Skip to main content
SRFFUmsögn

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

By 14. nóvember 2023nóvember 30th, 2023No Comments
Mynd af beingrind sem heldur á spjaldi sem á stendur "Vekið mig þegar búið er að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks". Beinagrindin situr á bekk með styttu af Reykjavíkurskáldinu Tómasi Guðmundssyni við Reykjavíkurtjörn .

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka (ÖBÍ) við frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þingskjal 36, 36. mál.

ÖBÍ styður eindregið frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Nefndarálit með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu SRFF var samþykkt 6. maí 2019, þar sem fram kemur að mikil samstaða sé um mikilvægi þess að lögfesta samninginn og að hann skyldi lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020. Í þingsályktuninni segir jafnframt að lögfestingin myndi styrkja stöðu fatlaðs fólks og skýra ábyrgð ríkisins betur.

Líkt og segir í 1. gr. SRFF þá er markmið samningsins að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

Með lögfestingunni mun samningurinn eyða réttaróvissu fatlaðs fólks og gera því fært að sækja réttindi sín hvort sem er til ríkis eða sveitarfélaga. Þá mun hann jafnframt öðlast þau beinu réttaráhrif sem nauðsyn ber til svo hægt sé að beita honum með beinum hætti fyrir dómstólum ef á þarf að halda.

Samningurinn er mannréttindasamningur jaðarhópa af jaðrinum, hann stuðlar að inngildingu fatlaðs fólks í samfélagið og viðurkennir þörf þess fyrir stuðningi hvort sem er í námi, starfi, daglegu lífi og/eða þessu öllu.

ÖBÍ áréttar eindreginn stuðning sinn við frumvarpið og óskar eftir því að fá fund með velferðarnefnd Alþingis til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta gríðarlega mikilvæga mál.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ- réttindasamtaka


Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
36. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 14. nóvember 2023