1. kafli – Nafn, hlutverk og markmið
1. gr. Nafn, félagar og varnarþing
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) er heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi.
Bandalagið er myndað af aðildarfélögum fatlaðs fólks, öryrkja, einstaklinga með langvinna sjúkdóma og aðstandenda þeirra.
2. gr. Hlutverk og markmið
Bandalagið er hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks. Markmið bandalagsins er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.
Hlutverk bandalagsins er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu bandalagsins.
2. kafli – Aðild
3. gr. Aðild að ÖBÍ
4. gr. Skilyrði aðildar
-
Félagið skal starfa eftir samþykktum lögum sem samræmast hlutverki og markmiðum bandalagsins.
-
Félagið skal vera lagalega og fjárhagslega sjálfstætt gagnvart öðrum aðildarfélögum.
-
Félagið skal hafa starfað í þrjú heil reikningsár.
- Félagið skal hafa allt landið að starfssvæði sínu.
5. gr. Umsókn um aðild
- Afriti af lögum félagsins.
- Afriti af endurskoðuðum ársreikningum þriggja síðustu ára.
- Nöfnum stjórnarmanna og þeirra sem skipa trúnaðarstöður.
Í framhaldi af því skal trúnaðarmaður skipaður sameiginlega af umsóknarfélagi og stjórn ÖBÍ. Umsóknarfélag skal veita trúnaðarmanni heimild til að skoða skrá yfir alla félagsmenn.
Stjórn skal synja umsókn nema að uppfylltum öllum skilyrðum. Umsóknin verður þá ekki lögð fyrir aðalfund.
Inntaka nýrra aðildarfélaga tekur gildi við aðalfundarslit.
6. gr. Réttindi og skyldur aðildarfélaga
Réttindi aðildarfélaga eru:
- Full þátttaka í öllu starfi bandalagsins.
- Kjörgengi og atkvæðisréttur fulltrúa þeirra.
- Aðgangur að þjónustu bandalagsins.
- Réttur til að sækja um styrki bandalagsins samkvæmt gildandi reglum.
Aðildarfélögum ber skylda til að:
- Uppfylla kröfur 4. gr. um aðildarskilyrði svo lengi sem aðildin varir.
- Heimila trúnaðarmanni aðgang að félagaskrá.
- Skila ársskýrslu, staðfestum ársreikningi samþykktum á aðalfundi félagsins, lista yfir stjórnarmenn og þá sem skipa trúnaðarstöður, og lögum félagsins, hafi þeim verið breytt, í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund.
- Greiða aðildargjöld í samræmi við ákvörðun aðalfundar.
7. gr. Úrsögn
8. gr. Brottvikning félags
Aðalfundur getur vikið aðildarfélagi úr bandalaginu vinni það gegn hagsmunum bandalagsins eða gegni ekki þeim skyldum sem því ber samkvæmt lögum þessum. Samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða aðalfundarfulltrúa þarf til brottvikningar.
3. Kafli – Aðalfundur
9. gr. Fundarboðun og aðalfundur
Fundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og að lágmarki helmingur boðaðra fundargesta viðstaddur. Fundarstað og fundartíma skal tilgreina í fundarboði. Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Þess skal jafnframt getið verði tjáningarfrelsi þeirra sem þannig taka þátt takmarkað á einhvern hátt.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins. Fundinn skal halda í október ár hvert. Stjórn boðar til fundarins með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara með sannanlegum hætti.
10. gr. Aðalfundarfulltrúar
Á aðalfundi eiga rétt til setu fulltrúar tilnefndir af hverju aðildarfélagi. Fjöldi fulltrúa hvers aðildarfélags ræðst af eftirfarandi:
- Félag með hundrað fullgilda félaga eða færri fær tvo fulltrúa.
- Félag með 101 til 1000 fullgilda félaga fær þrjá fulltrúa.
- Félag með 1001 til 2000 fullgilda félaga fær fjóra fulltrúa.
- Félag með 2001 til 3000 fullgilda félaga fær fimm fulltrúa.
- Félag með 3001 og fleiri fullgilda félaga fær sex fulltrúa.
Fjöldi fullgildra félaga reiknast eftir gildandi lögum viðkomandi félags, þó skulu ekki teljast með þeir einstaklingar sem eingöngu styrkja félögin í gegnum einstaka fjáraflanir og njóta ekki fullra réttinda sem félagar.
Í síðasta lagi sex vikum fyrir aðalfund skulu aðildarfélög skila til stjórnar lista yfir aðalfundarfulltrúa og varamenn. Félögin skulu leitast við að fulltrúar þess endurspegli mismunandi kyn, aldur og búsetu eftir því sem kostur er.
Félög sem hafa ekki veitt trúnaðarmanni aðgang að félagaskrá, skila ekki staðfestum ársreikningi eða eru í vanskilum með aðildargjöld fá einn fulltrúa á aðalfundi. Hafi vanskil á gögnum varað í 3 ár samfellt, fær félagið engan fulltrúa á aðalfundi.
11. gr. Dagskrá aðalfundar
Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt almennum fundarsköpum. Aðalfundur skal hefjast á fundarsetningu og kjöri fundarstjóra, fundarritara og þriggja talningarmanna.
Á aðalfundi skal taka eftirfarandi mál til meðferðar og afgreiðslu:
A. Almenn fundarstörf
1. Skýrslu stjórnar.
2. Reikninga bandalagsins.
3. Skýrslur fastra málefnahópa.
4. Skýrslur fyrirtækja.
5. Stefnu og starfsáætlun stefnuþings.
6. Ákvörðun aðildargjalda.
7. Þóknun fyrir stjórnarsetu.
B. Kosningar í stjórn skv. 18. gr. A til tveggja ára
8. Kosning formanns.
9. Kosning varaformanns.
10. Kosning gjaldkera.
11. Kosning formanna fastra málefnahópa.
12. Kosning stjórnarmanna.
13. Kosning varamanna.
C. Aðrar kosningar til tveggja ára
14. Kosning fimm manna kjörnefndar og tveggja til vara.
15. Kosning fimm manna laganefndar og tveggja til vara.
16. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
D. Lagabreytingar, aðildarumsóknir, ályktanir og önnur mál
17. Lagabreytingar.
18. Aðildarumsóknir.
19. Ályktanir aðalfundar.
20. Önnur mál.
12. gr. Kjörgengi og atkvæðagreiðslur
Fulltrúar aðildarfélaga sem sitja fundinn hafa atkvæðisrétt. Allir lögráða aðal- og varafulltrúar sinna félaga hafa kjörgengi í öll embætti á aðalfundi að uppfylltum skilyrðum um kjörgengi. Framangreind krafa um lögræði á ekki við um kjörgengi í laganefnd og kjörnefnd.
Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er kveðið á um annað í þessum lögum. Atkvæðagreiðslur skulu vera leynilegar, sé þess óskað. Hafi tveir eða fleiri frambjóðendur hlotið jafnmörg atkvæði og röð þeirra skiptir máli ræður hlutkesti, nema tillaga komi fram um annað.
Kjósa má allt að jafnmarga frambjóðendur og þau sæti sem í boði eru hverju sinni.
13. gr. Framboð í trúnaðarstöður og hlutverk kjörnefndar
Kjörnefnd skal hið minnsta tveimur mánuðum fyrir aðalfund óska eftir framboðum í trúnaðarstöður. Framboð skulu berast kjörnefnd eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund. Kjörnefnd skal tryggja næg framboð í þau embætti sem kosið er um. Kjörnefnd skal einnig tryggja fjölbreytni framboða með tilliti til jafnræðis milli fötlunarhópa. Jafnframt skal hún líta til annarra atriða sem talin eru skipta máli, svo sem kynja, búsetu og aldurshópa.
Ef fulltrúi hættir áður en kjörtímabili lýkur er kosið í það embætti á næsta aðalfundi.
Kjörnefnd skal senda aðalfundarfulltrúum lista með nöfnum frambjóðenda eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
14. gr. Lagabreytingar
Lagabreytingatillögur skulu vera skriflegar og sendar stjórn eða starfsmanni ÖBÍ í síðasta lagi fjórum vikum fyrir aðalfund. Þær skulu sendar aðalfundarfulltrúum í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund.
Lagabreyting þarfnast samþykkis a.m.k. 3/4 hluta greiddra atkvæða.
15. gr. Ályktanir aðalfundar
Tillögur að ályktunum sem leggja á fyrir aðalfund, skulu vera skriflegar og sendar stjórn eða starfsmanni ÖBÍ fyrir aðalfund. Þær skulu sendar aðalfundarfulltrúum eins fljótt og kostur er.
Tillögum sem berast eftir að fundur er hafinn er hægt að koma á dagskrá aðalfundar með samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða
16. gr. Framhaldsaðalfundur
Framhaldsaðalfund er hægt að halda um mál sem ekki tekst að ljúka á aðalfundi. Hann skal haldinn svo fljótt sem verða má þó eigi síðar en fjórum vikum eftir frestun fundar.
Framhaldsaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál, sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
17. gr. Aukaaðalfundur
Stjórn bandalagsins getur boðað til aukaaðalfundar, þegar afar mikilvæg og óvænt mál ber að höndum. Stjórn er skylt að kalla saman aukaaðalfund ef tíundi hluti aðildarfélaga krefst þess skriflega og greini þau mál sem leggja á fyrir fundinn. Aukaaðalfundur getur aðeins fjallað um þau mál sem voru tilefni þess að fundurinn var boðaður.
Fundurinn skal kvaddur saman með eins skömmum fyrirvara og aðstæður frekast leyfa þó aldrei með styttri en einnar viku fyrirvara. Reglur um aðalfund skulu gilda eftir því sem við á.
4. kafli – Innra starf bandalagsins
18. gr. Stjórn
Stjórn samanstendur af nítján stjórnarmönnum: formanni, varaformanni, gjaldkera, sex formönnum fastra málefnahópa og tíu öðrum stjórnarmönnum. Stjórn er kosin á aðalfundi úr hópi aðalfundarfulltrúa sem boðið hafa sig fram til trúnaðarstarfa skv. 13. gr. Jafnframt skal aðalfundur kjósa þrjá varamenn sem hafa seturétt á stjórnarfundum. Stjórnarmenn sitja í umboði aðalfundar en ekki einstakra aðildarfélaga.
Meirihluti stjórnar skal skipaður fötluðu fólki eða aðstandendum fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu. Með fötlun er vísað til skilnings Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Formaður og varaformaður skulu vera fatlaðir einstaklingar eða aðstandendur fatlaðs fólks sem þarf aðstoð til að tala máli sínu.
Á oddatöluári skal kjósa formann, formenn fastra málefnahópa og þrjá stjórnarmenn. Á ári sem kemur upp á sléttri tölu skal kjósa varaformann, gjaldkera, sjö stjórnarmenn og þrjá varamenn. Fjöldi atkvæða ræður röð varamanna. Ef kjósa þarf varamann til skemmri tíma en tveggja ára, verður hann síðastur í röð varamanna.
Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.
Stjórn fer með æðsta vald bandalagsins á milli aðalfunda. Meginhlutverk stjórnar er að framfylgja lögum og stefnu bandalagsins. Meirihluti stjórnar ritar firma félagsins. Stjórn gerir starfssamning við formann.
Stjórnarfundir skulu haldnir a.m.k. átta sinnum á ári. Formaður boðar til stjórnarfunda með minnst viku fyrirvara nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Stjórnarfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað og meirihluti stjórnarmanna er mættur.
19. gr. Formannafundir
Formannafundir skulu haldnir minnst tvisvar á ári. Tilgangur formannafunda er að tryggja samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnar og aðildarfélaga.
20. gr. Framkvæmdastjóri
Stjórn ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri gagnvart stjórn og aðalfundi. Framkvæmdastjóri ræður aðra starfsmenn og gerir við þá ráðningarsamninga.
21. gr. Framkvæmdaráð
Innan bandalagsins skal starfa framkvæmdaráð. Framkvæmdaráð afgreiðir mál milli stjórnarfunda og leggur meiri háttar mál í hendur stjórnar. Þá getur stjórn einnig vísað málum til framkvæmdaráðs til frekari útfærslu og afgreiðslu.
Í ráðinu sitja formaður, varaformaður og gjaldkeri. Jafnframt skal stjórn tilnefna úr sínum röðum tvo aðalmenn og tvo varamenn. Varamenn geta sótt alla fundi framkvæmdaráðs og eiga rétt á öllum fundargögnum.
Heimilt er að boða framkvæmdastjóra á fundi framkvæmdaráðs. Framkvæmdastjóri hefur mál- og tillögurétt, en ekki atkvæðarétt.
22. gr. Stefnuþing
Stjórn skal boða til stefnuþings a.m.k. annað hvert ár með minnst tveggja mánaða fyrirvara. Stefnuþingið skal haldið á fyrsta ársþriðjungi. Hlutverk þess er að móta stefnu og áherslur í sameiginlegum hagsmunamálum. Stefnuþing sitja fulltrúar allra aðildarfélaga og eru skipaðir með sama hætti og aðalfundarfulltrúar, sbr. 10. gr.
Stefnuþing gerir tillögu til aðalfundar um stefnu og áherslur í starfi bandalagsins sem og hvaða föstu málefnahópar skulu starfa innan þess.
23. gr. Málefnahópar
Innan bandalagsins skulu starfa sex fastir málefnahópar. Hlutverk þeirra er að leggja fram tillögur í hagsmunamálum í samræmi við áherslur stefnuþings. Aðalfundur ákveður málefni þeirra eftir tillögu stefnuþings. Formenn þeirra skulu kosnir á aðalfundi.Hvert félag getur átt mest tvo formenn málefnahópa kjörna á aðalfundi á hverjum tíma.
Málefnahópur skal kjósa sér varaformann. Hverfi formaður málefnahóps úr embætti sínu tekur varaformaður hópsins við sem starfandi formaður fram að næsta aðalfundi. Hann tekur einnig sæti formanns málefnahópsins í stjórn en þó án atkvæðisréttar. Varamaður í stjórn tekur þá við atkvæðisrétti formanns málefnahópsins. Ákvæði síðasta málsliðar 1. mgr. á ekki við um starfandi formann.
24. gr. Laganefnd
Innan bandalagsins skal starfa laganefnd. Hún vinnur að lagfæringum og breytingum á lögum ÖBÍ.
5. kafli – Tekjur og uppgjör
25. gr. Tekjur bandalagsins og ráðstöfun þeirra
Reglulegar tekjur bandalagsins koma frá tengdum atvinnurekstri sem stuðlar að markmiðum bandalagsins, Íslenskri getspá, útleigu húsnæðis og aðildargjöldum.
Tekjum frá Íslenskri getspá skal varið samkvæmt lögum þar um. Öðrum tekjum skal ráðstafað í samræmi við hlutverk og markmið bandalagsins.
26. gr. Reikningsár og ársreikningar
Reikningsár bandalagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir ársreikningar skulu lagðir fyrir stjórn sem leggur þá fyrir aðalfund til fullnaðarafgreiðslu. Undirritaðir reikningar skulu liggja fyrir eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningar skulu sendir aðalfundarfulltrúum eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.
6. kafli – Önnur ákvæði
27. gr. Nánari framkvæmd
Stjórn er heimilt að setja reglur um nánari framkvæmd einstakra lagagreina og skulu þær birtar aðildarfélögum. Slíkar reglur skulu ávallt rúmast innan ramma viðkomandi greina og þessara laga.
28. gr. Slit bandalagsins
Bandalagið verður einungis lagt niður berist um það tillaga sem samþykkt er af meirihluta stjórnar. Tillagan skal kynnt við boðun næsta aðalfundar og þarf samþykki a.m.k. 3/4 hluta greiddra atkvæða.. Verði bandalagið lagt niður skal eignum þess varið í þágu fatlaðs fólks samkvæmt ákvörðun síðasta aðalfundar.
29. gr. Gildistaka
Lög þessi taka gildi við lok aðalfundar. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Öryrkjabandalags Íslands.