
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna áformum um þróun þjónustu við fólk með heyrnarskerðingu, sem lengi vel hefur verið í ólestri. ÖBÍ vill í fyrstu minna á að fólk með heyrnarfötlun er fjölbreyttur hópur og tengist jafnframt inn í aðra fötlunarhópa. Þannig er hópur fólks t.a.m. sem greindur er með talmein, hópur fólks sem er skilgreindur með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og svo DÖFF hópur auk þeirra sem eru metin með almenna heyrnarskerðingu. Þar sem um er að ræða fötlunarhópa teljum við að öll áform um breytingar á þjónustu eigi að skoða í samræmi við samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nú liggur fyrir frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er nú í þinglegri meðferð og bíður 2. umræðu
Hér um ræðir áform um frumvarp og því margt enn á huldu, en í þessari umsögn skal tæpt á því sem ÖBÍ telja mikilvægt að haft sé í huga við breytingar á þjónustu. Áformin koma í kjölfar vinnu starfshópa og skýrslu sem gefin var út í vor. ÖBÍ treystir á að áformin taki mið af því starfi sem fram hefur farið í starfshópi, en minnir jafnframt á að sá starfshópur hafði mjög afmarkað verkefni og voru til að mynda engir fulltrúar frá Fjólu – félags fólks með samþætta sjón og heyrnarskerðingu í hópnum, og þá var heldur ekki fjallað um talmein né rætt við fulltrúa þeirra sem eru með talmein og tjáskiptavanda. Það er mikilvægt að greina sérstaklega þjónustu fyrir þessa hópa áður en áformum er hrint af stað.
ÖBÍ tekur heilshugar undir umsögn Fjólu og minnir á að samþætt sjón- og heyrnarskerðing er skilgreind sem sérstök fötlun en ekki tvær mismunandi fatlanir og því brýnt að stjórnvöld sjái til þess að þeir sem eru með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu fái þjónustu hjá sömu stofnun en ekki sitthvorri stofnuninni.
ÖBÍ tekur einnig undir umsögn Heyrnarhjálpar um að þjónusta við einstaklinga með heyrnarskerðingu er margþætt eins og öll önnur þjónusta við fatlað fólk. Hún snýr að skimun, meðferðum, endurhæfingu og hjálpartækjum og því eðlilegt að hún fari fram á mismunandi stigum innan heilbrigðiskerfisins. Hér þarf að vanda til verka, tryggja samfellu í þjónustu, jafnt aðgengi óháð búsetu og tryggja þarf fjármagn til þess að þróa þjónustu á öllum stigum. Afleiðingar af ómeðhöndlaðri heyrnarskerðingu eru alvarlegar bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild – og eykur t.d. líkur á heilabilun. Það er því til mikils að vinna í því að innrétta nútímalega heilbrigðisþjónustu fyrir þennan hóp.
Heilbrigðiskerfið eitt og sér getur ekki sinnt þessum hópi og því mikilvægt að sú þjónusta og þekking sem ekki fellur undir heilbrigðisþjónustu, líkt og sérkennsla, sértæk endurhæfing og stoðtækni sé varðveitt – og þróuð í áframhaldandi samstarfi við hagsmunasamtökin. Til þess þarf öfluga stofnun sem einnig getur farið með framtíðarsýn í málaflokknum og þannig tryggt þjónustuna til frambúðar.
Líkt og Félag Heyrnarlausra bendir á þá nýtur íslenskt táknmál sérstakrar lagaverndar og er ein birtingarmynd DÖFF menningar. Hér á landi er hópur fólks sem elst upp með íslenskt táknmál sem móðurmál, og það þarf að hlúa að honum og þessu tungumáli, líkt og annarri menningu. Hér er mikið sóknarfæri til þess að skapa framsækna og fjármagnaða túlkaþjónustu sem tryggir heyrnalausum aðgengi að samfélaginu og tryggir framtíð íslenska táknmálsins á tækniöld. Það þarf að tryggja menntun og framboð af túlkum. Einnig þarf að treysta á lagaumhverfið í kringum túlkaþjónustu og virkja Evrópureglugerðir til þess að tryggja sambærilega þjónustu hér og löndunum í kringum okkur.
Það er að mörgu að huga þegar tekist er á við kerfisbreytingar á þjónustu við fatlað fólk. ÖBÍ ítrekar mikilvægi þess að fatlað fólk sé haft með í ráðum á öllum stigum. Þá á það ekki síður við um málefni heyrnarfötlunar, en sá hópur hefur því miður setið eftir í þróun þjónustu við fatlað fólk. En það er gríðarlegur ábyrgðarhluti að byggja upp framsækna og einstaklingsmiðaða þjónustu við þennan hóp sem glímir oft við mikla jaðarsetningu og þjónustuleysi. Við lýsum yfir varfærnum stuðningi við þessi áform og hlökkum til að taka þátt í áframhaldandi samtali um þróun þjónustunnar.
Ekkert um okkur án okkar.
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
stafrænn aðgengisfulltrúi ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um brottfall á lögum nr, 42/2007, um Heyrnar- og talmeinastöð
Mál nr. S-93/2025. Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 10. júní 2025

