Ársskýrsla ÖBÍ 2022-2023
Kæru vinir og félagar!
Barátta fyrir því einfalda og sjálfsagða; að hafa tækifæri til þátttöku í samfélaginu, njóta mannvirðingar til jafns við önnur og afkomuöryggis er viðvarandi verkefni ÖBÍ réttindasamtaka. Tækifærin til að hafa áhrif til betri vegar fyrir okkar fólk eru feykimörg og mikilvægt að grípa þau, þar er lögfesting SRFF eitt stærsta tækifærið. Ekki aðeins mun fatlað fólk njóta heldur öll sem samfélagið byggja. Fatlað fólk verður fyrir misrétti og mismunun á hverjum degi og við verðum að setja þessi tvö hugtök á oddinn og knýja á um lögfestingu SRFF, þannig náum við fram sjálfsögðum réttindum. ÖBÍ rís undir nýju merki og nýjum áherslum, ferskir vindar leika um sviðið, samtökunum eru allir vegir færir. Ég hlakka til að fylgjast með baráttu og sigrum ÖBÍ á sviði mannréttinda í framtíðinni.
Síðustu sex árin hafa samtökin siglt sjó umbreytinga og öldugangurinn stundum verið þó nokkur. Breytingar eru sjaldnast einfaldar né auðveldar en það er mjög mikilvægt að ÖBÍ þróist í takt við tímann hverju sinni. Við þurfum alltaf, að vera hugrökk, og þora að stíga ný spor, þora að breyta út af vananum. Þora að takast á við krefjandi aðstæður og krefjandi verkefni. Við þurfum líka að skoða í okkar ranni hvernig við getum gert betur.
Við getum með stolti og þakklæti horft til margs sem áunnist hefur og skapast á vegferðinni frá stofnun ÖBÍ. Við erum afar stolt af okkar framsýnu fyrirtækjum sem eru og eiga að vera í fararbroddi hvert á sínu sviði. Hringsjá náms- og starfsendurhæfing hefur tekist gríðarvel að taka utan um þau sem þar fá inni og skilar því fólki út í lífið til frekara náms eða í atvinnu, fullu sjálfstrausts og trúar á framtíðina. Hringsjá er fyrirmynd öðrum mennta- og starfsendurhæfingarstofnunum. Fyrirtækið Örtækni er dæmi um inngildan vinnustað í fararbroddi þar sem starfa saman á jafningjagrundvelli fatlað fólk og ófatlað. Til gamans má nefna að Örtækni hefur getið af sér þekkt fyrirtæki eins og Marel. Örtækni er vaxandi fyrirtæki sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Brynja leigufélag bætir stöðugt við íbúðasafnið og er leiðandi á markaði með lægsta leiguverð. Fjölgun íbúða í Brynju leigufélagi þýðir að fleiri njóta þess að leigja húsnæði á viðráðanlegu verði. Þessi fyrirtæki styðja við menntun, atvinnu og húsnæði sem hvert fyrir sig er stór þáttur í lífi hvers einstaklings. Að lokum er vert að geta þess að starf okkar í dag byggist á því að sem flest kaupi lottó en ÖBÍ er einn af þremur eigendum Íslenskrar getspár. Lottóinu er stýrt af mikilli festu, ábyrgð og framsýni sem hefur aukið veg þess ár frá ári og skilað eigendum góðum tekjum. Það hefur gert bandalaginu kleift að byggja upp öfluga starfsemi og hagsmunabaráttu í þágu fatlaðs fólks.
Síðastliðið ár hafa ýmis verkefni klárast, önnur haldið áfram og ný bæst við. Verðbólgan hefur verið þrálát og þau sem síst skyldi og erfiðast eiga uppdráttar orðið verst úti í þeim ójafna leik. Stjórnvöld hafa tekið í handbremsuna og stýrivextir Seðlabankans hækkað jafnt og þétt. Þær aðgerðir hafa haft vond áhrif á húsnæðismarkaðinn þannig að húsnæðiskostnaður hefur vaxið mjög, matarkarfan hækkað stöðugt og kostnaður við daglegt líf vaxið eins og flest annað. Verkefni stjórnvalda á að vera að tryggja tekjulægstu hópa fyrir áföllum sem þessum. Verkefni okkar er að vera þrýstiafl sem stöðugt minnir á aðstæður og úrlausnir og það höfum við gert.
Nýverið fengu formenn aðildarfélaga kynningu á nýju örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Í kynningunni tók ráðherra fram að ýmislegt á enn eftir að leysa áður en nýtt kerfi lítur dagsins ljós. Mikilvægt að sú vinna verði unnin í samráði hagsmunasamtaka og stjórnvalda. Nýju kerfi er ætlað að að bæta stöðu fatlaðs fólks, í því á fólk t.d. að hafa skjól til að jafna sig eftir alvarleg veikindi og slys án þess að endurhæfingar sé krafist á þeim tíma. Þá er hugmyndin að stutt verði sérstaklega við ungt fólk með því að aðstoða þau til virkni og að á þeim tíma hafi þau tækifæri til að vera á svokölluðum virknigreiðslum, sama gildir um þá sem í dag fá aðeins örorkustyrk. Það fólk sem nú hefur 75% örorku mun geta valið að vera áfram í gamla kerfinu.
Um fimmtíu prósent öryrkja vilja vera í vinnu, flest telja sig geta unnið hlutastörf frá 30-50%. Þau störf þurfa að henta líkamlegri og andlegri getu, hæfni og menntun. Í dag er staðan sú að atvinnulífið, ríki og sveitarfélög hafa ekki markað sér stefnu sem raunverulega er inngildandi þannig að fatlað fólk hafi aðgang að störfum. Þróa þarf leiðir til að atvinnulífið taki á móti þeim hluta fatlaðs fólks sem hefur, að eigin mati getu til að vera á vinnumarkaði, þar er tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að ganga á undan með góðu fordæmi. Verkefni bandalagsins í nánustu framtíð er að hjálpa stjórnvöldum að koma á inngildum atvinnumarkaði og fylgja því eftir að fatlað fólk sem ekki fær störf njóti þess öryggis sem almannatryggingar eiga að vera, njóti mannsæmandi framfærslu og afkomuöryggis.
Verkefni ÖBÍ snúa að fleiru en framfærslu, þau snúa að öllum þáttum í daglegu lífi fatlaðs fólks. Ísland á að vera fremst meðal þjóða þegar kemur að mannréttindum fatlaðs fólks, við erum fámenn þjóð sem auðveldlega getur tekist á við þær áskoranir sem málaflokkur fatlaðs fólks inniber.
Verkefnin eru mörg og ábyrgðin mikil og ÖBÍ réttindasamtök verða nú sem fyrr að vera leiðandi og skapandi afl í íslensku samfélagi, frumkvöðull á sínu sviði sem tekst á við mikilvæg og oft erfið verkefni. Samráð, vonir, þrautseigja og eljusemi hafa einkennt starf ÖBÍ nú sem fyrr og veit ég að svo verður áfram. Mannréttindi fatlaðs fólks er ekki léttvægt málefni einnar ríkisstjórnar eða hagsmunasamtaka heldur þarf að vera allrar þjóðarinnar að verja og efla.
Að lokum færi ég öllu því góða fólki sem unnið hefur með mér í stjórn ÖBÍ, málefnastarfi og víðar síðastliðin sex ár fyrir gott samstarf og traust. Sérstaklega vil ég þakka framkvæmdastjóranum Evu Þengilsdóttur fyrir að hafa tekið hraustlega í árar með okkur og leitt þær stóru breytingar sem ÖBÍ hefur gengið í gegnum síðustu tvö ár. Kæru starfsfólki ÖBÍ þakka ég af alhug allar stundir í blíðu og stríðu. Megi samtökunum og aðildarfélögum þess farnast vel í öllum þeim mikilvægu málum sem framundan eru.
Skýrsla formanns og stjórnar
Þjóðin býr við erfitt efnahagsástand svo sem verðbólgu sem bitnar mest á þeim sem síst skyldi. Þrálát verðbólga geisar enn á Íslandi með tilheyrandi vaxtahækkunum, lækkandi kaupmætti og erfiðleikum fyrir mikinn fjölda landsmanna. Ekki síst fatlað fólk. Stöðug barátta ÖBÍ fyrir sífellt batnandi lífskjörum fatlaðs fólks og langveikra skilaði hækkunum til örorku og endurhæfingarlífeyristaka. Baráttan um að verja kaupmátt og sækja stöðugt á er og verður viðvarandi verkefni.
ÖBÍ réttindasamtök hafa lagt mikla áherslu á samráð í öllum umsögnum og samtölum við stjórnvöld síðustu ár. Virkt og virt samráð er að mati ÖBÍ lykill að bestu niðurstöðu í öllum þeim málum sem varða fatlað fólk. Síðasta ár einkenndist af miklu samstarfi og samráði og er það vel, meira samráð þarf þó að vera um kjaramál fatlaðs fólks.
Fyrsta starfsárinu undir nýju merki er nú lokið. Endurmörkuninni hefur verið mjög vel tekið og gefið baráttunni byr í seglin. Sá byr hefur verið nýttur til að knýja á um frekari umbætur í íslensku samfélagi.
Skrifstofa ÖBÍ réttindasamtaka var flutt um hæð á árinu og er nú á 2. hæð í Sigtúni 42. Við hönnun nýja rýmisins og annarra breytinga sem gerðar voru samhliða í húsinu var tekið mið af hugmyndafræði algildrar hönnunar og aðgengi því til fyrirmyndar.
Í samræmi við þá stefnu að skapa miðstöð mannréttinda í Sigtúni 42, Mannréttindahúsið, hefur eldra skrifstofurými hefur verið leigt út til aðildarfélaga og annarra sem starfa á sviði mannréttinda. Gert er ráð fyrir að húsið opni formlega með mannréttindaviku í nóvember næstkomandi og er undirbúningur vel á veg kominn.
Skref í baráttunni
ÖBÍ réttindasamtök eru leiðandi afl í íslensku samfélagi í málefnum fatlaðs fólks. Verkefnin eru stór og mikilvæg og róðurinn gjarnan þungur. Þrátt fyrir það hefur tekist að stíga þýðingarmikil skref á starfsárinu.
Fjárlög
Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Katrínar Jakobsdóttur lagði fram fjárlög fyrir árið 2023 í október og tóku ÖBÍ réttindasamtök fyrir tvær megináherslur í sinni umsögn sem vörðuðu annars vegar kjör og atvinnumál fatlaðs fólks og hins vegar heilbrigðismál og endurhæfingu. Lagt var til að hækka örorkulífeyri um 10%, hætta tekjuskerðingum frá fyrstu krónu og að hækka frítekjumark í 200.000 krónur á mánuði. Þá var lagt til að stjórnvöld auki fjárheimildir vegna endurhæfingar- og heilbrigðisþjónustu, að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fái fjárheimild til að semja við fagstéttir í heilbrigðisþjónustu og að fjárframlag til geðheilbrigðisþjónustu verði aukið.
Þessum áherslum var fylgt eftir í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum, með tilkynningum og yfirlýsingum og á bæði opnum og lokuðum fundum.
Frítekjumark
Eftir áralanga baráttu gat ÖBÍ loks fagnað því í desember 2022 að Alþingi samþykkti að hækka frítekjumark örorku- og endurhæfingarlífeyristaka vegna atvinnutekna úr tæpum 110.000 krónum í 200.000 krónur á mánuði, eða 2,4 milljónir á ári. Langþráðum áfanga og miklu réttlætismáli var þar með náð. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem frítekjumarkið var hækkað.
Hækkanir lífeyris
ÖBÍ réttindasamtök leggja mikla áherslu á raunhækkun örorkulífeyris. Alþingi samþykkti 7,4% hækkun á lífeyri sem tók gildi um áramótin. Upphaflega lagði ríkisstjórnin til 6% hækkun í drögum fjárlagafrumvarps en ÖBÍ krafðist 10% hækkunar. Eftir mikinn þrýsting var ákveðið að bæta við 1,4 prósentustigum en það dugði þó ekki til að halda í við verðbólgu. Lífeyrir var svo aftur hækkaður 1. júlí um 2,5%, að sögn stjórnvalda vegna verðbólgu, en sú hækkun dugði ekki heldur til að halda í við hina þrálátu verðbólgu né þróun launa á vinnumarkaði þrátt fyrir háværa kröfu ÖBÍ og fjölmargra annarra. Er þetta annað árið í röð sem hækkun á lífeyri næst inn á miðju ári.
Eingreiðslur
ÖBÍ réttindasamtök þrýstu á að eingreiðsla yrði greidd fötluðu fólki í desember 2022. Alþingi samþykkti 60.000 króna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyristaka. Upphaflega stóð til að eingreiðslan yrði 28.000 krónur en eftir skýra kröfu ÖBÍ og fleiri aðila varð þingmeirihlutinn við þeirri réttlátu kröfu að hækka eingreiðsluna.
Samningar við sérgreinalækna
Stjórnvöld gerðu loks samkomulag við sérgreinalækna eftir langvarandi samningsleysi og áralangan þrýsting ÖBÍ undir lok júní og tók nýi samningurinn gildi þann 1. september 2023.
Sérgreinalæknar voru án samnings við sjúkratryggingar frá árslokum 2018 og bitnaði það einkum á notendum þjónustunnar. Þeir hafa því þurft að borga komugjöld, stundum nefnd „leiðréttingargjöld vegna samningsleysis“ sem hafa hlaupið á þúsundum króna.
Þessi komugjöld komu verst niður á þeim sem síst skyldi. Samkvæmt skýrslu ÖBÍ frá árinu 2020 nam heildarsumma greiddra komugjalda árið 2020 1,7 milljörðum króna. Miðað við það má áætla að upphæðin hafi verið minnst fimm milljarðar króna árið 2022.
ÖBÍ réttindasamtök hafa lengi þrýst á gerð nýrra samninga við sérgreinalækna. Bandalagið stóð fyrir málþingi um komugjöldin og lét gera rannsókn á kostnaði í heilbrigðisþjónustu á starfsárinu. Því er ánægjulegt að þetta mál sé loks í höfn. Enn á þó eftir að gera samning við sjúkraþjálfara og uppfylla loforð um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu.
Stæðiskort og gjaldtaka
Reykjavíkurborg ákvað eftir þrýsting ÖBÍ að falla frá ólögmætri gjaldtöku í bílastæðahúsum. Borgin hafði rukkað handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða fyrir að leggja í húsunum þrátt fyrir að í umferðarlögum segi að handhafar stæðiskorta megi leggja í gjaldskyld bílastæði án greiðslu. Enn er unnið að því að tryggja að þessi lög séu virt á einkareknum bílastæðum um land allt.
Þá voru í júní 2023 í fyrsta sinn gefnar út leiðbeiningar um notkun stæðiskorta. Ingveldur Jónsdóttir tók við fyrsta leiðbeiningabæklingnum hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins. Leiðbeiningarnar verða afhentar öllum sem sækja ný stæðiskort til sýslumanns.
Stafræn örorkuskírteini
Í júní 2023 varð fyrst hægt að nálgast stafræn örorkuskírteini á Ísland.is. Áður hafði einungis verið hægt að fá plastskírteini á vef Tryggingastofnunar ríkisins (TR) en með breytingunni getur sá hópur sem er með 75% örorkumat fengið skírteinin í snjallsíma.
Stóraukið samráð
Árangur í þeim málaflokkum sem ÖBÍ réttindasamtök láta sig varða næst ekki án virks samtals og samráðs við ríki og sveitarfélög. Formaður ÖBÍ og aðrir fulltrúar hafa sótt fjölda funda með ráðherrum, sveitarstjórnarfólki, þingmönnum og starfsmönnum í stjórnsýslu og komið þar sjónarmiðum samtakanna skýrt á framfæri. Slíkir fundir eru ákaflega gagnlegir þar sem upplýsingastreymið er á báða bóga. Formaður ÖBÍ á sæti í samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks sem heyrir undir ráðherra og eru fundir þar á átta vikna fresti að jafnaði. Auk þessa sækir formaður fundi Réttindavaktar og Velferðarvaktar þar sem málefni fatlaðs fólks og annarra minnihlutahópa hafa verið til umræðu. Þá var formaður skipaður í Sjálfbærniráð sem skipað er forsætisráðherra sem er formaður, öðrum ráðherrum í ríkisstjórn, auk fulltrúa frá sveitarfélögum, Alþingi, aðilum vinnumarkaðar og frjálsum félagasamtökum.
Landsáætlun og fundir
Eitt stærsta verkefnið á sviði samráðs þetta starfsárið er hið mikla starf kringum Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2030. ÖBÍ réttindasamtök eiga fulltrúa í þeim ellefu hópum sem unnið hafa með greinar SRFF og skiluðu í sumar verkefnatillögum til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Í hópunum voru einnig fulltrúar úr nokkrum ráðuneytum auk annarra hagsmunaaðila. Samstarfið hefur gengið vel.
Staðan á samstarfinu var tekin og upplýst um hana opinberlega á veglegu samráðsþingi í Hörpu þann 16. febrúar. Ríflega 300 manns sóttu þingið og álíka fjöldi fylgdist með því í beinu streymi á netinu. Um 130 tillögur að verkefnum voru kynntar á viðburðinum, sem þótti lukkast vel. Formaður og framkvæmdastjóri ÖBÍ réttindasamtaka kynntu annars vegar samstarfsverkefni um algilda hönnun og vitundarvakningu um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Kosið var um tillögur í aðgerðaáætlun og var félags- og vinnumarkaðsráðuneyti falið að taka ákvarðanir um næstu skref.
Ráðherra stóð í framhaldinu fyrir ellefu samráðsfundum vítt og breitt um landið. Var síðasti fundurinn haldinn með rafrænum hætti undir lok ágústmánaðar. Óskaði ráðuneytið eftir þátttöku ÖBÍ og voru fulltrúar bandalagsins með framsögu á fundunum auk þess að sitja fyrir svörum í lok funda.
Breytingar á almannatryggingakerfinu
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið vinnur að heildarendurskoðun og breytingum á almannatryggingakerfinu og hefur umtalsvert samráð verið haft við ÖBÍ vegna þeirrar vinnu. Formaður og varaformaður ÖBÍ hafa sótt fund með ráðherra. Málefnahópum ÖBÍ og starfsfólki var boðið til annars fundar í sumar og í byrjun hausts fengu formenn aðildarfélaga kynningu á fyrirhuguðum breytingum og tækifæri til þess að koma athugasemdum á framfæri og eiga samtal við ráðherra. ÖBÍ réttindasamtök leggja ríka áherslu á að samráð verði áfram í forgangi og að allar breytingar á kerfinu verði til hins betra.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
ÖBÍ tók þátt í vinnuhópum vegna stöðu Íslands gagnvart Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fimm fulltrúar ÖBÍ áttu sæti í vinnuhópunum og var rödd þeirra mikilvæg þar sem málefni fatlaðs fólks og staða þess hóps fékk sýnileika í vinnunni, sem annars hefði ekki orðið. Forsætisráðuneytið leiddi vinnuna og gaf að lokum út Grænbók um sjálfbært Ísland í júlí.
Umsagnir
Árlega sendir skrifstofa ÖBÍ frá sér fjölda bréfa til opinberra aðila er varða málefni fatlaðs fólks. Teymisstjóri og teymi umsagna fara yfir umsagnarbeiðnir sem berast bandalaginu, flokka þær og ákveða hvaða beiðnum rétt er eða þarf að bregðast við. ÖBÍ sendi stjórnvöldum um 100 umsagnir á 153. löggjafarþingi Alþingis 2022-2023.
Réttindabarátta og vitundarvakning
Barátta fyrir bættri stöðu fatlaðs fólks er kjarninn í starfsemi ÖBÍ réttindasamtaka. Árangurinn byggir á því að ÖBÍ nái eyrum yfirvalda og skilningi og samstöðu samfélagsins. Til að svo verði þarf að koma sjónarmiðum bandalagsins á framfæri á margvíslegan hátt, jafnt á götum úti sem í dómsal.
Hagsmunabarátta
1. maí
Fatlað fólk fjölmennti í kröfugöngu 1. maí undir fána ÖBÍ réttindasamtaka. Einkennisorðin í ár voru jöfnuður og réttlæti. Kröfuspjöld innihéldu kröfur um afkomuöryggi, aðgengi að samfélagi, menntun og atvinnu. Fjöldi fatlaðs fólks innan raða ÖBÍ ýmist var eða er á vinnumarkaði. Það er brýnt að fatlað fólk hafi raunverulegt aðgengi að vinnumarkaði og forsendan fyrir því er að í boði séu fjölbreytt hlutastörf. Stefna stjórnvalda er að svo verði. ÖBÍ gerir kröfu um nauðsynlegar breytingar til að þessi stefna verði að veruleika.
Hugmyndafundur ungs fólks
Brýnt er að huga sérstaklega að réttindum fatlaðra barna og að tryggja að sjónarmið þeirra sjálfra komist á framfæri. Í því skyni stóð barnamálahópur ÖBÍ fyrir hugmyndafundi ungs fólks í nóvember 2022. Skipulagning og utanumhald var í höndum Elínar Hoe Hinriksdóttur, þáverandi formanns, og Andreu Valgeirsdóttur starfsmanns hópsins. Þangað mættu fötluð börn, systkini þeirra og ungt fólk með fatlaða foreldra. Þátttakendur voru á aldrinum 13 til 18 ára. Efni fundarins var hvað sé gott í íslensku samfélagi og hverju þurfi að breyta. Til dæmis í skólakerfinu, tómstundum, íþróttum, aðgengismálum og öðru. Var fundurinn vel heppnaður.
Skýrsla með sjónarmiðum þátttakenda var tekin saman í kjölfarið. Fulltrúar þeirra sem á fundinum voru sóttu svo fund með Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, og afhentu honum skýrsluna. Áttu fulltrúarnir jafnframt greinargott og opinskátt samtal við ráðherra þar sem þau deildu reynslu sinni af skólakerfinu, tómstundum og samfélaginu öllu. Ráðherra hét því að skoða skýrsluna og boða fulltrúana á sinn fund á nýjan leik til að ræða framhaldið.
Vitundarvakning um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er leiðarstefið í starfsemi ÖBÍ réttindasamtaka og því mikilvægt að stjórnvöld, þingheimur og samfélagið allt öðlist skilning á mikilvægi þess að lögfesta samninginn eins fljótt og auðið er.
ÖBÍ átti í samstarfi við auglýsingastofuna ENNEMM um fjölþætta vitundarvakningu um mikilvægi þess að lögfesta SRFF „strax“. Auglýsingar og skilaboð voru birt á svo gott sem hverjum vettvangi þar sem krafan var skýr: „Lögfestum samninginn strax.“
Formaður ÖBÍ, starfsmenn og formenn málefnahópa gerðu sér ferð í Alþingishúsið undir lok nóvember 2022 til að hitta formenn þingflokka og þá þingmenn sem áhuga sýndu til að afhenda þeim húfu sem merkt er RÉTTINDI og merki ÖBÍ réttindasamtaka. Húfan var og er áminning um að lögfesta þarf SRFF þannig að fatlað fólk öðlist sjálfsögð réttindi. Hópnum var vel tekið og heimsóknin vakti þó nokkra fjölmiðlaathygli. Framtíðin er í húfu!
Dómsmál
Alls voru fimmtán dómsmál í gangi á vegum ÖBÍ réttindasamtaka í lok starfsársins. Málin voru á mismunandi stað í dómskerfinu; eitt hjá Hæstarétti, tvö í Landsrétti, þrjú fyrir Héraðsdómi en önnur á undirbúningsstigum. Eitt mál til viðbótar sem ÖBÍ styður við er á bið hjá Mannréttindadómstól Evrópu.
Meðal annars má nefna mál sem varðar svonefnda krónu á móti krónu skerðingu. Landsréttur sýknaði TR af kröfum ÖBÍ réttindasamtaka í málinu í desember 2022 og var því sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Sú umsókn var samþykkt og verður látið reyna á málið fyrir Hæstarétti.
Málin eru öll fordæmisgefandi og hafa þýðingu fyrir mörg hundruð eða mörg þúsund manns. Hagsmunir málanna í krónum talið hlaupa á hundruðum milljóna eða nokkrum milljörðum króna hverju sinni (í þeim málum þar sem tekist er á um réttindi sem skila sér í beinum fjárgreiðslum fyrir skjólstæðinga ÖBÍ). Sigur í einu dómsmáli hefur þannig mikil fjárhagsleg áhrif og/eða önnur jákvæð áhrif á fjölda fólks.
Sem dæmi um bein áhrif dómsmálanna má nefna tvö mál sem lauk í Hæstarétti vorið 2022, annars vegar um búsetuskerðingar á sérstakri framfærsluuppbót og hins vegar um NPA.
Það segir sína sögu að öll þau mál sem ÖBÍ hefur farið með fyrir dómstóla hafa endað fyrir Hæstarétti Íslands, en það er alls ekki sjálfgefið. Eftir dómstólabreytinguna 2018 (tilkoma Landsréttar sem millidómstigs) fara einungis stór og mikilvæg mál til Hæstaréttar. Það er því ljóst að þau mál sem ÖBÍ hefur valið að láta reyna á teljast öll meðal „stærstu“ og mikilvægustu mála sem eru í gangi í íslenska dómskerfinu.
Fjöldi málanna skýrist m.a. af því að dómsmál geta tekið langan tíma, elstu málin sem enn eru í rekstri fyrir dómstólum eru frá árinu 2019. Daníel Isebarn, lögmaður ÖBÍ, hefur haldið utan um málarekstur bandalagsins fyrir dómstólum.
Til viðbótar við stóru málin eru fjölmörg „minni“ mál. Þau eru ekki minna merkileg en minni lögmannsvinna fer í þau.
Lögfræðingar skrifstofu ÖBÍ sinna jafnframt mörgum málum er varða stjórnvaldskærur til ráðuneyta, kærur til úrskurðarnefnda, kvartanir til umboðsmanns Alþingis, minnisblöð, erindi til stjórnvalda/Alþingis, ýmissi ráðgjöf o.fl.
Rannsóknir og kannanir
ÖBÍ réttindasamtök létu eins og áður vinna kannanir og rannsóknir á starfsárinu í því skyni að mæla stöðu fatlaðs fólks á Íslandi og viðhorf almennings í málaflokknum. Niðurstöðurnar vöktu jafnan þó nokkra athygli og hafa leitt til aukins samtals og aðgerða í málaflokknum.
Rannsókn á húsnæðismarkaði
Rannsókn sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir ÖBÍ um stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði var kynnt í nóvember 2022. Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. Þá eru 29% öryrkja á leigumarkaði miðað við 13% allra fullorðinna á landinu.
Þeir öryrkjar sem eru á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og fer stór hluti tekna þeirra í rekstur húsnæðis. Alls sögðust 12% greiða meira en 75% útborgaðra launa en 25% greiða á milli 51% og 75%.
Fatlað fólk á leigumarkaði er tvöfalt líklegra en fólk almennt til að hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af kostnaði við rekstur húsnæðis, eða 38% samanborið við 19%.
Niðurstöðurnar sýna að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri. Það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaði og er líklegra til þess að lenda í vanskilum.
Slæmt aðgengi að biðstöðvum
ÖBÍ fékk VSÓ ráðgjöf til að vinna skýrslu um ástand stoppistöðva fyrir Strætó á landsbyggðinni og voru niðurstöðurnar kynntar í nóvember. Þar kom fram að aðgengi að eða yfirborð 166 af alls 168 stoppistöðvum taldist slæmt eða mjög slæmt. Þessi úttekt kom í framhald athugunar á þeim 556 stoppistöðvum í Reykjavík sem Reykjavíkurborg lét skoða sumarið 2022. Þar töldust fjórar stöðvar með gott aðgengi og ellefu með gott eða mjög gott yfirborð.
Viðhorf til kjara fatlaðs fólks
Gallup vann rannsókn fyrir ÖBÍ á viðhorfi Íslendinga til kjara öryrkja og voru niðurstöðurnar afar skýrar. Mikill meirihluti taldi kjör örorkulífeyristaka frekar slæm eða mjög slæm og taldi sömuleiðis brýnt að bæta þau. Enn fremur voru þátttakendur í könnuninni spurðir hverjar þeir telja tekjur öryrkja (þ.e. óskertan örorkulífeyri) vera, hvað þeir telji æskilegt að óskertur örorkulífeyrir sé sem og hvað myndi duga viðkomandi til framfærslu á mánuði ef viðkomandi missti starfsgetuna á morgun.
Að meðaltali svöruðu þátttakendur því að þeir telji óskertan örorkulífeyri vera 278.976 krónur eftir skatt, að æskilegar tekjur væru 388.650 krónur og að þeir þyrftu sjálfir 466.259 krónur.
Lífskjör og heilbrigðisþjónusta á Íslandi
Félagsvísindastofnun HÍ var fengin til að gera könnun fyrir ÖBÍ og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði, sem var kynnt í maí 2023. Niðurstöður sýndu meðal annars að stór hluti fólks sem er metið með a.m.k. 75% örorku á Íslandi frestar því að fara til læknis og sjúkraþjálfara og sækir ekki lyf sem því er ávísað.
Veruleg tengsl eru á milli útgjalda einstaklinga og heimila til heilbrigðismála og frestunar læknisþjónustu. Sem sagt, margt fólk hættir við að fara til læknis eða frestar því af því það hefur einfaldlega ekki efni á því. Hið sama gildir um að sækja ávísuð lyf í apóteki.
Staðan er sú að umtalsverður hópur býr við verulega kostnaðarbyrði vegna útgjalda til heilbrigðismála. Þar er staða yngra fólks, einstæðinga, lágtekjufólks og fatlaðs fólks verst.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar voru áætluð bein heildarútgjöld heimilis vegna heilbrigðismála 244.207 krónur fyrir meðalheimili á landsvísu miðað við 323.437 krónur á heimili fólks sem metið er með a.m.k. 75% örorku.
Staða fatlaðs fólks á Íslandi
Ákveðið var að endurtaka könnun um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi sem Varða rannsóknarmiðstöð vinnumarkaðarins gerði fyrir ÖBÍ 2021. Sú vinna hófst í júní og heldur Varða nú sem fyrr á verkefninu. Leitað var til TR um aðstoð við að koma könnuninni á framfæri við viðskiptavini TR sem heyra undir málaflokkinn. TR tók beiðninni afar vel og hefur góð samvinna verið milli TR og Vörðu um hvernig staðið skuli að málum. Með þessu samstarfi eru töluvert meiri líkur til þess að svörunin verði góð sem skilar þá betri gögnum um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.
Upplýsingagjöf og miðlun
ÖBÍ réttindasamtök leggja áherslu á að miðla sínum áherslum og sjónarmiðum til almennings. Þetta er gert í gegnum fréttir fjölmiðla, innsendar greinar, samfélagsmiðla ÖBÍ, auglýsingar og eigin vefsíðu. ÖBÍ hefur náð nokkuð vel í gegn með sín baráttumál hvað hefðbundna fjölmiðla varðar. Alla jafna hefur tekist að tryggja umfjöllun um málþing og viðburði, útgefnar skýrslur, kannanir og yfirlýsingar. Alls voru birtar tæplega 170 umfjallanir um ÖBÍ í fjölmiðlum fyrri hluta árs 2023 og var yfirgnæfandi meirihluti umfjöllunarinnar annað hvort jákvæður eða hlutlaus.
ÖBÍ nýtti í samstarfi við ENNEMM endurmörkun bandalagsins til að vekja enn frekari athygli á málefnum fatlaðs fólks og mikilvægi þess að lögfesta SRFF á starfsárinu. Vandaðar auglýsingar voru birtar á neti, í sjónvarpi, útvarpi og á víðavangi. Fyrir vikið fengu ÖBÍ og ENNEMM fjórar tilnefningar til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna.
ÖBÍ er sem fyrr afar sýnilegt á Facebook, þeim samfélagsmiðli sem Íslendingar nota hvað mest. Alls náðu Facebook-birtingar til 260.596 notenda á tímabilinu samanborið við 194.389 á starfsárinu á undan. Fjöldi fylgjenda á Facebook þokast nær 10.000.
Instagramsíða ÖBÍ hefur tekið stakkaskiptum á starfsárinu. Alls voru birtar 66 færslur og 206 söguinnlegg sem náðu til 145.751 notenda. Þetta er gríðarleg aukning frá síðasta starfsári. Þá voru 17 færslur birtar og 141 söguinnlegg sem náðu til 13.276 notenda. Síðan hefur sum sé náð til tífalt fleiri notenda en árið áður. Fjöldi fylgjenda hefur einnig meira en tvöfaldast og stendur nú í ríflega 660. Ástæðu þessa árangurs má rekja til margra þátta. Virknin hefur verið meiri, formföst hönnun er á nýju efni og aðildarfélögum hefur staðið til boða að taka yfir síðuna í einn dag til að kynna sína starfsemi.
TikTok-síða ÖBÍ fór í loftið á starfsárinu og er enn í mótun. Í ágúst var búið að hlaða upp alls níu myndböndum sem samanlagt hefur verið horft á 5.902 sinnum.
Ljósmyndaröð Hrafns Hólmfríðarsonar ljósmyndara fór af stað á miðlum ÖBÍ á starfsárinu. Krummi, eins og Hrafn er gjarnan kallaður, hefur þar birt metnaðarfulla ljósmyndaröð af fötluðu fólki í alls kyns virkni. Verkefnið stendur enn yfir og fyrirhugað er að halda ljósmyndasýningu í raunheimum að því loknu.
Málþing
Hugmyndafundur ungs fólks: Okkar líf – okkar sýn
5. nóvember 2022. Hugmyndafundur barnamálahóps fyrir ungt fólk
Hef ég efni á að fara til læknis?
23. nóvember 2022. Málþing heilbrigðishóps um komugjöld í heilbrigðisþjónustu
Ryðjum menntabrautina!
28. febrúar 2023. Málþing atvinnu- og menntahóps um mikilvægi stuðningsúrræða
Satt og logið um öryrkja
22. mars 2023. Málþing kjarahóps um kjör fatlaðs fólks á Íslandi
Eru íþróttir fyrir alla?
26. apríl 2023. Málþing barnahóps um íþrótta- og tómstundastarf fyrir fötluð börn og ungmenni
Hvatningarverðlaun og alþjóðadagur
Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember 2022 að venju. Kallað var eftir tilnefningum frá almenningi sem brást vel við. Stjórn verðlaunanna tilnefndi í framhaldinu átta einstaklinga eða verkefni úr innsendum tilnefningum. Rétt eins og 2021 hlaut einn aðili verðlaunin, en aðrir viðurkenningu.
Verkefnið Gott aðgengi í ferðaþjónustu, á vegum Ferðamálstofu í samstarfi við HMS, ÖBÍ réttindasamtök og Sjálfsbjörg, hlaut hvatningarverðlaunin 2022. Eliza Reid forsetafrú afhenti verðlaunin.
Meira var gert úr alþjóðadegi fatlaðs fólks en áður í því skyni að festa hann í sessi í huga almennings. Auglýsingar birtust í aðdraganda dagsins þar sem minnt var á bæði daginn sjálfan og hvatningarverðlaunin. Starfsfólk móttöku ÖBÍ vann af kappi við að hafa samband við fjölda stofnana, fyrirtækja og aðildarfélaga með hvatningu um að lýsa upp húsakynni sín fjólublá, taka myndir og birta á samfélagsmiðlum. Þetta gekk vel og mátti meðal annars sjá Háskóla Íslands, Hörpu og stjórnarráðshúsið skarta fjólubláu. Að auki voru birtar auglýsingar á netmiðlum til að vekja athygli á alþjóðadeginum og í útvarpi þar sem stjórnvöld voru minnt á að lögfesta SRFF. Lottóið var með öðrum brag en vanalega og var fjólublár litur og merki ÖBÍ í bakgrunni og bæði hvatningarverðlaunin og alþjóðadagurinn rötuðu í sjónvarps- og hádegisfréttir.
Samstarfsverkefni
ÖBÍ leggur áherslu á samtal og samstarf við helstu hagsmunaaðila. Þegar vel tekst til er mögulegt að ná fram víðtækari breytingum og umbótum. ÖBÍ hefur átt í góðu samstarfi um fjölmörg verkefni á starfsárinu og eru þau helstu nefnd hér.
Aðgengisfulltrúar í sveitarfélögum
Samvinnuverkefni ÖBÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stórátak í úrbótum á aðgengismálum fyrir fatlað fólk, sem hófst sumarið 2021 hefur gengið vel. Guðjón Sigurðsson, verkefnastjóri hjá ÖBÍ, hefur beitt sér ötullega fyrir fjölgun aðgengisfulltrúa jafnframt því að hvetja sveitarfélög til að sækja um styrki til framkvæmda á móti 50% eigin framlagi. Nú hafa verið skipaðir aðgengisfulltrúar í allflestum sveitarfélögum, eða 63 af alls 64. Verkefnastjóri hefur heimsótt stærri staði á landsbyggðinni og fundað með aðgengisfulltrúum og sveitarstjórnarfólki.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, undirrituðu í júní samkomulag um aukinn stuðning við þetta átaksverkefni. Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga mun veita allt að 415 milljónir kr. til úrbótaverkefna út árið 2024. Þá fær ÖBÍ sérstakan fjárstyrk, að fjárhæð 14 milljónir kr., til að ráða verkefnastjóra út samningstímabilið.
Gott aðgengi
ÖBÍ réttindasamtök eiga aðild að verkefninu Gott aðgengi í ferðaþjónustu, sem komst á skrið á árinu. Verkefnið er á vegum Ferðamálastofu og er unnið í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörg slf. og ÖBÍ réttindasamtök.
Tilgangur verkefnisins er að bæta aðgengi í ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk. Í því skyni er ferðaþjónustuaðilum á Íslandi boðið upp á verkfæri og leiðbeiningar til að bæta aðgengismál markvisst. Verkefnið, sem er sjálfsmat, byggir á trausti og vilja ferðaþjónustuaðila til að sýna ábyrgð í verki.
Sky Lagoon, Bakland að Lágafelli, Loft HI Hostel og Dalur HI Hostel undir merkjum HI Iceland/Farfuglar ses., urðu í júní fyrstu fyrirtækin til að hljóta merki verkefnisins. Fyrirtækin sem nú hafa fengið merki verkefnisins hafa hugað að margvíslegum þáttum er varða gott aðgengi fyrir fatlað fólk og hafa gert nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla viðmið Góðs aðgengis. Má þar nefna upplýsingar á vefsíðu, atriði er varða aðkomu utanhúss og bílastæði, aðbúnað á snyrtingum og herbergjum, merkingar, móttöku- og veitingarými, fræðslu til starfsfólks og fleira.
Störf í þágu notendaráða sveitarfélaga
Notendaráð fatlaðs fólks eru mikilvægur samráðsvettvangur. Samkvæmt lögum á að starfrækja þau í öllum sveitarfélögum. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2022 var skipað í öll notendaráð á ný því þau fylgja kjörtímabilum. Þessu verkefni fylgdi talsverð eftirfylgni af hálfu ÖBÍ, meðal annars í formi greinaskrifa sem birtust í héraðsfréttablöðum um allt land. Í þessu fólst einnig að ýta á eftir og leiðbeina sveitarfélögum sem ekki höfðu stofnað notendaráð. ÖBÍ lagði mikla áherslu á að fötluðu fólki væri greidd þóknun fyrir setu í slíkum ráðum líkt og vaninn er í öðrum fastanefndum sveitarfélaga.
Hluti af verkefnum ÖBÍ í tengslum við notendaráð er að tilnefna og skipa fatlað fólk í ráðin. ÖBÍ hefur skipað yfir 30 fulltrúa í um 10 sveitarfélögum. Einhver sveitarfélög eru í startholunum og hafa fengið virkt aðhald frá ÖBÍ. Þó vantar enn nokkuð upp á að tekist hafi að manna notendaráð í öllum sveitarfélögum landsins.
Mikilvægt er að styðja og valdefla þá einstaklinga sem sitja í notendaráðum um land allt og hefur ÖBÍ í því skyni stofnað samráðshóp fyrir fulltrúa fatlaðs fólks í ráðunum. Á starfsárinu voru haldnir átta fjarfundir með fulltrúum notendaráða og starfsfólki ÖBÍ. Tilgangur fundanna er jafningjafræðsla, valdefling og upplýsingaveita um málefnavinnu ÖBÍ, ásamt því að tengja fulltrúa í notendaráðum við málefnahópa og starfsfólk ÖBÍ. Sérfræðingar hafa flutt fyrirlestra, t.d. um aðkomu fatlaðs fólks að vinnumarkaði. Stuðningur er af hálfu ÖBÍ við fulltrúa í notendaráði, sem felst til dæmis í aðstoð við greinaskrif, bókanir og tengingar við fagaðila innan sem utan ÖBÍ.
Hafið er samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi gerð fræðsluefnis um hlutverk fulltrúa í notendaráðum.
Verkefnastjóri er Rúnar Björn Herrera Þorkelsson og honum til aðstoðar er Katrín Oddsdóttir lögmaður.
Samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun
Aðgengishópur ÖBÍ hóf samstarf um upplýsingagjöf um algilda hönnun við Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta, Félag húsgagna- og innanhússarkitekta (FHI), Byggingafræðingafélag Íslands (BFÍ) og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vorið 2022. Samstarfið hefur gengið vel og hefur verið fundað reglulega um bætta upplýsingagjöf í aðgengismálum fyrir hönnuði í mannvirkjagerð auk þess sem þrjár málstofur hafa verið haldnar á tímabilinu. Höfuðáherslan á árinu hefur verið á að útbúa nýjan og greinargóðan leiðarvísi fyrir hönnuði, arkitekta, verktaka og iðnaðarmenn, sem kallað hefur verið eftir. Vonast er til að fjárveiting fáist til þess á árinu, en slíkur leiðarvísir mun styðja við endurskoðun byggingarreglugerðar sem nú er hafin.
Samstarf við VIRK í atvinnumálum
ÖBÍ á í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð sem snýr að ungu fötluðu fólki í atvinnuleit. Til stendur að veita hópi ungmenna aðstoð við ferilskrárgerð, kenna samtalstækni fyrir atvinnuviðtöl og veita aðstoð við sjálfstyrkingu og ýmislegt fleira. Atvinnulífstenglar hjá VIRK myndu í kjölfarið nýta tengsl sín til þess að finna þátttakendum starfsnám við hæfi upp á að öðlast bæði starfsreynslu og fá meðmæli frá vinnustaðnum.
Römpum upp Ísland
ÖBÍ er einn styrktaraðila verkefnisins Römpum upp Ísland. Formaður ÖBÍ tók sæti í stjórn verkefnisins í maí og hefur ÖBÍ einnig annast samfélagsmiðlun fyrir verkefnið. Rampur númer 825 var vígður á Sólheimum í Grímsnesi í byrjun september. Verkefnið er á áætlun en stefnt er á að ljúka gerð 1500 rampa á árinu 2024.
Frístundasafnið
ÖBÍ kemur að undirbúningi verkefnis sem nefnist Frístundasafnið og mun bjóða upp á fjölbreyttan frístunda- og útivistarbúnað fyrir almenning. Þar verður lögð sérstök áhersla á að til verði búnaður sem fatlað fólk og fötluð börn geta fengið til afnota til að geta stundað íþróttir og útivist af ýmsu tagi. Einnig verður lögð áhersla á að skapa fötluðu fólki atvinnutækifæri í tengslum við starfsemina. Jón Heiðar Jónsson, gjaldkeri ÖBÍ, kemur að stjórn verkefnisins, sem Birna Sigurjónsdóttir stendur að. Frístundasafnið er á meðal þeirra sem fengu verkefnastyrk frá ÖBÍ 2023.
Þjónusta
Þjónusta við einstaklinga er veigamikill þáttur í starfsemi ÖBÍ réttindasamtaka. Þar er móttakan gjarnan fyrsta stopp. Starfsfólk móttöku svarar fyrirspurnum vegna ýmissa réttindamála, veitir upplýsingar um starfsemina og bókar viðtöl hjá ráðgjöfum.
Ráðgjöf
Lögfræðingar og ráðgjafar ÖBÍ réttindasamtaka veita fötluðu fólki ráðgjöf því að kostnaðarlausu. Mikil þörf er á þessari þjónustu sem var vel nýtt á starfsárinu. Ástæður að baki málanna í grunninn eru þær sömu: Réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni í heild: ríki, sveitarfélögum og stofnunum.
Helstu brotalamirnar varða lífeyrisréttindi frá TR og þá helst synjanir um örorkumat og endurhæfingarlífeyri. Mikill skortur er á og löng bið eftir því að komast í viðeigandi endurhæfingarúrræði. Fjöldi fólks leitar til ráðgjafa ÖBÍ með synjanir um örorkumat hjá TR á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd. Áður en fólk sækir um örorkumat hefur það yfirleitt verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ehf eða í endurhæfingu á vegum annarra endurhæfingaraðila sem hafa talið endurhæfingu vera fullreynda. Í bréfum TR er fólki bent á að leita til síns heimilislæknis og því eru umsækjendur aftur komnir á byrjunarreit, og sem verra er að á meðan beðið er afgreiðslu á umsókn um örorku verður tekjufall hjá þeim og margir því alveg tekjulausir. Í mörgum af þessum tilfellum hefur TR ekki sinnt leiðbeiningarskyldu stjórnsýsluréttar sem skyldi.
Þá leitar fjöldi fatlaðs fólks til ÖBÍ til að fá ráðgjöf vegna krafna hjá TR sem eru tilkomnar vegna eingreiðslna frá lífeyrissjóðum. Um er að ræða afturvirkar greiðslur frá lífeyrissjóðum. Kröfur þessar geta numið nokkrum milljónum króna og verið mjög íþyngjandi, tekjuskerðingar eru mjög miklar og miðast við lífeyrissjóðstekjurnar fyrir skatt. Einungis lítill hluti eingreiðslunnar stendur eftir þegar búið er að draga frá staðgreiðslu og kröfur vegna tekjuskerðinga. Þá hefur málum er varða uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða fjölgað.
Mörg mál er snúa að vöntun á búsetuúrræðum, auknu húsnæðisleysi og stuðningi hjá sveitarfélögum hafa komið á borð ráðgjafa ÖBÍ á tímabilinu. Einnig er vert að nefna önnur mál er varða lögbundna þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem ekki eru virt, s.s. skort á heilbrigðisþjónustu, aðgengi að hjálpartækjum, heimaþjónustu, stuðningsþjónustu, heimahjúkrun, NPA, akstursþjónustu og aðstoð við fötluð börn í grunnskólum. Einstaklingar sem leita til ÖBÍ vegna langrar viðveru á biðlista eftir húsnæði og/eða búsetuúrræðum á vegum sveitarfélaganna fá ekki upplýsingar um stöðu sína á biðlista. Staðan er á skjön við dómafordæmi um að sveitarfélögum beri að upplýsa umsækjendur um stöðu þeirra á biðlista sé óskað eftir því.
ÖBÍ beitir sér áfram í málum varðandi skort á stuðningi við fatlaða nemendur í grunnskólum landsins. Fjöldi ábendinga barst um að grunnskólar geri ekki viðeigandi ráðstafanir til að unnt sé að koma til móts við nemendur án aðgreiningar og án tillits til andlegs atgervis þeirra. Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar þarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi, í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir. Um er að ræða viðvarandi vandamál.
Styrkir
ÖBÍ leggur árlega fjölmörgum samtökum, verkefnum og einstaklingum lið með fjárframlagi. Bandalagið styður þannig rannsóknir, réttindabaráttu, framfarir á málefnasviðinu, nám og velferð fatlaðs fólks.
Námssjóður
Að venju var styrkjum úthlutað til fatlaðs fólks úr Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur. Sjóðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir þá sem geta ekki sótt um styrk til stéttarfélags, en styrkþegar eru á öllum skólastigum. Árlega berst fjöldi umsókna og hefur ÖBÍ styrkt sjóðinn síðustu ár til að mæta þörfinni. Auglýst er eftir umsóknum í mars/apríl í dagblöðum, á heimasíðu ÖBÍ og á Facebook. Sótt er um styrki í gegnum heimasíðu ÖBÍ og fer úthlutun fram í byrjun sumars og í sumum tilvikum einnig að hausti.
Mikil fjölbreytni er í námi sem sótt er um og hefur stjórn námssjóðsins haft að leiðarljósi lengd náms, námskostnað og fleira þegar tekið er tillit til styrkveitinga. Oft er um að ræða langtíma háskólanám erlendis, nám í háskólum á Íslandi, tungumálanám, listnám o.fl.
Haustið 2022 fengu 17 styrk úr námssjóðnum og námu styrkirnir samtals 1.492.000 krónum. Úthlutun árið 2023 var í júní þar sem alls 34 einstaklingar fengu samtals 2.965.000 krónur. Enn er unnið að undirbúningi haustúthlutunar fyrir árið 2023 en umsóknarfrestur verður til 15. október.
Verkefnastyrkir
ÖBÍ réttindasamtök hafa úthlutað 45 milljónum króna í sérstaka styrki til alls 30 verkefna á árinu. Umsóknir um styrki voru 62 talsins og fékk því nærri helmingur umsækjenda styrk. Verkefnin eru metnaðarfull og eins ólík og þau eru mörg.
Á meðal þeirra sem fengu styrk voru rannsóknarverkefnið ADHD þjóðin, Menntaský, þátttaka í alþjóðaleikum Special Olympics, leiksýningin Skógarbrúðkaup og upplýsingasíðan öryrkinn.is. Listann í heild sinni má finna á vefsíðu ÖBÍ réttindasamtaka.
Styrkir vegna Nordic Network on Disability Research
ÖBÍ styrkti 17 fulltrúa aðildarfélaga og úr diplómanámi við Háskóla Íslands til þátttöku í NNDR ráðstefnunni sem haldin var á Grand hóteli Reykjavík 10.-12. maí 2023. Ráðstefnan samanstendur af rannsakendum, stefnumótendum, aðgerðarsinnum og sérfræðingum á sviði fötlunar á Norðurlöndum.
Styrkir til aðildarfélaga
ÖBÍ veitir aðildarfélögum sínum rekstrarstyrki árlega að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Styrkirnir eru ætlaðir til stuðnings við reglulega starfsemi og rekstur félaganna. Árið 2023 nam upphæð þessara styrkja 135.079.652 kr. til 35 aðildarfélaga.
Styrkir til náms í sumarskóla um SRFF
Frá árinu 2014 hefur ÖBÍ styrkt fjölda einstaklinga úr aðildarfélögunum til þátttöku í sumarskóla um SRFF sem haldinn er í háskólanum í Galway á Írlandi. Sumarið 2023 styrkti ÖBÍ þrjá einstaklinga til þátttöku. Þema sumarskólans 2023 var Fötlun og menning – aðgangur að menningu, afþreyingu, tómstundum og íþróttum fyrir fatlað fólk. Litið var til 30. greinar SRFF sem fjallar um þátttöku í menningarlífi, afþreyingu, tómstundum og íþróttum.
Öflugt innra starf
Skipulag innra starfs skiptir verulegu máli í jafnstóru bandalagi og ÖBÍ þannig að raddir ólíkra hópa og einstaklinga fái hljómgrunn. Þar leika málefnahópar og hreyfingar bandalagsins stórt hlutverk. Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda og hefur það meginhlutverk að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiri háttar mál í hendur stjórnar. Á starfsárinu voru haldnir tíu stjórnarfundir og níu fundir framkvæmdaráðs.
Formannafundir
Tveir formannafundir voru haldnir á starfsárinu. Fyrri fundurinn þann 1. september 2022. Þar kynntu fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins fyrirkomulag vinnu og samráðs varðandi heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Bergþór H. Þórðarson varaformaður fór yfir lagabreytingartillögur fyrir aðalfund ÖBÍ og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri sagði frá endurmörkun ÖBÍ, nýjum vef og nýrri ímynd. Formaður Heyrnarhjálpar hélt erindi í lokin og ræddi samvinnu og deilingu kunnáttu í innra starfi félaganna. Seinni fundurinn var haldinn 4. apríl 2023 þar sem fulltrúar félags- og vinnumarkaðsráðuneytis fóru yfir starf 11 vinnuhópa frá því í nóvember og sögðu frá vinnu við verkefnatillögur. Rætt var um að mannréttindastofnun verði komin á laggirnar í byrjun árs 2024 og SRFF verði lögfestur um vorið. Fulltrúar frá Erasmus fóru yfir verkefnastyrki fyrir ungmenni og málefnastarf ÖBÍ var einnig til umræðu. Sér í lagi mikilvægi þess að fólk með áhuga og tíma gefi kost á sér í starfið og að hugað sé að fjölbreytni hvað varðar fatlanir og aldur.
Málefnahópar og hreyfingar
Innan ÖBÍ starfa málefnahópar sem fjalla um aðgengismál, atvinnu- og menntamál, heilbrigðismál, húsnæðismál, kjaramál og málefni barna.
Málefnahóparnir koma að ritun umsagna ásamt starfsmönnum ÖBÍ. Hóparnir taka einnig þátt í hinum ýmsu samvinnuverkefnum, sem sjá má í skýrslum hópanna. Samanlagt héldu hóparnir fjögur málþing á starfsárinu.
Þá eru starfandi tvær hreyfingar. Annars vegar Kvennahreyfing ÖBÍ og hins vegar UngÖBÍ. Sjá má skýrslur hreyfinganna aftar í ársskýrslunni.
Fræðsla
Í fræðslustefnu ÖBÍ réttindasamtaka sem sett var haustið 2021 segir m.a.: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“ Markmiðið með stefnunni er að styrkja starf ÖBÍ og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks.
Námsstefna ÖBÍ var haldin í annað sinn í október 2022. Markmiðið með stefnunni er að stilla saman strengi og undirbúa fólk í innra starfi bandalagsins sem og starfsfólk undir vetrarstarfið. Þátttakendur fengu m.a. kynningu á stefnu, skipulagi og rekstri ÖBÍ, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hlutverki stjórnarfólks, nýjum vef ÖBÍ, siðareglum og EKKO viðbragðsáætlun bandalagsins. Þá var fjallað um samningatækni og hvernig halda skuli árangursríka fundi. Mjög vel tókst til og verður námsstefnan framvegis fastur liður í fræðslustarfi bandalagsins.
Í fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélög var boðið upp á fimm þriggja tíma námskeið í húsakynnum Hringsjár frá september 2022 til maí 2023;
- Fjárlögin krufin – fjallað var um fjárlagaferlið, rýnt í fjárlögin, leiðbeint um umsagnagerð og hagsmunagæslu.
- Persónuvernd – farið var yfir reglur sem gilda um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og hvernig þær hafa áhrif á starfsemi félaga og störf starfsmanna.
- Samfélagsmiðlar og réttindabarátta – fjallað var um hvernig félög geta nýtt samfélagsmiðla í réttindabaráttu og markaðsstarfi og hvernig ná má meiri útbreiðslu og lægri kostnaði en með hefðbundnum leiðum.
- Tækifærin í Erasmus+ – farið var yfir nýjar áherslur varðandi inngildingu, umsóknarferlið og möguleika sem félög, félagsmenn og starfsfólk geta nýtt sér.
- Efldu þig – efldu félagið þitt! – kynntar voru grunnaðferðir úr leiklistarheiminum og gerðar æfingar í framkomu, framsögn, líkams- og raddbeitingu.
Á haustmánuðum 2022 var haldið leiðtoga- og valdeflingarnámskeið fyrir konur í samstarfi við fyrirtækið KVAN, sambærilegt því sem haldið var fyrir UngÖBÍ á vormánuðum. Þá voru haldin styttri námskeið fyrir starfsfólk ÖBÍ. Þátttaka var almennt góð og ánægja með þá fræðslu sem boðið var upp á.
Í júlímánuði 2023 fór af stað fræðsla fyrir almenning á samfélagsmiðlum ÖBÍ í formi örskýringa um bæði málefni og hugtök. Vel hefur verið tekið í skýringarnar sem hafa safnað mörg þúsund áhorfum.
Erlent samstarf
Alþjóðasamstarf skiptir verulegu máli í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Skýrasta dæmið um þetta mikilvægi er gerð og samþykkt samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með samtali þvert á þjóðir má samræma aðgerðir, búa til heildræna stefnu og leita bæði innblásturs og þekkingar. Þannig er hægt að efla starf ÖBÍ og stuðla að bættri stöðu fatlaðs fólks um heim allan.
Norrænt samstarf
Norrænt samstarf var blómlegt á starfsárinu og er mikilvægt að rækta tengsl við fötlunarhreyfingar okkar helstu vinaþjóða.
Í október 2022 tóku ÖBÍ réttindasamtök á móti hópi frá Nordplus, menntamálaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Viðfangsefni fundarins var að ræða hvernig auka má aðsókn starfsfólks af erlendum uppruna í störf innan fötlunargeirans til að draga úr manneklu. Eitt af markmiðum heimsóknarinnar var að fá yfirsýn yfir þá velferðarþjónustu sem er í boði fyrir fatlað fólk.
ÖBÍ réttindasamtök tóku þátt á fundi heildarsamtaka fatlaðs fólks á Norðurlöndum, Handikapporganisationernas nordiska råd (HNR), þann 17. febrúar 2023. Til umræðu var hvað megi læra af bæði heimsfaraldri Covid-19 og stríðinu í Úkraínu. Einnig, hvernig megi samnýta myndefni og efni til auglýsinga.
Skrifstofa ÖBÍ varð vettvangur fyrstu vinnustofu Nordic Platform for Civil Society, en ÖBÍ leiðir verkefnið hér á landi. Um er að ræða vinnustofuröð sem haldin er á öllum Norðurlöndunum þar sem fundað er um stöðuna í hverju landi fyrir sig og um samstarfið á Norðurlöndunum. Þátt tóku fulltrúar íslenskra félagasamtaka, dönsku hugveitunnar Tænketanken Mandag Morgen og dönsku stofnunarinnar DIVE. Málefni fólks í viðkvæmri stöðu á Íslandi voru til umræðu á fundinum og samstarf félagasamtaka í málaflokknum sömuleiðis. Góður samhljómur var á meðal fundargesta.
Fjölmennasta ráðstefna sem vitað er að hafi verið haldin um fötlunarrannsóknir og málefni fatlaðs fólks var haldin í Reykjavík í maí 2023. NNDR-ráðstefnan var síðasta haldin hér á landi 2011 og mættu yfir 700 þátttakendur til leiks, sem er metþátttaka. Fjöldi fræðierinda og málstofa voru á dagskrá. Meðal fyrirlesara voru Theresia Degener, Rannveig Traustadóttir, Ingela Holmström og Marjorie Aunos.
ÖBÍ tekur þátt í Rådet för nordiskt samarbete om funktionshinder (RNSF), sem er ráðgefandi og stefnumarkandi ráð varðandi málefni fatlaðs fólks fyrir Norrænu ráðherranefndina og samstarfsaðila hennar. Í ráðinu sitja fulltrúar fötlunarsamtaka frá öllum Norðurlöndunum ásamt starfsfólki ráðuneyta. Fundunum er ætlað að upplýsa hvað ber hæst í hverju landi. Fundur RNSF var haldinn á Íslandi 30. maí – 1. júní 2023 þar sem heimsókn til ÖBÍ var meðal annars á dagskrá. Þar hélt Stefán Vilbergsson verkefnastjóri erindi um algilda hönnun, Haraldur Þorleifsson og Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir um verkefnið Römpum upp og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri um nýjan mannréttindakjarna í Sigtúninu.
Þá tekur ÖBÍ þátt í Fundi fólksins, sem er að norrænni fyrirmynd, ár hvert. Á starfsárinu buðu lögfræðingar ÖBÍ, Alma Ýr Ingólfsdóttir og Sunna Elvira Þorkelsdóttir, upp á erindið „Örlögin eru í ykkar höndum“ í Norræna húsinu.
Evrópusamstarf
ÖBÍ er aðili að Evrópusamtökum fatlaðs fólks (EDF), og situr Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ í stjórn samtakanna. Starfsárið hófst með stjórnarfundi sem haldinn var 18. nóvember 2022 í Dublin. Í lok fundarins var haldið málþing þar sem 12. grein SRFF var til umræðu, en hún fjallar um jafna viðurkenningu fyrir lögum og var tekin staðan á því hvernig hún hefur verið innleidd í ríkjum aðildarfélaga EDF. Fór Þuríður Harpa yfir stöðuna á Íslandi. Ekkert þeirra ríkja sem lýsti stöðu í sínu landi gat státað af því að greinin hefði verið innleidd með réttum skilningi.
Ráðstefna og stjórnarfundur EDF voru haldin 31. mars – 1. apríl 2023 í Stokkhólmi. Ráðstefnan bar heitið Réttindi fatlaðs fólks, aðgengi og gervigreind. Þrjú meginviðfangsefni ráðstefnunnar voru: Framtíð réttinda fatlaðs fólks í Evrópusambandinu (ESB) og stefna þess í tengslum við þau réttindi. Innleiðing núverandi laga og fjármögnun um aðgengi. Áhrif, tækifæri og áhætta sem nýleg þróun í gervigreindarkerfum getur haft á réttindi fatlaðs fólks. Ákall var um gervigreindarlög sem innihalda fötlun þannig að tryggt sé að fatlað fólk geti notið góðs af aðgengilegri, hagkvæmri og tiltækri gervigreind. Tæknin þarf að styðja félagslega og efnahagslega þátttöku allra og sjálfstætt líf.
Aðalfundur EDF var haldinn 22. maí 2023 í Brussel. Fjögur mættu frá ÖBÍ réttindasamtökum: Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður, Bergþór H. Þórðarson varaformaður og Sunna Elvíra Þorkelsdóttir, lögfræðingur hjá ÖBÍ og Þórný Björk Jakobsdóttir verkefnastjóri hjá ÖBÍ. Svíar eru með formennsku innan ESB og eru Spánverjar við það að taka við formennskunni af þeim. Vegna Evrópuþingsins komu Camilla Waltersson Grönvall, félagsmálaráðherra Svíþjóðar og Helena Dalli, jafnréttismálastjóri ESB á fund EDF og sögðu frá því sem ESB vinnur að og ætlar að gera fyrir fatlað fólk. Meðal annars vinnur spænska ríkisstjórnin að því að tryggja að evrópska öryrkjakortið verði samþykkt sem bindandi skjal sem virkar í öllum aðildarríkjum ESB. Það þýðir að fatlað fólk geti nýtt sér þau réttindi sem ríkjandi eru í því landi sem það heimsækir innan ESB. Einnig var mikil umræða um að bæta inn sólarlagsákvæði í lög EDF varðandi stjórnarsetu.
Degi síðar, þann 23. maí, var 5. Evrópuþing fatlaðs fólks haldið í þingsal Evrópusambandsins. Þangað mættu 735 talsmenn fatlaðs fólks í 35 hópum frá 29 löndum og ræddu um hlutverk Evrópusambandsins í að efla réttindi fatlaðs fólks. Evrópuþingið tekur undir kröfu EDF um að fatlað fólk fái að taka fullan þátt í pólitísku ferli, allt frá því að hafa kosningarétt, sem er ekki sjálfsagt í álfunni, og geta boðið sig fram, til þess að hafa aðgengisráðstafanir til að tryggja frjálsa og upplýsta atkvæðagreiðslu.
Alþjóðlegt samstarf
COSP-16, ráðstefna þeirra ríkja sem hafa undirritað samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, var haldin í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna í New York í júní 2023. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka, Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri og Eiður Welding stjórnarmaður í ÖBÍ sóttu fundinn.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti Íslands með Guðmund Inga Guðbrandsson félagsmálaráðherra í broddi fylkingar stóð fyrir hliðarviðburði á ráðstefnunni um stafrænar lausnir fyrir fatlað fólk, í samstarfi við Norræna ráðherraráðið. Fyrirlesarar ræddu þróun notendavænna og aðgengilegra stafrænna lausna hjá hinu opinbera fyrir fatlað fólk. Eiður Welding flutti ávarp á fundinum ásamt öðrum fulltrúum ungs fatlaðs fólks á Norðurlöndunum.
Vinnustaðurinn ÖBÍ
Öflugt fólk í innra og ytra starfi ÖBÍ er lykillinn að árangri bandalagsins. Áhersla er lögð á að fá til starfa hæft fólk sem tilbúið er að vinna sem hluti af liðsheild og í anda jafnræðis. ÖBÍ réttindasamtök leggja ríka áherslu á að vera vinnustaður þar sem allir njóta virðingar, jafnréttis og viðeigandi aðlögunar, að samskipti séu opin og uppbyggileg og sameiginlega vinni fjölbreyttur hópur starfsfólks að því að skapa sterka liðsheild og góðan starfsanda.
Búið er vel að starfsfólki og boðið er upp á hlutastörf og sveigjanlegan vinnutíma. Teymisfyrirkomulag sem komið var á í byrjun árs 2022 hefur gefið góða raun. Teymin vinna að stefnu ÖBÍ á tilteknum sviðum; dómsmála, málefnastarfs, ráðgjafar, umsagna og stoðþjónustu. Hver meðlimur leggur til teymisins og á þátt í að ná markmiðum þess. Teymisstjórar leiða teymin og þar með faglega vinnu skrifstofu á viðkomandi sviðum, með stefnu ÖBÍ að leiðarljósi. Teymisstjórar heyra undir framkvæmdastjóra, en hafa málefnatengt samráð við forystu samtakanna eftir því sem við á. Áhersla er lögð á góða upplýsingamiðlun og markvissa endurgjöf í gegnum starfsmannasamtöl og stöðufundi.
Skrifstofa ÖBÍ var flutt upp um hæð í Sigtúninu í byrjun árs 2023 og er starfsaðstaðan nú í opnu vinnurými á annarri hæð. Flutningarnir gengu vel og áhersla lögð á að nýja vinnurýmið væri aðgengilegt og héldi vel utan um hópinn. Fundarherbergjum og næðisrýmum var komið upp og hefur aðstaðan verið vel nýtt. Starfsemin hefur gengið vel á nýjum stað. Að loknum flutningum var fyrra skrifstofurými leigt út til aðildarfélaga og annarra í réttindabaráttu. Leigjendum gekk vel að koma sér fyrir og hafa regluleg fræðsluerindi verið haldin fimmtudagsmorgna fyrir öll þau sem starfa í húsinu í því skyni að auka samskipti og efla tengsl.
Á tímabilinu störfuðu að jafnaði 22 á skrifstofu ÖBÍ í 15,76 stöðugildum. Eftirtaldir starfsmenn störfuðu á skrifstofu bandalagsins í ágúst 2023:
Alma Ýr Ingólfsdóttir, Andrea Valgeirsdóttir, Ágústa Dröfn Guðmundsdóttir, Bára Brynjólfsdóttir, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Guðjón Sigurðsson, Jóhanna Gunnarsdóttir, Kjartan Þór Ingason, Kristín Margrét Bjarnadóttir, Margrét Ögn Rafnsdóttir, Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, Stefán Vilbergsson, Sunna Elvira Þorkelsdóttir, Þorbera Fjölnisdóttir, Þórgnýr Einar Albertsson og Þórný Björk Jakobsdóttir. Þuríður Harpa Sigurðardóttir er formaður ÖBÍ, Bergþór Heimir Þórðarson varaformaður og Eva Þengilsdóttir framkvæmdastjóri.
Fjármál
ÖBÍ réttindasamtök eru vel stödd fjárhagslega, lausafjárstaðan góð og varasjóður traustur. Rekstrarafkoma ársins var jákvæð um 145,3 milljónir. Bókfært verð eigna er kr. 1.221 milljónir í árslok 2022. Eigið fé ÖBÍ nam kr. 1.087 milljónum í lok ársins. Á árinu 2022 drógust tekjur ÖBÍ lítillega saman. Þar sem tekjur ÖBÍ koma nær alfarið frá Íslenskri getspá er erfitt að áætla þær fyrirfram og því er farið varlega í fjárhagsáætlanagerð. Viðbótarframlögum frá Íslenskri getspá var úthlutað að stærstum hluta til aðildarfélaga og fyrirtækja sem ÖBÍ á aðild að.
Gengið var frá kaupum ÖBÍ á 25% hlut UMFÍ í Sigtúni 42 þann 25. febrúar 2022 og eiga samtökin nú 75% í fasteigninni. Ráðist var í breytingar og gagngerar endurbætur á húsnæðinu með aðgengi fyrir öll að leiðarljósi. Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og er húsnæðið nú sniðið að starfseminni, en við kaupin opnaðist dýrmætt tækifæri til að efla enn frekar hagsmunagæslu og réttindabaráttu fatlaðs fólks.
Skýrslur málefnahópa
Aðgengishópur
Hópurinn hefur haldið mánaðarlega fundi, alls 10 talsins. Fundirnir hafa verið afar góðir og mörg mál verið sett á oddinn. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með haghöfum, ályktanir verið samdar, umsagnir verið gerðar við frumvörp og reglugerðir, greinaskrif og minnisblöð samin um stöðu mála.
Aðgengishópurinn hefur haldið tvær málstofur fyrir arkitekta í samstarfi við Arkitektafélagið og undirfélög þess, Byggingafræðingafélag Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Innan þess samstarfs er verið að undirbúa útgáfu veglegs vegvísis um algilda hönnun í mannvirkjagerð.
Leiðbeiningar um notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða voru gefnar út í júní og verður dreift til handhafa af Sýslumannsembættinu.
Í góðu samráði við starfsmann hefur verið unnið í verkefnum sem tengjast landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Góðu aðgengi í ferðaþjónustu. Réttindum flugfarþega og svona mætti lengi telja.
Í samvinnu við Guðjón Sigurðsson verkefnastjóra hjá ÖBÍ er fylgst náið með ráðningu aðgengisfulltrúa til sveitarfélaga. En mörg stærri sveitarfélög, þ.m.t. Reykjavík hafa ekki enn ráðið sér aðgengisfulltrúa. Aðgengiseftirlit um allt land þarf að komast á, enda hefur það legið fyrir lengi að eftirfylgni á reglum, sérstaklega um byggingar er ekki fylgt nógu vel eftir.
Einna stærsta málið sem hópurinn hefur verið með er að fylgja eftir ákvæði umferðarlaga um að þeir sem hafa p-merki (stæðiskort) þurfi ekki að greiða fyrir bílastæði, hvort sem er í bílastæðahúsum, þjóðgörðum eða annars staðar þar sem rukkað er gjald fyrir bílastæði með myndavélakerfum. Byrjað var á að láta reyna á þetta ákvæði við forsvarsmenn Bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar, sem neituðu beiðninni um hæl. Var því leitað til Innviðaráðuneytis, umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis auk umboðsmanns Alþingis eftir liðsinni. Ekki má gleyma þeirri aðstoð sem Daníel Isebarn lögmaður ÖBÍ veitti formanni og verkefnastjóra. Var því meðal annars haldið fram að bílastæðahús Reykjavíkurborgar væru rekin á einkaréttarlegum grunni og því skiptu umferðarlög borgina engu máli. Ekki var fallist á þau sjónarmið af hálfu Innviðaráðuneytisins enda um skýrt ákvæði í umferðarlögum sem ætlað er til þess að greiða fyrir umferð fatlaðs fólks.
Fundur með ráðherra 21. júní 2023 var gagnlegur, en sá málafjöldi sem liggur á borði ráðherra var og er nokkur og afar brýnt að öll þau erindi séu tekin fyrir og afgreidd.
Textun í sjónvarpi. RÚV er eini aðilinn sem textar beinar útsendingar. Mikil brotalöm er á því að aðrir aðilar á sjónvarpsmarkaði geri slíkt hið sama. Einnig má í þessu sambandi horfa á streymisveitur.
Stafrænt aðgengi er enn annað verkefni sem huga þarf að en Ísland hefur ekki innleitt tilskipun ESB um aðgengi að opinberum heimasíðum og öppum.
- Formaður, Bergur Þorri Benjamínsson
- Starfsmaður, Stefán Vilbergsson
Húsnæðishópur
Hópurinn hélt 12 fundi á tímabilinu september 2022 – júní 2023 og stóð fyrir einum viðburði, sendi frá sér áskorun til ríkisstjórnarinnar, auk þess að vinna að upplýsingasöfnun og skýrslu um húsnæðisstöðu fatlaðs fólks. Formaður hópsins fór í eitt útvarpsviðtal og tók hópurinn þátt í vinnu við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).
Málþingið „Ungt fólk á endastöð“ var haldið í mars 2022 og vakti töluverða athygli á málefnum fólks yngra en 67 ára sem búsett er á hjúkrunarheimilum. Í kjölfarið ákvað Heilbrigðisráðuneytið að stofna starfshóp um aðgerðir og lausnir fyrir ungt fólk á hjúkrunarheimilum. Bergþóra Bergsdóttir var tilnefnd af ÖBÍ en hún var einnig ein þeirra sem hélt erindi á málþinginu. Gert er er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum sínum til heilbrigðisráðherra fyrir lok árs 2023.
Árið 2020 ákvað húsnæðishópurinn að fara í það verkefni að gera könnun til að kortleggja stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Í september 2022 fékk hópurinn kynningu á helstu niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar um húsnæðisstöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Fatlað fólk er mun líklegra til að vera á leigumarkaði og borga stærri hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað en aðrir á Íslandi. Könnunin leiðir í ljós að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri. Það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaði og er líklegra til þess að lenda í vanskilum.
Í nóvember 2022 hélt hópurinn kynningu á niðurstöðum könnunar um stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði og vakti kynningin athygli fjölmiðla. Kynningin fór fram í Öskju, í Háskóla Íslands og var fulltrúum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Innviðaráðuneyti, Félagsbústöðum og Tryggingastofnun ríkisins boðið að taka þátt í umræðum. Í kjölfarið ákvað hópurinn að gera heildstæða skýrslu um stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði. Markmið skýrslunnar er að skila hnitmiðuðu riti sem hægt er að gefa út og dreifa til stofnana. Formaður og starfsmaður hópsins vinna að gerð skýrslunnar og áætlun er um að halda málþing í kjölfar útgáfunnar.
Í júní 2023 sendi húsnæðishópurinn frá sér ákall til ríkisstjórnarinnar um að bregðast við ófremdarástandi í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Krafist var betra öryggis fólks, sem er meðskammtíma leigusamninga, gagnvart hækkun umfram vísitölu og gera það óheimilt að hækka leiguna umfram hana. Ákallið vakti athygli fjölmiðla, og var fjallað um það bæði á vefmiðlum og í hádegisfréttum í útvarpi.
Vinna við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stendur yfir og hafa vinnuhópar Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis skilað af sér fyrstu tillögum. Húsnæðishópurinn tók þátt í þeirri vinnu er sneri að húsnæðismálum fatlaðs fólks, greindi tillögur vinnuhópsins og kom með ábendingar.
Þá vann hópurinn að ýmiskonar greiningarvinnu um samspil húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga. Hópurinn fór yfir neikvæð áhrif núverandi kerfis á stöðu fatlaðs fólks og leitaði lausna. Í haust verður þráðurinn tekinn upp að nýju, flestum þessara verkefna framhaldið og nýjum bætt við.
- Formaður, María Pétursdóttir
- Starfsmaður, Kjartan Þór Ingason
Atvinnu- og menntahópur
Starfsemi atvinnu- og menntahóps var öflug veturinn 2022-2023. Hópurinn hélt fundi á tveggja vikna fresti og voru fundirnir um það bil 15 talsins. Boðið var upp á bæði stað- og fjarfundamöguleika.
Hópurinn hélt málþing á Nauthóli, 28. febrúar undir yfirskriftinni „Ryðjum menntabrautina – málþing um mikilvægi stuðningsúrræða“. Málþingið var vel sótt og voru gestir á staðnum um það bil 50 auk þess sem margir fylgdust með streymi frá fundinum.
Formaður hópsins skrifaði þrjár greinar um atvinnu- og menntamál í samvinnu við hópinn sem birtust í „Skoðun“ á visir.is.
Mikil vinna fór fram hjá hópnum í það að fara yfir stöðu menntamála og aðgengi að stuðningsúrræðum og fengum við marga góða gesti á fundi hópsins til að ræða þau mál.
Hópurinn skoðaði vefsíðu þar sem nemendur geta kynnt sér upplýsingar um aðgengismál og stuðningsúrræði í háskólum og bað um endurskoðun á viðkomandi vef. Landssamband stúdenta tók að sér að vinna með ÖBÍ að því að uppfæra upplýsingarnar á síðunni, enda hefur margt breyst í aðgengismálum hjá háskólunum síðan vefsíðan fór í loftið árið 2020.
Komið var á samstarfi við Erasmus um inngildi í verkefnum sem tengjast fræðslu og ungmennamálum. Hópurinn tók jafnframt þátt í kynningu á bæklingi um inngildingu fatlaðs fólks í evrópskum æskulýðsverkefnum. Þá er einnig hafið samstarfsverkefni með Virk sem miðar að því að auðvelda ungu fólki með háskólamenntun að fá starf við hæfi.
Mikil framþróun hefur verið í málaflokknum bæði hvað varðar mennta- og atvinnumál síðustu misseri og er það skoðun hópsins að margt hefur áunnist. Aðgengi í skólum er betra og auðsóttara virðist vera að sækja þau úrræði sem eru í boði. Miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og skilningur á því að fatlað fólk er með margvíslegan bakgrunn og getu hefur aukist. Mikilvægt er að halda áfram öflugu starfi í þessum málaflokki.
- Formaður, Hrönn Stefánsdóttir
- Starfsmaður, Sunna Elvira Þorkelsdóttir
Heilbrigðishópur
Málefnahópurinn hélt 9 fundi á tímabilinu auk nokkurra vinnufunda, skrifaði fjölmargar greinar sem birtar voru í fjölmiðlum, umsagnir við þingsályktunartillögur, stefnur, frumvörp og reglugerðir. Hópurinn stóð fyrir tveimur viðburðum.
Málþingið „Hef ég efni á að fara til læknis? Komugjöld í heilbrigðisþjónustu eru falin skattheimta,“ var haldið 23. nóvember 2022. Framsöguerindi og pallborðsumræða fór fram á Grand Hóteli Reykjavík, en viðburðinum var streymt samhliða. Þátttaka var með ágætum. Markmið málþingsins var að þrýsta á lausnir vegna aukagjalda í heilbrigðisþjónustu og samningsleysi á milli hins opinbera og sérgreinalækna og sjúkraþjálfara. Af umræðum að dæma var einhugur um að núverandi staða væri með öllu óásættanleg, en mismunandi hugmyndir komu fram um hvernig leysa ætti málin. Málþingið vakti nokkra athygli og leiddi af sér fjölmiðlaumræðu fram eftir vetri.
Undir lok maí 2023 voru kynntar helstu niðurstöður úr stórri rannsókn um lífskjör og heilbrigðisþjónusta á Íslandi, með sérstakri áherslu á stöðu öryrkja. Fyrstu niðurstöður voru sláandi og fullyrða má að Íslendingar búi við tvöfalt heilbrigðiskerfi. Birtingunni var fylgt eftir í fjölmiðlum, m.a. í Kastljósviðtali. Niðurstöðunum verður fylgt frekar eftir með haustinu, enda könnunin yfirgripsmikil og að mörgu að huga varðandi innihaldið.
Fulltrúar hópsins ásamt formanni ÖBÍ áttu tvo fundi með ráðherra heilbrigðismála. Á fundunum var lögð áhersla á fyrrnefnd komugjöld og samninga við sérfræðilækna, hjálpartæki og stöðu á endurskoðun á löggjöf þar að lútandi, lyfjaöryggi og greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu. Lítið virtist þokast varðandi samninga við sérgreinalækna, þar til tilkynnt var undir lok júní 2023, öllum að óvörum, að skrifað hefði verið undir samning við Læknafélag Reykjavíkur. Nú er bara spurning hvort samningar við sjúkraþjálfara séu á næsta leyti. Á miðju vori náðist einnig sértækur fundur með starfsmönnum ráðuneytisins um fyrrnefnda endurskoðun á lögum um hjálpartæki. Þar kom fram að undirbúningsvinna við laga- og reglugerðarbreytingar er loks hafin. Verkið mun taka sinn tíma, en mögulega sjást fyrstu tillögur um breytingar vorið 2024.
Haldnir eru reglulegir samráðsfundir með Sjúkratryggingum Íslands, m.a. með nýskipuðum forstjóra á vordögum. Málefnahópurinn fylgist með framgangi mála varðandi samninga um nauðsynlegar tannlækningar, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Fulltrúar hópsins hafa tekið þátt í fundum heilbrigðisráðuneytisins um áætlanir í geðheilbrigðismálum og leggur hópurinn mikla áherslu á að lækka þök og upphæð fyrstu greiðslu í greiðsluþátttökukerfum auk þess að fá sálfræðiþjónustu inn undir þak.
- Formaður, Vilhjálmur Hjálmarsson
- Starfsmaður, Bára Brynjólfsdóttir
Kjarahópur
Frá því í september 2022 hefur hópurinn haldið 17 fundi og staðið fyrir einu málþingi.
Tvö stærstu verkefni kjarahópsins á tímabilinu voru annars vegar vinna að tillögum að breyttu framfærslukerfi almannatrygginga fyrir fatlað fólk og hins vegar skipulagning málþings sem haldið var 22. mars 2023.
Lokið var við gerð tillagna að breyttu framfærslukerfi í desember 2022, en tillögurnar byggja að mestu á hugmyndum frá fyrrum formanni hópsins. Tillögur voru sendar til félags- og vinnumarkaðsráðherra til skoðunar.
Formaður og starfsmaður kjarahópsins voru fulltrúar ÖBÍ í vinnuhópi 11 fyrir landsáætlun um innleiðingu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Vinnuhópur 11 tók fyrir 28. grein samningsins um viðunandi lífskjör og félagslega vernd. Tillögur kjarahópsins eru í viðhengi með tillögum vinnuhóps 11, en tillögur allra vinnuhópanna verða birtar í samráðsgátt stjórnvalda sumarið 2023.
Kjarahópurinn stóð fyrir málþingi 22. mars 2023 undir yfirskriftinni „Satt og logið um öryrkja.“ Meðlimir hópsins voru með tvö erindi á málþinginu. Annað erindið tók fyrir kjör öryrkja og hitt fordóma. Bæði erindin voru unnin í hópastarfi og því komu allir meðlimir hópsins að gerð erindanna fyrir málþingið. Auk þess fékk hópurinn Gallup til að leggja fram nokkrar spurningar um viðhorf almennings til kjara öryrkja og voru niðurstöðurnar kynntar á málþinginu. Málþingið tókst með eindæmum vel og var vel sótt.
Hópurinn tók þátt í undirbúningi fyrir 1. maí gönguna. Yfirskrift forgönguborða ÖBÍ árið 2023 var „Réttlæti og jöfnuður“ auk þess sem nokkrir tugir kröfuspjalda voru á lofti með mismunandi slagorðum. Mjög góð mæting var í hópi þeirra sem gengu fyrir ÖBÍ og mikil ánægja með hvernig til tókst.
Kjarahópurinn í samvinnu við Pepp Ísland (samtök fólks í fátækt) vakti athygli á alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt, 17. október 2022. Meðlimir kjarahópsins völdu slagorð fyrir kort og plaköt, sem voru prentuð til að vekja athygli á deginum. Fulltrúar frá Pepp Ísland sáu um að deila kortunum og plakötunum á völdum stöðum. Auk þess fóru fulltrúar kjarahópsins og Pepp Ísland í útvarpsviðtal í tilefni dagsins.
Meðlimir í hópnum hafa vakið athygli á málefnum hans með greinaskrifum í fjölmiðlum og á netmiðlum, auk þess að taka virkan þátt í allri umræðu um málefnin í útvarpsviðtölum.
Hópurinn ræddi ýmis frumvörp tengd kjaramálum sem voru til umsagnar á Alþingi, þar á meðal fjárlagafrumvarp 2023 og fjármálaáætlun fyrir árið 2024-2028.
Hópurinn vann nokkrar fyrirspurnir um kjaramál öryrkja og fékk þingmenn til að leggja þær fyrir á Alþingi. Svör hafa ekki borist við öllum fyrirspurnum. Haustið 2022 sendi kjarahópurinn sameiginlega ályktun með atvinnu- og menntamálahópi um afnám tekjuskerðinga vegna atvinnutekna. Kjarahópurinn fékk kynningu á könnun húsnæðishóps ÖBÍ á húsnæðismálum fatlaðs fólks og hóf undirbúning fyrir sameiginlegan viðburð með atvinnu- og menntahópi ÖBÍ.
- Formaður, Atli Þór Þorvaldsson
- Starfsmaður, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
Barnamálahópur
Hópurinn hélt 13 fundi frá 1. september 2022 – 8. júní 2023.
Barnamálahópurinn stóð fyrir hugmyndafundi ungs fólks, „Okkar líf – okkar sýn“, sem haldinn var 5. nóvember 2022. Erfiðlega gekk að safna saman þátttakendum sem að endingu urðu 12 talsins, ásamt 4 starfsmönnum ÖBÍ.
Hópurinn hélt málþing sem bar heitið „Eru íþróttir fyrir alla“ 26. apríl 2023 og var þátttaka mjög góð.
Hópurinn gaf út skýrslu sem unnin var út frá hugmyndafundi ungs fólks og afhenti ráðherra á fundi með honum ásamt 3 ungmennum sem tóku þátt í hugmyndafundinum.
Elín Hoe Hinriksdóttir, ADHD samtökunum var kosin formaður hópsins 2021. Í janúar 2023 tók Sif Hauksdóttir, Astma- og ofnæmissamtökunum við sem starfandi formaður.
- Formaður, Sif Hauksdóttir
- Starfsmaður, Andrea Valgeirsdóttir
Skýrslur hreyfinga
Kvennahreyfing ÖBÍ
Starf kvennahreyfingarinnar var í lágmarki síðastliðið starfsár sökum breytinga og annarra aðstæðna.
Haustið 2022 bauð ÖBÍ og Kvennahreyfingin í samstarfi við KVAN upp á námskeið fyrir konur innan aðildarfélaga ÖBÍ.
Á námskeiðinu fengu þátttakendur verkfæri til að auka sjálfstraust, læra markvissa markmiðasetningu, bæta leiðtogafærni sína og valdeflingu. Alls voru um 20 konur frá aðildarfélögum ÖBÍ sem tóku þátt í þessu metnaðarfulla námskeiði.
Kvennahreyfingin hefur að markmiði að raddir fatlaðra kvenna heyrist og hefur m.a. tekið þátt í starfi kvenna- og jafnréttissamtaka um réttarstöðu brotaþola kynbundins og kynferðislegs ofbeldis.
Kvennahreyfing ÖBÍ heldur úti Facebooksíðu þar sem vakin er athygli á ýmsu því er snertir líf fatlaðra og langveikra kvenna og fjölskyldna þeirra.
- Talskona, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir
- Starfsmaður, Kristín M. Bjarnadóttir
UngÖBÍ
Nýtt fyrirkomulag UngÖBÍ hefur verið í þróun og undirbúningi þetta starfsárið. Markmiðið er að styrkja rödd ungs fólks innan ÖBÍ og þar með baráttu ÖBÍ í hagsmunamálum þess. Sem dæmi um verkefni sem UngÖBÍ mun sinna er að leggja fram tillögur í hagsmunamálum hópsins, vinna að vitundarvakningu og því að auka sýnileika ungs fatlaðs fólks í samfélaginu. Hópurinn mun áfram njóta stuðnings tengiliðs og skrifstofu í sínum verkefnum.
- Tengiliður, Sunna Elvira Þorkelsdóttir
Hvatningarverðlaun
Hvatningarverðlaun ÖBÍ eru veitt á alþjóðadegi fatlaðs fólks 3. desember ár hvert. Markmiðið með verðlaununum er að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu og skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk.
Verðlaunin eru veitt þeim sem hafa með verkum sínum stuðlað að einu samfélagi fyrir alla og endurspegla nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks.
Kallað er eftir tilnefningum frá almenningi og er opið fyrir tilnefningar allt árið fram til 15. október ár hvert.
Stjórn Hvatningarverðlauna velur verðlaunahafa úr hópi þeirra sem hafa fengið tilnefningu frá almenningi, einnig getur stjórnin veitt sérstakar viðurkenningar ef hún telur ástæðu til.
Alls bárust 22 tilnefningar til verðlaunanna fyrir 19 verkefni.
Handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2022 er Ferðamálastofa fyrir verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“
Sérstaka viðurkenningu fengu eftirfarandi verkefni:
- Arna Sigríður Albertsdóttir fyrir vitundarvakning, hreyfing og íþróttaiðkun fatlaðs fólks
- Ferðamálastofa fyrir verkefnið „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“
- Harpa Cilia Ingólfsdóttir fyrir framlag til aðgengismála fatlaðs fólks
- Helga Eysteinsdóttir fyrir náms- og starfsendurhæfing fatlaðs fólks
- Ingi Þór Hafsteinsson fyrir frumkvæði að veiðiferðum fatlaðra barna
- Piotr Loj fyrir þjálfun og upplifun fyrir fatlað fólk í gegnum sýndarveruleika
- Rannveig Traustadóttir fyrir framlag til réttindabaráttu fatlaðs fólks
- Sylvía Erla Melsted fyrir vitundarvakning, lesblinda
Verðlaunin voru veitt í 16. sinn þann 3. desember 2022 á Grand hóteli. Eliza Jean Reid forsetafrú afhenti verðlaunin.
Stjórn Hvatningarverðlauna ÖBÍ 2022
- Alvar Óskarsson
- Fríða Rún Þórðardóttir, formaður
- Helga Magnúsdóttir
- Karl Friðriksson
- Líney Rut Halldórsdóttir
- Vignir Ljósálfur Jónsson
- Þórir Ágúst Þorvarðarson
Skýrslur fyrirtækja
Brynja leigufélag ses.
Stofnað 1965 – Starfsmenn 16
Brynja leigufélag er sjálfseignarstofnun og er tilgangur félagsins að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja. Húsnæði þetta leitast félagið við að leigja gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er. Átján starfa hjá félaginu. Formaður er Halldór Sævar Guðbergsson og framkvæmdastjóri Guðbrandur Sigurðsson.
Eignasafnið
Um áramótin 2022-2023 taldi eignasafn Brynju 900 eignir. Eignasafnið byggist upp á nokkrum eignaflokkum. Íbúðaúrræðin að Hátúni 10 og Sléttuvegi 7 og 9 telja samtals 248 íbúðir, auk atvinnuhúsnæðis sem er leigt fyrirtækjum og skólum sem sinna þjónustu við öryrkja. Mismunurinn eru 646 íbúðir og íbúðaúrræði þar sem félagsleg dreifing er höfð að leiðarljósi. Meðalleiga á íbúðum Brynju er með því lægsta sem gerist og var 124.526 kr. á mánuði að meðaltali í byrjun þessa árs.
Traustur rekstur
Traustur rekstur á undanförnum árum og sterkur efnahagur félagsins var grundvöllur þess að hægt var að móta metnaðarfulla stækkunaráætlun á eignasafni félagsins til fimm ára. Markmiðið er að bæta við 320 íbúðum á tímabilinu 2022 til 2026. Við kaup á þessum íbúðum er lögð áhersla á að nýta stofnframlög á vegum ríkis og sveitarfélaga eins og kostur er.
Á árinu 2022 bættust 35 nýjar leigueignir við safnið og á árinu 2023 er gert ráð fyrir að á milli 85-90 nýjar íbúðir bætist við útleigusafnið og svipaður fjöldi á næsta ári 2024.
Unnið á biðlistum
Biðlistar hjá félaginu voru opnaðir þann 1. desember 2022 og eru samtals um 160 einstaklingar á biðlista eftir nýjum íbúðum og um 50 leigjendur á biðlista eftir milliflutning í lok maí 2023. Vel hefur gengið að vinna niður biðlistana á árinu 2023. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs voru gerðir 74 nýir leigusamningar við umsækjendur á biðlista í samanburði við 47 nýja leigusamninga árið 2021 og 52 allt árið 2022.
Heimasíða Brynju er brynjaleigufelag.is þar sem hægt er að finna upplýsingar um starfsemi félagsins og leigu á íbúðum. Sótt er um að komast á biðlista í gegnum mínar síður á heimasíðu félagsins.
Þrjú yfirmarkmið
Brynja hefur sett sér þrjú yfirmarkmið í starfi sínu sem eru 1) Fjölgun íbúða fyrir öryrkja, 2) Tryggja félagslega dreifingu, og 3) Viðhalda hóflegu leiguverði. Leiðarljós félagsins eru: Virðing – Samvinna – Húsnæðisöryggi. Starfsemi og uppbygging félagsins tekur mið af öllum þessum þáttum.
Fulltrúaráð
Stjórn ÖBÍ skipar 19 fulltrúa af 25 manna fulltrúaráði Brynju og er formaður ÖBÍ formaður fulltrúaráðsins. Tveir fulltrúaráðsfundir hafa verið haldnir frá því að ný skipulagsskrá tók gildi í júní 2022.
Hátún 10c • 105 Reykjavík • sími 570 7800 brynjahus@brynjahus.is • www.brynjahus.is Formaður: Halldór Sævar Guðbergsson • Framkvæmdastjóri: Guðbrandur Sigurðsson
Fjölmennt
Stofnað 2002 – Starfsmenn 22
Hlutverk Fjölmenntar er að bjóða símenntun og ráðgjöf til fólks, 20 ára og eldra, sem þarfnast sérstaks stuðnings í námi. Er það einkum fólk með þroskahömlun, fólk á einhverfurófi og fólk með geðrænar áskoranir. Helsta starfsemi Fjölmenntar er námskeiðahald ásamt ráðgjöf til fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra.
Fjöldi starfsfólks í föstu starfi hjá Fjölmennt í Reykjavík er 22 í 17,5 stöðugildum. Einnig eru starfandi nokkrir verktakar á hverri önn. Fjölmennt gerir einnig samstarfssamninga við allar símenntunarstöðvar á landsbyggðinni.
Hundruð námskeiða á landsvísu
Árið 2022 voru haldin samtals 649 námskeið á landsvísu. Fjöldi þátttakenda á námskeiðum voru 1.678 manns. Námskeiðin eru mjög fjölbreytt og skiptast í 8 námskeiðsflokka.
Á haustönn var hægt að sækja námskeið á Matar- og framreiðslubraut í samstarfi við Vinnumálastofnun.
Starfsemi ráðgjafardeildar Fjölmenntar var með hefðbundnum hætti; kynningar eru fyrir ýmsa hópa svo sem nemendur á sérnámsbrautum framhaldsskóla, fólk sem leitar eftir ráðgjöf um möguleika sína á námi og starfsfólk í þjónustu við fatlað fólk. Einnig er reglulega gefið út fréttabréf með fræðsluefni og ýmsum öðrum fróðleik.
Samvinna við FA og Vinnumálastofnun
Á árinu hófst samvinna við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og Vinnumálastofnun um hæfnigreiningar starfa og aðgang markhóps Fjölmenntar að námsleiðum FA. Mun það stórauka möguleika á atvinnutengdu námi.
Fjölmennt á fulltrúa í nefnd á vegum Félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Þar er áhersla á inngildingu og að auka aðgengi að háskólanámi og atvinnutengdu námi.
20 ára afmæli
Fjölmennt átti 20 ára afmæli á árinu og var ýmislegt gert til að fagna því. Haldin var ráðstefnan Nám er fyrir okkur öll, sem var vel sótt, kraftmikil og árangursrík. Að venju voru haldnir tónleikar og árshátíð og var meira lagt í atburðina í tilefni afmælisárs.
Vínlandsleið 14 • 113 Reykjavík • sími 530 1300 fjolmennt@fjolmennt.is • www.fjolmennt.is Formaður: Gerður Aagot Árnadóttir • Forstöðumaður: Helga Gísladóttir
Hringsjá
Stofnuð 1987
Hringsjá náms- og starfsendurhæfing er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla. Hringsjá hentar einnig þeim sem eru með litla grunnmenntun eða hafa átt erfitt með að tileinka sér hefðbundið nám. Markmiðið með náminu og endurhæfingunni er að einstaklingar fari út á vinnumarkað og/eða í áframhaldandi nám eftir endurhæfingu hjá Hringsjá.
Endurhæfingin felst í einstaklingsmiðuðu námi í formi styttri námskeiða, stuðningi við nám í öðrum skólum, matsbrautar sem er stutt námsbraut eða einingabæru þriggja anna námi með sérhæfðri ráðgjöf og stuðningi.
Aukið námsframboð
Stækkun var á leiguhúsnæði Hringsjár í Hátúni 10, í byrjun árs 2023, sem gerði það kleift að auka námsframboðið enn frekar. Matsbraut var efld og endurskipulögð. Fyrsti hópurinn fór af stað í september 2022 og hefur aðsókn aukist jafnt og þétt síðan. Í febrúar 2023 fór af stað matsbraut fyrir fólk af erlendum uppruna sem þarf starfsendurhæfingu. Þverfagleg stoðþjónusta Hringsjár var efld með ráðningu iðjuþjálfa í fullt starf í desember 2022.
Gerðir voru samstarfssamningar um mat á námi Hringsjár til framhaldsskólaeininga við fjóra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu þ.e. Borgarholtsskóla, Fjölbrautaskólann við Ármúla, Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Tækniskólann.
Hringsjá er með þjónustusamning við Vinnumálastofnun og VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Kaupendur á árinu voru Vinnumálastofnun, VIRK starfsendurhæfingarsjóður, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, önnur sveitarfélög og aðrir samstarfsaðilar.
ÖBÍ réttindasamtök stóðu eins og endranær við bakið á starfseminni og veittu dyggan stuðning.
Áfram verður unnið að því að tryggja fjárhagslegan sem og faglegan grunn Hringsjár ásamt því að efla þjónustu, árangur og gæði starfseminnar. Hringsjá mun áfram hafa það að markmiði að bjóða fjölbreytta og þverfaglega starfsendurhæfingu.
Hátún 10d • 105 Reykjavík • sími 510 9380 hringsja@hringsja.is • www.hringsja.is Stjórnarformaður: Magnús Ingimundarson • Forstöðumaður: Helga Eysteinsdóttir
Íslensk getspá
Stofnuð 1986 – Starfsmenn 22
Eigendur Íslenskrar getspár eru stærstu og öflugustu fjöldahreyfingar íslensks samfélags, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Ungmennafélag Íslands. Frá stofnun Getspár 1986 hafa eigendur fengið rétt tæplega 50 milljarða króna, uppreiknað miðað við vísitölu, í arðgreiðslur frá Getspá. Þetta eru fjármunir sem hafa mikla þýðingu fyrir rekstur og uppbyggingu innviða og almenna starfsemi eigenda Getspár.
Besta ár frá upphafi
Árið 2022 var besta rekstrarár Íslenskrar getspár frá upphafi. Tekjuafgangur ársins nam rúmum 2,7 milljörðum króna. Starfsemi og verkefni ársins voru fjölbreytt og viðamikil. Gerðar voru breytingar á leikjaformúlu Lottó úr 5/40 í 5/42 og breytingar voru gerðar á EuroJackpotleiknum þannig að byrjað var að draga tvisvar í viku, á þriðjudögum og föstudögum, auk þess sem stjörnutölum var fjölgað um tvær og er því formúla leiksins 5/50 plús 2/12. Stjórnin er ánægð með þá ákvörðun sem tekin var 2013 um auknar fjárfestingar í tækninýjungum. Þær fjárfestingar hafa svo sannarlega skilað sér en áfram skal haldið í þróun stafrænnar tækni. Með nýjustu tækni og sterku markaðsstarfi fer tæplega 70% af sölu fram með ýmiskonar netleiðum. Hér er átt við internetið, Appið og áskrift í gegnum netið.
Áfram störfum við í erfiðu rekstrarumhverfi vegna ólöglegrar starfsemi erlendra spilafyrirtækja hér á landi. Ekki náðist samstaða um næstu skref á íslenskum happdrættismarkaði í starfshópi sem skipaður var af þáverandi dómsmálaráðherra 2021 og koma átti með tillögur að réttarbótum í málaflokknum. Fram komu þrjú álit frá starfshópnum, eitt frá formanni starfshópsins, eitt frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn og svo loks fjölmennasta álitið frá fulltrúum allra happdrættisfyrirtækja á íslenskum happdrættismarkaði.
Öflugt upplýsingastreymi
Stjórn og starfsfólk Getspár hefur staðið þétt saman í rekstri og áherslum félaganna undanfarin ár og svo verður áfram. Stjórn fundar í hverjum mánuði og stjórnarmenn gera sér far um að fylgjast vel með rekstri og stjórnun fyrirtækisins. Áhersla er á öflugt upplýsingastreymi til stjórnarmanna til að tryggja góða stjórnarhætti. Fulltrúar ÖBÍ í stjórn Íslenskrar getspár eru Þóra Þórarinsdóttir og Bergur Þorri Benjamínsson. Framkvæmdastjóri Getspár er Stefán Konráðsson.
Stöndum saman um að verja hagsmuni öryrkja, stöndum saman um áframhaldandi þróun og nýjungar og gleymum aldrei þeim góða málstað sem við viljum verja í þágu íþrótta, öryrkja og ungmenna.
Engjavegur 6 • 104 Reykjavík • sími 580 2500 getspa@getspa.is • www.lotto.is Stjórnarformaður: Lárus L. Blöndal • Framkvæmdastjóri: Stefán Konráðsson
TMF tölvumiðstöð
Stofnuð 1987
Aðildarfélög TMF Tölvumiðstöðvar eru Blindrafélagið, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (SLF) og ÖBÍ réttindasamtök. Félögin eiga fulltrúa í stjórn TMF.
Ráðgjöf, námskeið og fræðsla
Allir geta leitað til miðstöðvarinnar óháð skerðingu og aldri. Veitt er einstaklingsmiðuð ráðgjöf, fræðsla til minni hópa og haldin námskeið. Ráðgjöf er öllum að kostnaðarlausu.
Námskeið eru mikilvægur þáttur í starfsemi TMF Tölvumiðstöðvar. TMF hannar námskeið og fær fyrirspurnir um að sérsníða námskeið. Námskeið eru haldin í sal að Háaleitisbraut 13 og í skólum og stofnunum um land allt. Námskeiðin eru ætluð fagfólki, foreldrum, fólki með fötlun og öðrum áhugasömum.
Hægt er að óska eftir námskeiðum sniðnum að þörfum einstakra hópa og panta námskeið út á land.
Nýtt námskeið var hannað sem fékk nafnið Brot af því besta, sem er úrval valins efnis úr vinsælustu námskeiðum TMF. Námskeiðið varð mjög vinsælt og voru alls haldin átta Brot af því besta námskeið.
Í heild voru haldin þrettán námskeið með fimm námskeiðstitlum á tímabilinu maí 2022 – maí 2023. Farið var með námskeið út í skóla og námskeið haldin á TMF Tölvumiðstöð. Einnig voru haldin tvö fjarnámskeið.
Fræðslumyndbönd
Gerð hafa verið nokkur stutt fræðslumyndbönd sem sett voru upp á síðu TMF undir Fræðslumyndbönd. Alls eru myndböndin orðin tíu talsins. Starfsmaður TMF leitast við að svara öllum þeim beiðnum um ráðgjöf, fræðslu og kennslu sem berast.
Háaleitisbraut 13 • 108 Reykjavík • sími 562 9494 sigrun@tmf.is • www.tmf.is Stjórnarformaður: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson • Framkvæmdastjóri: Sigrún Jóhannsdóttir
Örtækni
Stofnað 1976 – Starfsmenn 26 í 16 stöðugildum
Markmið starfsemi Örtækni er að veita fólki með skerta starfsgetu þjálfun til starfa á almennum vinnumarkaði eða framtíðarstarfa hjá Örtækni. Starfsemi Örtækni skiptist í tvær meginstoðir, annars vegar rafeindaverkstæði og hins vegar ræstingu. Fjöldi starfa skiptist nokkuð jafnt milli deilda. Á rafeindaverkstæði starfar fólk með langa reynslu, þekkingu og menntun á flestum sviðum er viðkemur tækni- og rafeindavinnu. Helstu verkefni er samsetning á flóknum rafeindabúnaði sem og sérsmíði og samsetning á ýmsum gerðum kapla. Viðskiptavinir Örtækni eru mörg af framsæknustu tækni- og iðnfyrirtækjum á Íslandi en einn elsti og helsti samstarfsaðili Örtækni er Vaki fiskeldiskerfi.
Góð verkefnastaða
Stór hluti starfsemi rafeindaverkstæðis er samsetning á búnaði fyrir Vaka sem seldur er um allan heim og mikilvægt er að vandað sé til verka. Verkefnastaða á rafeindaverkstæði er góð og gert er ráð fyrir að svo verði næstu misserin. Auk starfa fyrir Vaka hefur töluverð áhersla verið lögð á að koma nýju greiðslukerfi í hleðslustöðvar Faradice sem Örtækni setur saman og þjónustar. Þegar sú lausn verður komin í gagnið verður hægt að greiða fyrir notkun með appi eða flögu sem er mikilvæg viðbót við stöðvarnar.
Hvað önnur verkefni varðar má nefna samsetningu á neðansjávarmyndavélum fyrir Optitog, samsetningu á ýmiskonar búnaði fyrir Johan Rönning og þróunarverkefni sem snýr að snjallhleðslu fyrir tjaldsvæði.
Í upphafi árs hóf Örtækni samstarf við Reykjafell um sölu á báta- og skipalýsingu frá norska framleiðandanum Glamox. Með því er verið að auka enn frekar tengingu við fyrirtæki í sjávarútvegi sem og nýta þekkingu og reynslu starfsfólks þegar kemur að verkefnum er snúa að rafmagni og vatni. Örtækni flytur einnig inn og selur fjölbreytt úrval kapla, ljósleiðara og tæknibúnað af ýmsu tagi.
Mikilvægt samstarf
Tvö teymi tilheyra Ræstingadeildinni og annast annað teymið daglegar ræstingar í Hátúni fyrir Brynju leigufélag, en hitt teymið er staðsett í Skógarhlíð 14 þar sem þau sjá um ræstingu fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Lögreglu, Neyðarlínuna og fleiri aðila. Samstarf Örtækni við Brynju leigufélag sem og samstarfsaðila í Skógarhlíð er byggt á gömlum grunni eða frá árinu 1990 og er starfsfólki Örtækni afar mikilvægt.
Töluverðar umbætur voru gerðar 2022 á húsnæði og verslun sem og starfsaðstöðu starfsfólks í Hátúni sem mælst hefur vel fyrir bæði hjá starfsfólki sem og viðskiptavinum. Ný ásýnd vörumerkis var kynnt í upphafi árs auk þess sem markaðsefni og vefsíða var uppfærð til samræmis við nýtt vörumerki. Vörumerkið er lýsandi fyrir starfsemi Örtækni þar sem verið er að tengja saman hluti, lausnir og fólk á sama tíma og hlutum er komið á hreyfingu og kveikt á hugmyndum.
Hátún 10c • 105 Reykjavík • sími 552 6800 ortaekni@ortaekni.is • www.ortaekni.is Stjórnarformaður: Halldóra Alexandersdóttir • Framkvæmdastjóri: Jónas Páll Jakobsson
Verkefni aðildarfélaga
Um helmingur aðildarfélaga ÖBÍ sendi inn upplýsingar um helstu verkefni á starfsárinu.
ADHD samtökin
Árið einkenndist af vexti en félagsfólki fjölgaði um 13%. Við lok Covid færðist stóraukið líf í starfsemi útibúanna, námskeiðahald og fræðslustarf samtakanna og mikil áhersla var lögð á baráttu við lyfjafordóma og fyrir bættri og aukinni þjónustu hins opinbera við greiningar og meðferð vegna ADHD í herferðinni Greining, meðferð og lyf bjarga lífum! Á árinu voru gefnir út fjórir nýir fræðslubæklingar á íslensku, ensku og pólsku. Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna voru veitt í annað sinn og að þessu sinni var KFUM/K handhafi þeirra. ADHD samtökin fengu á árinu formlega skráningu sem félag til almannaheilla í samræmi við nýsamþykkt lög um slík félög.
Astma- og ofnæmisfélag Íslands
Stærsta verkefni AO á starfsárinu var málþing með yfirskriftinni „Hvað eru börnin okkar að borða“. Námskeið fyrir börn með fæðuofnæmi voru haldin á árinu og félagið tók þátt í umræðum um gæludýr í fjölbýlishúsum og rétt mannfólksins. Félagið tekur áfram virkan þátt í erlendu samstarfi og var formaður AO endurkjörinn í stjórn EFA (European Federation of Allergy and Airways Diseases) og var framsögumaður á World Asthma Day 2. maí 2023. Formaður AO er hluti af vinnuhóp Umhverfisráðuneytis um framkvæmd loftgæðaáætlunar Evrópu. Ný heimasíða mun líta dagsins ljós á árinu og 50 ára afmæli 2024 skipulagt.
Alzheimersamtökin
Þetta starfsárið er það sem stendur upp úr fyrsta rekstrarár Seiglunnar, þjónustumiðstöðvar ætlaða einstaklingum á fyrstu stigum heilabilunarsjúkdóms. Mikil þörf og eftirspurn var eftir slíku úrræði. Auk Seiglunnar reka samtökin þrjár sérhæfðar dagþjálfanir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólk sem lengra er gengið með sjúkdóm sinn, en býr enn heima. Við stígum sífellt stærri skref í að opna umræðu og slá á gamla fordóma og mýtur um heilabilun. Við finnum að með aukinni umræðu, meiri meðvitund og minni fordómum þá leita sífellt fleiri til samtakanna varðandi ráðgjöf og stuðning, það á bæði við um sjúklinga og aðstandendur þeirra.
Ás styrktarfélag
Stærsta einstaka verkefni Ás styrktarfélags á árinu var að setja af stað Project SEARCH, sem er ný aðferðafræði til að greiða götu fólks með fatlanir inn á almennan atvinnumarkað. Project SEARCH hefur breiðst út í Evrópu og á Bretlandseyjum. Þarna er komin aðferðafræði sem skilar sér í bættum lífsgæðum og auknum möguleikum fólk með þroskaskerðingu. Um er að ræða 9 mánaða starfsnám á raunvinnustað og miðar verkefnið að því að fólk fái og haldi að minnsta kosti 50% vinnu á almennum vinnumarkaði. Landspítalinn hefur tekið þátt í verkefninu með okkur. Útskrift fyrsta árgangs var þann 1. júní 2023. Ánægjulegt er að þegar þetta er skrifað eru 3 af 5 búnir að fá vinnu.
Blindrafélagið
Félagsstarf innan Blindrafélagsins var að mestu með hefðbundnum hætti á starfsárinu. Opið hús hefur verið haldið tvisvar í viku og einu sinni í mánuði á laugardegi. Auk þess má nefna rútuferðalög á áhugaverði staði, jólaskemmtun, þorrablót, bingó, fjölbreytt úrval fræðslufunda, gönguferðir og útivist, sumar- og vetrarbúðir fyrir ungmenni, tómstundanámskeið, íslenskunámskeið og samstarfsfundi stjórnar, deilda og nefnda félagsins tvisvar á ári. Víðsjá, tímarit Blindrafélagsins var gefið út tvisvar á árinu og var sent til um 12 þúsund viðtakenda.
CCU samtökin
Árið 2022 voru haldnir fjórir fræðslufundir með fjölbreyttum fyrirlesurum. Í maí 2023 stóð CCU fyrir vitundarvakningarátaki á Facebook og þetta árið var áhersla lögð á eldra fólk með bólgusjúkdóma í þörmum (IBD). Átakið var í samvinnu við Evrópusamtök CCU (EFCCA) og tóku yfir 40 lönd um allan heim þátt í að vekja athygli á sjúkdómunum. Í nóvember 2022 tóku samtökin þátt í starfsdegi IBD hjúkrunarfræðinga með því að kynna starfsemi CCU.
Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki
Endurtekin var kynningarherferð á samfélagsmiðlum frá 2021. Hafa þessar tvær umferðir þá skilað alls um 700 nýjum félagsmönnum. Á alþjóðadegi sykursýki í nóvember 2022 var opnuð ný heimasíða og nýtt nafn og merki félagsins kynnt. Félagið heitir nú Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki (áður Samtök sykursjúkra). Í sumar var unnið að gerð kvikmyndar um sykursýki og lífið með henni og verður myndin sýnd á RÚV haustið 2023.
Einhverfusamtökin
Mikil vinna hefur verið lögð í fræðslu á vegum Einhverfusamtakanna þetta starfsár með fjölgun fyrirlestra sem boðið er upp á og nýjum fræðsluerindum fyrir foreldra og aðstandendur. Einnig eru samtökin komin með nýja þjónustu sem felst í ráðgjafarviðtölum hjá einhverfuráðgjafa. Mikil ásókn hefur verið í þessa þjónustu. Í september 2022 vorum við með fyrirlestur og kynningu á Fundi fólksins í Reykjavík. Við tókum þátt í vinnu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis vegna innleiðingar Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sóttum samnorrænan fund í Finnlandi og sendum fulltrúa á ráðstefnu Autism-Europe í Póllandi. Við fögnuðum alþjóðlegum degi einhverfu með listsýningu dagana 1. og 2. apríl 2023. Þennan viðburð kölluðum við Marglitan mars því við notuðum mars mánuð til að kynna listafólkið á vefmiðlum samtakanna. Í júní gerðu Einhverfusamtökin samning við Forlagið um þýðingu bókarinnar Different, Not less eftir Chloé Hayden. Einnig er hafin vinna að gagnagrunni um einhverfu í samvinnu við samtökin.
Félag lesblindra á Íslandi
Árið 2022 var annasamt fyrir Félag lesblindra (FLÍ). Áfram var langstærsta verkefnið framkvæmd viðamikillar rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir FLÍ á fylgni kvíða og lesblindu í grunn- og framhaldsskólum. Á árinu voru kynntar í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum niðurstöður á umfangi lesblindu í grunnskólum. Áfram var unnið að rannsókn meðal aldurshópsins 18 til 24 ára. Líkt og áður er félagið í góðu samstarfi við Hljóðbókasafnið, enda flestir notenda þar lesblindir; við Almannaróm miðstöð um máltækni; og félög lesblindra á Norðurlöndum.
Geðverndarfélag Íslands
Geðverndarfélag Íslands hefur á starfsárinu haldið áfram úti Solihull-grunnnámskeiðum á grundvelli samstarfssamnings við Solihull Approach frá Birmingham á Englandi. Námskeiðin snúast um að fræða alla þá sem vinna með ung börn og fjölskyldur í fyrirbyggjandi skyni, hjúkrunarfræðinga, lækna, ljósmæður, kennara, leikskólakennara, sálfræðinga, félagsráðgjafa; alla sem vinna með eða fyrir börn.
Heyrnarhjálp
Á liðnu starfsári hélt Heyrnarhjálp rittúlkað stólajóga fyrir félagsmenn sína í húsnæði Hringsjár. Félagið flutti starfsemi sína í Sigtún 42 í febrúar 2023 og er með opna skrifstofu á mánudögum og eftir pöntunum fyrir félagsmenn sína. Einnig stóð félagið fyrir fræðsluerindi um kuðungsígræðslu.
HIV Ísland
Í ár eru 40 ár liðin frá því að fyrsta HIV smitið var greint á Íslandi og 35 ár frá því að samtökin HIV Ísland voru stofnuð. Sunnudaginn 21. maí 2023 var haldin sátta- og minningarstund í Fríkirkjunni í Reykjavík í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá fyrsta HIV smiti. Alþjóðlega minningarstundin, HIV candlelight memorial service, hefur verið haldin árlega í Fríkirkjunni í Reykjavík í hátt í 30 ár.
LAUF – félag flogaveikra
Samtökin stóðu fyrir reglulegum opnum húsum þar sem í boði var fræðsla um hin ýmsu málefni auk skemmtunar. Fjölskylduráðgjafi Laufs hjálpar fólki með samskipti, að vinna úr sinni líðan og að sækja ýmis réttindi þeim að kostnaðarlausu. Samtökin stóðu fyrir fræðslu til almennings og stofnana um flogaveiki, á öllum skólastigum, frá leikskólum og upp í háskóla, fyrir starfsfólk þeirra og stundum einnig fyrir nemendur. Einnig var farið með fræðslu fyrir starfsfólk á skammtímaheimilum, sambýlum, vinnustöðum fyrir fatlað fólk, bílstjórum hjá Strætó sem sjá um ferðaþjónustu fatlaðra og stofnana sem sinna öldruðum, en eldra fólk er stór hópur þeirra sem greinast með flogaveiki. Einnig gefur félagið út tímarit og ýmsa fræðslubæklinga, auk þess að heimasíðan var nýverið endurnýjuð og á nú að uppfylla allar nútímakröfur.
Lungnasamtökin
Félagsstarf var blómlegt á umliðnu ári, haldnir voru reglulegir mánaðarlegir fundir með fjölbreyttri dagskrá með fræðslu og skemmtiefni. Lögð hefur verið áhersla á að virkja félaga utan höfuðborgarsvæðisins. Félagsmenn á Akureyri hittast nú á sama tíma og fundir eru haldnir í Reykjavík og fylgjast með streymi þaðan. Unnið er að því að bæta gæði útsendingarinnar til að bæta upplifun þeirrasem ekki eru á staðnum. Nýju nafni félagsins var fagnað og barst félaginu nýr fáni að gjöf frá velunnara félagsins. Vísindasjóði Lungnasamtakanna var komið formlega af stað en hann var stofnaður 2018. Fyrstu styrkir úr sjóðnum verða veittir í lok árs 2023.
MS-félag Íslands
MS-félag Íslands hefur hlotið skráningu sem almannaheillafélag og er jafnframt á almannaheillaskrá skattsins. Farið var í stefnumótun síðla vetrar og afraksturinn kynntur á aðalfundi í maí 2023. Fulltrúar félagsins heimsóttu félaga á landsbyggðinni eftir töluvert hlé og framhald verður á þeim heimsóknum. Ráðgjafarþjónusta félagsins var efld og kynntur til starfa nýr sálfræðingur. MS-blaðið sem gefið er út tvisvar á ári fagnar 40 ára afmæli í ár og var gefið út veglegt vorblað af því tilefni með áherslu á ungt fólk með MS. Alþjóðadagur MS var haldinn hátíðlegur m.a. með sýningu heimildarmyndar um vegglistakonuna Lydia Emily og baráttu hennar við sjúkdóminn, „The Art of Rebellion“ og gerð vegglistaverks með aðkomu hennar og tveggja íslenskra MS-listakvenna á Sléttuvegi 5.
Ný rödd
Reglulegir fundir Nýrrar raddar voru haldnir í húsi Krabbameinsfélags Íslands að Skógarhlíð. Að venju heimsóttum við sjúklinga fyrir og eftir aðgerðir, auk fastra liða í starfseminni eins og jafningjafræðslu og kynningar á notkun hjálpartækja. Líkt og áður var gott samstarf á milli félagsins og talmeinafræðinga Landspítala.
Nýrnafélagið
Starfsemi Nýrnafélagsins eflist með hverju árinu. Félagið hefur getað leyst mörg erfið mál eftir að fjölskyldufræðingur var ráðinn til félagsins til að standa vörð um réttindi og andlega heilsu félaga. Þessi mál eru af ýmsum toga en sýna glögglega að mikil þörf er á svona þjónustu þar sem að almenna velferðarkerfið kemst ekki yfir nema brot af því sem þörf er á. Aðalbaráttumál Nýrnafélagsins þetta árið sem önnur er að vekja athygli á að hár ómeðhöndlaður blóðþrýstingur er aðalorsök nýrnabilunar á Íslandi. Betra verklag þarf innan heilbrigðiskerfisins, þar sem það má ekki láta hjá líðast að mæla blóðþrýsting hjá fólki við læknisheimsóknir.
SÍBS
Mikilvægasta lýðheilsuverkefni SÍBS á starfsárinu 2022–2023 laut að gerð örmyndbanda með góðum ráðum um hvað hvert og eitt okkar getur gert til að bæta heilsu okkar og líðan. Myndböndin voru framleidd í faglegu samstarfi við Embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Heilsuveru og fleiri aðila og með stuðningi Lýðheilsusjóðs. Dreifing fór fram gegnum streymisveitur, samfélagsmiðla, innri vefi stærri fyrirtækja og upplýsingaskjái á vegum Reykjavíkurborgar og heilsugæslunnar. Fjöldi áhorfa á fyrsta vetri nam tæpum tveimur milljónum, sem er einstakur árangur fyrir lýðheilsuverkefni á Íslandi. Meðal reglulegra verkefna er fjölbreytileg vitundarvakning um heilbrigði og lifnaðarhætti á netinu allt árið um kring ásamt því sem þrjú tölublöð SÍBS blaðsins litu dagærstas í alls 30.000 eintökum.
Sjálfsbjörg lsh.
Á starfsárinu 2022-2023 hafa samtökin haldið áfram að vinna með Römpum upp Ísland og að virkja félagsmenn um allt land í því samstarfi. Í október 2022 settum við af stað vitundarvakningarherferðina „Öllum boðið, nema fötluðum?“ sem gekk vonum framar. Markmið herferðarinnar var að vekja athygli fólks á því að það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að tryggja að öll hafi jafnan aðgang að samfélaginu. Einnig hefur félagið verið virkur þátttakandi í verkefninu „Gott aðgengi í ferðaþjónustu“ á vegum Ferðamálastofu.
Rekstrarreikningur
Rekstrarreikningur |
2022 |
2021 |
Rekstrartekjur |
||
Framlag frá Íslenskri getspá | 1.056.664.211 | 1.111.800.413 |
Leigutekjur | 14.593.444 | 14.103.501 |
Aðrar tekjur | 12.667.500 | 13.113.773 |
Tekjur samtals | 1.083.925.155 | 1.139.017.687 |
Rekstrargjöld |
||
Styrkir og framlög | 441.895.000 | 452.059.663 |
Laun og launatengd gjöld | 251.829.920 | 251.055.677 |
Hækkun lífeyrisskuldbindinga | 2.495.027 | 8.348.032 |
Annar rekstrarkostnaður | 252.504.477 | 172.446.619 |
Afskriftir | 13.000.791 | 8.236.636 |
Gjöld samtals | 961.725.215 | 892.146.627 |
Rekstrarafkoma (-tap) fyrir skatta | 122.199.940 | 246.871.060 |
Fjármunatekjur og (-gjöld) |
||
Vaxtatekjur og verðbætur | 23.431.365 | 9.694.715 |
Vaxtagjöld, gengistap og verðbætur | (246.819) | (293.128) |
Rekstrarafkoma (tap) ársins | 145.384.486 | 256.272.647 |
Efnahagsreikningur |
2022 |
2021 |
Fastafjármunir |
||
Fasteign | 549.428.528 | 299.729.741 |
Áhöld, búnaður og innréttingar | 2.589.192 | 3.288.770 |
Stofnframlag | 2 .065 .000 | 2.065.000 |
Bundnar innistæður – Arfur ÓGB | 93.475.494 | 87.044.960 |
Bundnar innistæður – Varasjóður ÖBÍ | 143.457.253 | 133.588.283 |
Fastafjármunir samtals | 791.015.467 | 525.716.754 |
Veltufjármunir |
||
Aðrar skammtímakröfur | 98.772.150 | 209.723.315 |
Handbært fé | 331.989.942 | 394.679.151 |
Veltufjármunir samtals | 430.762.092 | 604.402.466 |
Eignir samtals | 1.221.777.559 | 1.130.119.220 |
Eigið fé í árslok |
||
Eigið fé | 1.087.747.703 | 942.363.216 |
Skuldir | 134.029.856 | 187 .756 .004 |
Eigið fé og skuldir | 1.221.777.559 | 1.130.119.220 |