem löghæfi en var áður þýtt sem gerhæfi.
  • Promote er nú þýtt sem efla en var áður þýtt sem stuðla að.
  • Fundamental freedoms er nú þýtt sem grundvallarfrelsi en var áður mannfrelsi.

Þar að auki voru gerðar ýmsar orðalagsbreytingar í því skyni að gera þýðinguna aðgengi­legri og í betra samræmi við frumtextann. Í fskj. I er nýja þýðingin í heild sinni. Í fskj. II er tafla þar sem sjá má samanburð á frumtextanum, þ.e. gildandi þýðingu og nýju þýðingunni.