Skip to main content

Námsstyrkir

Styrkir úr Námssjóði Sigríðar Jónsdóttur eru veittir öryrkjum til að sækja sér menntun. Þeir eru veittir til hagnýts náms, verklegs eða bóklegs, svo og til náms í hvers konar listgreinum. Einnig er heimilt að styrkja þá sem vilja sérhæfa sig til starfa í þágu fólks með þroskahömlun.

• Umsóknarfrestur til að sækja um námsstyrk fyrir árið 2023 rann út 7. maí síðastliðinn  

Úthlutað er úr sjóðnum í júní  Nánari upplýsingar veita starfsmenn móttöku ÖBÍ, mottaka @ obi.is og í síma 530 6700

Styrkir eru veittir

  • Öryrkjum til náms sem styður við samfélagslega þátttöku. Nám getur verið bóklegt, verklegt eða í listgreinum á hvaða námsstigi sem er í framhaldsskóla, háskóla sem og styttri námskeiðum.
  • Einstaklingum sem vilja sérhæfa sig til starfa eða rannsókna í þágu fólks með þroskahömlun.

Nánar um sjóðinn

Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur var stofnaður árið 1993 fyrir söluvirði íbúðar sem Sigríður Jónsdóttir arfleiddi ÖBÍ að. Í erfðaskrá hennar var kveðið á um stofnun sjóðsins og tilgang hans. Stofnfé var 6,5 milljónir króna. Fyrstu styrkirnir voru veittir 11. júní 1995. Námssjóðurinn er í vörslu ÖBÍ. Sjá nánari upplýsingar í skipulagskrá sjóðsins

Aðrir námsstyrkir

Athugið að sveitarfélög veita einnig fötluðu fólki og öryrkjum styrki til náms. Þann 21. febrúar 2019 uppfærði Félagsmálaráðuneytið reglugerðina: „Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks“. Grundvöllur reglugerðarinnar er að við „setningu og framkvæmd reglna sinna skulu sveitarfélög taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

Aðrir sjóðir, stofnanir, fyrirtæki og félagsamtök sem styrkja öryrkja og fatlað fólk til menntunar eru flestir listaðir á vef Þekkingarmiðstöðar Sjálfsbjargar.

Aðildarfélög Öryrkjabandalags Íslands eru mörg hver með styrktarsjóði til dæmis náms- og ferðasjóði. Styrkirnir eru í boði fyrir félaga en það er þó ekki algilt. Því er vert að kanna hvort og hvað kynni að nýtast þér. Sjá nánar: Yfirlit yfir aðildarfélög ÖBÍ

Skipulagsskrá Námssjóðs Sigríðar Jónsdóttur

Skipulagsskrá fyrir Námssjóð Sigríðar Jónsdóttur í vörslu Öryrkjabandalags Íslands

1. gr.
Sjóðurinn ber nafnið Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur. Heimili hans og varnarþing eru í Reykjavík.

2. gr.
Stofnfé sjóðsins er 6.5 milljónir króna sem er söluandvirði íbúðar Sigríðar Jónsdóttur að Melhaga 6 í Reykjavík, sem hún arfleiddi Öryrkjabandalag Íslands að með erfðaskrá, dagsettri 17. september 1980. Stjórn sjóðsins er ávallt skylt að ávaxta fjármuni hans með hagkvæmasta hætti. Til úthlutunar styrkja má eingöngu verja vaxtatekjum sjóðsins, öllum eða að hluta. Höfuðstóllinn skal ávallt standa óskertur. Heimilt er að efla sjóðinn með minningargjöfum og frjálsum framlögum.

3. gr.
Námssjóður Sigríðar Jónsdóttur er eign Öryrkjabandalags Íslands.

4. gr.
Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til öryrkja til hagnýts náms, verklegs eða bóklegs, svo og til náms í hvers konar listgreinum. Einnig er heimilt að styrkja þá sem vilja sérhæfa sig til starfa í þágu þroskaheftra. Styrkir sjóðsins skulu að jafnaði vera óafturkræfir en stjórn sjóðsins er þó heimilt að setja skilyrði fyrir veitingu þeirra.

5. gr.
Fyrstu stjórn sjóðsins skipa þrír menn til þriggja ára. Öryrkjabandalag Íslands tilnefnir tvo fulltrúa og félagsmálaráðherra einn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Að þeim tíma loknum skipar stjórn Öryrkjabandalags Íslands stjórn sjóðsins til jafnlangs tíma.

6. gr.
Stjórnin fer með málefni sjóðsins og tekur ákvarðanir um úthlutanir úr honum. Stjórnin skal halda gerðabók um alla starfsemi sjóðsins.

7. gr.
Úthluta skal úr sjóðnum einu sinni á ári. Miða skal við að úthlutun fari fram 11. júní, sem er fæðingardagur Sigríðar Jónsdóttur. Í fyrsta skipti skal úthluta 1995 og er þá heimilt að úthluta öllum eignfærðum vöxtum.

8. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu birtir með reikningum Öryrkjabandalags Íslands og stofnana þess. Endurskoðendur Öryrkjabandalags Íslands skulu yfirfara og árita reikninga sjóðsins ásamt stjórn og löggiltum endurskoðanda.

9. gr.
Stjórn sjóðsins má einungis breyta skipulagsskrá þessari að fengnu samþykki stjórnar Öryrkjabandalags Íslands. Verði sjóðurinn lagður niður renna fjármunir hans til Öryrkjabandalags Íslands.

10. gr.
Dómsmálaráðuneytið skal staðfesta skipulagsskrá þessa.

Skipulagsskrá þessi staðfestir hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 15. júní 1993.
F.h.r.
Þorsteinn Geirsson/Margrét Hauksdóttir.