Skip to main content

Staða fatlaðs fólks á Íslandi 2023

Niðurstöður spurningakönnunar meðal fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk

Rannsóknin var unnin í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök og var gefin út í desember 2023.
Útgefandi: Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins. Útgáfuform: PDF og þessi vefútgáfa skýrslunnar á obi.is

Fjöldi taflna með tölulegum upplýsingum í skýrslunni eru 65 talsins. Þær eru birtar hér á tvennskonar máta, sem skreytimyndir (e. decorative) og í stað sjónlýsingar þá eru töflurnar birtar aftast á vefsniði þannig að hægt sé að hlusta á þær.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar sem var lögð fyrir þau sem voru með örorku-, endurhæfingarlífeyrisréttindi eða örorkustyrk hjá TR 1. október 2023 sýna:

» Ríflega þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort
   • Tæplega tveir af hverjum tíu búa við verulegan efnislegan skort eða sárafátækt

» Tæplega tveir af hverjum tíu búa við verulegan efnislegan skort eða sárafátækt

» Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári síðan

» Helmingur þarf að neita sér um og félagslíf vegna fjárhagsstöðu sinnar
   • Fjögur af hverjum tíu þurfa að neita sér um nauðsynlegan klæðnað og næringarríkan mat

» Slæm fjárhagsstaða kemur í veg fyrir að hægt sé að greiða grunnþætti fyrir börn
   • Tæplega fjögur af hverjum tíu geta ekki greitt kostnað vegna tómstunda, félagslífs eða gefið börnum sínum jóla og/eða afmælisgjafir

» Fjárhagsstaða einhleypra foreldra með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er á öllum mælikvörðum verst
   • Ríflega þrjú af hverjum tíu búa við verulegan skort á efnislegum gæðum
   • Tæplega níu af hverjum tíu einhleypum mæðrum geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar
   • Fjórðungur einhleypra mæðra hafa þurft mataraðstoð á síðastliðnu ári
   • Tæplega helmingur einhleypra foreldra geta ekki veitt börnum sínum nauðsynlegan klæðnað eða eins næringarríkan mat og þau vilja né greitt kostnað vegna félagslífs barna sinna eða haldið afmæli eða veislur fyrir börn sín

» Tæplega helmingur býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði
   • Ríflega sex af hverjum tíu einhleypum foreldrum búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði

» Sjö af hverjum tíu búa við slæma andlega líðan
   • Hlutfallið er enn hærra meðal einhleypra foreldra en ríflega átta af hverjum tíu búa við slæma andlega heilsu

» Hátt hlutfall hefur nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig
   • Það á við um 15% einhleypra karla, karla á endurhæfingarlífeyri, karla á aldrinum 31-50 ára og kvenna 30 ára og yngri

» Tæplega sex af hverjum tíu finna fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun
   • Hæst er hlutfallið meðal karla á endurhæfingarlífeyri

» Ríflega fjögur af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu og sálfræðiþjónustu og er algengasta ástæða þess að neita sér um heilbrigðisþjónustu kostnaður

1 Inngangur

Í október og nóvember lagði Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök, könnun fyrir þau sem voru með örorku- eða endurhæfingarlífeyrisréttindi og/eða örorkustyrk hjá TR þann 1. október 2023. Markmið könnunarinnar er að varpa ljósi á stöðu hópsins hvað varðar:

  1. Fjárhagsstöðu eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og fjölskyldustöðu
  2. Stöðu á húsnæðismarkaði eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og fjölskyldustöðu
  3. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda, fjölskyldustöðu og stöðu á húsnæðismarkaði
  4. Líkamlega og andlega heilsu eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda, aldri og fjölskyldustöðu
  5. Heilbrigðisþjónustu sem fólk hefur þurft að neita sér um og ástæður þess eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og fjölskyldustöðu
  6. Félagslega einangrun eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og aldri
  7. Fordóma eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda
  8. Stöðu á vinnumarkaði eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og aldri
  9. Viðhorf til TR eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og aldri

Könnunin var lögð fyrir frá 27. október til 9. nóvember 2023 og er aðferð hennar lýst í 2. kafla. Í 3. kafla er greint frá niðurstöðum könnunarinnar. Fyrst er greint frá lýðfræðilegri samsetningu, þá  fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, heilsufari, félagslegri einangrun, fordómum, stöðu á vinnumarkaði og loks viðhorfum til þjónustu TR.

2 Aðferð

Notað er sjálfvalið úrtak sem er ein af tegundum markvissra úrtaka og er skilgreint þýði þau sem voru með örorku- og endurhæfingarlífeyrisréttindi og/eða örorkustyrk hjá TR þann 1. október 2023 (23.258 einstaklingar).

2.1 Fyrirlögn

TR sendi þeim sem voru með örorku- og endurhæfingarlífeyrisréttindi og/eða örorkustyrk tölvupóst á íslensku, ensku og pólsku þann 19. október 2023. Í tölvupóstinum var könnunin og markmið hennar kynnt og viðtakendum boðið að taka þátt í rannsókninni. Þau sem veittu upplýst samþykki fengu senda könnun þann 27. október 2023. TR sendi ítrekunarpóst þann 2. nóvember á öll sem höfðu fengið könnunina senda áður. Auk þess sendi TR könnunina á þau sem höfðu samþykkt að taka þátt í henni eftir 27. október sama dag. Könnunin var rafræn og aðgengileg með hlekk. Hægt var að svara einu sinni á hverri IP-tölu. Svarendum gafst færi á að svara könnuninni á íslensku, ensku og pólsku.

2.2 Svarhlutfall

TR sendi 19.331 einstaklingi með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk samþykkispóst og bauð til þátttöku í könnuninni. Alls voru 4.480 sem samþykktu að fá könnunina senda og af þeim svöruðu 3.585. Svarhlutfallið var 19%.

2.3 Vigtun gagna

Til þess að niðurstöður svaranna endurspegli sem best þýðið í heild voru gögnin úr könnuninni vigtuð eftir gerð örorkulífeyris, aldri og kyni. Gerð örokurlífeyrisins var skipt í þrjá flokka: Á endurhæfingarlífeyri, á örorkulífeyri og á örorkustyrk. Aldri var skipt í fimm flokka: 30 ára og yngri, 31– 40 ára, 41– 50 ára, 51– 60 ára og 61 árs eða eldri. Kyni var skipt í tvennt: Karl og kona. Sautján svarendur merktu við annað kyn. Það voru of fá svör til að hægt væri að vigta þau sér. Svörin voru vigtuð með konum þar sem kynsegin fólk og fólk með óráðið kyn er undirsett körlum líkt og konur.

2.4 Mælingar

Andleg líðan: Við mat á andlegri líðan var notast við Patient Health Questionnaire (PHQ-9) sem er einfaldur níu spurninga sjálfsmatskvarði sem hefur verið þýddur á íslensku og rannsakaður með tilliti til réttmætis og áreiðanleika. Kvarðinn metur einkenni þunglyndis og alvarleika þess (Andri Steinþór Björnsson et al., 2018). Spurt var um hversu oft á síðustu tveimur vikum viðkomandi hefði fundið fyrir hverju einkenni fyrir sig á fjórgildum skala (0 = alls ekki, 1 = nokkra daga, 2 = meira en helmings tímans, 3 = nánast alla daga). Spurt var um eftirfarandi einkenni: 1) Lítill áhugi eða gleði við að gera hluti. 2) Verið niðurdregin/n/ð, dapur/döpur/dapurt eða vonlaus/t. 3) Átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina. 4) Þreyta og orkuleysi. 5) Lystarleysi eða ofát. 6) Liðið illa með sjálfa/n/t þig eða fundist að þér hafi mistekist eða ekki staðið þig í stykkinu gagnvart sjálfum/sjálfri/sjálfu þér eða fjölskyldu þinni. 7) Erfiðleika með einbeitingu, t.d. við að lesa blöðin eða horfa á sjónvarp. 8) Hreyft þig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því. Eða hið gagnstæða – verið svo eirðarlaus/t eða óróleg/ur/t að þú hreyfðir þig miklu meira en venjulega. 9) Hugsað um að það væri betra að þú værir dáin/n/ð eða hugsað um að skaða þig á einhvern hátt (Agnes Agnarsdóttir et al., e.d.). Hver svarandi gat fengið 0-27 stig. Hér eru tíu eða fleiri stig metin sem slæm andleg heilsa (Kroenke & Spitzer, 2002). Þeir sem merkja ekki við neina spurningu fá brottfallsgildi. Þeir sem merkja við a.m.k. eina spurningu en svara ekki öllum spurningunum finna ekki fyrir þeim einkennum sem þeir merkja ekki við og fá gildið 0 í stað brottfallsgildis. Heilsan er því ekki verri en gögnin segja til um.

Skortur á efnislegum gæðum: Fjárhagsstaða var metin með nokkrum spurningum, þar með talið spurningum sem saman mæla efnislegan skort samkvæmt skilgreiningu sem Hagstofa Evrópusambandsins og Hagstofa Íslands nota. Spurt var hvort einhver níu staðhæfinga ætti við um heimili svarenda. Staðhæfingarnar voru: 1) Vanskil á leigu, húsnæðislánum eða öðrum lánum vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum. 2) Hef ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldu. 3) Hef ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag. 4) Get ekki mætt óvæntum útgjöldum. 5) Hef hvorki efni á heimsíma né farsíma. 6) Hef ekki efni á sjónvarpstæki. 7) Hef ekki efni á þvottavél. 8) Hef ekki efni á bíl. 9) Hef ekki efni á að halda húsnæði nægjanlega heitu. Samkvæmt skilgreiningu búa þau við skort sem búa á heimili sem þrír af ofantöldum þáttum eiga við um (Hagstofa Íslands, 2022c).

2.5 Marktæknipróf

Persons kí-kvaðrat próf (χ2) var notað til að reikna út tölfræðilega marktækni. Prófið metur hvort marktækur munur er á milli mismunandi hópa í tíðnitöflum. Miðað var við 95% vikmörk, * = p < 0,05, ** = p < 0,01.

3 Niðurstöður

Fjallað er um niðurstöður könnunarinnar í sex köflum. Í kafla 3.1. er fjallað um fjárhagsstöðu. Í kafla 3.2. um stöðu á húsnæðismarkaði. Þá er fjallað um líkamlega og andlega heilsu ásamt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í kafla 3.3. Félagsleg einangrun og fordómar eru teknir fyrir í kafla 3.4. og staða á vinnumarkaði í kafla 3.5. Loks er greint frá viðhorfum til þjónustu TR í kafla 3.6.

Í fyrsta undirkaflanum er fjárhagsstaða fólks skoðuð með tilliti til kyns, gerðar lífeyrisréttinda og fjölskyldustöðu. Því næst er fjallað um stöðu á húsnæðismarkaði og byrði húnsæðiskostnaðar bæði leigjenda og þeirra sem eru í eigin húsnæði, greint eftir sömu þáttum og fjárhagsstaða. Þriðji kafli fjallar um líkamlegt og andlegt heilsufar, auk þeirra þátta heilbrigðisþjónustu sem fólk hefur þurft að neita sér um og ástæður þess. Niðurstöðurnar eru greindar eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda, fjölskyldustöðu og aldri. Í fjórða kafla er greint frá félagslegri einangrun og fordómum og niðurstöðurnar brotnar niður eftir kyni, gerð lífeyrisréttinda og aldri. Í fimmta kafla er fjallað um stöðu á vinnumarkaði og í sjötta og síðasta kaflanum er fjallað um viðhorf til þjónustu TR.

Í ákveðnum tilfellum eru niðurstöðurnar bornar saman við niðurstöður spurningakönnunar Vörðu um stöðu launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem birtar voru árið 2023 (Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, 2023).

Tafla 1. Lýðfræðileg samsetning eftir kyni.

Tafla 1 sýnir lýðfræðilega samsetningu fólks með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall eru konur eða kvár (61,4%) en lægra hlutfall karlar (38,6%). Þegar litið er til aldurs sést að hæst er hlutfall þeirra sem eru á aldursbilinu 51-60 ára (26,2%). Þá 61 árs eða eldri (22,5%) og 41-50 ára (21,7%) en lægra hlutfall er á aldrinum 31-40 ára (17,2%). Lægst er hlutfall fólks 30 ára og yngra (12,5%).

Meirihluti svarenda eru innfæddir (86,9%) en 7,4% eru innflytjendur og 5,7% eru með erlendan bakgrunn. Þegar litið er til fjölskyldustöðu sést að hæst er hlutfall einhleypra eða 41,9% en nokkuð fleiri karlar en konur eru einhleypir (51% á móti 36,2%). Ríflega fjórðungur er í sambúð (28,1%) og 16,4% eru í sambúð með börn. Þá eru 13,6% foreldra einhleypir en hlutfallið er hærra meðal kvenna en karla (16,1% á móti 9,7%).

Hlutfallslega flest eru með menntun á grunnskólastigi (38,4%) en um fimmtungur er með háskólamenntun (20,3%) og er hærra hlutfall kvenna en karla með slíka menntun (25% á móti 12,7%). Með iðnmenntun eru 12,3% en hlutfallið er hærra meðal karla en kvenna (18,3% á móti 8,6%). Um einn af hverjum tíu er með starfstengt nám á framhaldsskólastigi (10,7%) og lítið hærra hlutfall með stúdentspróf (12,5%).

Ríflega helmingur er búsettur á höfuðborgarsvæðinu (54,4%) en 41% á landsbyggðunum. Þá eru 3,9% svarenda búsett erlendis. Meirihluti svarenda er með örorkulífeyri (85,9%) en 13,4% með endurhæfingarlífeyri og 1,8% örorkustyrk.

3.1 Fjárhagsstaða

Fjárhagsstaða fólks sem er með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða með örorkustyrk var metin í könnuninni út frá ýmsum spurningum. Spurt var hversu auðvelt eða erfitt væri að ná endum saman, hvort svarendur hefðu fengið fjárhagsaðstoð, byggju við efnislegan skort, gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum, hvort þeir væru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim. Einnig hvort fjárhagsstaða þeirra væri betri eða verri nú en fyrir ári og hvort að sökum fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum þeir hefðu ekki getað greitt fyrir nauðsynlegan klæðnað, nægilega næringarríkan mat, félagslíf, menntun og menningarviðburði.

Í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands má finna mælingar á skorti á efnislegum gæðum (Hagstofa Íslands, 2022c), hversu auðvelt eða erfitt fólk á með að ná endum saman, hvort það geti mætt 180.000 kr. óvæntum útgjöldum (Hagstofa Íslands, 2022a) og einnig hvort fólk hafi fengið fjárhagsaðstoð frá sveitafélagi (Hagstofa Íslands, 2020). Þessum mælingum svipar að mörgu leyti til þeirra mælinga sem Varða notar í þessari könnun.

Samkvæmt niðurstöðum Hagstofunnar bjuggu 4,2% landsmanna við skort á efnislegum gæðum árið 2021. Þegar staðan er skoðuð með tilliti til stöðu fólks á húsnæðismarkaði má sjá að 2,4% þeirra sem búa í eigin húsnæði á móti 10,9% þeirra sem búa í leiguhúsnæði bjuggu árið 2021 við skort á efnislegum gæðum (Hagstofa Íslands, 2022c). Eins áttu árið 2021 um 24% landsmanna erfitt með að ná endum saman og 51,5% meðal einstæðra foreldra (Hagstofa Íslands, 2022a). Hlutfall þeirra sem ekki gátu mætt 180.000 kr. óvæntum útgjöldum samkvæmt mælingum Hagstofunnar var 22,5% árið 2021 en það hlutfall var einnig mun hærra meðal einstæðra foreldra eða 41,1% (Hagstofa Íslands, 2022a).

Samkvæmt niðurstöðum Hagstofunnar bjuggu 12,8% heimila við íþyngjandi byrði af húsnæðiskostnaði árið 2021. Það hlutfall er þó mun hærra meðal leigjenda eða 27% (Hagstofa Íslands, 2022b).

3.1.1 Að ná endum saman

Tafla 2. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöður um hversu auðvelt eða erfitt fólk á með að ná endum saman eftir kyni og fjölskyldustöðu eru birtar í töflu 2. Taflan sýnir að þrír fjórðu eiga nokkuð erfitt, erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman (74,9%) og tæplega helmingur (48,8%) á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman (42,1%), þá einhleypra (32,1%), sambúðarfólks með börn (24,3%) en lægst er hlutfallið meðal þeirra sem eru í sambúð án barna (17,4%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hæst er hlutfallið meðal einhleypra mæðra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman en það á við um tæplega helming þeirra (45,9%) og sama á við um tæplega þriðjung einhleypra feðra (31,9%). Hærra hlutfall karla en kvenna í sambúð með börn (27,8% á móti 22,5%) og í sambúð (21,9% á móti 15%) eiga mjög erfitt með að ná endum saman. Hins vegar er hærra hlutfall einhleypra kvenna en einhleypra karla sem á mjög erfitt með að ná endum saman (36,2% á móti 27,4%).

Tafla 3. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 3 sýnir hversu auðvelt eða erfitt er að ná endum saman greint eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem eiga nokkuð erfitt, erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman (77,9%) en það sama á við um 74,7% þeirra sem eru með örorkulífeyri. Lægst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (65,2%). Að sama skapi er hlutfall þeirra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman hæst meðal endurhæfingarlífeyristaka (28,7%) og örorkulífeyristaka (28%) en lægra hjá þeim sem eru með örorkustyrk (23,2%). Samkvæmt tölfræðilegu marktækniprófi er þó ekki um marktækan mun að ræða milli lífeyrisréttinda (p = 0,064).

Lítill munur er á milli kvenna og karla á því hversu auðvelt eða erfitt er að ná endum saman eftir lífeyrisréttindum. Mjög svipað hlutfall kvenna (49,2%) og karla (48,9%) á örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri (50,4% og 50,3%) á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Hins vegar á hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk mjög erfitt eða erfitt með að ná endum saman (40% á móti 34,1%).

3.1.2 Geta mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum

Tafla 4. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Spurt var hvort þátttakendur gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum í dag án þess að stofna til skuldar. Niðurstöðurnar með tilliti til fjölskyldustöðu eru sýndar í töflu 4. Nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem ekki gætu mætt svo háum óvæntum útgjöldum eftir fjölskyldustöðu. Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem ekki gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum (84,9%) en það sama á við um sjö af hverjum tíu þeirra sem eru einhleyp (70,5%) og nánast sama hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn (70,1%) en lægra hlutfall þeirra sem eru í sambúð (56,2%).

Hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem ekki gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum en það á við um tæplega níu af hverjum tíu þeirra (89,3%) en ríflega sjö af hverjum tíu einhleypum feðrum (73,2%). Hærra hlutfall karla en kvenna sem eru í sambúð með börn (72,9% á móti 68,6%) og í sambúð (58,3% á móti 55,2%) gæti ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Hins vegar er hærra hlutfall einhleypra kvenna en einhleypra karla sem gæti ekki mætt svo háum útgjöldum (76,1% á móti 64,1%).

Tafla 5. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 5 sýnir hlutfall þeirra sem gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum greint eftir gerð lífeyrisréttinda og kyni. Hæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á örorkustyrk sem gætu mætt svo háum óvæntum útgjöldum en það á við um ríflega fjórðung þeirra (26,5%). Sama á við um ríflega fimmtung örorkulífeyristaka (21,9%) og tæplega fimmtung endurhæfingarlífeyristaka (18,3%).

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri sem gæti ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (69,1%) og lítið lægra meðal endurhæfingarlífeyristaka (67,8%). Lægst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á örorkustyrk sem þó á við um ríflega helming þeirra (54,4%). Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hæst er hlutfall kvenna á örorkulífeyri sem gæti ekki mætt svo háum óvæntum útgjöldum (72,1%) en það sama á við um lægra hlutfall karla á örorkulífeyri (64,6%). Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna á endurhæfingarlífeyri (69,5% á móti 66,8%) og á örorkustyrk (62,5% á móti 50%) sem ekki gæti mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum.

3.1.3 Fjárhagsstaða betri eða verri en fyrir ári

Þátttakendur voru beðnir um að svara hvort fjárhagsstaða þeirra væri betri eða verri en fyrir ári. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 6, greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 6. Fjárhagsstaða betri eða verri en fyrir ári eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Ríflega helmingur svarenda telur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári (55,2%). Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri (58,3%) því næst þau sem eru í sambúð með börn (56,4%), í sambúð (54,8%) og þá einhleyp (54%).

Hærra hlutfall einhleypra mæðra en feðra metur fjárhagsstöðu sína mun eða nokkuð verri (62,1% á móti 48,1%).

Sömuleiðis metur hærra hlutfall einhleypra kvenna en einhleypra karla fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári (58,8% á móti 48,4%). Mjög svipað hlutfall kvenna og karla í sambúð gerir slíkt hið sama (54,9% á móti 54,4%).

Hins vegar er hærra hlutfall karla í sambúð með börn samanborið við konur sem meta fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri (59% á móti 55,1%).

Tafla 7. Fjárhagsstaða betri eða verri en fyrir ári eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 7 sýnir hvort svarendur meta fjárhagsstöðu sína betri eða verri en fyrir ári eftir gerð lífeyrisréttinda og kyni.

Meira en helmingur þeirra sem eru á örorkulífeyri metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári (56,1%) og sama á við um rétt tæplega helming þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (49,9%) og lítið lægra hlutfall örorkustyrktaka (46,3%). Samkvæmt tölfræðilegu marktækniprófi er þó ekki um marktækan mun að ræða milli lífeyrisréttinda  (p = 0,073).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hærra hlutfall kvenna en karla á örorkulífeyri (58,2% á móti 52,9%), endurhæfingarlífeyri (52,6% á móti 45,1%) og örorkustyrk (50% á móti 40%) býr við nokkuð eða mun verri fjárhagsstöðu en fyrir ári.

Hæst er hlutfall kvenna á örorkulífeyri sem meta fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri (58,2%).

3.1.4 Efnislegur skortur

Tafla 8. Efnislegur skortur eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöður um efnislegan skort eftir kyni og fjölskyldugerð eru birtar í töflu 8. Þær sýna að meira en helmingur fólks getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (57,1%) og tæplega helmingur hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldunni (47,5%).

Tæplega fjórðungur hefur ekki efni á kjötmáltíð eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag (23,6%) og sömuleiðis hafa 22,8% ekki efni á bíl.

Ríflega einn af hverjum tíu er í vanskilum á leigu eða lánum (13%) og tæplega einn af hverjum tíu hefur ekki efni á sjónvarpstæki (8,2%). Sömuleiðis hafa 7,5% ekki efni á þvottavél. Lægra hlutfall hefur ekki efni á að kynda húsnæðið sitt nægilega (5,3%) og 3,2% hafa ekki efni á síma.

Hærra hlutfall karla en kvenna er í vanskilum á leigu eða lánum (13,3% á móti 12,9%), hefur ekki efni á síma (3,7% á móti 2,8%), sjónvarpstæki (9% á móti 7,8%), bíl (27,1% á móti 20,2%) og að hita húsnæðið nægjanlega (5,8% á móti 5%).

Hins vegar hefur hærra hlutfall kvenna en karla ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag (25,7% á móti 20,2%) og getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (59,1% á móti 53,9%).

Nokkuð svipað hlutfall kvenna og karla hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (47,6% og 47,5%) eða á þvottavél (7,6% og 7,3%).

Hærra hlutfall einhleypra foreldra en fólks í annarskonar fjölskyldugerð voru í vanskilum á leigu eða lánum (22,5%), gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum (75,5%), höfðu ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (68,4%), staðgóðri máltíð annan hvern dag (41,2%), síma (5,8%), sjónvarpstæki (14,1%), þvottavél (14,5%), bíl (34%) og nægilegri upphitun húsnæðis (6,9%). Staða einhleypra foreldra er áberandi verst.

Þegar litið er til sambúðarfólks með börn sést að um helmingur þess hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (47,4%) og getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (54,3%).

Umtalsvert lægra hlutfall hefur ekki efni á öðrum þáttum eins og kjötmáltíð annan hvern dag (15,3%), síma (2,6%), sjónvarpstæki (5,5%), þvottavél (4,5%), bíl (10,4%), upphitun (5,3%) og er í vanskilum á leigu eða lánum (14,5%). Þegar litið er til þeirra sem eru einhleyp kemur í ljós að nokkuð sambærilegt hlutfall þeirra og sambúðarfólks með börn hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (52,5%), er í vanskilum á leigu eða lánum (13,4%), hefur ekki efni á síma (2,5%) og nægilegri upphitun (5,7%).

Nokkuð hærra hlutfall getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (62,3%), hefur ekki efni á staðgóðri máltíð annan hvern dag (28,5%), sjónvarpstæki (10,2%), þvottavél (8,8%) og bíl (33,2%).

Lægra hlutfall þeirra sem eru í sambúð er í vanskilum á leigu eða lánum (6,8%), getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (41,8%), hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (29,6%), staðgóðri máltíð annan hvern dag (12,4%), síma (3,2%), sjónvarpstæki (4%), þvottavél (3,8%), bíl (9,3%) og nægjanlegri upphitun á húsnæði (3,7%).

Tafla 9. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í töflu 9 hafa þættir er varða efnislegan skort verið teknir saman eftir kyni og fjölskyldustöðu. Í töflunni eru teknir saman þeir níu þættir sem sýndir eru í töflu 8 og saman mæla efnislegan skort. Þau sem ekki hafa efni á þremur þáttum sem eru taldir upp búa samkvæmt skilgreiningu við efnislegan skort og þau sem hafa ekki efni á fjórum eða fleiri þáttum búa við verulegan efnislegan skort.

Niðurstöðurnar sýna að ríflega þriðjungur fólks býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (34,3%) og er hlutfallið hærra meðal kvenna en karla (35,6% á móti 32,1%).

Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem búa við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort en það á við um ríflega helming þeirra (57,4%). Hlutfallið er nokkuð lægra meðal þeirra sem eru einhleyp (41,8%). Um fjórðungur þeirra sem eru í sambúð með börn býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (25,4%) en hlutfallið er lægst meðal sambúðarfólks (16,5%).

Langhæst er hlutfall einhleypra mæðra sem búa við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort en það á við sex af hverjum tíu þeirra (61,3%) en nokkuð lægra hlutfall einhleypra feðra (46,1%).

Hærra hlutfall einhleypra kvenna en karla (44,2% á móti 39%) og kvenna í sambúð með börn (26,5% á móti 23,3%) býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort. Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna í sambúð sem býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort (17,9% á móti 15,7%).

Þegar litið er eingöngu til þeirra sem búa við verulegan efnislegan skort kemur í ljós að einhleypir foreldrar búa í langmestum mæli við þá stöðu en það á við um tæplega þriðjung þeirra (31,8%).

Hlutfallið er ögn hærra meðal einhleypra mæðra en feðra (31,9% á móti 31,3%). Tæplega fjórðungur einhleypra býr við verulegan efnislegan skort (23,8%) en hlutfallið er hærra meðal einhleypra karla en kvenna (25,2% á móti 22,6%).

Umtalsvert lægra hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn (12,2%) og sambúð (9,2%) býr við verulegan efnislegan skort.

Tafla 10. Efnislegur skortur eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 10 sýnir þætti efnislegs skorts eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem skortir átta af níu aðspurðum þáttum.

Þannig er hlutfall þeirra hærra hvað varðar að vera í vanskilum á leigu eða lánum (20,4%), geta ekki mætt óvæntum útgjöldum (66%), hafa ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (54,6%), kjötmáltíð eða staðgóðri máltíð annan hvern dag (25,7%), síma (5,6%), sjónvarpstæki (11,5%), þvottavél (10%) og bíl (34,1%).

Hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri er hærra en þeirra sem eru á örorkustyrk hvað varðar sex af níu þáttum.

Hærra hlutfall örorkulífeyristaka en örorkustyrktaka er í vanskilum á leigu eða lánum (11,9% á móti 11,6%), getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (56,1% á móti 44,1%), hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (46,6% á móti 41,2%), kjötmáltíð eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag (23,6% á móti 14,5%), sjónvarpstæki (7,8% á móti 5,8%) og nægilegri upphitun húsnæðis (5,4% á móti 4,2%).

Hærra hlutfall þeirra sem eru með örorkustyrk hefur ekki efni á bíl (21,7% á móti 21,3%), síma (4,3% á móti 2,8%) og þvottavél (7,4% á móti 7,2%).

Tafla 11. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Í töflu 11 hafa þættir er varða efnislegan skort verið teknir saman eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Teknir eru saman þeir níu þættir sem sýndir eru í töflu 10 og saman mæla efnislegan skort. Þau sem ekki hafa efni á þremur þáttum sem taldir eru upp búa samkvæmt skilgreiningu við efnislegan skort og þau sem hafa ekki efni á fjórum eða fleiri þáttum búa við verulegan efnislegan skort.

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem búa við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (41,3%) en hlutfallið er nokkuð lægra meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (33,4%) og lægst meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (25,4%).

Hærra hlutfall kvenna en karla á endurhæfingarlífeyri (41,6% á móti 40,8%) og örorkulífeyri (34,9% á móti 31,1%) býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort. Hins vegar er nokkuð hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk sem býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (31,8% á móti 21,9%).

Hæst er hlutfall karla á endurhæfingarlífeyri sem býr við verulegan efnislegan skort en það á við um ríflega fjórðung þeirra (27,8%) en tæplega fjórðung kvenna á endurhæfingarlífeyri (24%) og ríflega fimmtung karla á örorkustyrk (22,7%).

Tæplega fimmtungur karla á örorkulífeyri býr við verulegan efnislegan skort (19,3%) en hlutfallið er lítið lægra meðal kvenna á örorkulífeyri (17,3%) og lægst meðal kvenna á örorkustyrk (14,6%).

3.1.5 Fjárhagsaðstoð

Tafla 12. Fjárhagsaðstoð á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöður um hvort þátttakendur hafi fengið fjárhagsaðstoð síðasta árið eftir kyni og fjölskyldugerð koma fram í töflu 12. Þær sýna að tæplega fjórir af hverjum tíu hafa fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi peninga- eða matargjafa (38,4%). Tæplega einn af hverjum tíu hefur fengið mataraðstoð (9,7%) en lægra hlutfall fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (4,1%) og fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (3,7%).

Hærra hlutfall kvenna en karla hafði fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi peninga- eða matargjafa (39,4% á móti 36,8%) og fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (4,3% á móti 3,9%). Hærra hlutfall karla en kvenna hafði fengið mataraðstoð (10,4% á móti 9,3%) og fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (4,8% á móti 3,1%).

Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem hafði fengið allar þær tegundir fjárhagsaðstoðar sem spurt var um. Þannig hafa tæplega sex af hverjum tíu einhleypum foreldrum fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum (59,7%), ríflega fimmtungur mataraðstoð (22%) og lægra hlutfall fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (11,6%) og fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (7,3%).

Hærra hlutfall einhleypra en sambúðarfólks með börn og sambúðarfólks hafði fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum (46% á móti 36% og 18%), mataraðstoð (12% á móti 4,3% og 3,4%), fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (4,8% á móti 2,3% og 0,5%) og fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (4,7% á móti 2,7% og 1,2%).

Hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem hafði fengið allar þær gerðir fjárhagsaðstoðar sem spurt var um. Tæplega sjö af hverjum tíu einhleypum mæðrum höfðu fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum (65,2%), fjórðungur mataraðstoð (25%), ríflega ein af hverjum tíu fjárhagsaðstoð hjá félags- eða hjálparsamtökum (12,6%) og tæplega ein af hverjum tíu fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (7,5%).

Tafla 13. Fjárhagsaðstoð (samanteknir þættir) á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í töflu 13 hafa þættir er varða fjárhagsaðstoð á síðastliðnu ári verið teknir saman eftir kyni og fjölskyldustöðu. Í töflunni eru teknir saman þeir fjórir þættir sem sýndir eru í töflu 12.

Niðurstöðurnar sýna að 43,3% einhleypra foreldra höfðu fengið eina tegund fjárhagsaðstoðar en hlutfallið er 39,2% meðal einhleypra, 33,4% hjá sambúðarfólki með börn og 16,9% hjá sambúðarfólki.

Þá höfðu 14,8% einhleypra foreldra fengið tvær tegundir aðstoðar á síðastliðnu ári en hlutfallið var nokkuð lægra meðal einhleypra (8,9%) og lægst meðal sambúðarfólks með börn (2,8%) og sambúðarfólks (2,2%). Að sama skapi er hæst hlutfall einhleypra foreldra sem hafði fengið þrjár eða fjórar gerðir aðstoðar (8,3%) en hlutfallið er lægra meðal einhleypra (3,3%), sambúðarfólks með börn (1,8%) og sambúðarfólks (0,5%).

Hins vegar hafði hærra hlutfall karla í sambúð með börn en kvenna í sambúð með börn fengið eina (34,6% á móti 32,7%) og tvær tegundir aðstoðar (4,3% á móti 2%) en svipað hlutfal þrjár eða fjórar tegundir aðstoðar (1,9% á móti 1,8%). Sömuleiðis hafði hærra hlutfall karla í sambúð en kvenna í sambúð fengið eina (18,1% á móti 16,3%), tvær (2,4% á móti 2,1%) og þrjár eða fjórar tegundir fjárhagsaðstoðar (1,2% á móti 0,2%).

Þegar litið er til einhleypra sést að staðan er nokkuð breytileg milli kynja. Hærra hlutfall einhleypra kvenna en karla hafði fengið eina tegund fjárhagsaðstoðar (33,8% á móti 30,7%) en hærra hlutfall karlanna hafði fengið tvær (7,2% á móti 6,6%) og þrjár eða fjórar gerðir fjárhagsaðstoðar (3,4% á móti 2,7%).

Tafla 14. Fjárhagsaðstoð síðastliðna 12 mánuði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 14 sýnir hvort svarendur hafi fengið einhvers konar fjárhagsaðstoð síðastliðið ár eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að langhæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem hafa fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi peninga- eða matargjafa en það á við um ríflega helming þeirra (51,2%). Einnig höfðu þau sem eru á endurhæfingarlífeyri í meiri mæli þurft mataraðstoð (12,7%) og fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (8,5%).

Hæst var hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri og höfðu þurft fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (4,3%).

Hærra hlutfall örorkulífeyristaka en örorkustyrktaka hafði fengið fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (3,1% á móti 2,9%), aðstoð frá vinum eða ættingjum (36,3% á móti 30,4%) en hærra hlutfall örorkustyrktaka hafði þurft mataraðstoð (10,3% á móti 9,2%).

Hærra hlutfall kvenna en karla á endurhæfingarlífeyri hafði fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum (56,2% á móti 42,5%) og fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (3,9% á móti 2,3%) en hærra hlutfall karla en kvenna á endurhæfingarlífeyri hafði þurft fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (10,9% á móti 7,1%) og mataraðstoð (17,2% á móti 10,1%). Karlar á endurhæfingarlífeyri eru jafnframt þeir sem í mestum mæli hafa þurft mataraðstoð samanborið við aðra hópa.

Ögn hærra hlutfall kvenna en karla á örorkulífeyri hafði fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum (36,6% á móti 35,8%) en svipað hlutfall fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (4,3% á móti 4,2%). Hins vegar var ögn hærra hlutfall karla en kvenna á örorkulífeyri sem hafði þurft fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags (3,9% á móti 2,6%) og mataraðstoð (9,5% á móti 9,1%).

Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk hafði fengið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi (4,2% á móti 2,3%), aðstoð frá vinum eða ættingjum (40% á móti 25%) og mataraðstoð (12,5% á móti 9,1%). Hins vegar var hærra hlutfall kvenna en karla á örorkustyrk sem hafði fengið fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum (2,3% á móti 0%).

Tafla 15. Fjárhagsaðstoð (samanteknir þættir) á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Í töflu 15 hafa þættir er varða fjárhagsaðstoð á síðastliðnu ári verið teknir saman eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Í töflunni eru teknir saman þeir fjórir þættir sem sýndir eru í töflu 14.

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri samanborið við þau sem eru á örorkulífeyri og örorkustyrk sem hafa fengið eina (38,6% á móti 31,6% og 31,9%), tvær (13,5% á móti 5,8% og 4,3%) og þrjár eða fleiri tegundir aðstoðar (3,1% á móti 2,9% og 1,4%).

Hærra hlutfall kvenna en karla á endurhæfingarlífeyri hafði þurft eina tegund aðstoðar (45,5% á móti 26,4%) en hærra hlutfall karla tvær (17,2% á móti 11,4%) og þrjár eða fjórar tegundir fjárhagsaðstoðar (4% á móti 2,6%).

Svipað hlutfall kvenna og karla á örorkulífeyri hafði fengið eina (31,8% og 31,2%), tvær (5,8% og 5,8%) og þrjár eða fjórar tegundir fjárhagsaðstoðar (2,7% og 3,2%).

Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk hafði fengið eina tegund fjárhagsaðstoðar (48% á móti 22,7%) en hærra hlutfall kvenna tvær (4,5% á móti 4%) og þrjár eða fjórar tegundir fjárhagsaðstoðar (2,3% á móti 0%).

3.1.6 Yfirdráttur, smálán, bílalán og önnur skammtímalán

Tafla 16. Hlutfall þeirra sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 16 sýnir hlutfall þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim. Niðurstöðurnar eru greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu. Þær sýna að ríflega fjórir af hverjum tíu eru með yfirdrátt (42,4%) og lítið lægra hlutfall með húsnæðislán (40,5%). Ríflega þriðjungur er með lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (35,1%) og tæplega fjórðungur er með bílalán (23,2%) og önnur skammtímalán (23,6%). Lægra hlutfall er með námslán (13,6%) og smálán (6,8%). Skuldastaða er nokkuð breytileg eftir hópum. Þannig er til að mynda hæst hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn með yfirdrátt (51,7%), húsnæðislán (63%), bílalán (39,6%) og námslán (23,3%). Hins vegar er hæst hlutfallið meðal einhleypra foreldra sem eru með smálán (12,5%), önnur skammtímalán (35,8%) og lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (59,3%).

Tafla 17. Hlutfall þeirra sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 17 sýnir hlutfall þátttakenda sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim og eru niðurstöðurnar greindar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem eru með yfirdrátt (44,7%), smálán (11,5%), námslán (18,1%), önnur skammtímalán (30,1%) og lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (50,2%). Hins vegar er hæst hlutfall örorkulífeyristaka sem eru með húsnæðislán (40,6%) og bílalán (23,9%).

Hærra hlutfall kvenna en karla á örorkulífeyri er með allar tegundir lána sem spurt var um. Þannig er hærra hlutfall með yfirdrátt (45,2% á móti 37,7%), smálán (6,3% á móti 5,7%), húsnæðislán (44,6% á móti 34,2%), bílalán (25,5% á móti 21,4%), námslán (15,9% á móti 7,5%), önnur skammtímalán (24,2% á móti 20,1%) og lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (33,2% á móti 32,3%). Hærra hlutfall kvenna en karla á endurhæfingarlífeyri er með yfirdrátt (47% á móti 40,5%), húsnæðislán (39,1% á móti 29,3%), bílalán (17,9% á móti 15,5%), námslán (24% á móti 7,5%) og lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (51,8% á móti 47,4%). Mjög svipað hlutfall karla og kvenna á endurhæfingarlífeyri er með smálán (11,6% og 11,5%) en hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna með önnur skammtímalán (35,3% á móti 27,2%). Hærra hlutfall kvenna en karla á örorkustyrk er með smálán (4,5% á móti 4%), húsnæðislán (44,2% á móti 32%), bílalán (22,7% á móti 12%), námslán (13,6% á móti 8%) og önnur skammtímalán (16,3% á móti 8,3%). Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk með yfirdrátt (44% á móti 30,2%) og lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim (37,5% á móti 20,9%).

3.1.7 Fjárskortur komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti

Svarendur voru spurðir hvort fjárskortur á síðustu 12 mánuðum hefði komið í veg fyrir að þeir hefðu getað leyft sér nauðsynlegan klæðnað, eins næringarríkan mat og þeir töldu sig þurfa, líkamsrækt, menningarviðburði, félagslíf, klippingu á hárgreiðslustofu og menntun sem þeir hefðu áhuga á að sækja, líkt og námskeið, símenntun eða nám á framhalds- eða háskólastigi.

Tafla 18. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt væri að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 18, greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu. Þær sýna að meira en helmingur hafði neitað sér um menningarviðburði, s.s. að fara á tónleika eða á söfn (57,8%), helmingur hafði neitað sér um félagslíf, eins og að fara á kaffihús eða í bíó með öðrum (50%) og tæplega helmingur um klippingu á hárgreiðslustofu (45,7%). Um það bil fjórir af hverjum tíu höfðu neitað sér um nauðsynlegan klæðnað (42,8%), líkamsrækt (42,4%), menntun (40,3%) og eins næringarríkan mat og þeir töldu sig þurfa (38,2%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir fjölskyldustöðu kemur í ljós að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem hafa þurft að neita sér um alla aðspurða þætti vegna fjárskorts.

Tæplega þrír fjórðu höfðu neitað sér um að sækja menningarviðburði (74,2%) og lítið lægra hlutfall félagslíf (68,8%) og klippingu á hárgreiðslustofu (67,7%).

Meira en helmingur hafði ekki getað keypt nauðsynlegan klæðnað (61,2%), getað borðað eins næringarríkan mat og þurfa þótti (59,3%), sótt sér menntun (55,1%) og líkamsrækt (53,2%).

Þegar litið er til sambúðarfólks með börn sést að meira en helmingur hafði neitað sér um menningarviðburði (58,3%) og klippingu á hárgreiðslustofu (52,1%) og tæplega helmingur um félagslíf (48,8%).

Um það bil fjórir af hverjum tíu höfðu ekki efni á nauðsynlegum klæðnaði fyrir sjálfa sig (44%), menntun (42,9%) og líkamsrækt (41,2%) og ríflega þriðjungur gat ekki keypt eins næringarríkan mat og hann taldi sig þurfa (34,8%).

Þegar litið er til einhleypra sést að ríflega sex af hverjum tíu gátu ekki sótt menningarviðburði (61,1%) og meira en helmingur ekki félagslíf (52,3%). Tæplega helmingur hafði ekki efni á nauðsynlegum klæðnaði fyrir sjálfan sig (47%) og líkamsrækt (46,5%).

Ríflega fjórir af hverjum tíu höfðu ekki getað greitt fyrir klippingu á hárgreiðslustofu (45,2%), næringarríkan mat (44,4%) og menntun sem þeir höfðu áhuga á að sækja (42,3%).

Lægra hlutfall þeirra sem voru í sambúð hafði ekki getað greitt fyrir þá þætti sem spurt var um í könnuninni en þó gátu ríflega fjórir af hverjum tíu ekki sótt menningarviðburði (44,2%), ríflega þriðjungur ekki félagslíf (37,8%), tæplega þriðjungur ekki líkamsrækt (31,4%) og klippingu á hárgreiðslustofu (31,3%).

Ríflega fjórðungur gat ekki sótt þá menntun sem hann hafði áhuga á (28,3%) og keypt nauðsynlegan klæðnað (26,7%). Um fimmtungur gat ekki keypt eins næringarríkan mat og hann taldi sig þurfa (20,1%).

Tafla 19. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í töflu 19 hafa þeir þættir sem svarendur höfðu ekki getað leyft sér á síðastliðnum 12 mánuðum sökum fjárhagsstöðu sinnar og sýndir voru í töflu 18 verið teknir saman.

Niðurstöðurnar sýna að 6,4% svarenda höfðu ekki getað greitt fyrir einn þátt, 6,8% fyrir tvo þætti, 11,7% þrjá og tæplega helmingur hafði ekki getað greitt fyrir fjóra eða fleiri þeirra sjö þátta sem spurt var um (47,4%).

Hærra hlutfall karla en kvenna hafði ekki veitt sér einn (6,6% á móti 6,2%), tvo (6,9% á móti 6,8%) og þrjá þætti (12,8% á móti 11%) en hærra hlutfall kvenna en karla ekki getað veitt sér fjóra eða fleiri aðspurðra þátta (50,9% á móti 41,7%).

Hæst er hlutfallið meðal einhleypra mæðra sem ekki gátu greitt fyrir fjóra eða fleiri þætti (73,3%) og því næst einhleypra kvenna (58,1%).

Um helmingur einhleypra feðra (51,8%) og kvenna í sambúð með börn (49,1%) gat ekki veitt sér fjóra eða fleiri þætti. Sama á við um ríflega fjóra af hverjum tíu einhleypum körlum og körlum í sambúð með börn (43,2% og 44,1%). Lægst var hlutfallið meðal karla og kvenna í sambúð (32,4% og 30,8%).

Svarendur voru spurðir hvort fjárskortur á síðustu 12 mánuðum hefði komið í veg fyrir að þeir hefðu getað leyft sér nauðsynlegan klæðnað, eins næringarríkan mat og þeir töldu sig þurfa, líkamsrækt, menningarviðburði, félagslíf, klippingu á hárgreiðslustofu og menntun. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 20, greindar eftir kyni og tegund lífeyrisréttinda.

Tafla 20. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem vegna fjárskorts hafa ekki getað veitt sér alla þá þætti sem spurt var um.

Meira en helmingur gat ekki sótt menningarviðburði (61,6%), félagslíf (57,5%), farið í klippingu á hárgreiðslustofu (52,1%) og keypt sér nauðsynlegan klæðnað (51%).

Ríflega fjórir af hverjum tíu gátu ekki sótt þá menntun sem þeir höfðu áhuga á (44,7%), líkamsrækt (42,8%) og borðað eins næringarríkan mat og þeir töldu sig þurfa (43%).

Þegar litið er til þeirra sem eru á örorkulífeyri sést að meira en helmingur þeirra gat ekki sótt menningarviðburði (57,1%) og tæplega helmingur ekki félagslíf (49,1%). Ríflega fjórir af hverjum tíu gátu ekki farið í klippingu á hárgreiðslustofu (44,6%), farið í líkamsrækt (42,4%) eða veitt sér nauðsynlegan klæðnað (41,7%). Tæplega fjórir af hverjum tíu gátu ekki sótt þá menntun sem þeir höfðu áhuga á (39,7%) eða veitt sér eins næringarríkan mat og þeir töldu sig þurfa (37,5%).

Lægra hlutfall þeirra sem eru á örorkustyrk hafði ekki getað veitt sér þá þætti sem spurt var um en þrátt fyrir það var tæplega helmingur sem ekki gat sótt menningarviðburði (47,1%) og ríflega þrír af hverjum fjórum ekki félagslíf (36,2%), klippingu á hárgreiðslustofu (32,4%), menntun (31,9%) og nauðsynlegan klæðnað (30,4%). Lítið lægra hlutfall gat ekki borðað eins næringarríkan mat og vilji stóð til (29%) eða sótt líkamsrækt (29,4%).

Tafla 21. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Í töflu 21 hafa þeir þættir sem svarendur höfðu ekki getað leyft sér á síðastliðnum 12 mánuðum sökum fjárhagsstöðu sinnar og sýndir voru í töflu 20 verið teknir saman og greindir eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem höfðu ekki getað veitt sér fjóra eða fleiri þeirra sjö þátta sem spurt var um (51,1%) en sama á við um tæplega helming þeirra sem eru á örorkulífeyri (47%) og tæplega þriðjung þeirra sem eru á örorkustyrk (31,9%). Hæst er hlutfall kvenna sem eru á endurhæfingarlífeyri sem ekki gátu veitt sér fjóra eða fleiri þætti (55,6%) og því næst meðal kvenna á örorkulífeyri (50,5%). Hlutfallið var nokkuð lægra meðal karla á endurhæfingarlífeyri og á örorkulífeyri (43,1% og 41,5%). Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk hafði ekki getað veitt sér fjóra eða fleiri aðspurðra þátta (37,5% á móti 28,9%).

3.1.8 Fjárskortur komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn

Svarendur sem voru með börn undir 18 ára á heimilinu voru beðnir um að svara hvort fjárskortur síðastliðna 12 mánuði hefði komið í veg fyrir að þeir gætu meðal annars greitt fyrir leikskóla, frístund, framhaldsskóla, skólabækur eða annan námskostnað, skólamáltíðir, skipulagðar tómstundir, skólaferðalag eða viðburði tengdum skóla, félagslíf, afmæli- eða veislur fyrir barn, afmælis- eða jólagjafir, nauðsynlegan fatnað fyrir börnin sín og eins næringarríkan mat og þeir telja barnið sitt þurfa. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 22, greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 22. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöðurnar sýna að um fjórir af hverjum tíu foreldum gátu ekki gefið börnunum sínum afmælis- og/eða jólagjafir (39,4%), greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda (38%) og nauðsynlegan klæðnað (37,5%).

Ríflega þrír af hverjum tíu gátu ekki greitt kostnað vegna félagslífs barnanna sinna (37,9%), staðið straum af kostnaði við að halda afmælisveislu eða aðrar veislur til dæmis vegna útskriftar eða fermingar barna (36,7%) og veitt börnunum sínum eins næringarríkan mat og þeir vildu (34%).

Fjórðungur gat ekki greitt kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða tengdum skóla (24,3%), fimmtungur ekki greitt fyrir frístund (20%) og lítið lægra hlutfall fyrir mat í skóla (18,6%) og skólabækur eða annan námskostnað (16,3%). Lægra hlutfall gat ekki greitt skólagjöld í framhaldsskóla (8,4%) og leikskólagjöld (7,7%).

Hærra hlutfall einhleypra foreldra en sambúðarforeldra gat ekki greitt fyrir alla þá þætti sem spurt var um. Hærra hlutfall þeirra gat ekki gefið börnunum sínum afmælis- og/eða jólagjafir (54,1% á móti 27,7%), staðið straum af kostnaði við afmælis- eða aðrar veislur fyrir börn (50,9% á móti 25,4%), greitt kostnað vegna félagslífs (48,3% á móti 29,5%), keypt nauðsynlegan klæðnað (48,2% á móti 28,9%), næringarríkan mat (48,4% á móti 22,4%), skipulagðar tómstundir (46,7% á móti 30,9%), staðið straum af kostnaði vegna skólaferðalags eða sérstakra viðburða í skóla (31,9% á móti 18,3%), greitt fyrir mat í skóla (23% á móti 15,2%), gjöld fyrir frístund (23,8% á móti 17%), skólabækur eða annan námskostnað (20,2% á móti 13,2%), skólagjöld í framhaldsskóla (9,9% á móti 7,2%) og leikskólagjöld (8,3% á móti 7,2%).

Tafla 23. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 23 sýnir hlutfall foreldra með börn á heimili undir 18 ára aldri sem hafa ekki getað greitt fyrir einhverja þeirra 12 þátta sem spurt var um í könnuninni og tekið var saman í töflu 22. Samanteknir þættir eru greindir eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall sambúðarforeldra en einhleypra foreldra hafði ekki haft efni á einum (10,1% á móti 7,7%) og tveimur þáttum (9% á móti 6,1%).

Hins vegar var hærra hlutfall einhleypra foreldra en sambúðarforeldra sem hafði ekki efni á þremur (13,1% á móti 8,3%), fjórum (9,2% á móti 7,2%), fimm (11,5% á móti 6,3%) og sex eða fleiri þáttum (32,7% á móti 16,6%) fyrir börnin sín.

Hæst er hlutfallið meðal einhleypra mæðra sem gátu ekki greitt fyrir sex eða fleiri þeirra 12 þátta sem spurt var um í könnuninni og á það við um rösklega þriðjung þeirra (35,1%). Sama á við um ríflega fjórðung einhleypra feðra en hlutfallið er lægra meðal mæðra og feðra í sambúð (15,3% á móti 19%).

Svarendur sem voru með börn undir 18 ára á heimilinu voru beðnir um að svara hvort fjárskortur síðastliðna 12 mánuði hefði komið í veg fyrir að þeir gætu meðal annars greitt fyrir leikskóla, frístund, framhaldsskóla, skólabækur eða annan námskostnað, skólamáltíðir, skipulagðar tómstundir, skólaferðalag eða viðburði tengda skóla, félagslíf, afmælis- eða aðrar veislur fyrir barn, afmælis- eða jólagjafir, nauðsynlegan fatnað fyrir börnin sín og eins næringarríkan mat og þeir telja barnið sitt þurfa. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 24 greindar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda.

Tafla 24. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfallið meðal foreldra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem hafa vegna fjárskorts ekki getað greitt fyrir tíu af þeim tólf þáttum sem spurt var um í könnuninni samanborið við foreldra sem eru með örorkulífeyri eða örorkustyrk.

Tæplega helmingur þeirra gat ekki greitt kostnað vegna félagslífs (49,7%), keypt nauðsynlegan klæðnað (49,7%), afmælis- eða jólagjafir (47%).

Lítið lægra hlutfall gat ekki staðið straum af kostnaði við að halda afmæli eða veislur fyrir barnið sitt (43,7%), greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda (37,7%) og veitt börnunum sínum eins næringarríkan mat og vilji stóð til (36,1%).

Fjórðungur gat ekki greitt kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða tengdum skóla (25,7%) og frístundar (24%).

Fimmtungur gat ekki greitt fyrir mat í skóla (20,8%) og lægra hlutfall ekki fyrir skólabækur eða annan námskostnað (15,8%), skólagjöld í framhaldsskóla (10,9%) og leikskólagjöld (10,9%).

Þegar litið er til þeirra sem eru á örorkulífeyri sést að tæplega fjórir af hverjum tíu gátu ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda (38,1%), afmælis- og/eða jólagjafir (37,9%), félagslíf (35,5%), kostnað við að halda afmæli eða aðrar veislur vegna barna (35,4%), nauðsynlegan klæðnað (35%) og eins næringarríkan mat og börnin þurfa (33,8%).

Tæplega fjórðungur gat ekki greitt kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða í skóla, t.d. sérstakt nesti eða öskudagsbúning (24,1%) og tæplega fimmtungur ekki greitt fyrir frístund (19,3%) og mat í skóla (18,4%). Lægra hlutfall gat ekki greitt skólagjöld í framhaldsskóla (8%) og leikskólagjöld (6,9%).

Lægra hlutfall þeirra sem eru á örorkustyrk gátu ekki greitt kostnað fyrir þá þætti sem spurt var um í könnuninni samanborið við þau sem eru á endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri. Þrátt fyrir það gat um fjórðungur ekki gefið börnunum sínum afmælis- og/eða jólagjafir (39,4%), greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda (26,7%) og skólaferðalaga eða annarra viðburða í skóla (26,7%) og ekki staðið straum af kostnaði við að halda afmælisveislur eða t.d. fermingarveislur (26,7%).

Fimmtungur gat ekki gefið börnunum sínum eins næringarríkan mat og vilji stóð til (20%), keypt nauðsynlegan klæðnað (20%) eða greitt kostnað vegna félagslífs (20%). Lægra hlutfall gat ekki greitt fyrir skólabækur eða annan námskostnað (13,3%), mat í skóla (6,7%) og frístund (6,7%).

Tafla 25. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 25 sýnir hlutfall foreldra með börn á heimili undir 18 ára aldri sem hafa ekki getað greitt fyrir einhverja þeirra 12 þátta sem spurt var um í könnuninni og var tekið saman í töflu 24. Samanteknir þættir eru greindir eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda.

Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall foreldra með endurhæfingarlífeyri en örorkulífeyri og örorkustyrk gat ekki greitt fyrir einn (11,5% á móti 8,5% og 0%), þrjá (21,3% á móti 8,1% og 0%), fjóra (11,5% á móti 7,4% og 0%) og sex eða fleiri þætti (25,7% á móti 23,5% og 20%). Hins vegar hafði hærra hlutfall örorkulífeyristaka ekki getað greitt fyrir tvo þætti (8,4% á móti 6% og 0%) og hærra hlutfall örorkustyrktaka ekki getað greitt fyrir fimm (13,3% á móti 8,8% og 7,7%).

Hæst er hlutfall feðra á endurhæfingarlífeyri sem ekki gátu greitt fyrir sex eða fleiri þætti fyrir börnin sín (28,6%) og því næst meðal mæðra á örorkulífeyri (24,9%) og mæðra á endurhæfingarlífeyri (24,8%). Hlutfallið var lítið lægra meðal mæðra á örorkustyrk (23,1%) og feðra á örorkulífeyri (20,7%).

Tafla 26. Foreldri/umsjónaraðili/stjúpforeldri ungmennis á aldrinum 18-25 ára eftir kyni.

Tafla 26 sýnir að meirihluti svarenda er ekki foreldrar/stjúpforeldrar/umsjónaraðilar ungmennis á aldrinum 18-25 ára (72,4%) og er hlutfallið nokkuð hærra meðal karla en kvenna (75,9% á móti 70,2%).

Þá voru 10,2% ungmennanna flutt að heiman eða bjuggu að mestu hjá öðru foreldri, 11,6% bjuggu heima en borguðu ekki heim, 2,9% voru búsett hjá foreldri og borguðu heim en 2% höfðu flutt að heiman til að koma í veg fyrir að foreldri missti heimilisuppbót.

3.1.9 Samanburður – fjárhagsstaða fatlaðs fólks og launafólks 2023

Spurningar um fjárhagsstöðu fatlaðs fólks sem lagðar voru fyrir í þessari könnun eru að hluta til þær sömu og notaðar voru í könnun meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB snemma á þessu ári og því hægt að bera niðurstöðurnar saman (Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, 2023).

Í töflunum hér á eftir eru bornar saman niðurstöðurnar úr könnunum tveimur hvað varðar að ná endum saman, hvort hægt væri að mæta 80.000 kr. óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skuldar, hvort fjárhagstaða fólks sé betri eða verri en fyrir ári og fjölda þátta sem efnislegur skortur er á.

Tafla 27. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman. Samanburður.

Tafla 27 sýnir að mun lægra hlutfall fatlaðs fólks á mjög auðvelt (2,2% á móti 8,1%), auðvelt (3,7% á móti 11,1%) og nokkuð auðvelt (17,2% á móti 33,1% ) með að ná endum saman samanborið við launafólk innan ASÍ og BSRB á vordögum 2023.

Nokkuð svipað hlutfall á nokkuð erfitt með að ná endum saman (26% á móti 25,5%) en á hinn bóginn er mun hærra hlutfall fatlaðs fólks sem á  erfitt (21% á móti 11,7%) og mjög erfitt (28% á móti 7%) með að ná endum saman.

Tafla 28. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Samanburður.

Tafla 28 sýnir að mun hærra hlutfall fatlaðs fólks en launafólks (68,7% á móti 38,3%) gæti ekki mætt 80.000 kr. óvæntum útgjöldum án þess að stofna til skuldar.

Tafla 29. Fjárhagstaða betri eða verri en fyrir ári. Samanburður.

Tafla 29 sýnir að lægra hlutfall fatlaðs fólks metur fjárhagsstöðu sýna mun betri en fyrir ári en launafólks (2,7% á móti 6%). Sama á við um þau sem telja fjárhagsstöðu sína nokkuð betri (8,6% á móti 20,1%). Að sama skapi er hlutfall fatlaðs fólks sem metur fjárhagsstöðu sína nokkuð verri (27,7% á móti 25,6%) og mun verri (27,5% á móti 12%) hærra.

Tafla 30. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á. Samanburður.

Ef litið er til fjölda þátta sem saman mæla efnislegan skort, líkt og sjá má í töflu 30, sést að mun lægra hlutfall fatlaðs fólks en launafólks skortir engan efnislegan þátt (27,1% á móti 58%). Að sama skapi er hærra hlutfall fatlaðs fólks sem ekki hefur efni á einum (19,9% á móti 19,4%) og tveimur  (18,7% á móti 12%) efnislegum þáttum og mun hærra hlutfall sem býr við efnislegan skort (15,3% á móti 6%) og verulegan efnislegan skort (19% á móti 4,5%).

3.1.10  Samantekt – fjárhagsstaða fatlaðs fólks

Fjárhagsstaða þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er á öllum mælikvörðum gríðarlega slæm. Þrír fjórðu eiga mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt með að ná endum saman (74,9%) og tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum (68,5%). Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári (51,5%) og ríflega þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (34,3%) og er hlutfallið hærra meðal kvenna en karla (35,6% á móti 32,1%). Algengast er að þau sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk hafi fengið fjárhagsaðstoð frá vinum eða ættingjum en það á við um tæplega fjögur af hverjum tíu (38,4%). Lægra hlutfall hefur þurft að sækja aðrar tegundir aðstoðar en samt sem áður hefur tæplega eitt af hverjum tíu fengið mataraðstoð (9,7%). Meira en helmingur þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk hefur ekki getað sótt menningarviðburði (57,8%), farið á kaffihús eða í bíó með vinum (50%) og lítið lægra hlutfall gat ekki keypt sér nauðsynlegan klæðnað (42,8%) eða borðað eins næringarríkan mat og þau vilja (38,2%).

Þegar litið er til grunnþátta er varða kostnað sem foreldrar þurfa að geta staðið straum af vegna barna sinna sést að tæplega fjögur af hverjum tíu foreldrum sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk geta ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda fyrir börnin sín (38%). Svipað hlutfall getur ekki greitt fyrir kostnað vegna félagslífs barnanna sinna (37,9%). Staða einhleypra forelda á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk er einnig sérstaklega slæm þegar kemur að þáttum sem foreldrar hafa ekki efni á að greiða fyrir börnin sín. Tæplega helmingur einhleypra foreldra getur ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda (46,7%), félagslífs (48,3%) eða haldið veislu fyrir barnið sitt, til dæmis í tilefni afmælis eða fermingar (50,9%). Slæm staða einhleypra foreldra sést ekki eingöngu þegar litið er til þátta sem foreldrar hafa ekki efni á að greiða fyrir börnin sín. Einhleypir foreldrar standa verr á öllum mælikvörðum sem notaðir eru til að meta fjárhagsstöðu. Tæplega helmingur þeirra á mjög erfitt með að ná endum saman (45,9%), 84,9% geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum og raunar geta níu af hverjum tíu einhleypum mæðrum ekki mætt svo háum óvæntum útgjöldum (89,3%). Hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem meta fjárhagsstöðu sína mun verri en fyrir ári (35,2%). Meira en helmingur einhleypra foreldra býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (57,4%). Hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem býr við fátækt en það á við um fleiri en sex af hverjum tíu þeirra (61,3%) og er það hærra hlutfall en í nokkrum öðrum hópi. Að sama skapi er langhæst hlutfall einhleypra foreldra sem búa við verulegan efnislegan skort eða sárafátækt (31,8%). Einhleypir foreldrar eru að sama skapi sá hópur sem í mestum mæli hefur þurft að fá aðstoð frá vinum eða ættingjum (59,7%), mataraðstoð (22%) og allar þær tegundir aðstoðar sem spurt var um. Einhleypir foreldrar eru sá hópur sem í mestum mæli hefur þurft að neita sér um nauðsynlegan klæðnað (61,2%), næringarríkan mat (59,3%), menningarviðburði (74,2%) og félagslíf (68,8%) sökum slæmrar fjárhagsstöðu.

Þegar staða þeirra sem eru á örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri er skoðuð og borin saman sést að í sumum mælikvörðum er staða örorkulífeyristaka verri en á öðrum er staða endurhæfingarlífeyristaka verri. Hærra hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri á mjög erfitt með að ná endum saman (28,7%) en hlutfallið er lítið lægra meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (28,7%). Hins vegar er hærra hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri sem ekki gætu mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum (69,1%) en hlutfallið er lítið lægra meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (67,8%). Hærra hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári samanborið við þau sem eru á endurhæfingarlífeyri (56,1% á móti 49,9%). Hærra hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort (41,3%) en hlutfallið er nokkuð lægra meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (33,4%). Hærra hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri hefur fengið aðstoð frá vinum eða ættingjum en það á við um ríflega helming þeirra (51,2%).

3.2 Staða á húsnæðismarkaði

Hér á eftir verður staða þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk á húsnæðismarkaði skoðuð. Fyrst í hvers konar húsnæði og þá byrði húsnæðiskostnaðar.

Tafla 31. Staða á húsnæðismarkaði eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 31 sýnir að rétt tæplega helmingur þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk er í eigin húsnæði (49,3%). Fimmtungur er í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði (20,7%) og lægra hlutfall í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélags (11,3%), hjá foreldrum eða ættingjum (9%) og í leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum (6,6%).

Hæst er hlutfall þeirra sem eru í sambúð sem eru í eigin húsnæði (75,7%) og sambúð með börn (71,6%). Mun lægra hlutfall einhleypra er í eigin húsnæði (30,3%) og lægst er hlutfallið meðal einhleypra foreldra (26,4%). Að sama skapi er lægra hlutfall sambúðarfólks og sambúðarfólks með börn á almennum leigumarkaði (12,9% og 15,3%) samanborið við einhleyp (24,6%) en hlutfallið er hæst meðal einhleypra foreldra (30,8%). Sömuleiðis er hlutfallið hæst meðal einhleypra foreldra sem búa í leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi (21,1%) en hlutfallið er lítið lægra meðal einhleypra (16,2%).

Hæst er hlutfall einhleypra sem eru búsett í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka (10,2%) og því næst einhleypra foreldra (6,4%).

Þegar litið er ástöðuna með tilliti til kyns má sjá að hærra hlutfall kvenna en karla býr í eigin húsnæði (54% á móti 41,7%). Einnig er hærra hlutfall kvenna en karla á almennum leigumarkaði (21,6% á móti 19,1%). Á hinn bóginn er hlutfall karla hærra meðal þeirra sem búa í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka (7,8% á móti 5,8%), leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi (12,6% á móti 10,4%) og hjá foreldrum eða ættingjum (14,5% á móti 5,6%). Hæst er hlutfall kvenna í sambúð með börn sem býr í eigin húsnæði (78,9%) og er hlutfallið nokkuð hærra en meðal karla í sömu stöðu (69,2%).

Hlutfallslega flestar einhleypar mæður eru á almennum leigumarkaði (33,3%) en það á sömuleiðis við um 24,1% einhleypra feðra.

Tafla 32. Staða á húsnæðismarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 32 sýnir stöðu á húsnæðismarkaði eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Taflan sýnir að ríflega helmingur örorkulífeyristaka (50,4%) og örorkustyrktaka (51,4%) býr í eigin húsnæði en það á við um nokkuð lægra hlutfall endurhæfingarlífeyristaka (38,2%). Á hinn bóginn er hlutfallið hæst meðal endurhæfingarlífeyristaka sem búa í húsnæði á almennum leigumarkaði eða ríflega fjórðungur (28,9%).

Um fimmtungur örorkulífeyristaka (19,2%) og örorkustyrktaka (21,4%) býr sömuleiðis í leiguhúsnæði á almennum markaði.

Nokkuð svipað hlutfall fólks á örorkulífeyri (6,8%), endurhæfingarlífeyri (6%) og örorkustyrk (4,3%) býr í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka.

Af þeim sem búa í leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi er hlutfallið hæst meðal örorkulífeyristaka (12%) en hlutfallið er lægra meðal endurhæfingarlífeyristaka (8%) og fólks á örorkustyrk (7,1%).

Af þeim sem búa hjá foreldrum eða ættingjum er hlutfallið hæst meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (15,3%).

3.2.1  Byrði húsnæðiskostnaðar

Tafla 33. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 33 sýnir byrði við rekstur húsnæðis, þar með talið afborganir húsnæðislána, leigu, tryggingar, fasteignagjöld, viðhald og viðgerðir. Tæplega helmingur fólks (49,2%) býr við þunga byrði vegna húsnæðis og 38,8% telja húsnæðiskostnað nokkra byrði. Einungis 8,3% búa ekki við byrði af húsnæðiskostnaði.

Hæst hlutfall þeirra sem bera þunga byrði af húsnæðiskostnaði eru einhleypir foreldrar (61,3%).

Sambúðarfólk með börn (56,6%) og einhleyp (48,9%) koma þar á eftir en lægst er hlutfallið meðal fólks í sambúð án barna (39,2%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni kemur í ljós að hæst hlutfall þeirra sem búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði eru karlar í sambúð með börn á framfæri (66,8%), því næst koma einhleypar mæður (62,3%) og einhleypir feður (58,7%).

Tafla 34. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 34 sýnir byrði húsnæðiskostnaðar greint eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að nokkuð svipað hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (51,1%) og þeirra sem eru á örorkulífeyrir (49%) býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Ögn lægra hlutfall þeirra sem eru á örorkustyrk býr sömuleiðis við þunga byrði (37,7%). Að sama skapi eru ögn fleiri sem eru á örokurstyrk (49,3%) sem búa við nokkra byrði samanborið við þau sem eru annars vegar á endurhæfingarlífeyri (36,1%) og hins vegar á örorkulífeyri (38,8%). Munurinn er þó ekki mikill og reynist ekki marktækur samkvæmt tölfræðilegu marktektarprófi (p = 0,419).

Tafla 35. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og stöðu á húsnæðismarkaði.

Tafla 35 sýnir byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og stöðu á húsnæðismarkaði. Niðurstöðurnar sýna að af þeim sem búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði er hlutfallið langhæst meðal þeirra sem búa í leiguhúsnæði á almennum markaði (65,8%). Nokkuð svipað hlutfall í eigin húsnæði (46,3%) og þeirra sem búa í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka (47,2%) býr sömuleiðis við þunga byrði og ögn lægra hlutfall þeirra sem búa í leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi (42,2%).

Þegar litið er til stöðunnar með tilliti til kyns má sjá nokkuð svipaða stöðu. Hæst er hlutfallið meðal kvenna (65,3%) og karla (66,7%) á almennum leigumarkaði sem búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Nokkuð svipað hlutfall kvenna og karla annars vegar í eigin húsnæði (45,9% og 47%) og hins vegar í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka (46,7% á móti 47,8%) býr sömuleiðis við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Lægst er hlutfallið meðal karla sem búa í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélags (36,8%).

3.2.2 Húsnæðisstuðningur

Tafla 36. Húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 36 sýnir hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði og fá húsnæðisbætur og/eða sérstakan húsnæðisstuðning. Mikill meirihluti einhleypra foreldra í leiguhúsnæði fær húsnæðisbætur eða 80,1% þeirra. Næsthæst er hlutfall einhleypra (73,1%), því næst sambúðarfólks með börn á framfæri (48,6%) en lægst er hlutfallið meðal fólks í sambúð og engin börn (31,4%).

Þegar staðan er skoðuð með tilliti til kyns má sjá að ögn hærra hlutfall einhleypra mæðra en einhleypra feðra fær húsnæðisbætur (81,2% á móti 76,8%). Það sama á við um einhleypar konur samanborið við einhleypa karla (76,8% á móti 68,5%). Á hinn bóginn er hlutfall þeirra sem fá húsnæðisbætur hærra meðal karla en kvenna í sambúð með börn (53% á móti 44,9%) og eins karla í sambúð og engin börn (38,7% á móti 26,7%).

Á heildina litið er nokkuð lægra hlutfall sem fær sérstakan húsnæðisstuðning en húsnæðisbætur (36,9%) en hlutfallslega flest þeirra sem fá sérstakan húsnæðisstuðning eru einhleypir foreldrar (53,3%). Næsthæst er hlutfall þeirra sem eru einhleypir en 42,5% þeirra fá slíkan stuðning. Mun lægra hlutfall sambúðarfólks hvort sem er með börn á heimili (6,9%) eða ekki (11,6%) fá sérstakan húsnæðisstuðning.

Þegar staðan er skoðuð með tilliti til kyns má sjá að ögn hærra hlutfall einhleypra mæðra en einhleypra feðra fær sérstakan húsnæðisstuðning (54,7% á móti 48,5%) og sömuleiðis er hlutfall einhleypra kvenna ögn hærra en einhleypra karla sem fá slíkan stuðning (44,1% á móti 40,5%).

3.2.3   Samanburður – staða fatlaðs fólks og launafólks á húsnæðismarkaði 2023

Spurningin um byrði af húsnæðiskostnaði sem lögð var fyrir í þessari könnun var einnig lögð fyrir í könnun Vörðu um stöðu launafólks á vordögum 2023. Í töflunni hér á eftir eru bornar saman niðurstöður úr könnununum tveimur hvað varðar byrði húsnæðiskostnaðar með tilliti til þess hvort fólk búi í eigin húsnæði, á almennum leigumarkaði eða leigir í gegnum óhagnaðardrifin leigusamtök eða sveitarfélag.

Tafla 37. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir stöðu á húsnæðismarkaði. Samanburður.

Tafla 37 sýnir að fólk á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk býr í mun meiri mæli við þunga byrði af húsnæðiskostnaði en launafólk.

Ríflega helmingur fatlaðs fólks (50,4%) býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði á móti ríflega þriðjungi launafólks (35,7%). Er þessi munur hvað skýrastur annars vegar meðal þeirra sem búa í leiguhúsnæði á almennum markaði (65,8% á móti 52,9%) og hins vegar þeirra sem búa í eigin húsnæði (46,2% á móti 28,1%).

Á hinn bóginn er nokkuð svipað hlutfall fatlaðs fólks og launafólks sem býr í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka eða sveitarfélaga sem býr við þunga byrði (44% á móti 45,3%).

3.2.4 Samantekt – staða á húsnæðismarkaði

Niðurstöður könnunarinnar sýna að innan við helmingur fólks á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk býr í eigin húsnæði (49,3%). Fimmtungur er í leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði (20,7%) og tæplega tveir af hverjum tíu búa ýmist í leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka eða sveitarfélags (17,9%). Niðurstöðurnar sýna jafnframt að helmingur fólks býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði (50,4%) og 39,4% telja húsnæðiskostnað nokkra byrði. Einungis 7,5% búa ekki við byrði af húsnæðiskostnaði.

Hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk og búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði er mun hærra en meðal launafólks. Byrðin er sérstaklega mikil hjá einhleypum foreldrum (61,3%) og sambúðarfólki með börn (56,6%). Hlutfall lífeyristaka sem búa við þunga byrði er þó langhæst meðal þerra sem búa í leiguhúsnæði á almennum markaði (65,8%) en þó hlutfallið sé lægra meðal þeirra sem búa í eigin húsnæði (46,3%), leiguhúsnæði á vegum óhagnaðardrifinna leigusamtaka (47,2%) og í leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi (42,2%) er engu að síður um hátt hlutfall að ræða.

Þegar litið er til þeirra sem eru á leigumarkaði sýna niðurstöðurnar einnig að hátt í sjö af hverjum tíu þeirra fá húsnæðisbætur. Þar af er hlutfallið hæst meðal einhleypra foreldra (80,1%) og einhleypra (73,1%). Á heildina litið er nokkuð lægra hlutfall sem fær sérstakan húsnæðisstuðning en húsnæðisbætur (36,9%) en hlutfallslega flest þeirra sem fá sérstakan húsnæðisstuðning eru einhleypir foreldrar (53,3%).

3.3 Heilsufar

Í kaflanum er fjallað um heilsufar fólks með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk en þátttakendur voru spurðir út í bæði líkamlega og andlega heilsu sína út frá stöðluðum sjálfsmatskvarða. Að auki var spurt hvort þátttakendur hefðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu eða aðra heilsutengda þjónustu og ástæður þess.

Til að meta líkamlega heilsu var fólk beðið um að meta hana sjálft út frá beinni spurningu um líkamlega heilsu nú um stundir. Andlega heilsan var hins vegar metin út frá PHQ-9 kvarðanum, stöðluðum spurningalista sem tekur til níu einkenna andlegrar vanlíðanar (sjá 2.4. Mælingar).

Í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands má finna upplýsingar, aftur til ársins 2018, um sjálfmetna heilsu landsmanna en um 77% töldu sig vera við góða heilsu það árið. Þegar upplýsingarnar eru skoðaðar með tilliti til tekjufimmtunga má hins vegar sjá að einungis um 66% þeirra í lægsta tekjufimmtungnum telja sig vera við góða heilsu á móti 86% þeirra í efsta tekjufimmtungnum (Hagstofa Íslands, 2019).

3.3.1   Líkamlegt heilsufar

Tafla 38. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 38 sýnir að fólk sem er á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk metur líkamlega heilsu sína almennt slæma en hátt í sjö af hverjum tíu (68,6%) meta líkamlega heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma.

Sambúðarfólk með börn á framfæri er hlutfallslega flest þeirra sem búa við mjög slæma líkamlega heilsu (31,1%). Því næst kemur einhleypt fólk (27,2%) en lægst hlutfall þeirra sem búa við mjög slæma heilsu eru einhleypir foreldrar (22,7%).

Þegar líkamleg heilsa fólks er skoðuð með tilliti til kyns má sjá að karlar meta líkamlega heilsu sína almennt ögn betur en konur. Þannig meta 16,3% karla líkamlega heilsu sína frekar góða eða mjög góða en 7,4% kvenna gera slíkt hið sama. Sömuleiðis metur 71% kvenna líkamlega heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma en 64,7% karla.

Staðan er þó ögn breytileg eftir fjölskyldugerð þar sem karlar í sambúð með börn á framfæri eru þó hlutfallslega flestir þeirra sem búa við mjög slæma líkamlega heilsu (32,2%). Næsthæst er hlutfallið meðal kvenna í sambúð með börn á heimili (30,5%) og því næst eru það einhleypar konur (29,8%).

Tafla 39. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 39 sýnir líkamlegt heilsufar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem meta líkamlega heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma (69,7%). Lítið lægra hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri (68,9%) gerir slíkt hið sama. Nokkuð lægra hlutfall þeirra sem er á örorkustyrk metur líkamlega heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma en þó um helmingur þeirra (51,4%).

Þegar litið er til stöðunnar með tilliti til kyns má sjá að hæst hlutfall þeirra sem meta líkamlega heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma eru karlar á endurhæfingarlífeyri (83,1%). Næsthæst er hlutfallið meðal kvenna á örorkulífeyri (73%). Lægst er hlutfall bæði kvenna og karla á örokurstyrk sem meta heilsu sína frekar slæma eða mjög slæma (51,2% og 52%).

Tafla 40. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og aldri.

Tafla 40 sýnir hvernig svarendur meta líkamlegt heilsufar sitt greint eftir kyni og aldri. Niðurstöðurnar sýna að lægra hlutfall þeirra sem eru 30 ára og yngri (53,1%) metur líkamlegt heilsufar sitt mjög eða frekar slæmt. Hlutfallið er hærra meðal 31-40 ára (62,6%), 51-60 ára (74,6%) og 61 árs og eldri (73,4%) og hæst meðal þeirra sem eru 41-50 ára (79,8%).

Þegar líkamlegt heilsufar er skoðað eftir kyni og aldri sést að mun hærra hlutfall kvenna en karla í yngsta aldurshópnum metur líkamlegt heilsufar mjög eða frekar slæmt (60,1% á móti 45,6%) og meðal 31-40 ára (69% á móti 52,5%). Sambærilegt hlutfall kvenna og karla á aldrinum 41-50 ára (70,1% og 69,2%), 51-60 ára (76,1% og 72%) og 61 árs og eldra (72,3% og 75,2%) metur líkamlegt heilsufar sitt frekar eða mjög slæmt.

3.3.2 Andlegt heilsufar

Tafla 41. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í töflu 41 gefur að líta hlutfall þátttakenda sem nær daglega finna fyrir þeim níu einkennum andlegrar vanlíðanar greint eftir kyni og fjölskyldustöðu. Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem skora 10-27 punkta á heildarkvarðanum og teljast því með slæma andlega heilsu. Það á við um ríflega átta af hverjum tíu einhleypum foreldrum (80,7%) og hærra hlutfall mæðra en feðra (83,3% á móti 73,7%). Sömuleiðis er gríðarlega hátt hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn (76,4%), einhleyp (59,3%) og í sambúð (59,3%) sem teljast við slæma andlega heilsu og er hlutfall kvenna í öllum tilfellum hærra en karla.

Taflan sýnir að tæplega þriðjungur svarenda finnur nær daglega fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (31,3%) og hefur átt í erfiðleikum með einbeitingu (30,3%). Ríflega fjórðungur hefur verið niðurdreginn, dapur eða vonlaus (26,8%) og átt við lystarleysi eða ofát að stríða (26,3%).

Tæplega helmingur hefur átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (45,9%). Meira en helmingur hefur fundið fyrir þreytu eða orkuleysi (56,7%) og tæplega fjögur af hverjum tíu hafa nánast daglega liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (38,9%).

Lægra hlutfall hefur hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða (16,2%) og rétt tæplega eitt af hverjum tíu hefur hugsað um að það væri betra ef það væri dáið eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt (9,5%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hærra hlutfall karla en kvenna hefur fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (35,8% á móti 28,5%), verið niðurdregin, vonlaus eða döpur (29,5% á móti 25,1%), hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða (18,9% á móti 14,6%) og hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt (12,4% á móti 7,6%). Hins vegar hafði hærra hlutfall kvenna en karla nánast daglega átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (47,4% á móti 43,6%), fundið fyrir þreytu eða orkuleysi (60,5% á móti 50,6%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (29% á móti 21,9%), liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (39,4% á móti 38%), átt í erfiðleikum með einbeitingu (31,1% á móti 29%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir fjölskyldustöðu sést að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem finna fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (36,7%), verið niðurdregin, döpur eða vonlaus (34,8%), átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (51%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (36,3%), liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (51,3%), átt í erfiðleikum með einbeitingu (51,3%) og hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða (19,7%). Hæst er hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn sem hafa fundið fyrir þreytu og orkuleysi nær daglega (65%).

Þegar litið er til þeirra sem hafa nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt sést að hlutfallið er hæst meðal þeirra sem eru einhleyp (13%) og er það hæst meðal einhleypra karla (15,6%) en hlutfallið er sömuleiðis hátt meðal einhleypra kvenna (10,7%).

Tafla 42. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 42 sýnir niðurstöður fyrir andlega heilsu kvenna og karla eftir tegund lífeyrisréttinda. Á töflunni má sjá að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (79,2%) sem skora 10-27 punkta á heildarkvarðanum og teljast því við slæma andlega heilsu. Sömuleiðis er hlutfallið hátt meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (67,7%) og örorkustyrk (60%). Hærra hlutfall kvenna en karla telst með slæma andlega heilsu meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (70,9% á móti 62,8%). Hins vegar er hlutfallið hærra meðal karla en kvenna á endurhæfingarlífeyri (82,8% á móti 77,3%) en það sama hjá báðum kynjum meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (60%).

Af þeim sem töldu sig finna nær daglega fyrir þeim níu þáttum sem spurt var um var hlutfallið í öllu tilfellum hæst meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri. Meðal þeirra hafði um það bil þriðjungur fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (33,4%), verið niðurdregin, döpur eða vonlaus (32,6%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (35%) og átt erfitt með einbeitingu (35%). Helmingur hafði átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (50,8%) og meira en helmingur fundið fyrir þreytu og orkuleysi (64,3%). Ríflega fjögur af hverjum tíu höfðu liðið illa með sjálf sig eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (43%). Rúmlega eitt af hverjum tíu hafði daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða um að skaða sig á einhvern hátt (11,7%).

Hátt hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri finnur fyrir sömu einkennum nær daglega. Þannig hafði um þriðjungur þeirra fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (31,2%) og liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (38,5%). Um fjórðungur hafði verið niðurdreginn, dapur eða vonlaus (26,2%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (25,8%) og átt í erfiðleikum með einbeitingu (29,6%). Um helmingur hafði fundið fyrir þreytu og orkuleysi (55,7%) og lítið lægra hlutfall hafði átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (45,5%). Mun lægra hlutfall hafði hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir tóku eftir því eða hið gagnstæða (15,9%) og tæplega eitt af hverjum tíu hafði hugsað um að það væri betra ef það væri dáið eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt (9,4%).

Hlutfall þeirra sem eru á örorkustyrk og finna nær daglega fyrir upptöldum einkennum er í öllum tilfellum lægra en meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri eða örorkulífeyri. Meðal þeirra sem eru á örorkustyrk höfðu ríflega fjögur af hverjum tíu fundið fyrir þreytu og orkuleysi nær daglega (41,8%) og lítið lægra hlutfall átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (36,8%). Fjórðungi örorkustyrktaka hafði liðið illa með sig sjálf eða fundist þau ekki hafa staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfu sér eða fjölskyldu sinni (25%). Um það bil fimmtungur hafði átt í erfiðleikum með einbeitingu (21,7%), átt við lystarleysi að stríða eða ofát (19,4%) og fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (19,1%). Lægra hlutfall hafði verið niðurdregið, dapurt eða vonlaust (16,7%) og hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafi tekið eftir því (7,5%) og 7,1% hafði nær daglega hugsað um að það væri betra ef það væri dáið eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sést að hærra hlutfall kvenna en karla hafði verið niðurdregið, dapurt eða vonlaust (33,1% á móti 31,8%), fundið fyrir þreytu og orkuleysi (66,4% á móti 60,5%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (31,4% á móti 29,2%) og liðið illa með sig sjálf eða fundist að þau hafi ekki staðið sig í stykkinu (44,6% á móti 40,1%).

Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna á endurhæfingarlífeyri sem hefur fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (35,5% á móti 32,2%), átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina (59,3% á móti 46,1%), átt í erfiðleikum með einbeitingu (39,5% á móti 32,5%) og hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða (28,9% á móti 14,3%).

Hæst er hlutfall karla á endurhæfingarlífeyri sem hafa hugsað nær daglega um að það væri betra ef þeir væru dánir eða um að skaða sig á einhvern hátt samanborið við konur og karla með aðra gerð lífeyrisréttinda (15,7%).

Tafla 43. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og aldri.

Tafla 43 sýnir niðurstöður yfir andlega heilsu greint eftir kyni og aldri. Á töflunni má sjá að sá aldurshópur sem hlutfallslega skorar hæst á 10-27 punkta heildarkvarðanum er fólk 30 ára og yngra (78,1%). Hlutfallið lækkar í eldri aldurshópum en er 72,7% meðal 31-40 ára, 73,5% hjá 41-50 ára, 67,2% hjá 51-60 ára og 59,6% hjá 61 árs og eldri.

Hlutfall fólks 30 ára og yngra var hæst meðal þeirra sem nær daglega höfðu verið niðurdregin, döpur og vonlaus (32,7%), áttu í erfiðleikum með að sofna eða sofa alla nóttina (52,4%) og liðið illa með sjálf sig (45,8%). Einnig er hlutfallið hæst meðal þessa aldurhóps sem nær daglega hefur hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig (13,1%).

Hlutfall fólks á aldrinum 31-40 ára er hæst meðal þeirra sem finna nær dagalega fyrir þreytu og orkuleysi (62,2%), átt við lystarleysi eða ofát að stríða (35,6%), erfiðleika með einbeitingu (37,3%) og einnig hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir taki eftir því (20,3%).

Þegar litið er til kynjamunar sést að konur í öllum aldurshópum hafa í meiri mæli fundið fyrir erfiðleikum með að sofna eða sofa alla nóttina (60,4% á móti 50,4%) og lystarleysi eða ofáti (29% á móti 22%) en karlar. Hins vegar hefur hærra hlutfall karla í öllum aldurshópum fundið fyrir litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina (35,6% á móti 28,6%) og hærra hlutfall þeirra í öllum aldurshópum nema þeim yngsta hefur hugsað um að það væri betra ef þeir væru dánir eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt (12,8% á móti 7,7%). Hæst er þó hlutfall kvenna í aldurshópnum 30 ára og yngri sem hafa haft slíkar hugsanir (15,4%) en hlutfallið er nánast það sama meðal karla á aldrinum 31-40 ára (15,3%) og 41-50 ára (15,2%) en lækkar lítillega meðal 51-60 ára (12,5%) og 61 árs og eldri (10,2%).

3.3.3 Heilbrigðisþjónusta

Í könnuninni voru svarendur spurðir hvort þeir hefðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu á síðastliðnum 12 mánuðum. Spurt var hvort fólk hefði neitað sér um að leysa út lyf, sækja tannlæknaþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu, þjónustu sérfræðilækna, hjálpartæki, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun eða aðra heilbrigðistengda þætti. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 44.

Tafla 44. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Það kom í ljós að hæst er hlutfall þeirra sem hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu (46,9%) og sálfræðiþjónustu (41,8%). Um þriðjungur hafði neitað sér um sjúkraþjálfun (34,5%) og fjórðungur um þjónustu sérfræðilækna (29,1%), hjálpartæki (29,1%), geðheilbrigðisþjónustu (27,9%), að leysa út lyf (23,8%) og heilbrigðisþjónustu (23,8%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir fjölskyldustöðu sést að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem hafa neitað sér um alla þá þætti heilbrigðisþjónustu sem spurt var um. Þannig hafa fleiri en sex af hverjum tíu einhleypum foreldrum neitað sér um tannlæknaþjónustu (65,9%), meira en helmingur um sálfræðiþjónustu (58,4%) og helmingur um sjúkraþjálfun (49,9%).

Um það bil fjórir af hverjum tíu höfðu neitað sér um þjónustu sérfræðilækna (41,3%), geðheilbrigðisþjónustu (40,1%), að leysa út lyf (39%) og lítið lægra hlutfall um heilbrigðisþjónustu (36,7%). Meira en þriðjungur hafði neitað sér um hjálpartæki svo sem gleraugu eða heyrnartæki (35,7%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni og fjölskyldustöðu sést að hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem hafa þurft að neita sér um sjö af átta tegundum heilbrigðisþjónustu.

Tæplega sjö af hverjum tíu einhleypum mæðrum hafa neitað sér um tannlæknaþjónustu (66,8%) og ríflega sex af hverjum tíu sálfræðiþjónustu (62,5%).

Meira en helmingur hefur neitað sér um sjúkraþjálfun (53,4%).

Um það bil fjórar af hverjum tíu hafa neitað sér um geðheilbrigðisþjónustu (44,9%), þjónustu sérfræðilækna (44,1%), að leysa út lyf (39,7%) og hjálpartæki (38,4%).

Hæst er hlutfall einhleypra feðra sem hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu (44,9%).

Tafla 45. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 45 sýnir hlutfall þeirra sem hafa neitað sér um heilbrigðisþjónustu eða heilbrigðistengda þjónustu þegar þættirnir sem birtir eru í töflu 44 hafa verið teknir saman. Niðurstöðurnar eru greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu. Þær sýna að hæst er hlutfall einhleypra foreldra sem hafa neitað sér um fjórar eða fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu og á það við um meira en helming þeirra (51,9%). Sama á við um rúman þriðjung einhleypra (35,5%) og tæplega þriðjung sambúðarfólks með börn (30,1%). Lægst er hlutfallið meðal sambúðarfólks en þó hefur fimmtungur þess neitað sér um fjóra eða fleiri þætti (20,4%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem hafa neitað sér um fjórar eða fleiri gerðir heilbrigðisþjónustu (55,1%) og er það hærra hlutfall en meðal einhleypra feðra (43,4%) og karla og kvenna sem búa við annars konar fjölskyldugerð. Hærra hlutfall kvenna en karla í sambúð með börn hefur neitað sér um fjóra eða fleiri þætti (31% á móti 28,6%) og sama á við um einhleypar konur samanborið við einhleypa karla (37,8% á móti 32,7%). Hins vegar hefur hærra hlutfall karla í sambúð samanborið við konur í sambúð neitað sér um fjóra eða fleiri þætti (22,5% á móti 19,4%).

Tafla 46. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 46 sýnir hlutfall þeirra sem hafa neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu á síðastliðnum 12 mánuðum og eru niðurstöðurnar greindar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Þær sýna að hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem hafa neitað sér um sex af átta aðspurðum þáttum. Þannig höfðu tæplega sex af hverjum tíu þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri neitað sér um tannlæknaþjónustu (59,3%), ríflega fjórir af hverjum tíu um sálfræðiþjónustu (44,9%).

Um þriðjungur hafði neitað sér um að leysa út lyf (34,9%), þjónustu sérfræðilækna (31,1%) og geðheilbrigðisþjónustu (28,8%). Fjórðungur hafði neitað sér um heilbrigðisþjónustu (26,1%). Hæst var hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri sem höfðu neitað sér um sjúkraþjálfun (35,5%) og hjálpartæki (29,8%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hæst er hlutfall karla á endurhæfingarlífeyri sem höfðu neitað sér um tannlæknaþjónustu en það á við um 72,3% þeirra. Einnig var hæst hlutfall þeirra sem höfðu neitað sér um að leysa út lyf (37,2%), um heilbrigðisþjónustu (30,8%), geðheilbrigðisþjónustu (32,9%) og sálfræðiþjónustu (46,5%).

Hæst var hlutfall kvenna á endurhæfingarlífeyri sem höfðu neitað sér um þjónustu sérfræðilækna (33,9%). Einnig var hlutfall kvenna á örorkulífeyri hæst sem höfðu þurft að neita sér um hjálpartæki (33,1%) og sjúkraþjálfun (38,1%).

Tafla 47. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 47 sýnir hlutfall þeirra sem hafa þurft að neita sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu á síðastliðnum 12 mánuðum þegar fjöldi þátta hefur verið tekinn saman og eru niðurstöðurnar greindar eftir kyni og tegund lífeyrisréttinda.

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem hafa þurft að neita sér um fjóra eða fleiri þætti (35,4%) en það er lítið lægra meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (32,5%) og lægst meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (21,7%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hæst er hlutfall karla á endurhæfingarlífeyri sem hafa þurft að neita sér um fjórar eða fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu (36,8%) og því næst meðal kvenna á endurhæfingarlífeyri (34,5%). Lítið lægra hlutfall kvenna og karla á örorkulífeyri hafði þurft að neita sér um svo margar gerðir heilbrigðisþjónustu (33,9% og 30,2%). Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkustyrk hafði þurft að neita sér um fjórar eða fleiri tegundir þjónustu (24% á móti 20,5%).

Tafla 48. Ástæður þess að neita sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Tafla 48 sýnir ástæður þess að svarendur neituðu sér um einhverja þá þætti sem birtir voru í töflu 46 greindar eftir kyni og fjölskyldustöðu. Niðurstöðurnar sýna að langhæst er hlutfall þeirra sem nefna að kostnaður sé ástæða þess að þau hafi neitað sér um heilbrigðisþjónustu á síðastliðnum 12 mánuðum eða átta af hverjum tíu (80,5%). Því næst er hæst hlutfall svarenda sem nefnir langan biðtíma (41,3%) og að það sé erfitt að fá tíma (39,5%). Mun lægra hlutfall segir að aðrir þættir eins og að ferð til læknis myndi ekki gera gagn (22,6%), kostnaður við ferðalög til að sækja heilbrigðisþjónustu (17,5%), fjarlægð frá heimili (15,7%), skortur á heilbrigðisstarfsfólki (19,8%), viðmót heilbrigðisstarfsfólks (15,1%), vita ekki hvert skal leita (10,2%), að hafa ekki heilsu til að sækja sér þjónustu (6%) og erfiðleikar með rafræna þjónustu (4,7%) hafi komið í veg fyrir að þau hafi sótt heilbrigðisþjónustu. Þá kemur fram að hæst er hlutfall sambúðarfólks með börn sem hefur neitað sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar (86%) en það sama á við um lítið lægra hlutfall einhleypra foreldra (82,6%), einhleypra (79,6%) og sambúðarfólks (76,5%).

Tafla 49. Ástæður þess að neita sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 49 sýnir ástæður þess að svarendur neituðu sér um einhverja þá þætti sem birtir voru í töflu 48 greindar eftir kyni og tegund lífeyrisréttinda.

Niðurstöðurnar sýna að kostnaður er sá þáttur sem hefur langmest áhrif á að svarendur neiti sér um heilbrigðisþjónustu og er það óháð kyni eða tegund lífeyrisréttinda.

Hæst er þó hlutfallið meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri sem tiltaka kostnað (80,6%) en hlutfallið er lítið lægra meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (78,4%) og á örorkustyrk (75%) en ekki er marktækur munur eftir gerð lífeyrisréttinda.

Hærra hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (16,8%) veit ekki hvert á að leita eftir þjónustu en þau sem eru á örorkulífeyri (9,1%) og á örorkustyrk (6,7%).

3.3.4 Samanburður – heilsufar fatlaðs fólks og launafólks 2023

Í könnun Vörðu frá 2023 var spurt um líkamlegt og andlegt heilsufar launafólks með sömu spurningum og í könnun stofnunarinnar meðal þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk og hægt er að bera saman við niðurstöður kannananna tveggja.

Tafla 50. Líkamlegt heilsufar. Samanburður.

Líkt og sjá má í töflu 50 metur mun hærra hlutfall þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk líkamlegt heilsufar sitt mjög slæmt (26,6% á móti 1,6%) og frekar slæmt (42,4% á móti 13,3%).

Tafla 51. Stig á heildarkvarða PHQ-9. Samanburður.

Tafla 51 sýnir hlutfall þeirra sem mælast með slæma andlega líðan annars vegar meðal þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk og hins vegar meðal launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB.

Niðurstöðurnar sýna að mun hærra hlutfall þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk mælast með slæma andlega líðan eða rétt tæplega sjö af hverjum tíu en sama á við um ríflega þrjú af hverjum tíu þegar litið er til launafólks.

3.3.5 Samantekt – heilsufar fatlaðs fólks

Mun hærra hlutfall þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk búa við mjög eða frekar slæmt líkamlegt heilsufar (69% á móti 14,9%). Hæst er hlutfall sambúðarfólks með börn sem metur líkamlega heilsu sína mjög slæma (31,1%) og því næst þau sem eru einhleyp (27,2%). Svipað hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri meta líkamlegt heilsufar mjög slæmt (26,4% og 27,9%). Þegar líkamlegt heilsufar er skoðað eftir aldri sést að hæst er hlutfall þeirra sem eru 51-60 ára sem meta það mjög slæmt (31,7%).

Mikill munur er á andlegri heilsu þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk samanborið við launafólk. Tæplega sjö af hverjum tíu sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk búa við búa við slæma andlega líðan (69,1%) en sama á við um ríflega þrjú af hverjum tíu þegar litið er til launafólks (34,1%). Áberandi verst er staða einhleypra foreldra en ríflega átta af hverjum tíu mælast með slæma andlega líðan (80,7%) og er hlutfallið hærra meðal einhleypra mæðra en feðra (83,3% á móti 73,7%). Sömuleiðis er gríðarlega hátt hlutfall þeirra sem eru í sambúð með börn (76,4%), einhleyp (59,3%) og í sambúð (59,3%) sem mælast með slæma andlega líðan. Niðurstöðurnar sýna einnig að hærra hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri býr við slæma andlega heilsu (79,2%) samanborið við þau sem eru á örorkulífeyri (67,7%) og á örorkustyrk (60%). Einnig er hlutfallið hærra meðal 30 ára og yngri samanborið við eldri aldurshópa (78,1%). Gríðarlega mörg hafa nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt en það á við um tæplega eitt af hverjum tíu (9,5%). Hlutfallið er sérstaklega hátt meðal einhleypra karla (15,6%), einhleypra feðra (13,1%), karla á endurhæfingarlífeyri (15,7%) og kvenna 30 ára og yngri (15,4%).

3.4 Félagsleg einangrun og fordómar

Í þessum kafla er fjallað um félagslega einangrun fólks með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk og þá fordóma sem það verður fyrir úr ýmsum áttum.

Tafla 52. Upplifa félagslega einangrun eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 52 sýnir hlutfall þeirra sem hafa fundið fyrir félagslegri einangrun og eru niðurstöðurnar greindar eftir gerð lífeyrisréttinda. Þær sýna að 58% svarenda finna fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun og er lítill munur á konum og körlum (57,8% og 58,1%). Hæst er hlutfall karla á endurhæfingarlífeyri sem finna fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun (64,3%), því næst meðal kvenna á endurhæfingarlífeyri (60%), karla á örorkustyrk (60%) og sama á við um lítið lægra hlutfall kvenna og karla á örorkulífeyri (57,8% og 57%) en lægst er hlutfallið meðal kvenna á örorkustyrk (46,6%). Ekki var marktækur munur eftir tegund lífeyrisréttinda.

Tafla 53. Upplifa félagslega einangrun eftir kyni og aldri.

Tafla 53 sýnir hversu hátt hlutfall svarenda upplifir mikla eða litla félagslega einangrun eftir aldri. Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfallið meðal 30 ára og yngri sem upplifa mikla eða frekar mikla félagslega einangrun (65,1%), þá meðal 41-50 ára (64%), 31-40 ára (61,5%), 51-60 ára (55,3%) en lægst meðal 61 árs og eldri (48,7%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni og aldri sést að hæst er hlutfall ungra, kvenna 30 ára og yngri, sem upplifa mjög eða frekar mikla félagslega einangrun (70%) en hlutfallið er lægra meðal kvenna á aldrinum 31-40 ára (61,2%), 41-50 ára (63,6%) og nokkuð lægra hjá 51-60 ára (55%) og 61 árs og eldri (47,7%).

Þegar litið er til karla sést að nokkur munur er á hlutfalli ungra karla og kvenna og félagslegri einangrun þeirra. Þannig upplifa 60% karla 30 ára og yngri frekar eða mjög mikla félagslega einangrun en 70% kvenna á sama aldri. Sambærilegt hlutfall karla á aldrinum 31-40 ára (61,9%), 41-50 ára (64,5%), 51-60 ára (55,7%) og 61 árs og eldri (50,4%) finnur fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun og konur á sömu aldursbilum.

Tafla 54. Fordómar vegna örorku/fötlunar eftir kyni.

Tafla 54 sýnir hlutfall þeirra sem hafa fundið fyrir fordómum vegna örorku/fötlunar sinnar og frá hvaða aðilum eða stofnunum. Niðurstöðurnar sýna að ríflega helmingur finnur fyrir mjög miklum eða frekar miklum fordómum í atvinnuleit (55,4%) hjá sjálfum sér (51,9%) og tæplega helmingur finnur fyrir fordómum almennt í samfélaginu (47,1%). Ríflega fjórðungur finnur fyrir mjög miklum eða frekar miklum fordómum í heilbrigðiskerfinu (28,6%), í námi (28,1%) og á vinnustað (26,1%). Tæplega fjórðungur finnur fyrir fordómum meðal vina (24,7%), hjá þjónustuaðilum (22,4%) og innan fjölskyldunnar (22,1%). Lægst er hlutfall þeirra sem finna fyrir fordómum hjá öðrum sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk.

Þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir kyni sést að hærra hlutfall kvenna en karla finnur fyrir mjög miklum eða frekar miklum fordómum hjá sjálfum sér (54,4% á móti 47,5%), í atvinnuleit (59,9% á móti 50,7%), hjá þjónustuaðilum (23% á móti 21,5%), í heilbrigðiskerfinu (31,5% á móti 23,7%), almennt í samfélaginu (49,2% á móti 43,6%) og innan fjölskyldu (23,4% á móti 19,7%). Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna sem finnur fyrir fordómum hjá öðrum sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk. Sambærilegt hlutfall kvenna og karla finnur fyrir fordómum hjá vinum (24,7% og 24,7%), í námi (28,6% og 28,5%) og á vinnustað (27% og 25,1%).

Tafla 55. Fordómar vegna örorku/fötlunar eftir lífeyrisréttindum.

Tafla 55 sýnir hlutfall þeirra sem finna fyrir fordómum vegna fötlunar/örorku sinnar og frá hvaða aðilum eða stofnunum og eru niðurstöðurnar greindar eftir gerð lífeyrisréttinda. Þær sýna að hæst er hlutfall endurhæfingarlífeyristaka sem finna fyrir mjög eða frekar miklum fordómum á vinnustað (35,2%) en hlutfallið er lægra meðal örorkulífeyristaka (24,2%) og örorkustyrktaka (19,2%).

Hæst er hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri sem finna fyrir mjög eða frekar miklum fordómum þar sem þau sækja þjónustu (23,4%) samanborið við endurhæfingarlífeyristaka (17,5%) og örorkustyrktaka (17%).

Hæst er hlutfall þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem eru með mikla eða frekar mikla fordóma fyrir sjálfum sér (56%) en hlutfallið er lítið lægra hjá þeim sem eru á örorkulífeyri (51,4%) en lægst meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (40,7%). Einnig er hæst hlutfall endurhæfingarlífeyristaka sem finna fyrir fordómum innan fjölskyldunnar (26,2%) en hlutfallið er lítið lægra meðal örorkulífeyristaka (21,6%) og lægst meðal örorkustyrktaka (8,8%).

Endurhæfingarlífeyristakar og örorkulífeyristakar finna í meiri mæli fyrir mjög eða frekar miklum fordómum frá öðum örorkulífeyristökum eða endurhæfingarlífeyristökum (9,5% og 9,4%) en þau sem eru á örorkustyrk (2,2%).

3.4.1 Samantekt – félagsleg einangrun og fordómar

Hátt hlutfall þeirra sem eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk býr við mikla félagslega einangrun. Þá telja 58% félagslega einangrun sína mjög eða frekar mikla. Hæst er hlutfall karla og kvenna á endurhæfingarlífeyri sem finna fyrir mjög eða frekar mikilli félagslegri einangrun (64,3% og 60%). Sama á við um lítið lægra hlutfall karla á örorkustyrk (60%) og karla og kvenna á örorkulífeyri (57% og 57,8%). Hæst er hlutfallið meðal fólks í yngsta aldurshópnum, 30 ára og yngri, sem upplifir mjög eða frekar mikla félagslega einangrun (65,1%) og sérstaklega hjá ungum konum (70%).

Þegar skoðað er hvort þau sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk hafi fundið fyrir fordómum vegna örorku eða fötlunar sinnar kemur í ljós að meira en helmingur hefur fundið fyrir fordómum í atvinnuleit (55,4%) og lítið lægra hlutfall finnur almennt fyrir fordómum í samfélaginu (47,1%). Helmingur svarenda finnur fyrir fordómum hjá sjálfu sér (51,9%) og er hlutfallið hærra meðal kvenna en karla (54,4% á móti 47,5%). Konur finna jafnframt í meiri mæli fyrir fordómum í heilbrigðiskerfinu (31,5% á móti 23,7%).

3.4 Staða á vinnumarkaði

Í þessum kafla verður fjallað um stöðu fólks sem er með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk á vinnumarkaði. Greint er frá stöðu á vinnumarkaði, hvort svarendur hafa verið með atvinnutekjur á síðastliðnum sex mánuðum, hvort þeir treysti sér til að vera á vinnumarkaði og hvaða þættir hafi áhrif á þátttöku á vinnumarkaði.

3.5.1 Staða á vinnumarkaði

Tafla 56. Staða á vinnumarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 56 sýnir stöðu á vinnumarkaði eftir kyni og tegund lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að 51% allra er ekki í launuðu starfi, sjálfsætt starfandi, í sjálfboðavinnu, endurhæfingu eða námi. Í launuðu starfi eru 14,4%, 5,3% í sjálfboðastarfi, 4,4% í námi og 3,7% eru sjálfstætt starfandi eða verktakar.

Þegar staða á vinnumarkaði er skoðuð eftir lífeyrisréttindum sést að meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri er 16,1% í launuðu starfi og er hlutfall karla hærra en kvenna (18,8% á móti 14,5%). Lægra hlutfall eru sjálfstætt starfandi eða verktakar (4%) og er hlutfall karla sömuleiðis hærra en kvenna hvað það varðar (5,2% á móti 3,3%) og sama á við um hlutfall þeirra sem eru í endurhæfingu sem alls er 5,5% (6,7% á móti 4,7%).

Niðurstöðurnar sýna að 6% þeirra sem eru á örorkulífeyri eru í sjálfboðavinnu og er hlutfall kvenna hærra en karla (6,4% á móti 5,4%) og 4,7% eru í námi og þar er sömuleiðis hærra hlutfall kvenna en karla (5,4% á móti 3,6%).

Þegar litið er til þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri kemur í ljós að mikill meirihluti þeirra (94,7%) er í endurhæfingu en hlutfallið er hærra meðal karla en kvenna (96,5% á móti 93,7%).

Mun lægra hlutfall endurhæfingarlífeyristaka er sjálfstætt starfandi (1,5%), í sjálfboðavinnu (1,1%) og í námi (2,7%).

Hæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á örorkustyrk sem eru í launavinnu en það á við um tæplega fjórðung þeirra (23,9%) en hlutfallið er hærra meðal kvenna en karla (30,2% á móti 23,9%).

Ríflega einn af hverjum tíu er í endurhæfingu (11,9%) en lægra hlutfall er sjálfstætt starfandi (7,5%), í sjálfboðavinnu (3%) og í námi (3%).

Tafla 57. Staða á vinnumarkaði eftir kyni og aldri.

Tafla 57 sýnir stöðu örorkulífeyristaka, endurhæfingarlífeyristaka og örorkustyrktaka eftir kyni og aldri. Niðurstöðurnar sýna að hlutfallið er hæst í yngsta aldurshópnum 30 ára og yngri sem er í launuðu starfi (17%), það er nánast það sama í aldurshópnum 31-40 (16,8%) og lækkar lítillega meðal þeirra sem eru 41-50 ára (15,7%), 51-60 ára (14,4%) en er lægst meðal 61 árs og eldri (8,7%). Hæst er hlutfallið í elsta aldurshópnum 61 árs og eldri sem eru sjálfstætt starfandi eða verktakar (4,5%) en lítið lægra meðal 51-60 ára (4,3%) og lægra meðal 41-50 ára (3,4%), 31-40 ára (2,6%) og 30 ára og yngri (3,2%).

Hærra hlutfall þeirra sem eru í aldurshópunum 41-50 ára (6,6%), 51-60 ára (7%) og 61 árs og eldri (6,2%) er í sjálfboðavinnu en þeirra sem eru 30 ára og yngri (0,7%) og 31-40 ára (3%). Hærra hlutfall yngri aldurshópa er í endurhæfingu en það á við um þriðjung þeirra sem eru 30 ára og yngri (33,6%), fjórðung 31-40 ára (24,9%) en hlutfallið er lægra meðal 41-50 ára (16,6%), 51-60 ára (13,4%) og lægst meðal 61 árs og eldri (8,4%).

Hæst er hlutfallið í yngsta aldurshópnum 30 ára og yngri sem er í námi (12,7%) en nokkuð lægra meðal 31-40 ára (7,2%), 41-50 ára (4,7%), 51-60 ára (1,4%) og lægst hjá 61 árs og eldri (0,9%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni sést að hærra hlutfall karla en kvenna 30 ára og yngri (23,3% á móti 11,1%), 31-40 ára (26,1% á móti 11%) og 61 árs og eldri (9,4% á móti 8,3%) er í launuðu starfi. Hins vegar er hærra hlutfall kvenna á aldrinum 41-50 ára (16,2% á móti 14,9%) og 51-60 ára (15,6% á móti 12,2%) í launuðu starfi.

Hærra hlutfall karla en kvenna er sjálfsætt starfandi eða verktakar í öllum aldursflokkum að einum undanskildum. Þannig er hærra hlutfall karla en kvenna sjálfstætt starfandi meðal 30 ára og yngri (3,7% á móti 2,7%), 41-50 ára (4,6% á móti 2,8%), 51-60 ára (4,9% á móti 3,9%) og 61 árs og eldri (7,7% á móti 2,6%) en lítið lægra hlutfall kvenna en karla í aldurshópnum 31-40 ára (2,7% á móti 2,6%).

Hærra hlutfall kvenna en karla er í sjálfboðastarfi í aldurshópunum 30 ára og yngri (1,3% á móti 0%), 41-50 ára (7% á móti 6%), 51-60 ára (7,2% á móti 6,4%) en hærra hlutfall karla en kvenna í aldurshópunum (31-40 ára (2,6% á móti 2,4%) og 61 árs og eldri (6,4% á móti 6,1%).

Talsvert hærra hlutfall kvenna en karla 30 ára og yngri er í endurhæfingu (39,6% á móti 27,4%), lítið hærra hlutfall 31-40 ára (25,5% á móti 23,9%) og 61 árs og eldri (8,9% á móti 7,7%). Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna á aldrinum 41-50 ára (19,5% á móti 15%), 51-60 ára (16,2% á móti 11,8%) í endurhæfingu.

Hærra hlutfall kvenna en karla í aldurshópunum 30 ára og yngri (16% á móti 9,3%), 31-40 ára (10,2% á móti 2,6%), 41-50 ára (5,8% á móti 4,7%) og 51-60 ára (1,5% á móti 1,2%) er í námi en hærra hlutfall karla en kvenna 61 árs og eldri (1,7% á móti 0,4%).

3.5.2 Starfshlutfall

Tafla 58. Starfshlutfall eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 58 sýnir hlutfall þeirra sem hafa verið með atvinnutekjur á síðastliðnum sex mánuðum og í hversu háu starfshlutfalli þau voru. Niðurstöðurnar eru greindar eftir gerð lífeyrisréttinda og kyni. Þær sýna að um það bil þrír fjórðu þeirra sem eru á örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri höfðu ekki haft atvinnutekjur síðastliðið hálft ár (74,1% og 74,5%) en ríflega helmingur þeirra sem eru á örorkustyrk (56,1%).

Um það bil einn af hverjum tíu hafði verið í 25% starfshlutfalli eða minna (9,1%) en lægra hlutfall í 26%-50% starfshlutfalli (8,7%), 51%-75% starfshlutfalli (2,2%), 76%-99% (1,3%) og í fullu starfi (2,6%). Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir gerð lífeyrisréttinda og kyni sést að hærra hlutfall kvenna en karla á örorkulífeyri hefur verið í 25% eða lægra starfshlutfalli (10,2% á móti 8,5%) en hærra hlutfall karla en kvenna í 26%-50% starfshlutfalli (10% á móti 7,1%), 51% til 75% starfshlutfalli (2,5% á móti 2,1%), 76%-99% starfshlutfalli (2,4% á móti 0,7%) og í fullu starfi (4,7% á móti 1,5%).

Meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sést að hærra hlutfall kvenna en karla hafði verið í 25% starfshlutfalli eða minna (7,9% á móti 5,3%), 51%-75% starfshlutfalli (3,6% á móti 0%) og 76%-99% starfshlutfalli (1,3% á móti 0%). Hins vegar hafði hærra hlutfall karla en kvenna á endurhæfingarlífeyri verið í 26%-50% starfshlutfalli (11,8% á móti 8,9%) og í fullu starfi (2,9% á móti 11,3%).

Tafla 59. Starfshlutfall eftir kyni og aldri.

Tafla 59 sýnir starfshlutfall örorkulífeyristaka, endurhæfingarlífeyristaka og örorkustyrktaka eftir aldri og kyni.

Niðurstöðurnar sýna að hæst er hlutfall 30 ára og yngri sem eru í 25% starfshlutfalli eða minna (11,9%) en það sama á við um lítið lægra hlutfall 31-40 ára (7,2%), 41-50 ára (8,3%), 51-60 ára (10,2%) og 61 árs og eldri (8,8%). Einnig er hæst hlutfall 30 ára og yngri sem eru í 26%-50% starfshlutfalli (12,4%) samanborið við þau sem eru 31-40 ára (11,8%), 41-50 ára (9,8%), 51-60 ára (7,5%) og 61 árs og eldri (4,5%).

Hæst er hlutfall 51-60 ára sem eru í 51%-75% starfshlutfalli (3,1%) og er það lítið hærra en þeirra sem eru 30 ára og yngri (2,3%), 31-40 ára (2,6%), 41-50 ára (0,9%) og 61 árs og eldri (1,4%). Hæst er hlutfallið meðal 30 ára og yngri sem eru í 76%-99% starfshlutfalli (3,2%) en lítið lægra meðal 31-40 ára (2,6%), 41-50 ára (0,9%), 51-60 ára (0,5%) og 61 árs og eldri (0,7%).

Þegar litið er til þeirra sem eru í fullu starfi sést að hæst er hlutfallið meðal 41-50 ára (4,1%) en lægra meðal 30 ára og yngri (3,9%), 31-40 ára (2%), 51-60 ára (2,5%) og 61 árs og eldri (1,1%).

3.5.3 Þátttaka á vinnumarkaði

Tafla 60. Treysta sér til að vera á vinnumarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 60 sýnir hlutfall þeirra sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði og í hversu háu starfshlutfalli. Niðurstöðurnar eru greindar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda. Þær sýna að meira en helmingur þeirra sem eru á örorkulífeyri (55,6%) og örorkustyrk (50%) treystir sér ekki til að vera á vinnumarkaði. Hlutfallið er enn hærra meðal endurhæfingarlífeyristaka (61,9%).

Hæst er hlutfall þeirra sem treysta sér til í að vera í 50% eða lægra starfshlutfalli en það á við um um það bil þriðjung örorkulífeyristaka (33,2%) og örorkustyrktaka (37,9%) en ríflega fimmtung endurhæfingarlífeyristaka (21,9%).

Mun lægra hlutfall þeirra sem eru á örorkulífeyri (5%), endurhæfingarlífeyri (7,5%) og örorkustyrk (4,5%) treystir sér til að vera í 51%-99% starfshlutfalli. Einungis lítill hluti treystir sér til að vera í fullu starfi (3,5%).

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kyni og gerð lífeyrisréttinda sést að svipað hlutfall kvenna og karla á örorkulífeyri treystir sér til að vera í 50% eða lægra starfshlutfalli (33,6% og 32,6%). Hins vegar er hærra hlutfall kvenna en karla á endurhæfingarlífeyri (24,7% á móti 17%) og örorkustyrk (47,6% á móti 20,8%) sem treystir sér til að vera í 50% eða lægra starfshlutfalli. Hins vegar er hærra hlutfall karla en kvenna með örorkulífeyri (7,6% á móti 3,5%) og örorkustyrk (0% á móti 12,5%) sem treystir sér til að vera í 51%-99% starfshlutfalli en hlutfallið er nánast það sama meðal kvenna og karla á endurhæfingarlífeyri (0,7% og 0,6%).

Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkulífeyri (7,8% á móti 0,9%), endurhæfingarlífeyri (7% á móti 0,7%) og örorkustyrk (4,2% á móti 2,4%) treystir sér til að vera í fullu starfi.

Tafla 61. Treysta sér til að vera á vinnumarkaði eftir kyni og aldri.

Tafla 61 sýnir hlutfall þeirra sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði greint eftir kyni og aldri. Hærra hlutfall í elsta aldurshópnum 61 árs og eldri treystir sér ekki til að vera á vinnumarkaði (65,7%) og sama á við um 51-60 ára (57,1%) og um það bil helming 41-50 ára (52,4%), 31-40 ára (51%) og 30 ára og yngri (51,6%).

Niðurstöðurnar sýna að hærra hlutfall 41-50 ára (18,8%) og 51-60 ára (18,5%) treystir sér til að vera í 25% starfshlutfalli eða minna samanborið við 30 ára og yngri (10,9%), 31-40 ára (15,2%) og 61 árs og eldri (16%).

Hærra hlutfall 41-50 ára (17,5%) og 31-40 ára treystir sér til að vera í 26%-50% starfshlutfalli en hlutfallið er lítið lægra í öðrum aldurshópum.

Hæst er hlutfallið í yngsta aldurshópnum, 30 ára og yngri, sem treystir sér til að vera í fullu starfi (7%) en það á við um lægra hlutfall 31-40 ára (5,4%), 41-50 ára (3,2%), 51-60 ára (2%) og 61 árs og eldri (2%).

Tafla 62. Þættir sem hafa áhrif á þátttöku á vinnumarkaði eftir kyni.

Svarendur voru spurðir hvort ótti við skerðingar, heilsufar, að vera í endurhæfingu eða námi, skortur á stuðningi eða aðstoð eða það að hafa ekki fengið starf við hæfi hefði áhrif á þátttöku á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar eru birtar í töflu 62 eftir kyni. Þær sýna að langhæst er hlutfall þeirra sem nefna að heilsufar þeirra hafi mjög eða frekar mikil áhrif á þátttöku þeirra á vinnumarkaði (83%).

Meira en helmingur svarenda óttast skerðingar eða kröfur frá TR vegna þátttöku á vinnumarkaði (59,6%) og ríflega fjórðung skortir aðstoð eða stuðning (29,1%) og lítið lægra hlutfall hefur ekki fundið starf við hæfi (24,8%).

Nokkuð lægra hlutfall er í námi eða endurhæfingu (17%) sem hefur mjög eða frekar mikil áhrif á það hvort hægt er að vera á vinnumarkaði en einungis 4,7% svarenda segja að það hafi mjög eða frekar mikil áhrif að þau vilji ekki vinna.

Tafla 63. Þættir sem hafa áhrif á þátttöku á vinnumarkaði eftir lífeyrisréttindum.

Tafla 63 sýnir þá þætti sem hafa áhrif á frekari þátttöku á vinnumarkaði eftir gerð lífeyrisréttinda. Niðurstöðurnar sýna að hvort heldur sem svarendur eru með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk þá er það heilsufarið sem hefur í langmestum mæli mjög eða frekar mikil áhrif á hvort þeir treysti sér til frekari þátttöku á vinnumarkaði (82,6%, 86,9% og 79,3%).

Niðurstöðurnar sýna jafnframt að hátt hlutfall óttast skerðingar eða kröfur frá TR en hlutfallið er hæst meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (74,5%), næsthæst meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (60,9%) og lægst meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri (53,5%).

Um fjórðungur þeirra sem eru á örorkulífeyri og örorkustyrk telur að skortur á stuðningi til að taka frekari þátt á vinnumarkaði hafi mjög mikil eða frekar mikil áhrif (26% og 22,6%) en hlutfallið er enn hærra meðal endurhæfingarlífeyristaka (43%).

Um fjórðungur þeirra sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk hefur ekki fundið eða fengið starf sem hentar þeim og telur það hafa mjög eða frekar mikil áhrif á þátttöku þeirra á vinnumarkaði (23,9%, 30,3% og 25,4%).

3.6 Viðhorf til þjónustu TR

Tafla 64. Viðhorf til þjónustu TR eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Tafla 64 sýnir hversu ánægð eða óánægð þau sem eru á örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk eru með þjónustu TR. Niðurstöðurnar sýna að um þriðjungur svarenda er hvorki ánægður né óánægður með þjónustuna og er hlutfallið áþekkt óháð því hvort svarendur séu með örorkulífeyri (37,7%), endurhæfingarlífeyri (30,9%) eða örorkustyrk (38,5%).

Hæst er hlutfallið meðal þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri sem eru mjög eða frekar ánægð með þjónustuna en það á við um ríflega fjögur af hverjum tíu (41,1%). Hlutfallið er lítið lægra meðal þeirra sem eru á örorkustyrk (38,5%) en lægst meðal örorkulífeyristaka (31,9%).

Ríflega fjórðungur þeirra sem eru á örorkulífeyri (27,6%), endurhæfingarlífeyri (25,4%) og örorkustyrk (27,7%) er mjög eða frekar óánægður með þjónustuna. Hærra hlutfall karla en kvenna á örorkulífeyri (37,4% á móti 28,4%), endurhæfingarlífeyri (46,2% á móti 38,3%) og á örorkustyrk (41,7% á móti 36,6%) er mjög eða frekar ánægt með þjónustu TR. Að sama skapi er hærra hlutfall kvenna en karla sem eru mjög eða frekar óánægt með þjónustuna en munurinn er langmestur milli kvenna og karla á endurhæfingarlífeyri (30,1% á móti 17,1%) en ekki jafn mikill meðal þeirra sem eru á örorkulífeyri (28,3% á móti 26,5%) og örorkustyrk (29,3% á móti 25%).

Tafla 65. Viðhorf til þjónustu TR eftir kyni og aldri.

Tafla 65 sýnir viðhorf svarenda til þjónustu TR eftir aldri og kyni. Þegar litið er til ánægju með þjónustu TR eftir aldri sést að hæst er hlutfallið meðal 31-40 ára sem eru mjög eða frekar ánægð (36,7%), þá meðal 51-60 ára (34,5%), 61 árs og eldri (32,3%) og 30 ára og yngri (32,1%) en lægst er hlutfallið meðal 41-50 ára (30,6%).

Um fjórðungur þeirra sem eru 31-40 ára er mjög eða frekar óánægður með þjónustuna (25,6%) og sama á við um lítið lægra hlutfall 61 árs og eldri (26,1%), 30 ára og yngri (26,4%) og 51-60 ára (27,1%) en hæst er hlutfall þeirra sem eru óánægð meðal 41-50 ára (29,7%).

Nokkur munur er á viðhorfi karla og kvenna til þjónustu TR eftir aldri. Þannig er lægst hlutfallið meðal yngsta aldurshóps kvenna sem eru mjög eða frekar ánægðar með þjónustu TR (21,2%) en hlutfallið er hærra meðal 31-40 ára (32,5%), 41-50 ára (27,8%), 51-60 ára (32,8%) og 61 árs og eldri (30,5%) kvenna. Hins vegar er hærra hlutfall karla í yngri aldurshópunum, bæði 30 ára og yngri (43,7%) og 31-40 ára (43,3%) sem eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna en hlutfallið er lægra meðal 41-50 ára (35,8%), 51-60 ára (37,9%) og 61 árs og eldri (35,2%) karla.

Sama mynstur sést þegar litið er til hlutfalls þeirra sem eru mjög eða frekar óánægð með þjónustu stofnunarinnar. Þannig er hæst hlutfall kvenna 30 ára og yngri sem eru mjög eða frekar óánægðar (36,2%) og þá 41-50 ára (32,2%) en lægra hlutfall meðal 31-40 ára (27,6%), 51-60 ára (25,8%) og 61 árs og eldri (25,8%).

Hins vegar er mun lægra hlutfall karla í yngsta aldurshópnum, 30 ára og yngri, sem eru mjög eða frekar óánægðir (16,2%) bæði í samanburði við konur en einnig við karla á aldrinum 31-40 ára (25%), 41-50 ára (25,4%), 51-60 ára (29,7%) og 61 árs og eldri (26,8%).

Heimildaskrá

Agnes Agnarsdóttir, Hafrún Kristjánsdóttir, Jakob Smári, Jón Friðrik Sigurðsson, & Pétur Tyrfingsson. (e.d.). PHQ-9 í íslenskri þýðingu.

Andri Steinþór Björnsson, Karen Jónsdóttir, Signý Sigurðardóttir, Inga Wessman, Ólafía Sigurjónsdóttir, Auður Sjöfn Þórisdóttir, Jóhann Pálmar Harðarson, & Guðmundur Arnkelsson. (2018). Próffræðilegir eiginleikar Sheehan Disability Scale, Quality of Life Scale og Patient Health Questionnaire í íslenskri þýðingu. Tímarit Sálfræðingafélags Íslands, 23, 91-100.

Hagstofa Íslands. (2019). Fólk við góða heilsu eftir kyni og tekjufimmtungum 2004-2018.

Hagstofa Íslands. (2020). Fjárhagur/viðtakendur fjárhagsaðstoðar.

Hagstofa Íslands. (2022a). Heimili í fjárhagsvandræðum eftir heimilisgerð 2004-2021.

Hagstofa Íslands. (2022b). Íþyngjandi húsnæðiskostnaður heimila eftir stöðu á húsnæðismarkaði 2004-2021.

Hagstofa Íslands. (2022c). Skortur á efnislegum gæðum eftir heimilisgerð og stöðu á húsnæðismarkaði 2008-2021.

Kroenke, K., & Spitzer, R. L. (2002). The PHQ-9: A new depression diagnostic and severity measure. Psychiatric Annals, 32(9), 509-515.

Varða–Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins. (2023). Staða launafólks á Íslandi: Niðurstöður spurningakönnunar meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB.

Viðauki 1

Yfirlit yfir forsendur þeirrar hópaskiptingar sem notuð er í greiningum á niðurstöðum könnunarinnar.

Fjölskyldustaða  
Í sambúð með barn/börn Einstaklingur sem skráir hjúskaparstöðu sína sem „í sambúð“ eða „í hjónabandi/staðfestri samvist“ og tiltekur eitt eða fleiri börn undir 18 ára sem búa á heimilinu.
Í sambúð Einstaklingur sem skráir hjúskaparstöðu sína sem „í sambúð“ eða „í hjónabandi/staðfestri samvist“ og tiltekur engin börn undir 18 ára sem búa á heimilinu.
Einhleypt foreldri Einstaklingur sem skráir hjúskaparstöðu sína ýmist sem „einhleyp/ur“, „fráskilinn/skilinn að borði og sæng“ eða sem „ekkill/ekkja“ og tiltekur eitt eða fleiri börn undir 18 ára sem búa á heimilinu.
Einhleyp/ur Einstaklingur sem skráir hjúskaparstöðu sína „einhleypur“, „fráskilinn/skilinn að borði og sæng“ eða sem „ekkill/ekkja“ og tiltekur engin börn undir 18 ára sem búa á heimilinu.

Tafla • Þátttakendur í könnuninni (þýði)

Tafla 1. Lýðfræðileg samsetning eftir kyni.

Konur og kvár Karlar Samtals N P-gildi
Kyn 61,4% 38,6% 100% 3794
Aldur
30 ára og yngri 10,1% 16,2% 12,5% 3789 0,000**
31–40 ára 17,2% 17,1% 17,2%
41–50 ára 22,5% 20,4% 21,7%
51–60 ára 27,3% 24,3% 26,2%
61 árs og eldri 22,8% 22,0% 22,5%
Uppruni
Innfæddir 87,8% 85,5% 86,9% 3784 0,127
Innflytjendur 6,8% 8,3% 7,4%
Með erlendan bakgrunn 5,4% 6,2% 5,7%
Fjölskyldustaða
Í sambúð með barn/börn 17,4% 14,8% 16,4% 3698 0,000**
Í sambúð 30,4% 24,5% 28,1%
Einhleypir foreldrar 16,1% 9,7% 13,6%
Einhleypir 36,2% 51,0% 41,9%
Menntun
Grunnskólanám eða sambærilegt 36,5% 41,5% 38,4% 3792 0,000**
Háskólanám 25,0% 12,7% 20,3%
Iðnnám 8,6% 18,3% 12,3%
Starfstengt nám á framhaldsskólastigi 12,2% 8,3% 10,7%
Stúdentspróf 13,4% 10,9% 12,5%
Annað 2,7% 5,3% 3,7%
Vil ekki svara 1,6% 3,0% 2,2%
Búseta
Höfuðborgarsvæðinu 52,7% 57,1% 54,4% 3791 0,003**
Landsbyggðum 43,1% 37,7% 41,0%
Erlendis 3,7% 4,2% 3,9%
Vil ekki svara 0,5% 1,0% 0,7%
Lífeyrisréttindi
Á örorkulífeyri 84,1% 85,9% 84,8% 3793 0,307
Á endurhæfingarlífeyri 14,0% 12,4% 13,4%
Á örorkustyrk 1,9% 1,7% 1,8%

Töflur  • Fjárhagur

Töflur til að hlusta á.

Tafla 2. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög auðvelt 2,0% 3,2% 0,5% 1,0% 1,8% 0,000**
Auðvelt 3,8% 6,7% 0,5% 2,3% 3,6% N = 2218
Nokkuð auðvelt 17,7% 26,6% 7,4% 12,1% 16,6%
Nokkuð erfitt 30,9% 30,5% 21,6% 25,2% 27,2%
Erfitt 20,8% 14,9% 23,2% 21,8% 19,8%
Mjög erfitt 22,5% 15,0% 45,9% 36,2% 29,1%
Vil ekki svara 2,3% 3,0% 0,8% 1,5% 2,0%
Karlar
Mjög auðvelt 3,3% 4,5% 4,3% 2,3% 3,2% 0,001**
Auðvelt 4,3% 6,0% 1,4% 3,3% 3,9% N = 1369
Nokkuð auðvelt 10,0% 23,1% 15,2% 19,7% 18,6%
Nokkuð erfitt 24,9% 19,5% 23,2% 26,6% 24,3%
Erfitt 27,8% 24,3% 23,9% 19,0% 22,1%
Mjög erfitt 27,8% 21,9% 31,9% 27,4% 26,6%
Vil ekki svara 1,9% 0,6% 0% 1,6% 1,2%
Öll
Mjög auðvelt 2,5% 3,6% 1,6% 1,6% 2,3% 0,000**
Auðvelt 4,0% 6,5% 0,8% 2,8% 3,7% N = 3587
Nokkuð auðvelt 15,1% 25,4% 9,5% 15,7% 17,4%
Nokkuð erfitt 28,8% 26,8% 22,0% 25,8% 26,1%
Erfitt 23,2% 18,1% 23,4% 20,5% 20,7%
Mjög erfitt 24,3% 17,4% 42,1% 32,1% 28,1%
Vil ekki svara 2,2% 2,2% 0,6% 1,5% 1,7%

Tafla 3. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög auðvelt 1,9% 0,3% 2,3% 1,7% 0,093
Auðvelt 3,5% 3,2% 2,3% 3,4% N = 2267
Nokkuð auðvelt 16,5% 13,8% 34,1% 16,5%
Nokkuð erfitt 26,7% 29,9% 22,7% 27,1%
Erfitt 20,0% 21,5% 13,6% 20,1%
Mjög erfitt 29,2% 28,9% 20,5% 29,0%
Vil ekki svara 2,1% 2,3% 4,5% 2,2%
Karlar
Mjög auðvelt 3,5% 0,6% 0% 3,0% 0,031*
Auðvelt 4,5% 0% 8,0% 4,0% N = 1412
Nokkuð auðvelt 17,6% 23,7% 12,0% 18,3%
Nokkuð erfitt 24,1% 23,1% 40,0% 24,3%
Erfitt 22,7% 22,0% 12,0% 22,4%
Mjög erfitt 26,2% 28,3% 28,0% 26,5%
Vil ekki svara 1,4% 2,3% 0% 1,5%
Öll
Mjög auðvelt 2,5% 0,4% 1,4% 2,2% 0,064
Auðvelt 3,9% 2,1% 4,3% 3,7% N = 3679
Nokkuð auðvelt 16,9% 17,4% 26,1% 17,2%
Nokkuð erfitt 25,7% 27,5% 29,0% 26,0%
Erfitt 21,0% 21,7% 13,0% 21,0%
Mjög erfitt 28,0% 28,7% 23,2% 28,0%
Vil ekki svara 1,9% 2,3% 2,9% 1,9%

Tafla 4. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
21,5% 31,2% 5,2% 15,3% 19,5% 0,000**
Nei 68,6% 55,2% 89,3% 76,1% 70,7% N = 2219
Veit ekki 8,1% 11,7% 4,9% 7,3% 8,3%
Vil ekki svara 1,8% 2,0% 0,5% 1,4% 1,5%
Karlar
20,0% 34,8% 10,9% 25,7% 25,6% 0,000**
Nei 72,9% 58,3% 73,2% 64,1% 64,9% N = 1369
Veit ekki 5,2% 6,3% 15,9% 8,9% 8,4%
Vil ekki svara 1,9% 0,6% 0% 1,3% 1,1%
Öll
21,0% 32,4% 6,8% 20,1% 21,8% 0,000**
Nei 70,1% 56,2% 84,9% 70,5% 68,5% N = 3588
Veit ekki 7,1% 9,9% 8,0% 8,0% 8,4%
Vil ekki svara 1,8% 1,5% 0,4% 1,3% 1,3%

Tafla 5. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
18,8% 20,1% 31,8% 19,2% 0,005**
Nei 72,1% 66,8% 50,0% 70,9% N = 2272
Veit ekki 7,5% 12,1% 15,9% 8,3%
Vil ekki svara 1,6% 1,0% 2,3% 1,5%
Karlar
26,9% 14,9% 16,7% 25,2% 0,001**
Nei 64,6% 69,5% 62,5% 65,1% N = 1411
Veit ekki 7,4% 14,4% 20,8% 8,5%
Vil ekki svara 1,2% 1,1% 0% 1,1%
Öll
21,9% 18,3% 26,5% 21,5% 0,000**
Nei 69,1% 67,8% 54,4% 68,7% N = 3683
Veit ekki 7,5% 12,9% 17,6% 8,4%
Vil ekki svara 1,4% 1,0% 1,5% 1,4%

Tafla 6. Fjárhagsstaða betri eða verri en fyrir ári eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð

án barna

Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mun betri 3,5% 1,4% 2,5% 1,5% 2,0% 0,000**
Nokkuð betri 8,3% 7,3% 6,8% 7,8% 7,6% N = 2223
Eins og fyrir ári 31,8% 34,9% 28,4% 30,3% 31,6%
Nokkuð verri 32,6% 32,2% 24,9% 27,3% 29,3%
Mun verri 22,5% 22,7% 37,2% 31,5% 28,2%
Vil ekki svara 1,3% 1,5% 0,3% 1,8% 1,3%
Karlar
Mun betri 1,0% 1,8% 2,9% 5,6% 3,7% 0,020*
Nokkuð betri 9,0% 9,3% 13,1% 10,7% 10,3% N = 1372
Eins og fyrir ári 30,0% 33,8% 35,0% 34,2% 33,5%
Nokkuð verri 27,1% 29,3% 18,2% 24,7% 25,6%
Mun verri 31,9% 25,1% 29,9% 23,7% 25,9%
Vil ekki svara 1,0% 0,6% 0,7% 1,0% 0,9%
Öll
Mun betri 2,6% 1,5% 2,6% 3,4% 2,6% 0,000**
Nokkuð betri 8,6% 7,9% 8,5% 9,1% 8,6% N = 3595
Eins og fyrir ári 31,2% 34,6% 30,2% 32,1% 32,4%
Nokkuð verri 30,7% 31,3% 23,1% 26,1% 27,9%
Mun verri 25,7% 23,5% 35,2% 27,9% 27,3%
Vil ekki svara 1,2% 1,2% 0,4% 1,4% 1,2%

Tafla 7. Fjárhagsstaða betri eða verri en fyrir ári eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mun betri 1,6% 4,5% 2,3% 2,0% 0,088
Nokkuð betri 7,5% 8,3% 6,8% 7,6% N = 2272
Eins og fyrir ári 31,1% 33,7% 40,9% 31,6%
Nokkuð verri 29,5% 26,6% 27,3% 29,1%
Mun verri 28,7% 26,0% 22,7% 28,2%
Vil ekki svara 1,6% 1,0% 0% 1,5%
Karlar
Mun betri 3,9% 2,9% 0% 3,7% 0,009**
Nokkuð betri 9,6% 15,0% 8,0% 10,3% N = 1412
Eins og fyrir ári 32,6% 36,4% 44,0% 33,3%
Nokkuð verri 26,1% 20,2% 28,0% 25,4%
Mun verri 26,8% 24,9% 12,0% 26,3%
Vil ekki svara 1,0% 0,6% 8,0% 1,1%
Öll
Mun betri 2,5% 3,9% 1,4% 2,7% 0,073
Nokkuð betri 8,3% 10,7% 7,2% 8,6% N = 3684
Eins og fyrir ári 31,7% 34,6% 42,0% 32,3%
Nokkuð verri 28,2% 24,3% 27,5% 27,7%
Mun verri 27,9% 25,6% 18,8% 27,4%
Vil ekki svara 1,4% 0,8% 2,9% 1,3%

Tafla 8. Efnislegur skortur eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals p-gildi
Vanskil á leigu/lánum N = 3582
Konur og kvár 14,2% 6,5% 22,2% 13,1% 12,9% 0,000**
Karlar 15,2% 7,2% 23,2% 13,6% 13,3% 0,000**
Öll 14,5% 6,8% 22,5% 13,4% 13,0% 0,000**
Ekki árlegt frí með fjölskyldu N = 3580
Konur og kvár 47,2% 26,2% 72,7% 53,6% 47,5% 0,000**
Karlar 47,9% 36,3% 56,9% 51,2% 47,6% 0,000**
Öll 47,4% 29,6% 68,4% 52,5% 47,5% 0,000**
Ekki efni á kjötmáltíð annan hvern dag N = 3581
Konur og kvár 15,9% 11,4% 46,4% 32,8% 25,7% 0,000**
Karlar 14,2% 14,4% 27,0% 23,6% 20,2% 0,000**
Öll 15,3% 12,4% 41,2% 28,5% 23,6% 0,000**
Geta ekki mætt óvæntum útgjöldum N = 3581
Konur og kvár 52,3% 39,7% 81,4% 68,3% 59,1% 0,000**
Karlar 58,1% 45,8% 60,1% 55,3% 53,9% 0,005**
Öll 54,3% 41,8% 75,5% 62,3% 57,1% 0,000**
Ekki efni á síma N = 3580
Konur og kvár 1,5% 2,7% 5,2% 2,5% 2,8% 0,017*
Karlar 4,7% 4,2% 7,2% 2,5% 3,7% 0,037*
Öll 2,6% 3,2% 5,8% 2,5% 3,2% 0,003**
Ekki efni á sjónvarpstæki N = 3580
Konur og kvár 6,1% 2,9% 14,8% 9,4% 7,8% 0,000**
Karlar 4,3% 6,3% 12,4% 11,1% 9,0% 0,002**
Öll 5,5% 4,0% 14,1% 10,2% 8,2% 0,000**
Ekki efni á þvottavél N = 3581
Konur og kvár 4,6% 3,7% 15,0% 9,0% 7,6% 0,000**
Karlar 4,3% 4,2% 13,1% 8,6% 7,3% 0,001**
Öll 4,5% 3,8% 14,5% 8,8% 7,5% 0,000**
Ekki efni á bíl N = 3581
Konur og kvár 9,9% 8,7% 32,0% 29,4% 20,2% 0,000**
Karlar 11,4% 10,5% 39,4% 37,6% 27,1% 0,000**
Öll 10,4% 9,3% 34,0% 33,2% 22,8% 0,000**
Ekki nægileg upphitun N = 3581
Konur og kvár 4,6% 3,0% 6,3% 6,1% 5,0% 0,031*
Karlar 6,6% 5,1% 8,7% 5,3% 5,8% 0,386
Öll 5,3% 3,7% 6,9% 5,7% 5,3% 0,044*

Tafla 9. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Enginn skortur 29,2% 48,5% 5,3% 17,4% 26,5% 0,000**
Einn þáttur 23,0% 22,7% 15,4% 18,2% 19,9% N = 2115
Tveir þættir 21,4% 13,1% 17,9% 20,3% 18,0%
Efnislegur skortur 14,6% 7,1% 29,4% 21,6% 17,4%
Verulegur efnislegur skortur 11,9% 8,6% 31,9% 22,6% 18,2%
Karlar
Enginn skortur 27,2% 42,8% 18,8% 24,1% 28,6% 0,000**
Einn þáttur 25,7% 17,6% 21,9% 17,4% 19,2% N = 1312
Tveir þættir 23,8% 21,7% 13,3% 19,5% 20,1%
Efnislegur skortur 10,7% 7,5% 14,8% 13,8% 11,9%
Verulegur efnislegur skortur 12,6% 10,4% 31,3% 25,2% 20,2%
Öll
Enginn skortur 28,5% 46,6% 8,9% 20,5% 27,3% 0,000**
Einn þáttur 24,0% 20,9% 17,1% 17,8% 19,6% N = 3427
Tveir þættir 22,2% 16,0% 16,7% 19,9% 18,8%
Efnislegur skortur 13,2% 7,3% 25,6% 18,0% 15,3%
Verulegur efnislegur skortur 12,2% 9,2% 31,8% 23,8% 19,0%

Tafla 10. Efnislegur skortur eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Vanskil á leigu/lánum N = 3675
Konur og kvár 11,8% 19,0% 11,4% 12,8% 0,002**
Karlar 12,1% 23,1% 12,0% 13,4% 0,000**
Öll 11,9% 20,4% 11,6% 13,0% 0,000**
Ekki árlegt frí með fjölskyldu N = 3672
Konur og kvár 47,2% 51,8% 38,6% 47,6% 0,156
Karlar 45,6% 59,8% 45,8% 47,3% 0,003**
Öll 46,6% 54,6% 41,2% 47,5% 0,003**
Ekki efni á kjötmáltíð annan hvern dag N = 3673
Konur og kvár 25,8% 26,8% 13,6% 25,7% 0,170
Karlar 20,1% 23,7% 16,0% 20,5% 0,481
Öll 23,6% 25,7% 14,5% 23,7% 0,117
Geta ekki mætt óvæntum útgjöldum N = 3671
Konur og kvár 59,3% 61,0% 38,6% 59,1% 0,018*
Karlar 51,2% 75,1% 54,2% 54,2% 0,000**
Öll 56,1% 66,0% 44,1% 57,2% 0,000**
Ekki efni á síma N = 3673
Konur og kvár 2,5% 5,2% 4,5% 2,9% 0,029*
Karlar 3,3% 6,5% 4,0% 3,7% 0,117
Öll 2,8% 5,6% 4,3% 3,2% 0,004**
Ekki efni á sjónvarpstæki N = 3673
Konur og kvár 7,3% 11,0% 2,3% 7,7% 0,032*
Karlar 8,6% 12,5% 12,0% 9,1% 0,222
Öll 7,8% 11,5% 5,8% 8,2% 0,018*
Ekki efni á þvottavél N = 3672
Konur og kvár 7,2% 10,9% 4,5% 7,7% 0,054
Karlar 7,2% 8,3% 12,5% 7,4% 0,546
Öll 7,2% 10,0% 7,4% 7,6% 0,094
Ekki efni á bíl N = 3671
Konur og kvár 18,6% 30,0% 20,5% 20,2% 0,000**
Karlar 25,4% 41,7% 24,0% 27,3% 0,000**
Öll 21,3% 34,1% 21,7% 22,9% 0,000**
Ekki nægileg upphitun N = 3671
Konur og kvár 4,8% 5,2% 4,5% 4,9% 0,961
Karlar 6,3% 2,4% 4,0% 5,8% 0,119
Öll 5,4% 4,2% 4,3% 5,2% 0,522

Tafla 11. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Enginn skortur 27,3% 18,2% 34,1% 26,2% 0,008**
Einn þáttur 19,8% 20,3% 29,3% 20,1% N = 2156
Tveir þættir 18,0% 19,9% 14,6% 18,2%
Efnislegur skortur 17,6% 17,6% 7,3% 17,4%
Verulegur efnislegur skortur 17,3% 24,0% 14,6% 18,1%
Karlar
Enginn skortur 30,1% 17,2% 27,3% 28,5% 0,000**
Einn þáttur 20,8% 10,1% 18,2% 19,5% N = 1352
Tveir þættir 17,9% 32,0% 22,7% 19,7%
Efnislegur skortur 11,8% 13,0% 9,1% 11,9%
Verulegur efnislegur skortur 19,3% 27,8% 22,7% 20,4%
Öll
Enginn skortur 28,4% 17,8% 31,7% 27,1% 0,000**
Einn þáttur 20,2% 16,6% 25,4% 19,8% N = 3508
Tveir þættir 18,0% 24,3% 17,5% 18,8%
Efnislegur skortur 15,3% 15,9% 7,9% 15,3%
Verulegur efnislegur skortur 18,1% 25,4% 17,5% 19,0%

Tafla 12. Fjárhagsaðstoð á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals p-gildi
Fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags N = 3564
Konur og kvár 1,8% 1,2% 7,5% 3,3% 3,1% 0,000**
Karlar 4,3% 1,2% 6,7% 6,3% 4,8% 0,003**
Öll 2,7% 1,2% 7,3% 4,7% 3,7% 0,000**
Aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi matar- eða peningagjafa N = 3562
Konur og kvár 35,6% 17,5% 65,2% 47,8% 39,4% 0,000**
Karlar 36,7% 19,0% 45,2% 43,9% 36,8% 0,000**
Öll 36,0% 18,0% 59,7% 46,0% 38,4% 0,000**
Fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum N = 3580
Konur og kvár 2,0% 0,2% 12,6% 5,0% 4,3% 0,000**
Karlar 2,9% 1,2% 8,8% 4,5% 3,9% 0,001**
Öll 2,3% 0,5% 11,6% 4,8% 4,1% 0,000**
Mataraðstoð N = 3564
Konur og kvár 3,6% 2,3% 25,0% 10,7% 9,3% 0,000**
Karlar 5,8% 5,7% 14,1% 13,4% 10,4% 0,000**
Öll 4,3% 3,4% 22,0% 12,0% 9,7% 0,000**

Tafla 13. Fjárhagsaðstoð (samanteknir þættir) á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Ekkert 63,5% 81,5% 27,9% 46,6% 57,0% 0,000**
Einn þátt 32,7% 16,3% 46,2% 43,2% 33,8% N = 2201
Tvo þætti 2,0% 2,1% 17,0% 7,8% 6,6%
Þrjá til fjóra þætti 1,8% 0,2% 8,9% 2,4% 2,7%
Karlar
Ekkert 59,1% 78,3% 48,9% 51,0% 58,7% 0,000**
Einn þátt 34,6% 18,1% 35,6% 34,7% 30,7% N = 1361
Tvo þætti 4,3% 2,4% 8,9% 10,1% 7,2%
Þrjá til fjóra þætti 1,9% 1,2% 6,7% 4,2% 3,4%
Öll
Ekkert 62,0% 80,4% 33,6% 48,6% 57,6% 0,000**
Einn þátt 33,4% 16,9% 43,3% 39,2% 32,6% N = 3562
Tvo þætti 2,8% 2,2% 14,8% 8,9% 6,8%
Þrjá til fjóra þætti 1,8% 0,5% 8,3% 3,3% 2,9%

Tafla 14. Fjárhagsaðstoð síðastliðna 12 mánuði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags N = 3653
Konur og kvár 2,6% 7,1% 2,3% 3,2% 0,000**
Karlar 3,9% 10,9% 4,2% 4,8% 0,000**
Öll 3,1% 8,5% 2,9% 3,8% 0,000**
Aðstoð frá vinum eða ættingjum í formi matar- eða peningagjafa N = 3654
Konur og kvár 36,6% 56,2% 25,0% 39,1% 0,000**
Karlar 35,8% 42,5% 40,0% 36,7% 0,217
Öll 36,3% 51,2% 30,4% 38,2% 0,000**
Fjárhagsaðstoð frá félags- eða hjálparsamtökum N = 3669
Konur og kvár 4,3% 3,9% 2,3% 4,2% 0,750
Karlar 4,2% 2,3% 0% 3,9% 0,280
Öll 4,3% 3,3% 1,4% 4,1% 0,314
Mataraðstoð N = 3652
Konur og kvár 9,1% 10,1% 9,1% 9,2% 0,850
Karlar 9,5% 17,2% 12,5% 10,5% 0,007**
Öll 9,2% 12,7% 10,3% 9,7% 0,059

Tafla 15. Fjárhagsaðstoð (samanteknir þættir) á síðastliðnum 12 mánuðum eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Ekkert 59,6% 40,6% 70,5% 57,2% 0,000**
Einn þátt 31,8% 45,5% 22,7% 33,5% N = 2252
Tvo þætti 5,8% 11,4% 4,5% 6,6%
Þrjá til fjóra þætti 2,7% 2,6% 2,3% 2,7%
Karlar
Ekkert 59,7% 52,3% 48,0% 58,6% 0,000**
Einn þátt 31,2% 26,4% 48,0% 30,9% N = 1401
Tvo þætti 5,8% 17,2% 4,0% 7,2%
Þrjá til fjóra þætti 3,2% 4,0% 0% 3,3%
Öll
Ekkert 59,6% 44,8% 62,3% 57,7% 0,000**
Einn þátt 31,6% 38,6% 31,9% 32,5% N = 3653
Tvo þætti 5,8% 13,5% 4,3% 6,8%
Þrjá til fjóra þætti 2,9% 3,1% 1,4% 2,9%

Tafla 16. Hlutfall þeirra sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals p-gildi
Yfirdrátt N = 3593
Konur og kvár 52,7% 43,4% 47,8% 41,6% 45,1% 0,002**
Karlar 49,8% 42,0% 37,7% 32,7% 38,1% 0,000**
Öll 51,7% 43,0% 45,0% 37,5% 42,4% 0,000**
Smálán N = 3591
Konur og kvár 7,6% 4,1% 13,4% 5,9% 6,9% 0,000**
Karlar 3,8% 3,0% 10,2% 8,4% 6,6% 0,001**
Öll 6,3% 3,7% 12,5% 7,1% 6,8% 0,000**
Húsnæðislán N =3592
Konur og kvár 67,1% 59,0% 27,3% 28,7% 44,3% 0,000**
Karlar 55,5% 54,5% 18,1% 21,3% 34,3% 0,000**
Öll 63,0% 57,5% 24,8% 25,3% 40,5% 0,000**
Bílalán N = 3594
Konur og kvár 39,5% 29,2% 23,7% 14,3% 24,8% 0,000**
Karlar 39,8% 31,2% 12,3% 11,3% 20,6% 0,000**
Öll 39,6% 29,9% 20,6% 12,9% 23,2% 0,000**
Námslán N =3593
Konur og kvár 26,0% 12,9% 21,0% 14,5% 17,2% 0,000**
Karlar 18,1% 7,5% 10,1% 4,2% 7,7% 0,000**
Öll 23,3% 11,1% 18,1% 9,7% 13,6% 0,000**
Önnur skammtímalán N = 3591
Konur og kvár 28,9% 15,6% 37,4% 23,8% 24,5% 0,000**
Karlar 24,8% 16,5% 31,4% 22,0% 22,0% 0,003**
Öll 27,4% 15,9% 35,8% 23,0% 23,6% 0,000**
Lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim N = 3592
Konur og kvár 34,9% 15,9% 61,6% 40,4% 35,6% 0,000**
Karlar 36,0% 17,8% 53,3% 38,1% 34,4% 0,000**
Öll 35,3% 16,5% 59,3% 39,3% 35,1% 0,000**

Tafla 17. Hlutfall þeirra sem eru með yfirdrátt, smálán, húsnæðislán, bílalán, námslán, önnur skammtímalán eða lán hjá vini/fjölskyldumeðlim eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Yfirdrátt N = 3682
Konur og kvár 45,2% 47,0% 30,2% 45,1% 0,118
Karlar 37,7% 40,5% 44,0% 38,1% 0,647
Öll 42,3% 44,7% 35,3% 42,4% 0,296
Smálán N = 3681
Konur og kvár 6,3% 11,5% 4,5% 7,0% 0,003**
Karlar 5,7% 11,6% 4,0% 6,4% 0,011*
Öll 6,0% 11,5% 4,3% 6,7% 0,000**
Húsnæðislán N = 3682
Konur og kvár 44,6% 39,1% 44,2% 43,9% 0,187
Karlar 34,2% 29,3% 32,0% 33,6% 0,434
Öll 40,6% 35,6% 39,7% 39,9% 0,111
Bílalán N = 3684
Konur og kvár 25,5% 17,9% 22,7% 24,4% 0,014*
Karlar 21,4% 15,5% 12,0% 20,5% 0,111
Öll 23,9% 17,0% 18,8% 22,9% 0,001**
Námslán N = 3684
Konur og kvár 15,9% 24,0% 13,6% 17,0% 0,001**
Karlar 7,5% 7,5% 8,0% 7,5% 0,995
Öll 12,6% 18,1% 11,6% 13,3% 0,004**
Önnur skammtímalán N = 3680
Konur og kvár 24,2% 27,2% 16,3% 24,4% 0,229
Karlar 20,1% 35,3% 8,3% 21,8% 0,000**
Öll 22,6% 30,1% 13,4% 23,4% 0,000**
Lán hjá vini eða fjölskyldumeðlim N = 3681
Konur og kvár 33,2% 51,8% 20,9% 35,5% 0,000**
Karlar 32,3% 47,4% 37,5% 34,3% 0,000**
Öll 32,8% 50,2% 26,9% 35,0% 0,000**

Tafla 18. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt væri að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Nauðsynlegan klæðnað N = 3587
Konur og kvár 43,9% 23,8% 65,2% 49,5% 43,4% 0,000**
Karlar 44,3% 32,3% 50,7% 44,0% 41,9% 0,000**
Öll 44,0% 26,7% 61,2% 47,0% 42,8% 0,000**
Eins næringarríkan mat og þú telur þig þurfa N = 3588
Konur og kvár 36,5% 18,9% 63,1% 48,1% 39,9% 0,000**
Karlar 31,4% 22,5% 49,3% 40,1% 35,4% 0,000**
Öll 34,8% 20,1% 59,3% 44,4% 38,2% 0,000**
Líkamsrækt N = 3589
Konur og kvár 43,4% 30,5% 57,1% 50,4% 44,3% 0,000**
Karlar 37,0% 33,2% 42,8% 42,0% 39,2% 0,038*
Öll 41,2% 31,4% 53,2% 46,5% 42,4% 0,000**
Menningarviðburði (t.d. tónleika, söfn) N = 3590
Konur og kvár 59,9% 43,8% 81,7% 67,3% 61,4% 0,000**
Karlar 55,5% 44,9% 54,3% 53,8% 51,9% 0,031*
Öll 58,3% 44,2% 74,2% 61,1% 57,8% 0,000**
Félagslíf (t.d. kaffihús, bíó) N = 3588
Konur og kvár 45,4% 34,2% 71,5% 56,6% 50,4% 0,000**
Karlar 55,2% 44,9% 61,6% 47,2% 49,3% 0,002**
Öll 48,8% 37,8% 68,8% 52,3% 50,0% 0,000**
Klippingu á hárgreiðslustofu N = 3588
Konur og kvár 57,2% 34,5% 76,2% 57,6% 53,7% 0,000**
Karlar 42,4% 24,9% 45,3% 30,8% 32,6% 0,000**
Öll 52,1% 31,3% 67,7% 45,2% 45,7% 0,000**
Menntun sem þú hefur áhuga á að sækja (t.d. námskeið, símenntun eða nám á framhalds- eða háskólastigi) N = 3588
Konur og kvár 44,7% 29,7% 58,7% 47,5% 43,5% 0,000**
Karlar 39,5% 25,7% 45,3% 36,3% 35,1% 0,000**
Öll 42,9% 28,3% 55,1% 42,3% 40,3% 0,000**

Tafla 19. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 24,3% 44,2% 7,4% 17,9% 25,1% N = 2221
Einn þátt 5,3% 7,0% 3,3% 7,4% 6,2% 0,000**
Tvo þætti 9,1% 7,9% 4,9% 5,5% 6,8%
Þrjá þætti 12,2% 10,2% 11,2% 11,1% 11,0%
Fjóra eða fleiri þætti 49,1% 30,8% 73,3% 58,1% 50,9%
Karlar
Engan þátt 24,6% 45,3% 19,7% 30,1% 31,9% N = 1368
Einn þátt 8,1% 3,9% 8,8% 7,0% 6,6% 0,000**
Tvo þætti 7,6% 7,8% 2,9% 7,1% 6,9%
Þrjá þætti 15,6% 10,5% 16,8% 12,2% 12,8%
Fjóra eða fleiri þætti 44,1% 32,4% 51,8% 43,5% 41,7%
Öll
Engan þátt 24,4% 44,6% 10,7% 23,6% 27,7% N = 3589
Einn þátt 6,3% 5,9% 4,8% 7,2% 6,4% 0,000**
Tvo þætti 8,6% 7,9% 4,4% 6,3% 6,8%
Þrjá þætti 13,4% 10,3% 12,7% 11,6% 11,7%
Fjóra eða fleiri þætti 47,4% 31,3% 67,5% 51,3% 47,4%

Tafla 20. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Nauðsynlegan klæðnað N = 3681
Konur og kvár 42,7% 50,6% 27,3% 43,5% 0,003**
Karlar 40,3% 51,7% 36,0% 41,6% 0,014*
Öll 41,7% 51,0% 30,4% 42,8% 0,000**
Eins næringarríkan mat og þú telur þig þurfa N = 3679
Konur og kvár 39,3% 45,2% 25,0% 39,8% 0,018*
Karlar 34,8% 39,1% 36,0% 35,3% 0,536
Öll 37,5% 43,0% 29,0% 38,1% 0,020*
Líkamsrækt N = 3678
Konur og kvár 44,5% 43,9% 31,8% 44,2% 0,242
Karlar 39,1% 40,8% 25,0% 39,1% 0,330
Öll 42,4% 42,8% 29,4% 42,3% 0,095
Menningarviðburði (t.d. tónleika, söfn) N = 3677
Konur og kvár 61,2% 64,0% 39,5% 61,2% 0,009**
Karlar 50,6% 57,5% 60,0% 51,6% 0,167
Öll 57,1% 61,6% 47,1% 57,5% 0,036*
Félagslíf (t.d. kaffihús, bíó) N = 3679
Konur og kvár 49,7% 57,2% 31,8% 50,4% 0,002**
Karlar 48,1% 58,0% 44,0% 49,3% 0,044*
Öll 49,1% 57,5% 36,2% 50,0% 0,000**
Klippingu á hárgreiðslustofu N = 3679
Konur og kvár 52,4% 61,9% 34,9% 53,3% 0,000**
Karlar 32,4% 34,5% 28,0% 32,6% 0,760
Öll 44,6% 52,1% 32,4% 45,4% 0,001**
Menntun sem þú hefur áhuga á að sækja (t.d. námskeið, símenntun eða nám á framhalds- eða háskólastigi) N = 3680
Konur og kvár 42,8% 48,9% 40,9% 43,6% 0,125
Karlar 34,9% 37,4% 16,0% 34,9% 0,111
Öll 39,7% 44,7% 31,9% 40,2% 0,040*

Tafla 21. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir sig (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 26,0% 19,3% 35,6% 25,2% N = 2270
Einn þátt 6,1% 6,8% 11,1% 6,3% 0,003**
Tvo þætti 6,8% 4,8% 15,6% 6,7%
Þrjá þætti 10,7% 13,5% 8,9% 11,0%
Fjóra eða fleiri þætti 50,5% 55,6% 28,9% 50,7%
Karlar
Engan þátt 33,8% 18,4% 33,3% 31,9% N = 1409
Einn þátt 6,4% 9,8% 16,7% 7,0% 0,000**
Tvo þætti 7,2% 5,7% 8,3% 7,0%
Þrjá þætti 11,1% 23,0% 4,2% 12,5%
Fjóra eða fleiri þætti 41,5% 43,1% 37,5% 41,7%
Öll
Engan þátt 29,0% 19,0% 34,8% 27,8% N = 3679
Einn þátt 6,2% 7,8% 13,0% 6,6% 0,000**
Tvo þætti 6,9% 5,2% 13,0% 6,8%
Þrjá þætti 10,8% 16,9% 7,2% 11,6%
Fjóra eða fleiri þætti 47,0% 51,1% 31,9% 47,3%

Tafla 22. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Einhleypir foreldrar Samtals p-gildi
Leikskólagjöld N = 998
Konur og kvár 5,3% 7,7% 6,4% 0,201
Karlar 10,8% 10,0% 10,5% 0,817
Öll 7,2% 8,3% 7,7% 0,525
Gjöld fyrir frístundaheimili N = 999
Konur og kvár 15,0% 24,6% 19,6% 0,002**
Karlar 20,5% 21,7% 21,0% 0,807
Öll 17,0% 23,8% 20,0% 0,007**
Skólagjöld í framhaldsskóla N = 998
Konur og kvár 6,1% 10,2% 8,0% 0,053
Karlar 9,3% 9,2% 9,2% 0,974
Öll 7,2% 9,9% 8,4% 0,133
Skólabækur eða annan námskostnað, s.s. tölvubúnað fyrir framhaldsskólanema N = 999
Konur og kvár 12,8% 20,3% 16,4% 0,008**
Karlar 13,8% 20,0% 16,2% 0,150
Öll 13,2% 20,2% 16,3% 0,003**
Mat í skóla (í gegnum mataráskriftir eða á annan hátt) N = 998
Konur og kvár 15,0% 24,6% 19,6% 0,002**
Karlar 15,4% 18,5% 16,6% 0,473
Öll 15,2% 23,0% 18,6% 0,002**
Kostnað vegna skipulagðra tómstunda N = 998
Konur og kvár 35,4% 48,9% 41,8% 0,000**
Karlar 22,7% 40,8% 29,6% 0,001**
Öll 30,9% 46,7% 38,0% 0,000**
Kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða tengdum skóla

(t.d. öskudagsbúning, sérstakt nesti eða búnað)

N = 998
Konur og kvár 16,4% 34,5% 25,0% 0,000**
Karlar 21,6% 25,0% 22,9% 0,493
Öll 18,3% 31,9% 24,3% 0,000**
Kostnað vegna félagslífs (s.s. afmælisgjafir fyrir vini, bíóferðir eða aðra afþreyingu með vinum) N = 998
Konur og kvár 25,9% 52,6% 38,6% 0,000**
Karlar 36,1% 36,7% 36,3% 0,917
Öll 29,5% 48,3% 37,9% 0,000**

 

Kostnað við að halda afmæli eða veislur vegna barns (s.s. fermingu, útskrift) N = 996
Konur og kvár 24,0% 53,5% 38,1% 0,000**
Karlar 27,8% 43,7% 33,9% 0,004**
Öll 25,4% 50,9% 36,7% 0,000**
Afmælis- og/eða jólagjafir N = 997
Konur og kvár 26,0% 56,5% 40,5% 0,000**
Karlar 30,8% 47,5% 37,1% 0,003**
Öll 27,7% 54,1% 39,4% 0,000**
Nauðsynlegan fatnað N = 998
Konur og kvár 27,9% 52,3% 39,5% 0,000**
Karlar 30,8% 37,0% 33,1% 0,257
Öll 28,9% 48,2% 37,5% 0,000**
Eins næringarríkan mat og þú telur barnið þurfa N = 997
Konur og kvár 22,0% 54,0% 37,2% 0,000**
Karlar 23,2% 33,3% 27,1% 0,049*
Öll 22,4% 48,4% 34,0% 0,000**

Tafla 23. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Einhleypir foreldrar Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 42,3% 13,5% 28,7% 0,000**
Einn þátt 10,6% 9,2% 9,9% N = 684
Tvo þætti 10,3% 5,8% 8,2%
Þrjá þætti 8,4% 12,9% 10,5%
Fjóra þætti 7,0% 10,2% 8,5%
Fimm þætti 6,1% 13,2% 9,5%
Sex þætti eða fleiri 15,3% 35,1% 24,7%
Karlar
Engan þátt 42,6% 37,0% 40,4% 0,238
Einn þátt 9,2% 3,4% 7,0% N = 314
Tvo þætti 6,7% 6,7% 6,7%
Þrjá þætti 8,2% 13,4% 10,2%
Fjóra þætti 7,7% 6,7% 7,3%
Fimm þætti 6,7% 6,7% 6,7%
Sex þætti eða fleiri 19,0% 26,1% 21,7%
Öll
Engan þátt 42,4% 19,8% 32,4% 0,000**
Einn þátt 10,1% 7,7% 9,0% N = 998
Tvo þætti 9,0% 6,1% 7,7%
Þrjá þætti 8,3% 13,1% 10,4%
Fjóra þætti 7,2% 9,2% 8,1%
Fimm þætti 6,3% 11,5% 8,6%
Sex þætti eða fleiri 16,6% 32,7% 23,7%

Tafla 24. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Leikskólagjöld N = 997
Konur og kvár 5,1% 11,3% 0% 6,3% 0,016*
Karlar 10,4% 9,5% 0% 10,2% 0,879
Öll 6,9% 10,9% 0% 7,5% 0,093
Gjöld fyrir frístundaheimili N = 998
Konur og kvár 18,3% 25,5% 7,7% 19,6% 0,087
Karlar 21,1% 19,0% 0% 20,7% 0,734
Öll 19,3% 24,0% 6,7% 19,9% 0,148
Skólagjöld í framhaldsskóla N = 999
Konur og kvár 8,1% 8,5% % 8,0% 0,554
Karlar 7,7% 19,0% 0% 9,2% 0,056
Öll 8,0% 10,9% 0% 8,4% 0,216
Skólabækur eða annan námskostnað, s.s. tölvubúnað fyrir framhaldsskólanema N = 998
Konur og kvár 17,4% 13,5% 15,4% 16,5% 0,541
Karlar 14,8% 23,8% 0% 15,9% 0,276
Öll 16,5% 15,8% 13,3% 16,3% 0,929
Mat í skóla (í gegnum mataráskriftir eða á annan hátt) N = 998
Konur og kvár 20,2% 18,4% 7,7% 19,6% 0,495
Karlar 14,8% 28,6% 0% 16,6% 0,068
Öll 18,4% 20,8% 6,7% 18,6% 0,368
Kostnað vegna skipulagðra tómstunda N = 999
Konur og kvár 42,8% 38,3% 30,8% 41,7% 0,452
Karlar 28,8% 35,7% 0% 29,5% 0,431
Öll 38,1% 37,7% 26,7% 37,8% 0,665
Kostnað vegna skólaferðalags eða annarra viðburða tengdum skóla

(t.d. öskudagsbúning, sérstakt nesti eða búnað)

N = 999
Konur og kvár 25,3% 24,1% 30,8% 25,1% 0,859
Karlar 21,8% 31,0% 0% 22,9% 0,311
Öll 24,1% 25,7% 26,7% 24,4% 0,885
Kostnað vegna félagslífs (s.s. afmælisgjafir fyrir vini, bíóferðir eða aðra afþreyingu með vinum) N = 999
Konur og kvár 37,4% 44,7% 23,1% 38,6% 0,145
Karlar 31,7% 66,7% 0% 36,2% 0,000**
Öll 35,5% 49,7% 20,0% 37,8% 0,001**
Kostnað við að halda afmæli eða veislur vegna barns (s.s. fermingu, útskrift) N = 998
Konur og kvár 36,6% 44,7% 30,8% 38,2% 0,184
Karlar 33,0% 40,5% 0% 33,8% 0,378
Öll 35,4% 43,7% 26,7% 36,8% 0,077
Afmælis- og/eða jólagjafir N = 998
Konur og kvár 39,4% 45,4% 30,8% 40,5% 0,340
Karlar 34,8% 52,4% 0% 36,9% 0,050*
Öll 37,9% 47,0% 26,7% 39,4% 0,045*
Nauðsynlegan fatnað N = 998
Konur og kvár 36,8% 51,1% 23,1% 39,5% 0,004**
Karlar 31,5% 45,2% 0% 33,1% 0,129
Öll 35,0% 49,7% 20,0% 37,5% 0,000**
Eins næringarríkan mat og þú telur barnið þurfa N = 998
Konur og kvár 36,2% 41,8% 23,1% 37,1% 0,269
Karlar 28,9% 16,7% 0% 27,1% 0,174
Öll 33,8% 36,1% 20,0% 34,0% 0,432

Tafla 25. Fjárskortur síðastliðna 12 mánuði komið í veg fyrir að hægt sé að greiða fyrir grunnþætti fyrir börn (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 30,8% 17,7% 61,5% 28,7% 0,001**
Einn þátt 9,4% 12,1% 0% 9,8% N = 684
Tvo þætti 9,4% 5,0% 0% 8,3%
Þrjá þætti 9,2% 16,3% 0% 10,5%
Fjóra þætti 7,0% 14,2% 0% 8,3%
Fimm þætti 9,2% 9,9% 15,4% 9,5%
Sex þætti eða fleiri 24,9% 24,8% 23,1% 24,9%
Karlar
Engan þátt 44,4% 11,9% 100% 40,4% 0,000**
Einn þátt 6,7% 9,5% 0% 7,0% N = 314
Tvo þætti 6,3% 9,5% 0% 6,7%
Þrjá þætti 5,9% 38,1% 0% 10,2%
Fjóra þætti 8,1% 2,4% 0% 7,3%
Fimm þætti 7,8% 0% 0% 6,7%
Sex þætti eða fleiri 20,7% 28,6% 0% 21,7%
Öll
Engan þátt 35,4% 16,4% 66,7% 32,4% 0,000**
Einn þátt 8,5% 11,5% 0% 8,9% N = 998
Tvo þætti 8,4% 6,0% 0% 7,8%
Þrjá þætti 8,1% 21,3% 0% 10,4%
Fjóra þætti 7,4% 11,5% 0% 8,0%
Fimm þætti 8,8% 7,7% 13,3% 8,6%
Sex þætti eða fleiri 23,5% 25,7% 20,0% 23,8%

Tafla 26. Foreldri/umsjónaraðili/stjúpforeldri ungmennis á aldrinum 18-25 ára eftir kyni.

Konur

og kvár

Karlar Öll P-gildi
Nei 70,2% 75,9% 72,4% 0,000**
Já, ungmennið býr á heimili mínu og borgar ekki heim 13,2% 9,0% 11,6% N = 3552
Já, ungmennið býr á heimili mínu og borgar heim 3,6% 1,9% 2,9%
Já, ungmennið flutti að heiman til að koma í veg fyrir

að ég missti heimilisuppbótina

2,8% 0,7% 2,0%
Já, ungmennið flutti að heiman af öðrum ástæðum 5,3% 3,2% 4,5%
Já, ungmennið býr að mestu hjá öðru foreldri/umsjónaraðila/stjúpforeldri 2,7% 5,3% 3,7%
Vil ekki svara 2,3% 3,9% 2,9%

Tafla 27. Auðvelt eða erfitt að ná endum saman. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Mjög auðvelt 2,2% 8,1%
Auðvelt 3,7% 11,1%
Nokkuð auðvelt 17,2% 33,1%
Nokkuð erfitt 26,0% 25,5%
Erfitt 21,0% 11,7%
Mjög erfitt 28,0% 7,0%
Vil ekki svara 1,9% 3,6%

Tafla 28. Geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
21,5% 49,8%
Nei 68,7% 38,3%
Veit ekki 8,4% 10,4%
Vil ekki svara 1,4% 1,5%

Tafla 29. Fjárhagstaða betri eða verri en fyrir ári. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Mun betri 2,7% 6,0%
Nokkuð betri 8,6% 20,1%
Eins og fyrir ári 32,3% 35,1%
Nokkuð verri 27,7% 25,6%
Mun verri 27,5% 12,0%
Vil ekki svara 1,3% 1,2%

Tafla 30. Fjöldi þátta sem efnislegur skortur er á. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Enginn skortur 27,1% 58,0%
Einn þáttur 19,9% 19,4%
Tveir þættir 18,7% 12,0%
Efnislegur skortur 15,3% 6,0%
Verulegur efnislegur skortur 19,0% 4,5%

Töflur  • Húsnæði

Tafla 31. Staða á húsnæðismarkaði eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Eigin húsnæði 75,8% 78,9% 26,8% 35,0% 54,0% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 13,6% 13,1% 33,3% 27,4% 21,6% N = 2256
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 2,0% 1,9% 6,6% 10,6% 5,8%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 4,3% 1,9% 21,6% 15,5% 10,4%
Hjá foreldrum/ættingjum 2,3% 1,9% 9,3% 8,6% 5,6%
Annað 0,3% 1,2% 0,8% 1,2% 1,0%
Vil ekki svara 1,8% 1,0% 1,6% 1,8% 1,6%
Karlar
Eigin húsnæði 63,8% 69,2% 25,5% 25,0% 41,7% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 18,6% 12,5% 24,1% 21,5% 19,1% N = 1406
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 6,7% 5,2% 5,8% 9,8% 7,8%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 6,2% 4,4% 19,7% 17,1% 12,6%
Hjá foreldrum/ættingjum 3,8% 4,4% 19,7% 21,5% 14,5%
Annað 1,0% 2,6% 0,7% 2,9% 2,3%
Vil ekki svara 0% 1,7% 4,4% 2,1% 1,9%
Öll
Eigin húsnæði 71,6% 75,7% 26,4% 30,3% 49,3% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 15,3% 12,9% 30,8% 24,6% 20,7% N = 3662
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 3,6% 3,0% 6,4% 10,2% 6,6%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 5,0% 2,7% 21,1% 16,2% 11,3%
Hjá foreldrum/ættingjum 2,85 2,7% 12,1% 14,6% 9,0%
Annað 0,5% 1,7% 0,8% 2,0% 1,5%
Vil ekki svara 1,2% 1,3% 2,4% 2,0% 1,7%

Tafla 32. Staða á húsnæðismarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Eigin húsnæði 55,3% 43,0% 61,4% 53,7% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 20,4% 29,3% 18,2% 21,6% N = 2307
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 6,0% 5,3% 2,3% 5,9%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 10,9% 8,4% 6,8% 10,4%
Hjá foreldrum/ættingjum 4,8% 10,3% 6,8% 5,6%
Annað 0,9% 1,6% 2,3% 1,0%
Vil ekki svara 1,6% 2,2% 2,3% 1,7%
Karlar
Eigin húsnæði 42,8% 29,8% 34,6% 41,0% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 17,2% 28,2% 26,9% 18,8% N = 1449
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 8,1% 7,2% 7,7% 7,9%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 13,8% 7,2% 7,7% 12,8%
Hjá foreldrum/ættingjum 13,0% 24,3% 15,4% 14,5%
Annað 2,3% 3,3% 3,8% 2,5%
Vil ekki svara 2,8% 0% 3,8% 2,5%
Öll
Eigin húsnæði 50,4% 38,2% 51,4% 48,8% 0,000**
Leiguhúsnæði á almennum markaði 19,2% 28,9% 21,4% 20,5% N = 3756
Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum 6,8% 6,0% 4,3% 6,7%
Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi 12,0% 8,0% 7,1% 11,4%
Hjá foreldrum/ættingjum 8,0% 15,3% 10,0% 9,1%
Annað 1,4% 2,2% 2,9% 1,6%
Vil ekki svara 2,1% 1,4% 2,9% 2,0%

Tafla 33. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Þung byrði 51,1% 36,8% 62,3% 53,5% 49,5% 0,000**
Nokkur byrði 40,7% 48,5% 30,1% 33,7% 38,8% N = 2253
Engin byrði 6,1% 10,6% 4,4% 8,8% 8,2%
Vil ekki svara 2,0% 4,1% 3,3% 3,9% 3,6%
Karlar
Þung byrði 66,8% 44,0% 58,7% 43,6% 48,6% 0,000**
Nokkur byrði 27,0% 44,6% 27,5% 41,6% 38,8% N = 1406
Engin byrði 4,7% 9,6% 7,2% 9,4% 8,5%
Vil ekki svara 1,4% 1,7% 6,5% 5,5% 4,1%
Öll
Þung byrði 56,6% 39,2% 61,3% 48,9% 49,2% 0,000**
Nokkur byrði 35,9% 47,2% 29,4% 37,4% 38,8% N = 3659
Engin byrði 5,6% 10,3% 5,2% 9,1% 8,3%
Vil ekki svara 1,8% 3,3% 4,2% 4,6% 3,7%

Tafla 34. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Þung byrði 49,8% 49,1% 34,1% 49,4% 0,395
Nokkur byrði 38,6% 37,5% 52,3% 38,7% N = 2304
Engin byrði 7,9% 9,1% 6,8% 8,0%
Vil ekki svara 3,7% 4,4% 6,8% 3,9%
Karlar
Þung byrði 47,8% 54,7% 44,0% 48,6% 0,688
Nokkur byrði 39,1% 33,7% 44,0% 38,5% N = 1446
Engin byrði 8,6% 6,6% 8,0% 8,4%
Vil ekki svara 4,4% 5,0% 4,0% 4,5%
Öll
Þung byrði 49,0% 51,1% 37,7% 49,1% 0,419
Nokkur byrði 38,8% 36,1% 49,3% 38,6% N = 3750
Engin byrði 8,2% 8,2% 7,2% 8,2%
Vil ekki svara 4,0% 4,6% 5,8% 4,1%

Tafla 35. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir kyni og stöðu á húsnæðismarkaði.

Eigið húsnæði Leiguhúsnæði á almennum markaði Leiguhúsnæði hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum Leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi Samtals P-gildi
Konur og kvár
Þung byrði 45,9% 65,3% 46,7% 46,4% 50,6% 0,000**
Nokkur byrði 44,7% 28,7% 37,8% 38,4% 39,8% N = 2108
Engin byrði 7,1% 4,4% 9,6% 9,3% 6,9%
Vil ekki svara 2,3% 1,6% 5,9% 5,9% 2,8%
Karlar
Þung byrði 47,0% 66,7% 47,8% 36,8% 50,0% 0,000**
Nokkur byrði 42,1% 25,6% 40,0% 46,5% 38,7% N = 1167
Engin byrði 10,4% 3,3% 6,1% 12,4% 8,7%
Vil ekki svara 0,5% 4,4% 6,1% 4,3% 2,6%
Öll
Þung byrði 46,3% 65,8% 47,2% 42,2% 50,4% 0,000**
Nokkur byrði 43,9% 27,6% 38,8% 41,9% 39,4% N = 3275
Engin byrði 8,2% 4,0% 8,0% 10,7% 7,5%
Vil ekki svara 1,7% 2,6% 6,0% 5,2% 2,7%

Tafla 36. Húsnæðisbætur og sérstakur húsnæðisstuðningur eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Húsnæðisbætur N = 1408
Konur og kvár 44,9% 26,7% 81,2% 76,8% 68,2% 0,000**
Karlar 53,0% 38,7% 76,8% 68,5% 63,7% 0,000**
Öll 48,6% 31,4% 80,1% 73,1% 66,4% 0,000**
Sérstakur húsnæðisstuðningur N = 1406
Konur og kvár 10,3% 11,3% 54,7% 44,1% 39,4% 0,000**
Karlar 3,0% 12,0% 48,5% 40,5% 33,2% 0,000**
Öll 6,9% 11,6% 53,3% 42,5% 36,9% 0,000**

Tafla 37. Byrði húsnæðiskostnaðar eftir stöðu á húsnæðismarkaði. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Í eigin húsnæði
Þung byrði 46,2% 28,1%
Nokkur byrði 43,8% 50,1%
Engin byrði 8,2% 19,7%
Vil ekki svara 1,7% 2,0%
Leigjendur á almennum markaði
Þung byrði 65,8% 52,9%
Nokkur byrði 27,5% 36,5%
Engin byrði 4,0% 7,9%
Vil ekki svara 2,6% 2,7%
Leigjendur hjá óhagnaðardrifnum leigusamtökum eða sveitarfélagi
Þung byrði 44,0% 45,3%
Nokkur byrði 41,0% 43,9%
Engin byrði 9,5% 6,8%
Vil ekki svara 5,5% 4,0%
Samtals
Þung byrði 50,4% 35,7%
Nokkur byrði 39,0% 46,1%
Engin byrði 7,5% 15,9%
Vil ekki svara 3,1% 2,3%

Töflur  • Heilsufar og heilbrigðisþjónusta

Tafla 38. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög gott 0,3% 0,2% 0,3% 0,6% 0,4% 0,026*
Frekar gott 6,4% 7,2% 7,7% 7,0% 7,0% N = 2203
Hvorki gott né slæmt 18,1% 21,7% 26,8% 19,0% 20,9%
Frekar slæmt 44,5% 46,6% 42,1% 42,5% 44,0%
Mjög slæmt 30,5% 23,7% 23,0% 29,8% 27,0%
Vil ekki svara 0,3% 0,6% 0,3% 1,1% 0,7%
Karlar
Mjög gott 2,8% 2,7% 7,4% 4,6% 4,2% 0,000**
Frekar gott 13,3% 6,7% 19,1% 12,9% 12,1% N = 1349
Hvorki gott né slæmt 17,1% 16,1% 18,4% 20,7% 18,8%
Frekar slæmt 34,6% 48,9% 33,1% 37,3% 39,3%
Mjög slæmt 32,2% 24,9% 22,1% 24,1% 25,4%
Vil ekki svara 0% 0,6% 0% 0,4% 0,4%
Öll
Mjög gott 1,2% 1,0% 2,2% 2,5% 1,8% 0,000**
Frekar gott 8,8% 7,0% 10,8% 9,7% 9,0% N = 3552
Hvorki gott né slæmt 17,7% 19,9% 24,5% 19,7% 20,1%
Frekar slæmt 41,1% 47,4% 39,6% 40,1% 42,2%
Mjög slæmt 31,1% 24,1% 22,7% 27,2% 26,4%
Vil ekki svara 0,2% 0,6% 0,2% 0,8% 0,6%

Tafla 39. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög gott 0,4% 0% 0% 0,4% 0,000**
Frekar gott 6,1% 11,7% 16,3% 7,0% N = 2252
Hvorki gott né slæmt 19,7% 26,2% 30,2% 20,8%
Frekar slæmt 45,2% 38,8% 37,2% 44,2%
Mjög slæmt 27,8% 23,3% 14,0% 27,0%
Vil ekki svara 0,8% 0% 2,3% 0,7%
Karlar
Mjög gott 4,6% 0% 4,0% 4,0% 0,000**
Frekar gott 12,6% 7,6% 8,0% 11,9% N = 1388
Hvorki gott né slæmt 19,9% 9,3% 36,0% 18,9%
Frekar slæmt 38,3% 47,1% 40,0% 39,4%
Mjög slæmt 24,1% 36,0% 12,0% 25,4%
Vil ekki svara 0,5% 0% 0% 0,4%
Öll
Mjög gott 2,0% 0% 1,5% 1,8% 0,003**
Frekar gott 8,6% 10,2% 13,2% 8,9% N = 3640
Hvorki gott né slæmt 19,8% 20,2% 32,4% 20,1%
Frekar slæmt 42,5% 41,8% 38,2% 42,4%
Mjög slæmt 26,4% 27,9% 13,2% 26,3%
Vil ekki svara 0,7% 0% 1,5% 0,6%

Tafla 40. Líkamlegt heilsufar eftir kyni og aldri.

30 ára

og yngri

31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög gott 0,9% 0,5% 0,4% 0,2% 0,2% 0,4% 0,000**
Frekar gott 16,2% 6,9% 6,1% 5,7% 5,8% 7,1% N = 2252
Hvorki gott né slæmt 22,4% 22,8% 22,4% 17,1% 21,3% 20,8%
Frekar slæmt 41,7% 42,7% 40,2% 44,1% 50,0% 44,1%
Mjög slæmt 18,4% 26,3% 29,9% 32,0% 22,3% 27,0%
Karlar
Mjög gott 9,3% 6,7% 1,4% 3,5% 1,6% 4,1% 0,000**
Frekar gott 21,4% 18,1% 10,4% 6,8% 7,8% 12,0% N = 1388
Hvorki gott né slæmt 23,7% 21,8% 18,7% 16,8% 15,3% 18,8%
Frekar slæmt 29,3% 30,7% 40,1% 40,7% 51,1% 39,4%
Mjög slæmt 16,3% 21,8% 29,1% 31,3% 24,1% 25,3%
Öll
Mjög gott 5,0% 2,9% 0,8% 1,4% 0,7% 1,8% 0,000**
Frekar gott 18,7% 11,2% 7,7% 6,1% 6,5% 8,9% N = 3640
Hvorki gott né slæmt 23,0% 22,4% 21,1% 17,0% 19,1% 20,0%
Frekar slæmt 35,7% 38,0% 40,2% 42,9% 50,4% 42,3%
Mjög slæmt 17,4% 24,6% 29,6% 31,7% 23,0% 26,3%

Tafla 41. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina N = 3539
Konur og kvár 25,3% 22,5% 35,1% 31,9% 28,5% 0,000**
Karlar 35,7% 25,5% 41,2% 39,7% 35,8% 0,000**
Öll 28,9% 23,5% 36,7% 35,5% 31,3% 0,000**
Verið niðurdregin, döpur, vonlaus N = 3535
Konur og kvár 21,8% 17,9% 34,0% 28,7% 25,1% 0,000**
Karlar 28,4% 18,2% 37,0% 33,9% 29,5% 0,000**
Öll 24,1% 18,0% 34,8% 31,1% 26,8% 0,000**
Átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina N = 3539
Konur og kvár 48,2% 44,3% 51,6% 47,5% 47,4% 0,017*
Karlar 54,5% 38,5% 49,3% 41,6% 43,6% 0,053
Öll 50,4% 42,4% 51,0% 44,8% 45,9% 0,002**
Fundið fyrir þreytu og orkuleysi N = 3532
Konur og kvár 68,3% 55,3% 65,5% 58,5% 60,5% 0,000**
Karlar 58,9% 49,1% 54,4% 48,0% 50,6% 0,219
Öll 65,0% 53,2% 62,5% 53,7% 56,7% 0,000**
Átt við lystarleysi eða ofát að stríða N = 3501
Konur og kvár 32,6% 19,2% 39,5% 30,2% 29,0% 0,000**
Karlar 30,8% 14,6% 27,1% 21,7% 21,9% 0,001**
Öll 31,9% 17,7% 36,3% 26,3% 26,3% 0,000**
Liðið illa með sjálf sig eða fundist þau ekki hafa staðið sig í stykkinu gagnvart

sjálfum sér eða fjölskyldu sinni

N = 3545
Konur og kvár 37,4% 29,3% 54,8% 41,7% 39,4% 0,000**
Karlar 36,8% 27,7% 41,9% 42,7% 38,0% 0,000**
Öll 37,2% 28,8% 51,3% 42,2% 38,9% 0,000**
Átt í erfiðleikum með einbeitingu N = 3547
Konur og kvár 32,3% 23,1% 44,1% 30,9% 31,1% 0,000**
Karlar 33,7% 25,0% 37,5% 27,8% 29,0% 0,020*
Öll 32,8% 23,7% 42,3% 29,5% 30,3% 0,000**
Hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða –                          verið eirðarlaus eða óróleg og hreyft sig miklu meira en venjulega N = 3538
Konur og kvár 13,1% 11,5% 18,3% 16,1% 14,6% 0,001**
Karlar 21,8% 16,3% 23,5% 18,4% 18,9% 0,091
Öll 16,1% 13,1% 19,7% 17,2% 16,2% 0,000**
Hugsað um að það væri betra að vera dáin/n/ð eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt N = 3541
Konur og kvár 4,8% 5,3% 8,2% 10,7% 7,6% 0,000**
Karlar 8,1% 8,3% 13,1% 15,6% 12,4% 0,000**
Öll 6,0% 6,3% 9,6% 13,0% 9,5% 0,000**
Slæm andleg heilsa samkvæmt PHQ-9 skalanum (10-27 punktar á heildarkvarða) N = 3695
Konur og kvár 77,7% 61,4% 83,3% 72,3% 71,7% 0,000**
Karlar 73,9% 55,2% 73,7% 66,3% 65,4% 0,000**
Öll 76,4% 59,3% 80,7% 69,5% 69,3% 0,000**

Tafla 42. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals p-gildi
Litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina N = 3627
Konur og kvár 28,2% 32,2% 18,6% 28,5% 0,012*
Karlar 36,0% 35,5% 20,0% 35,6% 0,000**
Öll 31,2% 33,4% 19,1% 31,2% 0,000**
Verið niðurdregin, döpur, vonlaus N = 3624
Konur og kvár 23,9% 33,1% 16,3% 25,0% 0,000**
Karlar 29,8% 31,8% 17,4% 29,9% 0,021*
Öll 26,2% 32,6% 16,7% 26,8% 0,000**
Átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina N = 3634
Konur og kvár 47,8% 46,1% 41,9% 47,4% 0,996
Karlar 41,8% 59,3% 28,0% 43,7% 0,000**
Öll 45,5% 50,8% 36,8% 46,0% 0,166
Fundið fyrir þreytu og orkuleysi N = 3616
Konur og kvár 59,8% 66,4% 46,5% 60,4% 0,042*
Karlar 49,2% 60,5% 33,3% 50,3% 0,003**
Öll 55,7% 64,3% 41,8% 56,6% 0,000**
Átt við lystarleysi eða ofát að stríða N = 3586
Konur og kvár 28,8% 31,4% 20,9% 29,0% 0,644
Karlar 21,1% 29,2% 16,7% 22,0% 0,001**
Öll 25,8% 30,6% 19,4% 26,4% 0,008**
Liðið illa með sjálf sig eða fundist þau ekki hafa staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfum sér eða fjölskyldu sinni N = 3632
Konur og kvár 38,9% 44,6% 23,3% 39,4% 0,006**
Karlar 37,9% 40,1% 28,0% 38,0% 0,005**
Öll 38,5% 43,0% 25,0% 38,8% 0,001**
Átt í erfiðleikum með einbeitingu N = 3637
Konur og kvár 30,8% 32,5% 22,7% 30,8% 0,050*
Karlar 27,8% 39,5% 20,0% 29,1% 0,001**
Öll 29,6% 35,0% 21,7% 30,2% 0,000**
Hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða –                         verið eirðarlaus eða óróleg og hreyft sig miklu meira en venjulega N = 3626
Konur og kvár 14,8% 14,3% 7,0% 14,6% 0,063
Karlar 17,6% 28,9% 8,3% 18,8% 0,012*
Öll 15,9% 19,5% 7,5% 16,2% 0,027*
Hugsað um að það væri betra að vera dáin/n/ð eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt N = 3631
Konur og kvár 7,5% 9,4% 4,4% 7,7% 0,024*
Karlar 12,4% 15,7% 12,0% 12,8% 0,260
Öll 9,4% 11,7% 7,1% 9,6% 0,030*
Slæm andleg heilsa samkvæmt PHQ-9 skalanum (10-27 punktar á heildarkvarða) N = 3791
Konur og kvár 70,9% 77,3% 60,0% 71,5% 0,013*
Karlar 62,8% 82,8% 60,0% 65,2% 0,000**
Öll 67,7% 79,2% 60,0% 69,1% 0,000**

Tafla 43. Nánast dagleg neikvæð andleg einkenni eftir kyni og aldri.

30 ára og yngri 31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Litlum áhuga eða gleði við að gera hlutina N = 3626
Konur og kvár 31,1% 30,6% 32,8% 27,7% 22,7% 28,6% 0,036*
Karlar 35,2% 35,7% 42,4% 38,2% 26,4% 35,6% 0,000**
Öll 33,1% 32,6% 36,3% 31,4% 24,1% 31,2% 0,000**
Verið niðurdregin, döpur, vonlaus N = 3622
Konur og kvár 34,2% 26,8% 27,8% 22,4% 20,0% 25,0% 0,000**
Karlar 31,2% 35,0% 36,2% 30,0% 18,7% 29,8% 0,000**
Öll 32,7% 30,0% 30,9% 25,1% 19,5% 26,9% 0,000**
Átt erfitt með að sofna eða sofa alla nóttina N = 3626
Konur og kvár 53,1% 51,5% 50,0% 48,1% 38,7% 47,4% 0,000**
Karlar 51,6% 45,8% 47,8% 41,2% 35,6% 43,8% 0,009**
Öll 52,4% 49,3% 49,2% 45,6% 37,6% 46,0% 0,000**
Fundið fyrir þreytu og orkuleysi N = 3615
Konur og kvár 66,2% 70,0% 61,8% 58,7% 51,6% 60,4% 0,000**
Karlar 40,5% 49,8% 56,6% 54,2% 47,7% 50,4% 0,013*
Öll 53,6% 62,2% 59,9% 57,1% 50,1% 56,6% 0,003**
Átt við lystarleysi eða ofát að stríða N = 3581
Konur og kvár 37,0% 38,4% 32,7% 24,6% 19,9% 29,0% 0,000**
Karlar 24,2% 31,1% 23,5% 19,4% 14,8% 22,0% 0,000**
Öll 30,8% 35,6% 29,4% 22,8% 18,0% 26,3% 0,000**
Liðið illa með sjálf sig eða fundist þau ekki hafa staðið sig í stykkinu gagnvart sjálfum sér eða fjölskyldu sinni N = 3631
Konur og kvár 48,2% 43,5% 45,5% 36,2% 30,1% 39,4% 0,000**
Karlar 43,1% 41,6% 42,6% 37,6% 27,7% 38,0% 0,000**
Öll 45,8% 42,8% 44,4% 36,7% 29,2% 38,8% 0,000**
Átt í erfiðleikum með einbeitingu N = 3635
Konur og kvár 43,4% 39,6% 33,3% 27,2% 20,9% 30,9% 0,000**
Karlar 30,7% 33,6% 30,0% 29,8% 23,1% 29,1% 0,023*
Öll 37,2% 37,3% 32,1% 28,1% 21,7% 30,2% 0,000**
Hreyft sig eða talað svo hægt að aðrir hafa tekið eftir því eða hið gagnstæða –                           verið eirðarlaus eða óróleg og hreyft sig miklu meira en venjulega N = 3624 0,000**
Konur og kvár 14,9% 15,9% 15,4% 15,2% 12,1% 14,6% 0,032*
Karlar 11,6% 27,3% 17,3% 22,7% 14,8% 18,9% 0,000**
Öll 13,3% 20,3% 16,1% 17,8% 13,1% 16,3% 0,000**
Hugsað um að það væri betra að vera dáin/n/ð eða hugsað um að skaða sig á einhvern hátt N = 3620
Konur og kvár 15,4% 5,8% 6,9% 8,1% 5,8% 7,7% 0,000**
Karlar 10,7% 15,3% 15,2% 12,5% 10,2% 12,8% 0,000**
Öll 13,1% 9,5% 9,9% 9,7% 7,5% 9,6% 0,000**
Slæm andleg heilsa samkvæmt PHQ-9 skalanum (10-27 punktar á heildarkvarða) N = 3786
Konur og kvár 82,6% 75,8% 74,8% 70,1% 62,1% 71,6% 0,000**
Karlar 73,6% 67,6% 71,2% 62,0% 55,5% 65,3% 0,000**
Öll 78,1% 72,7% 73,5% 67,2% 59,6% 69,1% 0,000**

Tafla 44. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Heilbrigðisþjónustu N = 3541
Konur og kvár 21,1% 12,9% 33,7% 26,5% 22,7% 0,000**
Karlar 20,5% 21,6% 44,9% 25,1% 25,5% 0,000**
Öll 20,9% 15,8% 36,7% 25,9% 23,8% 0,000**
Leysa út lyf N = 3544
Konur og kvár 24,1% 14,0% 39,7% 25,0% 24,0% 0,000**
Karlar 22,4% 18,5% 37,2% 23,4% 23,5% 0,000**
Öll 23,5% 15,5% 39,0% 24,3% 23,8% 0,000**
Tannlæknaþjónustu N = 3544
Konur og kvár 41,4% 32,0% 66,8% 52,0% 46,6% 0,000**
Karlar 51,2% 39,2% 63,2% 46,7% 47,3% 0,000**
Öll 44,8% 34,4% 65,9% 49,6% 46,9% 0,000**
Geðheilbrigðisþjónustu N = 3544
Konur og kvár 27,7% 17,1% 44,9% 30,7% 28,5% 0,000**
Karlar 31,3% 17,9% 27,2% 30,0% 27,0% 0,000**
Öll 28,9% 17,3% 40,1% 30,4% 27,9% 0,000**
Þjónustu sérfræðilækna N = 3542
Konur og kvár 27,2% 20,0% 44,1% 35,3% 30,8% 0,000**
Karlar 29,0% 23,7% 33,8% 25,5% 26,5% 0,107
Öll 27,8% 21,2% 41,3% 30,8% 29,1% 0,000**
Hjálpartæki (s.s. heyrnartæki, gleraugu, stoðtæki) N = 3541
Konur og kvár 29,7% 25,2% 38,4% 37,0% 32,4% 0,000**
Karlar 21,4% 21,0% 28,7% 24,9% 23,8% 0,000**
Öll 26,8% 23,8% 35,7% 31,4% 29,1% 0,000**
Sálfræðiþjónustu N = 3543
Konur og kvár 51,3% 32,3% 62,5% 44,8% 45,2% 0,000**
Karlar 39,8% 25,2% 47,4% 38,4% 36,3% 0,226
Öll 47,3% 29,9% 58,4% 41,9% 41,8% 0,000**
Sjúkraþjálfun N = 3540
Konur og kvár 32,6% 24,8% 53,4% 41,4% 36,9% 0,000**
Karlar 36,7% 22,8% 40,4% 30,6% 30,7% 0,000**
Öll 34,0% 24,1% 49,9% 36,4% 34,5% 0,000**
Annað N = 3542
Konur og kvár 1,0% 0,5% 0,3% 0,6% 0,6% 0,564
Karlar 0% 0,3% 0% 0,9% 0,5% 0,268
Öll 0,7% 0,4% 0,2% 0,8% 0,6% 0,447

Tafla 45. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu (samanteknir þættir) eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 27,4% 40,8% 9,6% 20,1% 25,8% 0,000**
Einn þátt 11,4% 14,2% 7,7% 13,6% 12,4% N = 2197
Tvo þætti 16,8% 16,6% 13,4% 15,2% 15,6%
Þrjá þætti 13,5% 9,1% 14,2% 13,3% 12,2%
Fjóra þætti eða fleiri 31,0% 19,4% 55,1% 37,8% 34,0%
Karlar
Engan þátt 29,0% 42,6% 16,2% 30,5% 31,8% 0,000**
Einn þátt 13,3% 14,6% 14,0% 14,6% 14,4% N = 1344
Tvo þætti 11,0% 9,4% 11,8% 12,9% 11,6%
Þrjá þætti 18,1% 10,9% 14,7% 9,3% 11,6%
Fjóra þætti eða fleiri 28,6% 22,5% 43,4% 32,7% 30,7%
Öll
Engan þátt 28,0% 41,4% 11,4% 24,8% 28,0% 0,000**
Einn þátt 12,1% 14,3% 9,4% 14,1% 13,1% N = 3541
Tvo þætti 14,7% 14,2% 13,0% 14,1% 14,1%
Þrjá þætti 15,1% 9,7% 14,4% 11,5% 12,0%
Fjóra þætti eða fleiri 30,1% 20,4% 51,9% 35,5% 32,7%

Tafla 46. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Heilbrigðisþjónustu N = 3631
Konur og kvár 22,5% 23,5% 14,0% 22,5% 0,375
Karlar 25,0% 30,8% 24,0% 25,7% 0,259
Öll 23,5% 26,1% 17,6% 23,7% 0,225
Leysa út lyf N = 3632
Konur og kvár 22,3% 33,6% 20,5% 23,8% 0,000**
Karlar 21,9% 37,2% 12,0% 23,6% 0,000**
Öll 22,1% 34,9% 17,4% 23,7% 0,000**
Tannlæknaþjónustu N = 3632
Konur og kvár 45,9% 52,0% 34,1% 46,5% 0,036*
Karlar 44,4% 72,3% 40,0% 47,8% 0,000**
Öll 45,3% 59,3% 36,2% 47,0% 0,000**
Geðheilbrigðisþjónustu N = 3632
Konur og kvár 28,7% 26,5% 20,5% 28,3% 0,363
Karlar 26,5% 32,9% 20,0% 27,2% 0,148
Öll 27,9% 28,8% 20,3% 27,9% 0,336
Þjónustu sérfræðilækna N = 3632
Konur og kvár 30,4% 33,9% 20,5% 30,7% 0,156
Karlar 27,0% 26,2% 16,0% 26,7% 0,461
Öll 29,1% 31,1% 18,8% 29,2% 0,108
Hjálpartæki (s.s. heyrnartæki, gleraugu, stoðtæki) N = 3632
Konur og kvár 33,1% 28,8% 22,7% 32,3% 0,129
Karlar 24,5% 20,3% 12,0% 23,8% 0,186
Öll 29,8% 25,7% 18,8% 29,0% 0,033*
Sálfræðiþjónustu N = 3631
Konur og kvár 45,4% 44,0% 34,9% 45,0% 0,364
Karlar 35,6% 46,5% 20,8% 36,7% 0,006**
Öll 41,6% 44,9% 29,9% 41,8% 0,054
Sjúkraþjálfun N = 3631
Konur og kvár 38,1% 29,6% 25,0% 36,7% 0,004**
Karlar 31,2% 26,2% 20,8% 30,4% 0,237
Öll 35,5% 28,4% 23,5% 34,3% 0,002**
Annað N = 3631
Konur og kvár 0,5% 0,7% 2,3% 0,6% 0,315
Karlar 0,3% 1,7% 4,0% 0,5% 0,002**
Öll 0,4% 1,0% 2,9% 0,6% 0,007**

Tafla 47. Neitað sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu (samanteknir þættir) eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Engan þátt 26,0% 22,5% 36,4% 25,7% 0,000**
Einn þátt 12,8% 11,1% 20,5% 12,7% N = 2246
Tvo þætti 15,0% 20,2% 11,4% 15,6%
Þrjá þætti 12,3% 11,7% 11,4% 12,2%
Fjóra þætti eða fleiri 33,9% 34,5% 20,5% 33,7%
Karlar
Engan þátt 32,7% 21,1% 48,0% 31,6% 0,000**
Einn þátt 15,6% 7,0% 4,0% 14,3% N = 1384
Tvo þætti 10,5% 17,0% 20,0% 11,5%
Þrjá þætti 10,9% 18,1% 4,0% 11,7%
Fjóra þætti eða fleiri 30,2% 36,8% 24,0% 30,9%
Öll
Engan þátt 28,6% 22,0% 40,6% 28,0% 0,000**
Einn þátt 13,9% 9,6% 14,5% 13,3% N = 3630
Tvo þætti 13,3% 19,0% 14,5% 14,0%
Þrjá þætti 11,8% 14,0% 8,7% 12,0%
Fjóra þætti eða fleiri 32,5% 35,4% 21,7% 32,6%

Tafla 48. Ástæður þess að neita sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og fjölskyldustöðu.

Í sambúð með barn/börn Í sambúð án barna Einhleypir foreldrar Einhleypir Samtals P-gildi
Kostnaður N = 2660
Konur og kvár 86,9% 79,0% 85,5% 85,1% 84,0% 0,014*
Karlar 84,1% 71,5% 74,6% 72,3% 74,3% 0,024*
Öll 86,0% 76,5% 82,6% 79,6% 80,5% 0,001**
Fjarlægð frá heimili N = 2663
Konur og kvár 20,1% 15,6% 14,8% 13,5% 15,4% 0,073
Karlar 16,4% 17,9% 16,0% 15,6% 16,3% 0,902
Öll 18,9% 16,3% 15,1% 14,4% 15,7% 0,157
Erfitt að fá tíma N = 2663
Konur og kvár 40,3% 38,2% 40,9% 35,5% 38,1% 0,302
Karlar 46,7% 45,4% 40,3% 39,5% 42,0% 0,294
Öll 42,4% 40,6% 40,8% 37,2% 39,5% 0,192
Kostnaður við ferðalög til að sækja heilbrigðisþjónustu N = 2662
Konur og kvár 21,1% 14,6% 17,8% 14,3% 16,3% 0,037*
Karlar 18,4% 23,2% 16,1% 19,6% 19,8% 0,139
Öll 20,2% 17,5% 17,4% 16,6% 17,5% 0,395
Hef ekki heilsu til að sækja heilbrigðisþjónustu N = 2662
Konur og kvár 7,4% 4,1% 4,5% 7,4% 6,0% 0,068
Karlar 4,0% 3,8% 3,4% 8,4% 6,1% 0,029*
Öll 6,2% 4,0% 4,2% 7,8% 6,0% 0,004**
Veit ekki hvert á að leita eftir þjónustu N = 2663
Konur og kvár 8,4% 8,5% 8,9% 9,4% 8,9% 0,952
Karlar 8,6% 8,7% 16,0% 14,3% 12,4% 0,052
Öll 8,5% 8,6% 10,7% 11,5% 10,2% 0,139
Vegna erfiðleika við að nota tækni/netþjónustu í samskiptum N = 2661
Konur og kvár 1,0% 3,9% 2,7% 3,5% 3,0% 0,114
Karlar 2,6% 10,1% 5,9% 8,6% 7,7% 0,041*
Öll 1,6% 6,0% 3,5% 5,7% 4,7% 0,001**
Vegna viðmóts heilbrigðisstarfsfólks/lækna N = 2663
Konur og kvár 17,4% 14,1% 19,3% 14,9% 16,0% 0,187
Karlar 11,8% 9,2% 18,5% 14,7% 13,5% 0,078
Öll 15,6% 12,5% 19,1% 14,8% 15,1% 0,029*
Langur biðtími N = 2663
Konur og kvár 38,6% 38,3% 43,3% 36,7% 38,7% 0,246
Karlar 41,4% 49,8% 44,5% 45,6% 45,7% 0,467
Öll 39,6% 42,1% 43,6% 40,5% 41,3% 0,561
Skortur á sérfræðingum/heilbrigðisstarfsfólki N = 2664
Konur og kvár 20,5% 18,5% 23,4% 18,1% 19,7% 0,213
Karlar 19,1% 20,8% 18,5% 20,2% 20,0% 0,951
Öll 20,0% 19,3% 22,1% 19,0% 19,8% 0,545
Ég taldi að ferð til læknis myndi ekki gera mikið gagn N = 2662
Konur og kvár 20,5% 20,7% 23,1% 20,1% 20,9% 0,728
Karlar 22,4% 26,6% 21,0% 27,3% 25,6% 0,398
Öll 21,1% 22,7% 22,6% 23,2% 22,6% 0,852
Annað N = 2661
Konur og kvár 2,7% 2,9% 1,8% 2,0% 2,3% 0,663
Karlar 0,7% 1,0% 0% 3,7% 2,2% 0,012*
Öll 2,0% 2,3% 1,3% 2,7% 2,3% 0,380

Tafla 49. Ástæður þess að neita sér um heilbrigðis- eða heilsutengda þjónustu eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Kostnaður N = 2738
Konur og kvár 84,1% 81,3% 80,0% 83,6% 0,479
Karlar 74,5% 73,2% 64,3% 74,2% 0,662
Öll 80,6% 78,4% 75,0% 80,2% 0,410
Fjarlægð frá heimili N = 2737
Konur og kvár 15,4% 15,9% 13,3% 15,4% 0,934
Karlar 15,2% 22,7% 14,3% 16,2% 0,080
Öll 15,3% 18,3% 13,6% 15,7% 0,293
Erfitt að fá tíma N = 3737
Konur og kvár 37,5% 40,4% 30,0% 37,8% 0,465
Karlar 43,3% 34,5% 35,7% 41,9% 0,130
Öll 39,6% 38,2% 31,8% 39,3% 0,516
Kostnaður við ferðalög til að sækja heilbrigðisþjónustu N = 2737
Konur og kvár 16,5% 16,3% 6,7% 16,3% 0,350
Karlar 19,1% 22,0% 14,3% 19,4% 0,643
Öll 17,5% 18,3% 9,1% 17,5% 0,309
Hef ekki heilsu til að sækja heilbrigðisþjónustu N = 2735
Konur og kvár 6,4% 4,1% 3,3% 6,0% 0,297
Karlar 5,2% 11,3% 7,1% 6,1% 0,019*
Öll 6,0% 6,7% 4,5% 6,1% 0,776
Veit ekki hvert á að leita eftir þjónustu N = 2738
Konur og kvár 7,9% 15,5% 3,3% 8,9% 0,000**
Karlar 11,3% 19,0% 13,3% 12,4% 0,035*
Öll 9,1% 16,8% 6,7% 10,2% 0,000**
Vegna erfiðleika við að nota tækni/netþjónustu í samskiptum N = 2739
Konur og kvár 3,1% 2,0% 3,3% 3,0% 0,635
Karlar 8,2% 6,3% 13,3% 8,0% 0,562
Öll 5,0% 3,6% 6,7% 4,8% 0,424
Vegna viðmóts heilbrigðisstarfsfólks/lækna N = 2737
Konur og kvár 15,5% 17,5% 16,7% 15,8% 0,731
Karlar 14,5% 7,8% 7,1% 13,4% 0,078
Öll 15,1% 14,0% 13,6% 14,9% 0,809
Langur biðtími N = 2735
Konur og kvár 37,8% 43,3% 33,3% 38,5% 0,224
Karlar 46,6% 41,8% 21,4% 45,5% 0,110
Öll 41,0% 42,7% 29,5% 41,1% 0,238
Skortur á sérfræðingum/heilbrigðisstarfsfólki N = 2736
Konur og kvár 19,7% 20,8% 13,3% 19,7% 0,619
Karlar 20,3% 19,1% 14,3% 20,0% 0,823
Öll 19,9% 20,2% 13,6% 19,8% 0,576
Ég taldi að ferð til læknis myndi ekki gera mikið gagn N = 2737
Konur og kvár 20,9% 21,6% 20,0% 21,0% 0,959
Karlar 25,4% 28,2% 14,3% 25,6% 0,484
Öll 22,5% 24,0% 18,2% 22,7% 0,627
Annað N = 2736
Konur og kvár 2,0% 4,1% 3,3% 2,3% 0,119
Karlar 2,8% 0% 0% 2,4% 0,104
Öll 2,3% 2,6% 2,3% 2,3% 0,940

Tafla 50. Líkamlegt heilsufar. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Mjög gott 1,9% 11,5%
Frekar gott 8,9% 39,3%
Hvorki gott né slæmt 20,2% 34,3%
Frekar slæmt 42,4% 13,3%
Mjög slæmt 26,6% 1,6%

Tafla 51. Stig á heildarkvarða PHQ-9. Samanburður.

Fatlað fólk 2023 Launafólk 2023
Góð til miðlungs góð andleg heilsa, 0-9 stig 30,9% 65,9%
Slæm andleg heilsa, 10-27 stig 69,1% 34,1%

Töflur • Félagsleg einangrun, fordómar og vinnumarkaður

Tafla 52. Upplifa félagslega einangrun eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög mikla 24,5% 23,6% 23,3% 24,3% 0,313
Frekar mikla 33,3% 36,4% 23,3% 33,5% N = 2231
Hvorki mikla né litla 23,3% 19,7% 25,6% 22,8%
Frekar litla 8,9% 11,8% 11,6% 9,3%
Mjög litla 8,9% 7,2% 11,6% 8,7%
Vil ekki svara 1,2% 1,3% 4,7% 1,3%
Karlar
Mjög mikla 26,1% 26,9% 12,0% 26,0% 0,073
Frekar mikla 30,9% 37,4% 48,0% 32,1% N = 1379
Hvorki mikla né litla 20,3% 24,0% 20,0% 20,7%
Frekar litla 7,9% 3,5% 12,0% 7,5%
Mjög litla 13,2% 7,0% 8,0% 12,3%
Vil ekki svara 1,5% 1,2% 0% 1,5%
Öll
Mjög mikla 25,1% 24,8% 19,1% 25,0% 0,403
Frekar mikla 32,4% 36,8% 32,4% 33,0% N = 3610
Hvorki mikla né litla 22,1% 21,2% 23,5% 22,0%
Frekar litla 8,5% 8,8% 11,8% 8,6%
Mjög litla 10,5% 7,1% 10,3% 10,1%
Vil ekki svara 1,3% 1,3% 2,9% 1,4%

Tafla 53. Upplifa félagslega einangrun eftir kyni og aldri.

30 ára og yngri 31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög mikla 34,8% 28,3% 27,4% 22,1% 16,3% 24,3% 0,000**
Frekar mikla 35,2% 32,9% 36,2% 32,9% 31,4% 33,5% N = 2227
Hvorki mikla né litla 15,9% 21,9% 20,1% 23,1% 29,3% 22,9%
Frekar litla 7,5% 8,6% 9,1% 9,3% 10,8% 9,3%
Mjög litla 6,6% 5,6% 6,6% 11,2% 10,8% 8,7%
Vil ekki svara 0% 2,7% 0,6% 1,3% 1,4% 1,3%
Karlar
Mjög mikla 34,9% 26,7% 28,4% 23,4% 20,1% 26,1% 0,000**
Frekar mikla 25,1% 35,2% 36,1% 32,3% 30,3% 32,0% N = 1374
Hvorki mikla né litla 23,7% 19,1% 16,1% 22,2% 22,7% 20,7%
Frekar litla 5,6% 3,4% 10,5% 6,3% 10,5% 7,5%
Mjög litla 10,7% 14,0% 7,4% 13,8% 15,1% 12,3%
Vil ekki svara 0% 1,7% 1,4% 2,1% 1,3% 1,4%
Öll
Mjög mikla 34,8% 27,7% 27,8% 22,6% 17,7% 25,0% 0,000**
Frekar mikla 30,3% 33,8% 36,2% 32,7% 31,0% 33,0% N = 3601
Hvorki mikla né litla 19,7% 20,8% 18,7% 22,8% 26,8% 22,1%
Frekar litla 6,6% 6,6% 9,6% 8,2% 10,7% 8,6%
Mjög litla 8,6% 8,9% 6,9% 12,1% 12,4% 10,1%
Vil ekki svara 0% 2,3% 0,9% 1,6% 1,4% 1,3%

Tafla 54. Fordómar vegna örorku/fötlunar eftir kyni.

Mjög miklum Frekar miklum Hvorki miklum né litlum Frekar litlum Mjög litlum Vil ekki svara N
Konur og kvár
Meðal vina 6,7% 18,0% 27,3% 16,0% 29,2% 2,8% 2016
Í námi 11,3% 17,3% 30,2% 11,0% 14,6% 15,6% 629
Á vinnustað 12,3% 14,7% 21,6% 10,5% 26,0% 14,9% 611
Við atvinnuleit 34,6% 25,3% 12,6% 4,2% 6,8% 16,5% 601
Þar sem ég sæki þjónustu 5,2% 17,8% 31,9% 14,9% 25,5% 4,7% 1790
Hjá sjálfu/m/ri mér 24,5% 29,9% 19,6% 8,6% 13,5% 3,8% 2005
Í heilbrigðiskerfinu 9,6% 21,9% 32,8% 12,0% 19,8% 3,9% 1974
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 2,7% 5,8% 29,6% 13,6% 41,7% 6,5% 1636
Almennt í samfélaginu 16,9% 32,3% 23,3% 10,3% 12,9% 4,4% 2041
Innan fjölskyldunnar 6,9% 16,5% 26,9% 14,5% 31,6% 3,6% 1957
Karlar
Meðal vina 9,0% 15,7% 21,5% 16,3% 32,9% 4,6% 1184
Í námi 13,9% 14,6% 23,3% 10,0% 22,5% 15,8% 481
Á vinnustað 14,0% 11,1% 22,3% 9,9% 27,5% 15,2% 494
Við atvinnuleit 30,1% 20,6% 16,5% 5,6% 13,4% 13,9% 569
Þar sem ég sæki þjónustu 7,4% 14,1% 28,5% 12,4% 31,3% 6,3% 1073
Hjá sjálfu/m/ri mér 21,0% 26,5% 21,9% 8,3% 15,8% 6,5% 1163
Í heilbrigðiskerfinu 9,5% 14,2% 28,0% 13,3% 30,1% 5,0% 1159
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 4,7% 6,0% 25,9% 12,0% 41,9% 9,6% 951
Almennt í samfélaginu 17,0% 26,6% 20,7% 11,3% 20,4% 4,0% 1194
Innan fjölskyldunnar 7,0% 12,7% 22,0% 14,4% 39,0% 4,9% 1126
Öll
Meðal vina 7,6% 17,1% 25,1% 16,1% 30,6% 3,4% 3200
Í námi 12,4% 16,1% 27,2% 10,5% 18,0% 15,7% 1110
Á vinnustað 13,0% 13,1% 21,9% 10,2% 26,7% 15,0% 1105
Við atvinnuleit 32,4% 23,0% 14,5% 4,9% 10,0% 15,2% 1170
Þar sem ég sæki þjónustu 6,0% 16,4% 30,6% 14,0% 27,7% 5,3% 2863
Hjá sjálfu/m/ri mér 23,2% 28,7% 20,4% 8,5% 14,4% 4,8% 3168
Í heilbrigðiskerfinu 9,6% 19,0% 31,0% 12,5% 23,6% 4,3% 3133
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 3,4% 5,9% 28,2% 13,0% 41,8% 7,7% 2587
Almennt í samfélaginu 16,9% 30,2% 22,3% 10,7% 15,7% 4,2% 3235
Innan fjölskyldunnar 7,0% 15,1% 25,1% 14,4% 34,3% 4,1% 3038

Kynjamunur: Meðal vina p = 0,000**. Í námi p = 0,004**. Á vinnustað p = 0,597. Við atvinnuleit p = 0,000**. Þar sem ég sæki þjónustu p = 0,000**. Hjá sjálfu/m/ri mér p = 0,000**. Í heilbrigðiskerfinu p = 0,000**. Hjá öðrum öryrkjum/endurhæfingarlífeyristökum p = 0,002**. Almennt í samfélaginu p = 0,000**. Innan fjölskyldunnar p = 0,000**.

Tafla 55. Fordómar vegna örorku/fötlunar eftir lífeyrisréttindum.

Mjög miklum Frekar miklum Hvorki miklum né litlum Frekar litlum Mjög litlum Vil ekki svara N
Á örorkulífeyri
Meðal vina 7,6% 17,5% 25,3% 16,4% 29,9% 3,3% 2709
Í námi 12,5% 16,5% 25,1% 11,2% 19,2% 15,6% 887
Á vinnustað 12,2% 12,0% 21,8% 10,8% 28,5% 14,7% 882
Við atvinnuleit 33,4% 24,1% 13,7% 4,8% 10,0% 13,9% 961
Þar sem ég sæki þjónustu 6,0% 17,4% 30,7% 14,0% 26,7% 5,2% 2420
Hjá sjálfu/m/ri mér 22,7% 28,7% 20,1% 8,4% 15,2% 4,8% 2669
Í heilbrigðiskerfinu 9,9% 18,9% 30,5% 12,8% 23,5% 4,3% 2672
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 3,2% 6,2% 29,0% 13,4% 40,6% 7,6% 2183
Almennt í samfélaginu 16,3% 30,4% 22,4% 10,9% 15,9% 4,1% 2759
Innan fjölskyldunnar 6,4% 15,2% 25,4% 14,0% 34,9% 4,1% 2607
Á endurhæfingarlífeyri
Meðal vina 7,6% 15,2% 23,8% 14,8% 33,9% 4,6% 433
Í námi 12,2% 15,6% 36,1% 7,8% 12,7% 15,6% 205
Á vinnustað 16,8% 18,4% 21,4% 7,7% 18,4% 17,3% 196
Við atvinnuleit 28,1% 17,7% 18,2% 5,2% 9,4% 21,4% 192
Þar sem ég sæki þjónustu 7,1% 10,4% 29,3% 14,5% 32,6% 6,1% 393
Hjá sjálfu/m/ri mér 27,4% 28,6% 21,1% 8,6% 9,8% 4,5% 441
Í heilbrigðiskerfinu 8,8% 19,4% 32,9% 9,8% 24,6% 4,4% 407
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 5,3% 4,2% 21,9% 10,8% 50,0% 7,8% 360
Almennt í samfélaginu 21,3% 30,2% 21,1% 8,4% 13,7% 5,3% 417
Innan fjölskyldunnar 10,7% 15,5% 23,2% 16,7% 30,1% 3,8% 419
Á örorkustyrk
Meðal vina 6,8% 13,6% 27,1% 15,3% 33,9% 3,4% 59
Í námi 11,1% 11,1% 27,8% 11,1% 22,2% 16,7% 18
Á vinnustað 7,7% 11,5% 30,8% 11,5% 30,8% 7,7% 26
Við atvinnuleit 27,8% 16,7% 22,2% 5,6% 11,1% 16,7% 18
Þar sem ég sæki þjónustu 1,9% 15,1% 35,8% 5,7% 34,0% 7,5% 53
Hjá sjálfu/m/ri mér 15,3% 25,4% 28,8% 13,6% 10,2% 6,8% 59
Í heilbrigðiskerfinu 1,8% 17,9% 37,5% 14,3% 21,4% 7,1% 56
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 0,0% 2,2% 42,2% 13,3% 31,1% 11,1% 45
Almennt í samfélaginu 11,9% 22,0% 25,4% 13,6% 20,3% 6,8% 59
Innan fjölskyldunnar 3,5% 5,3% 26,3% 17,5% 40,4% 7,0% 57
Öll
Meðal vina 7,6% 17,1% 25,1% 16,2% 30,6% 3,5% 3201
Í námi 12,4% 16,2% 27,2% 10,5% 18,0% 15,6% 1110
Á vinnustað 13,0% 13,1% 21,9% 10,2% 26,7% 15,0% 1104
Við atvinnuleit 32,5% 23,0% 14,6% 4,9% 9,9% 15,2% 1171
Þar sem ég sæki þjónustu 6,0% 16,4% 30,6% 14,0% 27,7% 5,3% 2866
Hjá sjálfu/m/ri mér 23,2% 28,7% 20,4% 8,5% 14,4% 4,8% 3169
Í heilbrigðiskerfinu 9,6% 19,0% 31,0% 12,5% 23,6% 4,3% 3135
Hjá öðrum öryrkjum/ endurhæfingarlífeyristökum 3,4% 5,9% 28,2% 13,0% 41,8% 7,7% 2588
Almennt í samfélaginu 16,9% 30,2% 22,3% 10,7% 15,7% 4,3% 3235
Innan fjölskyldunnar 7,0% 15,1% 25,1% 14,4% 34,3% 4,1% 3083

Munur milli lífeyrisréttinda: Meðal vina p = 0,747. Í námi p = 0,191. Á vinnustað p = 0,045*. Við atvinnuleit p = 0,192. Þar sem ég sæki þjónustu p = 0,017*. Hjá sjálfu/m/ri mér p = 0,042*. Í heilbrigðiskerfinu p = 0,478. Hjá öðrum öryrkjum/endurhæfingarlífeyristökum p = 0,002**. Almennt í samfélaginu p = 0,132. Innan fjölskyldunnar p = 0,017*.

Töflur • Staða á vinnumarkaði

Tafla 56. Staða á vinnumarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Í launuðu starfi 14,5% 0% 30,2% 12,8% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 3,3% 1,3% 4,7% 3,0% N = 2220
Er í sjálfboðavinnu 6,4% 0,7% 2,3% 5,5%
Er í endurhæfingu 4,7% 93,7% 9,3% 16,9%
Er í námi 5,4% 4,3% 2,3% 5,2%
Ekkert ofangreint 62,3% 0% 41,9% 53,4%
Vil ekki svara 3,5% 0% 9,3% 3,1%
Karlar
Í launuðu starfi 18,8% 0% 12,5% 16,3% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 5,2% 1,8% 12,5% 4,9% N = 1361
Er í sjálfboðavinnu 5,4% 1,8% 4,2% 4,9%
Er í endurhæfingu 6,7% 96,5% 16,7% 18,1%
Er í námi 3,6% 0% 4,2% 3,2%
Ekkert ofangreint 53,9% 0% 45,8% 47,0%
Vil ekki svara 6,4% 0% 4,2% 5,6%
Öll
Í launuðu starfi 16,1% 0% 23,9% 14,1% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 4,0% 1,5% 7,5% 3,7% N = 3581
Er í sjálfboðavinnu 6,0% 1,1% 3,0% 5,3%
Er í endurhæfingu 5,5% 94,7% 11,9% 17,4%
Er í námi 4,7% 2,7% 3,0% 4,4%
Ekkert ofangreint 59,1% 0% 43,3% 51,0%
Vil ekki svara 4,6% 0% 7,5% 4,0%

Tafla 57. Staða á vinnumarkaði eftir kyni og aldri.

30 ára og yngri 31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Í launuðu starfi 11,1% 11,0% 16,2% 15,6% 8,3% 12,8% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 2,7% 2,7% 2,8% 3,9% 2,6% 3,0% N = 2214
Er í sjálfboðavinnu 1,3% 2,4% 7,0% 7,2% 6,1% 5,5%
Er í endurhæfingu 39,6% 25,5% 15,0% 11,8% 8,9% 17,0%
Er í námi 16,0% 10,2% 5,8% 1,5% 0,4% 5,1%
Ekkert ofangreint 28,0% 45,6% 50,7% 56,3% 69,6% 53,4%
Vil ekki svara 1,3% 2,7% 2,6% 3,6% 4,1% 3,1%
Karlar
Í launuðu starfi 23,3% 26,1% 14,9% 12,2% 9,4% 16,3% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 3,7% 2,6% 4,6% 4,9% 7,7% 4,9% N = 1357
Er í sjálfboðavinnu 0% 3,8% 6,0% 6,4% 6,4% 4,9%
Er í endurhæfingu 27,4% 23,9% 19,5% 16,2% 7,7% 18,1%
Er í námi 9,3% 2,6% 2,8% 1,2% 1,7% 3,2%
Ekkert ofangreint 32,6% 36,8% 42,9% 52,0% 64,5% 47,2%
Vil ekki svara 3,7% 4,3% 9,2% 7,0% 2,7% 5,5%
Öll
Í launuðu starfi 17,0% 16,8% 15,7% 14,4% 8,7% 14,1% 0,000**
Sjálfstætt starfandi/verktaki 3,2% 2,6% 3,4% 4,3% 4,5% 3,7% N = 3571
Er í sjálfboðavinnu 0,7% 3,0% 6,6% 7,0% 6,2% 5,3%
Er í endurhæfingu 33,6% 24,9% 16,6% 13,4% 8,4% 17,4%
Er í námi 12,7% 7,2% 4,7% 1,4% 0,9% 4,4%
Ekkert ofangreint 30,2% 42,2% 47,9% 54,8% 67,7% 51,0%
Vil ekki svara 2,5% 3,3% 5,0% 4,8% 3,6% 4,0%

Tafla 58. Starfshlutfall eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 10,2% 7,9% 9,3% 9,8% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 7,1% 8,9% 27,9% 7,7% N = 2218
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,1% 3,6% 2,3% 2,3%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 0,7% 1,3% 2,3% 0,8%
Já, fyrir fullt starf 1,5% 1,3% 2,3% 1,5%
Nei 77,0% 73,7% 51,2% 76,1%
Vil ekki svara 1,5% 3,3% 4,7% 1,8%
Karlar
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 8,5% 5,3% 4,3% 8,0% 0,022*
Já, í 26-50% starfshlutfalli 10,0% 11,8% 13,0% 10,3% N = 1359
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,5% 0% 0% 2,1%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 2,4% 0% 8,7% 2,2%
Já, fyrir fullt starf 4,7% 2,9% 0% 4,4%
Nei 69,5% 75,9% 65,2% 70,2%
Vil ekki svara 2,4% 4,1% 8,7% 2,7%
Öll
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 9,5% 7,0% 7,6% 9,1% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 8,2% 9,9% 22,7% 8,7% N = 3577
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,2% 2,3% 1,5% 2,2%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 1,4% 0,8% 4,5% 1,3%
Já, fyrir fullt starf 2,7% 1,9% 1,5% 2,6%
Nei 74,1% 74,5% 56,1% 73,8%
Vil ekki svara 1,8% 3,6% 6,1% 2,2%

Tafla 59. Starfshlutfall eftir kyni og aldri.

30 ára

og yngri

31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 13,8% 9,2% 10,0% 10,3% 7,9% 9,8% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 8,0% 8,9% 10,0% 7,5% 4,6% 7,7% N = 2215
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,7% 0,8% 2,4% 3,8% 1,4% 2,3%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 0,9% 1,6% 0,8% 0,7% 0,4% 0,8%
Já, fyrir fullt starf 4,0% 0,5% 2,2% 1,8% 0% 1,5%
Nei 68,9% 77,6% 72,9% 73,5% 84,2% 76,0%
Vil ekki svara 1,8% 1,3% 1,8% 2,5% 1,6% 1,9%
Karlar
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 10,0% 4,2% 5,3% 10,0% 10,4% 8,1% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 17,1% 16,5% 9,6% 7,6% 4,3% 10,3% N = 1359
Já, í 51-75% starfshlutfalli 1,9% 3,4% 2,5% 1,8% 1,3% 2,1%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 5,7% 4,2% 1,1% 0,3% 1,3% 2,2%
Já, fyrir fullt starf 3,8% 4,2% 7,5% 3,9% 3,0% 4,5%
Nei 57,3% 65,8% 71,5% 73,4% 77,6% 70,1%
Vil ekki svara 4,3% 1,7% 2,5% 3,0% 2,0% 2,6%
Öll
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 11,9% 7,2% 8,3% 10,2% 8,8% 9,2% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 12,4% 11,8% 9,8% 7,5% 4,5% 8,7% N = 3574
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,3% 1,8% 2,4% 3,1% 1,4% 2,2%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 3,2% 2,6% 0,9% 0,5% 0,7% 1,3%
Já, fyrir fullt starf 3,9% 2,0% 4,1% 2,5% 1,1% 2,6%
Nei 63,3% 73,0% 72,4% 73,5% 81,7% 73,8%
Vil ekki svara 3,0% 1,5% 2,0% 2,7% 1,7% 2,2%

Tafla 60. Treysta sér til að vera á vinnumarkaði eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 20,3% 10,9% 19,0% 19,0% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 13,3% 13,8% 28,6% 13,7% N = 2223
Já, í 51-75% starfshlutfalli 2,6% 7,2% 0% 3,2%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 0,9% 0,7% 0% 0,9%
Já, í fullu starfi 0,9% 0,7% 2,4% 0,9%
Nei 60,0% 62,5% 47,6% 60,1%
Vil ekki svara 1,9% 4,3% 2,4% 2,2%
Karlar
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 13,9% 3,5% 8,3% 12,5% 0,001**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 18,7% 13,5% 12,5% 17,9% N = 1372
Já, í 51-75% starfshlutfalli 5,3% 6,4% 8,3% 5,5%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 2,3% 0,6% 4,2% 2,1%
Já, í fullu starfi 7,8% 7,0% 4,2% 7,7%
Nei 48,6% 60,8% 54,2% 50,2%
Vil ekki svara 3,4% 8,2% 8,3% 4,1%
Öll
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 17,8% 8,2% 15,2% 16,5% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 15,4% 13,7% 22,7% 15,3% N = 3595
Já, í 51-75% starfshlutfalli 3,6% 6,9% 3,0% 4,1%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 1,4% 0,6% 1,5% 1,3%
Já, í fullu starfi 3,6% 2,9% 3,0% 3,5%
Nei 55,6% 61,9% 50,0% 56,4%
Vil ekki svara 2,5% 5,7% 4,5% 2,9%

Tafla 61. Treysta sér til að vera á vinnumarkaði eftir kyni og aldri.

30 ára

og yngri

31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 9,3% 17,9% 22,9% 21,4% 17,1% 18,9% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 13,7% 15,2% 17,3% 12,4% 10,4% 13,7% N = 2223
Já, í 51-75% starfshlutfalli 3,5% 4,0% 3,8% 3,6% 1,6% 3,2%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 3,1% 0,8% 0,8% 1,0% 0,2% 0,9%
Já, í fullu starfi 1,8% 1,3% 1,0% 0,7% 0,4% 0,9%
Nei 64,8% 57,2% 52,6% 59,1% 68,4% 60,0%
Vil ekki svara 4,0% 3,5% 1,6% 1,8% 2,0% 2,3%
Karlar
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 12,6% 11,0% 11,6% 13,2% 14,2% 12,6% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 16,7% 22,0% 17,9% 18,3% 14,9% 17,9% N = 1371
Já, í 51-75% starfshlutfalli 9,8% 7,2% 6,7% 4,2% 1,3% 5,5%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 3,7% 3,4% 1,4% 1,5% 1,3% 2,1%
Já, í fullu starfi 12,6% 11,9% 7,0% 4,5% 4,6% 7,6%
Nei 37,7% 41,1% 51,9% 53,5% 61,3% 50,3%
Vil ekki svara 7,0% 3,4% 3,5% 4,8% 2,3% 4,1%
Öll
Já, í 25% starfshlutfalli eða minna 10,9% 15,2% 18,8% 18,5% 16,0% 16,5% 0,000**
Já, í 26-50% starfshlutfalli 15,2% 17,9% 17,5% 14,5% 12,1% 15,3% N = 3594
Já, í 51-75% starfshlutfalli 6,6% 5,2% 4,8% 3,8% 1,5% 4,1%
Já, í 76-99% starfshlutfalli 3,4% 1,8% 1,0% 1,2% 0,6% 1,4%
Já, í fullu starfi 7,0% 5,4% 3,2% 2,0% 2,0% 3,5%
Nei 51,6% 51,0% 52,4% 57,1% 65,7% 56,3%
Vil ekki svara 5,4% 3,4% 2,3% 2,9% 2,1% 3,0%

Tafla 62. Þættir sem hafa áhrif á þátttöku á vinnumarkaði eftir kyni.

Mjög mikil áhrif Frekar mikil áhrif Hvorki mikil né lítil áhrif Frekar lítil áhrif Mjög lítil áhrif Á ekki við Vil ekki svara N
Konur og kvár
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 42,8% 15,0% 9,0% 3,6% 10,3% 16,6% 2,7% 2087
Heilsufar 59,9% 26,2% 6,1% 1,8% 1,3% 3,0% 1,6% 2107
Er í endurhæfingu og/eða námi 8,8% 8,4% 7,3% 2,1% 2,6% 66,9% 3,9% 2027
Vantar stuðning/aðstoð 13,5% 13,9% 13,5% 4,4% 6,7% 42,9% 5,2% 2036
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 14,3% 9,6% 6,4% 2,5% 3,5% 59,4% 4,3% 2049
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 2,2% 1,9% 4,1% 2,6% 13,3% 71,5% 4,5% 1996
Karlar
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 46,3% 16,4% 8,3% 4,8% 8,7% 12,4% 3,1% 1175
Heilsufar 50,2% 27,3% 10,2% 2,9% 3,7% 3,1% 2,6% 1167
Er í endurhæfingu og/eða námi 9,6% 7,0% 10,2% 4,8% 4,7% 58,6% 5,0% 1117
Vantar stuðning/aðstoð 14,2% 15,5% 17,0% 6,0% 6,7% 34,5% 6,1% 1131
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 15,3% 11,1% 8,9% 3,7% 5,8% 50,2% 4,9% 1134
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 1,7% 4,2% 8,3% 4,1% 14,6% 60,8% 6,3% 1104
Öll
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 44,1% 15,5% 8,7% 4,0% 9,7% 15,1% 2,9% 3262
Heilsufar 56,4% 26,6% 7,5% 2,2% 2,2% 3,1% 2,0% 3274
Er í endurhæfingu og/eða námi 9,1% 7,9% 8,3% 3,1% 3,4% 64,0% 4,3% 3144
Vantar stuðning/aðstoð 13,7% 14,5% 14,7% 5,0% 6,7% 39,9% 5,5% 3167
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 14,7% 10,1% 7,3% 2,9% 4,3% 56,1% 4,5% 3183
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 2,0% 2,7% 5,6% 3,1% 13,8% 67,7% 5,1% 3100

Kynjamunur: Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR, p = 0,009**. Heilsufar, p = 0,000**. Er í endurhæfingu og/eða námi, p = 0,000**. Vantar stuðning/aðstoð, p = 0,000**.  Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi, p = 0,000**. Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna, p = 0,000**.

Tafla 63. Þættir sem hafa áhrif á þátttöku á vinnumarkaði eftir lífeyrisréttindum.

Mjög mikil áhrif Frekar mikil áhrif Hvorki mikil né lítil áhrif Frekar lítil áhrif Mjög lítil áhrif Á ekki við Vil ekki svara N
Á örorkulífeyri
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 45,6% 15,3% 8,3% 3,7% 9,2% 15,0% 2,9% 2785
Heilsufar 55,2% 27,4% 7,8% 2,2% 2,4% 3,0% 2,0% 2794
Er í endurhæfingu og/eða námi 5,3% 5,7% 6,8% 3,0% 3,0% 71,8% 4,5% 2666
Vantar stuðning/aðstoð 12,1% 13,9% 13,7% 4,6% 6,8% 43,1% 5,8% 2693
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 13,8% 10,1% 7,3% 3,1% 4,1% 57,1% 4,5% 2710
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 1,6% 2,5% 5,8% 3,1% 13,2% 68,3% 5,4% 2641
Á endurhæfingarlífeyri
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 36,7% 16,8% 11,1% 5,9% 11,8% 14,7% 2,8% 422
Heilsufar 65,2% 21,7% 6,4% 1,7% 0,7% 2,6% 1,7% 423
Er í endurhæfingu og/eða námi 33,5% 22,1% 17,8% 3,3% 6,2% 13,8% 3,3% 421
Vantar stuðning/aðstoð 23,9% 19,1% 20,8% 7,2% 6,0% 18,4% 4,5% 418
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 20,0% 10,3% 6,9% 2,4% 5,5% 50,1% 4,8% 419
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 4,4% 3,4% 4,4% 3,2% 18,2% 63,3% 3,0% 406
Á örorkustyrk
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 21,1% 19,3% 12,3% 5,3% 19,3% 19,3% 3,5% 57
Heilsufar 53,4% 25,9% 5,2% 5,2% 1,7% 6,9% 1,7% 58
Er í endurhæfingu og/eða námi 5,5% 7,3% 5,5% 5,5% 1,8% 70,9% 3,6% 55
Vantar stuðning/aðstoð 15,1% 7,5% 17,0% 5,7% 7,5% 45,3% 1,9% 53
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 14,5% 10,9% 7,3% 1,8% 9,1% 52,7% 3,6% 55
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 1,9% 1,9% 5,8% 1,9% 11,5% 69,2% 7,7% 52
Öll
Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR 44,1% 15,5% 8,7% 4,0% 9,7% 15,0% 2,9% 3264
Heilsufar 56,4% 26,6% 7,6% 2,2% 2,2% 3,1% 2,0% 3275
Er í endurhæfingu og/eða námi 9,1% 7,9% 8,3% 3,1% 3,4% 64,0% 4,3% 3142
Vantar stuðning/aðstoð 13,7% 14,5% 14,7% 4,9% 6,7% 39,9% 5,5% 3164
Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi 14,7% 10,1% 7,3% 3,0% 4,3% 56,1% 4,5% 3184
Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna 2,0% 2,6% 5,6% 3,1% 13,8% 67,7% 5,1% 3099

Munur milli lífeyrisréttinda: Óttast skerðingar og/eða kröfur frá TR, p = 0,001**. Heilsufar, p = 0,022*. Er í endurhæfingu og/eða námi, p = 0,000**. Vantar stuðning/aðstoð, p = 0,000**. Hef ekki fundið/fengið starf við hæfi, p = 0,100. Vil ekki vinna/hef ekki áhuga á því að vinna, p = 0,004**.

Töflur • Viðhorf til þjónustu TR

Tafla 64. Viðhorf til þjónustu TR eftir kyni og lífeyrisréttindum.

Á örorku-lífeyri Á endurhæfingar-lífeyri Á örorku-styrk Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög ánægð/ur/t 6,1% 12,2% 12,2% 7,1% 0,001**
Frekar ánægð/ur/t 22,3% 26,1% 24,4% 22,8% N = 2203
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 40,7% 29,0% 31,7% 38,9%
Frekar óánægð/ur/t 16,5% 18,2% 9,8% 16,6%
Mjög óánægð/ur/t 11,8% 11,9% 19,5% 11,9%
Vil ekki svara 2,7% 2,6% 2,4% 2,7%
Karlar
Mjög ánægð/ur/t 13,3% 14,8% 12,5% 13,5% 0,351
Frekar ánægð/ur/t 24,1% 31,4% 29,2% 25,1% N = 1359
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 33,0% 34,3% 33,3% 33,2%
Frekar óánægð/ur/t 14,2% 11,2% 16,7% 13,9%
Mjög óánægð/ur/t 12,3% 5,9% 8,3% 11,4%
Vil ekki svara 3,1% 2,4% 0% 2,9%
Öll
Mjög ánægð/ur/t 8,9% 13,1% 12,3% 9,5% 0,017*
Frekar ánægð/ur/t 23,0% 28,0% 26,2% 23,7% N = 3562
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 37,7% 30,9% 32,3% 36,7%
Frekar óánægð/ur/t 15,6% 15,7% 12,3% 15,6%
Mjög óánægð/ur/t 12,0% 9,7% 15,4% 11,7%
Vil ekki svara 2,8% 2,5% 1,5% 2,8%

Tafla 65. Viðhorf til þjónustu TR eftir kyni og aldri.

30 ára

og yngri

31-40 ára 41-50 ára 51-60 ára 61 árs og eldri Samtals P-gildi
Konur og kvár
Mjög ánægð/ur/t 7,5% 7,4% 6,6% 8,0% 5,7% 7,0% 0,019*
Frekar ánægð/ur/t 13,7% 25,1% 21,2% 24,8% 24,8% 22,9% N = 2201
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 39,6% 36,6% 36,5% 39,7% 41,4% 38,8%
Frekar óánægð/ur/t 20,3% 18,9% 18,0% 15,0% 14,1% 16,6%
Mjög óánægð/ur/t 15,9% 8,7% 14,2% 10,8% 11,7% 11,9%
Vil ekki svara 3,1% 3,3% 3,6% 1,8% 2,4% 2,7%
Karlar
Mjög ánægð/ur/t 15,3% 15,3% 12,9% 14,7% 10,4% 13,6% 0,015*
Frekar ánægð/ur/t 28,4% 28,0% 22,9% 23,2% 24,8% 25,1% N = 1356
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 40,0% 27,5% 35,0% 29,7% 34,9% 33,2%
Frekar óánægð/ur/t 7,4% 15,7% 12,5% 15,6% 16,1% 13,8%
Mjög óánægð/ur/t 8,8% 9,3% 12,9% 14,1% 10,7% 11,4%
Vil ekki svara 0% 4,2% 3,9% 2,8% 3,0% 2,9%
Öll
Mjög ánægð/ur/t 11,3% 10,5% 8,8% 10,3% 7,5% 9,5% 0,029*
Frekar ánægð/ur/t 20,8% 26,2% 21,8% 24,2% 24,8% 23,7% N = 3557
Hvorki ánægð/ur/t né óánægð/ur/t 39,8% 33,1% 36,0% 36,2% 39,0% 36,7%
Frekar óánægð/ur/t 14,0% 17,6% 16,0% 15,2% 14,8% 15,5%
Mjög óánægð/ur/t 12,4% 9,0% 13,7% 11,9% 11,3% 11,8%
Vil ekki svara 1,6% 3,7% 3,7% 2,2% 2,6% 2,8%