Skip to main content
SRFFStafrænt aðgengiUmsögn

Aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila

By 25. september 2025nóvember 7th, 2025No Comments
Mynd af lyklaborði og táknmyndum hreyfihamlaðs fólks, fólks með heyrnaskerðingu og blindra.

ÖBÍ réttindasamtök fagna áformum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um innleiðingu tilskipunar ESB 2016/2102 í íslensk lög. Aðgengilegar stafrænar lausnir eru forsenda þess að fatlað fólk geti nýtt sér þjónustu hins opinbera til jafns við aðra og eru í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF).

Almennar athugasemdir við frumvarpið

ÖBÍ telur frumvarpið lykilskref í átt að raunverulegu jafnrétti á sviði stafrænnar stjórnsýslu. Með lagasetningunni er tryggt að réttindi fatlaðs fólks séu ekki aðeins hluti af almennri stefnumótun heldur lagaleg skylda, með eftirliti og úrlausnarleiðum.

Í því samhengi vill ÖBÍ ítreka nauðsyn þess að vísa til Evrópustaðalsins EN 301 549 og annarra alþjóðlegra staðla (WCAG 2.2) í reglugerð, svo tryggt verði að krafan um aðgengi sé verði ekki túlkuð of þröngt eða feli í sér mismunandi túlkun eftir stofnunum. Eftirlit þarf að vera sjálfstætt, gagnsætt og með raunhæfum viðurlögum ef opinber aðili bregst skyldum sínum. Þá þarf að tryggja einfaldar kvörtunar- og úrlausnaleiðir fyrir almenning, svo notendur sem verða fyrir hindrunum geti leitað réttar síns án þess að þurfa að fara í langt ferli.

Allar breytingar á vefsetrum og smáforritum verður að þróa í nánu samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og notendur. Aðgengi er ekki hægt að meta einungis út frá tæknilegum stöðlum – raunveruleg notendaprófun er ófrávíkjanleg.

Þá er mikilvægt að hið opinbera tryggi fræðslu og stuðning við opinbera aðila, svo þeir hafi getu til að uppfylla kröfurnar. Á það sérstaklega við um útboðsferla og innkaup á lausnum. Að öðrum kosti er hætta á að lögin verði aðeins formlegt skjal, án raunverulegs ávinnings fyrir notendur.

Hvað varðar athugasemdir í greinargerð um tímabundin neikvæð áhrif á ríkissjóð er vert að hafa í huga þann kostnað sem nú þegar er fyrirhendi, það er að stór hluti fatlaðs og eldra fólks er ósjálfbjarga gangvart stafrænni stjórnsýslu, það á bæði við um kostnað hjá ríki og svietafélögum en ekki síður hjá aðstandendum og fötluðu fólki – sem verður af lögbundni þjónustu.

ÖBÍ styður heilshugar markmið frumvarpsins en leggur ríka áherslu á að lagasetningin verði ekki aðeins „rammalög“ á blaði. Hún þarf að tryggja raunveruleg réttindi með skýrum kröfum, eftirliti, úrræðum og virkri þátttöku notenda. Aðeins þannig verður hægt að tryggja jafnt aðgengi allra að stafrænum innviðum samfélagsins. ÖBÍ er reiðubúið til að eiga frekara samtal vegna málsins.

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ


Aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila
Mál nr. S-170/2025. Fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 25. september 2025