Skip to main content
RéttarkerfiSRFFUmsögn

Áform um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk

By 21. nóvember 2023nóvember 30th, 2023No Comments
Alma Ýr Ingólfsdóttir, nýkjörin formaður ÖBÍ

„ÖBÍ hvetur til þess að réttindagæslulögin verði endurskoðuð með tiliti til réttindavaktarinnar svo hlutverki hennar nái fram að ganga“

Efni: Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um áform um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011.

ÖBÍ telur að heildarendurskoðun á lögunum þurfi að fara fram m.t.t. fyrirhugaðra áforma um að setja réttindagæslu fyrir fatlað fólk undir óháða og sjálfstæða Mannréttindastofnun sem og vegna áforma um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF/samningurinn þegar við á).

Ýmis ákvæði réttindagæslulaganna þarfnast fyllingar og skýringar enda segir í áformunum að markmið lagabreytinganna sé að skýra ákvæði réttindagæslulaga og styrkja þar með réttarvernd fatlaðs fólks og tryggja því viðeigandi stuðning svo þau samræmist ákvæðum SRFF. Þessum áformum fagna ÖBÍ og taka undir mikilvægi þess að réttarvernd og viðeigandi stuðningur verði tryggður til handa fötluðu fólki.

Eftirfarandi ábendingum/athugasemdum vill ÖBÍ koma á framfæri:

1. Persónulegir talsmenn. 
Athuga þarf stöðu persónulegra talsmanna m.t.t. lögræðislaga. Í stað þess að láta lagaákvæði sem fjalla um persónulega talsmenn standa innan sérlaga um réttindagæslu fatlaðs fólks væri nær að hafa ákvæði um þá í endurskoðuðum lögræðislögum. Með slíkri breytingu væri verið að tengja réttindi fatlaðs fólks til þess að velja sér persónulegan talsmann ásamt heimildum og skyldum hans við heildarlöggjöf sem tæki á lögræði almennt.

Réttindi þeirra sem ekki geta farið með sín málefni án stuðnings þarf að tryggja betur. Tryggja þarf að persónulegir talsmenn sinni hlutverki sínu á þann hátt að þeir veiti þeim sem þarf stuðning (e. supported decision-making) við sín málefni og ákvarðanir en ekki í formi staðgengils-ákvarðanatöku (e. substitute decision-making). Mikilvægt er að stuðningur sé veittur og viðhafður við alla ákvarðanatöku en hann stuðlar að sjálfsákvörðunarrétti, sjálfstæði og sjálfræði.

Nauðsynlegt er að persónulegir talsmenn séu meðvitaðir um hvað felst í hlutverki sínu og því að veita þeim sem ekki geta farið með mál sín án stuðnings. Virkt eftirlit þarf að vera með störfum þeirra svo tryggt sé að þeir fari ekki vald sem þeim hefur ekki verið falið. Dæmi eru um þar sem persónulegir talsmenn hafa athugasemdalaust stjórnað lífi fatlaðs fólks og misnotað stöðu sína. Ákvæði laganna þurfa því að vera skýr.

ÖBÍ telur að færa þurfi framkvæmd og eftirlit undir sýslumann og gera nauðsynlegar breytingar varðandi mat, hæfi, skilvirkt eftirlit og uppsögn/riftun; stigskipta hlutverkinu. Jafnframt telur ÖBÍ að tryggja þurfi aðgengi fatlaðs fólks að nauðsynlegum hjálpar- og tjáskiptatækjum og túlkun til að draga úr tilbúinni þörf fyrir því að aðrir tali máli þess.

Í þessum efnum hvetur ÖBÍ ráðuneytið til þess að kynna sér vel almennar athugasemdir nr. 1 (e. General Comment no 1) við 12. gr. SRFF sem sérfræðinefnd samningsins samþykkti árið 2014. Það er gríðarlega mikilvægt að skilningur sé fyrir hendi á ákvarðanatöku í formi stuðnings, en samningurinn hvílir á því að 12. gr. hans sé að fullu virt.

Lögræðislögin eru á forræði dómsmálaráðuneytisins en engu að síður vill ÖBÍ koma því áleiðis að mikilvægt er að heildarendurskoðun fari fram á þeim. Lögráðamannakerfið og ráðsmannakerfið samkvæmt. gildandi lögræðislögum fer gegn hugmyndafræði og ákvæðum samningsins. Misskilningur virðist ríkja um hlutverk lögráðamanna og ráðsmanna en dæmi eru um að þeir fari út fyrir valdsvið sitt og heimildir án þess að brugðist hafi verið við eða að það hafi talist ámælisvert. Þá eru þeir oftar en ekki í takmörkuðum samskiptum við hinn ólögráða og í mörgum tilvikum hafa þeir takmarkaða þekkingu á mismunandi aðstæðum.

2. Nauðung.
Nauðung á sér stað daglega hjá fötluðu fólki með einum eða öðrum hætti, en birtingarmynd nauðungar er margskonar. ÖBÍ fagnar því að gera eigi breytingar á ákvæðum um sérfræðiteymi og undanþágunefnd í V. kafla laganna með það að markmiði að tryggja betur réttarvernd fatlaðra einstaklinga sem kunna að vera beittir nauðung.

3. Réttindavakt.
Réttindavaktinni er falið mikilvægt hlutverk og mikil ábyrgð, t.a.m. að tryggja fötluðu fólki greiðan aðgang að upplýsingum um rétt sinn, halda utan um og safna upplýsingum um réttindamál. Jafnframt ber hún ábyrgð á fræðslu- og upplýsingastarfi. ÖBÍ hvetur til þess að réttindagæslulögin verði endurskoðuð m.t.t. réttindavaktarinnar svo hlutverki hennar nái fram að ganga. Þá telur ÖBÍ að réttindavaktinni eigi að vera undir óháðri og sjálfstæðri mannréttindastofnun en þannig má tryggja betur hlutleysi hennar sem eftirlitsaðila.

ÖBÍ lýsir yfir áhuga á að taka þátt í frekara samráði og styrkja vinnu að fyrirhuguðum breytingum enda búa samtökin yfir gífurlegri þekkingu á SRFF. Þá áskilja ÖBÍ sér rétt til þess að koma með frekari athugasemdir og ábendingar á seinni stigum við vinnu áformanna.

Ekkert um okkur, án okkar.

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka


Áform um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk
Mál nr. 226/2023. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 21. nóvember 2023