Skip to main content
RéttarkerfiSRFFUmsögn

Breyting á lögræðislögum

By 29. september 2023október 2nd, 2023No Comments

„Ítrekað hefur verið á það bent að lögræðislögin uppfylli ekki kröfur sem leiða af ákvæðum SRFF.“

Efni: Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögræðislögum, mál 161/2023.

Mikilvægt er að unnið sé að endurbótum á núgildandi lögræðislögum nr. 71/1997 en þær breytingar sem unnar voru á lögunum með beytingarlögum nr. 84/2015, voru ekki til þess fallnar að mæta þeim alþjóðaskuldbindingum sem íslensk stjornvöld hafa undirgengist, t.a.m. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Frumvarpið tekur á mjög þýðingarmiklu og viðkvæmu efni sem krefst vandlegrar yfirlegu og upplýsingaöflunar, s.s. áhrif gildandi laga og regluverks á réttindi fatlaðs fólks. Samráð og aðkoma fatlaðs fólks og hagsmunasamtaka þeirra þarf að vera mun viðtækari en raun ber vitni, og þá sérstaklega í ljósi þeirra skulbindinga sem kveðið er á um í 4. gr. SRFF. Nú fer fram umfangsmikil vinna á vegum félags- og vinnumarkaðsráðherra við gerð landsáætlunar til að tryggja farsæla innleiðingu SRFF og er landsáætlunin jafnaframt liður í lögfestingu samningsins skv. stjórnarsáttmála. Eitt meginmarkmið vinnunnar er að fatlað fólk geti notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við annað fólk.

Í 12. gr. SRFF segir að fyrirkomulag aðildarríkja sem byggir á ákvarðanatöku fyrir fatlað fólk uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins. Sérfræðinefnd samningsins gaf út almenna athugasemd (e. General Comment no 1) árið 2014 þar sem áréttað var að tryggja þyrfti að fatlað fólk nyti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviði lífsins, að viðeigandi stuðningur sé forsenda þess að löghæfis sé notið við og sé þess eðlis að virðing sé borin fuyrir réttindum, vilja og óskum fatlaðs fólks og megi aldrei vera þannig að um staðgengilsákvörðun sé að ræða. Ítrekað hefur verið á það bent að lögræðislögin uppfylli ekki kröfur sem leiða af ákvæðum SRFF. Ekki er að sjá að skrefið hafi verið stigið að fullu til þess að uppfylla kröfur 12. gr. SRFF, t.a.m. við 4. gr. lögræðislaga.

ÖBÍ situr í verkefnastjórn um landsáætlun um málefni fatlaðs fólks, en landsáætlunin er liður í lögfestingu á samningnum, ásamt því að eiga fulltrúa í vinnuhópum landsáætlunarinnar. ÖBÍ skilaði umsögn við áform um lagasetningu, breytingu á lögræðislögum (ýmsar breytingar), mál nr. 209/2022, en í henni sagði að ef markmið lagabreytinga er að vera í samræmi við markmið og ákvæði SRFF þá þarf að endurskoða fyrirhugað samráð og kalla eftir slíku hjá hagsmunasamtökum og þeirra sem best þekkja til samningsins.

ÖBÍ er reiðubúið að taka þátt í samráði og vinnu að fyrirhuguðum breytingum laganna frá fyrsta stigi enda búa samtökin yfir gífurlegri þekkingu á SRFF og eftirlitsstofnun hans sem og málefnum fatlaðs fólks, þ.á.m. fólki með geðrænar áskoranir og geðsjúkdóma. ÖBÍ ítrekar aftur þátttöku til þess að styrkja frekari vinnu við breytingu á mikilvægum réttindum og lögræðislögin fela í sér. Þá áskilja ÖBÍ sér rétt til þess að koma með frekari athugasemdir og ábendingar á seinni stigum við vinnu frumvarpsins.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir
formaður ÖBÍ – réttindsamtaka

Alma Ýr Ingólfsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ – réttindasamtaka


Breyting á lögræðislögum. Drög að frumvarpi til laga.
Mál nr. 161/2023. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 29. september 2023