Skip to main content
SRFFUmsögn

Mannréttinda­stofnun Íslands

By 25. október 2023október 30th, 2023No Comments

Umsögn ÖBÍ – réttindasamtaka um frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands, þskj. 242, 239. mál.

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna því að frumvarp til laga liggi fyrir um Mannréttindastofnun Íslands sem uppfylla eigi Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna, eins og kveðið er á um í 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Þá lýsa samtökin ánægju með að stofnunin eigi að heyra undir Alþingi. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þá hefur Íslenska ríkið ítrekað fengið athugasemdir og tilmæli frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum um að koma á stofn óháðri og sjálfstæðri mannréttindastofnun, til dæmis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árin 2016 og 2022. Lengi hefur verið unnið að þessu markmiði og því sérstaklega ánægjulegt að hér sé komið fram frumvarp sem í flesta staði er vel unnið og vandað.

Það er brýnt að innan Mannréttindastofnunar Íslands sé starfandi fagfólk með mikla þekkingu á mannréttindum og fjölbreyttum aðstæðum mismunandi þjóðfélagshópa, sem krefjast yfirsýnar og samræmingar. Ráðgjöf og fræðsla til almennings útheimtir fjölbreytta þekkingu starfsfólks og gera þarf ráð fyrir að þau sem til stofnunarinnar leita þurfi aðstoð túlka, þýðenda og lögfræðinga. ÖBÍ leggur til deildaskiptingu innan stofnunarinnar með áherslu á hvern minnihlutahóp fyrir sig, en að þverfagleg þekking milli deilda verði tryggð.

ÖBÍ leggur áherslu á að Mannréttindastofnun verði tryggt bolmagn til þess að sinna hlutverki sínu, en skv. frumvarpinu stofnunni falið veigamikið hlutverk og falin mikil ábyrgð. Árangur stofnunar sem þessarar veltur að miklu leyti á því að starfsemin sé nægilega fjármögnuð. Verkefni sem stofnuninni eru falin, líkt og skýrslugjöf til alþjóðlegra eftirlitsaðila og alþjóðlegt samstarfs eru verulega tímafrek. Þess má geta að Ísland er aðili að fjölmörgum alþjóðlegum mannréttindasamningum og felur aðildin m.a. í sér reglulega skýrslugjöf. Hlutverk stofnana líkt og þeirra sem getið er um í frumvarpinu er því mikilvægt og nauðsynlegt að vandað sé til verka. Sem dæmi má nefna að fyrirsjáanlegt er að stöðluð verkefni, líkt og samstarf við aðrar stofnanir og skýrslugjöf til alþjóðlegra eftirlitsaðila, séu verulega tímafrek. Ísland er aðili að töluverðum fjölda mannréttindasamninga sem gera ráð fyrir skýrslugjöf og hlutverk landsstofnana um mannréttindi er afar mikils virði í þeirri málsmeðferð, að því gefnu að slíkar stofnanir geti vandað til verka.

Eftirlitsstofnanir á Íslandi hafa oft verið vanfjármagnaðar, nærtækt dæmi er réttindagæslumenn fatlaðs fólks, sem eiga að starfa innan Mannréttindastofnunar Íslands, sbr. 9. gr, og hafa ekki geta sinnt verkefnum sínum sem skyldi vegna skorts á rekstrarfé og starfsfólki. Mikilvægt er að tryggja sjálfstæði og gott vinnuumhverfi réttindagæslumanna fatlaðs fólk svo þeir geti sinnt því mikilvæga og brýna starfi sem til er ætlast.

ÖBÍ hefur, líkt og í öðrum umsögnum sínum er varðar stofnun óháðrar og sjálfstæðrar Mannréttindastofnunar, áhyggjur af því að hin nýja stofnun muni ekki geta sinnt lögbundnum verkefnum sínum, sem eru fjölmörg, með fullnægjandi hætti. Forsenda nýju stofnunarinnar og sjálfstæði hennar er fullnægjandi fjármögnun, sérstaklega í ljósi þess að stofnunni verður m.a. falið að vekja athygli löggjafans og stjórnvalda á hugsanlegum mannréttindabrotum.

Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins er fjallað um hvernig velja skuli fulltrúa í ráðgjafarnefndina og er jafnframt fjallað um að ráðgjafarnefndin eigi að endurspegli sem best samfélagið og því þurfi að tryggja að í nefndinni eigi sæti fjölbreyttur hópur. Átta aðilar eru taldir upp í málsgreininni sem ávalt skuli eiga sæti í nefndinni, sem er vel. Aftur á móti telur ÖBÍ bæði mikilvægt og nauðsynlegt að Landssamtökin Geðhjálp eigi fastan fulltrúa í nefndinni, enda búa samtökin að gríðarlega mikilli þekkingu.

Þá telja ÖBÍ eðlilegt að stjórnar- og nefndarfólk fái greitt fyrir sín störf í þágu stofnunarinnar og mannréttinda.

ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ


Mannréttinda­stofnun Íslands
239. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 25. október 2023