
ÖBÍ réttindasamtök fagna áformum stjórnvalda um breytingu á ýmsum lögum svo að hægt sé að byggja upp gagnagrunn til að tryggja að börn fái aðstoð um leið og þörf er á.
Þar sem um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar um nemendur er afar mikilvægt að þær upplýsingar sem skráðar eru séu réttar og að eingöngu þeir sem þess þurfa vegna hagsmuna barnsins hafi aðgang að þeim. Mikilvægt er að það komi skýrt fram hverjir hafa aðgang að þessum upplýsingum, hvaða upplýsingar um nemendur það eru sem haldið er utan um, hvort og hvernig hægt er að fá þeim breytt ef foreldri eða forráðamaður telur þær ekki réttar eða ef af einhverjum ástæðum vill ekki að haldið sé utan um þær.
Fötluð börn er einhver viðkvæmasti hópur barna sem til er og mikilvægt er að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga 90/2018 sé fylgt þegar haldið er utan um viðkvæmar persónuupplýsingar um þau og þær eru skráðar.
Málefni fatlaðra barna jafnt og ófatlaðra barna eru mikilvæg og því fagnar ÖBÍ allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ – réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ – réttindasamtaka
Áform um breytingu á ýmsum lögum (gagnagrunnur nemendaupplýsinga)
Mál nr. S-125/2025. Mennta- og barnamálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 6. ágúst 2025

