Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurUmsögn

Áform um frumvarp til laga um brottfararstöð

By 5. ágúst 2025ágúst 18th, 2025No Comments

ÖBÍ leggst gegn því að heimilt verði að varðhaldsvista fatlað fólk og börn í brottfararmiðstöð.

» Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) er mótfallin varðhaldsvistunum barna, þ.m.t. barna á flótta.  Byggir sú afstaða m.a. á því að samkvæmt rannsóknum getur varðhaldsvistun barna, óháð ástæðum og aðbúnaði, valdið börnum skaða. Samkvæmt stofnuninni getur það aldrei talist barni fyrir bestu að vera varðhaldsvistað. » Lesa meira á vef UNHCR

» Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) er sömuleiðis mótfallið varðhaldsvistunum barna. Tekið er undir » umsögn UNICEF á Íslandi um þetta mál.

»Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna mælir einnig gegn varðhaldsvistun fatlaðs fólks.  Í leiðbeiningum stofnunarinnar um varðhaldsvistanir fólks á flótta segir að samkvæmt meginreglu ættu umsækjendur um alþjóðlega vernd með langvarandi líkamlega, andlega, vitsmunalega og skynræna skerðingu ekki að vera í varðhaldi.

» Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur nýlega gegnrýnt kanadísk stjórnvöld fyrir varðhaldsvistanir á fötluðum umsækjendum um alþjóðlega vernd og farendum og kallað eftir að þeim verði hætt.

ÖBÍ gagnrýnir að í þeim skjölum sem lögð hafa verið fram í tengslum við áformin er hvergi vísað til » Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningnum er  ætlað að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra og byggir á þeirri staðreynd að fötluðu fólki er hættara en öðrum við að sæta mannréttindabrotum. Í skjölunum er heldur ekki vísað til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013.

ÖBÍ gagnrýnir framsetningu málsins í umræðu um það á opinberum vettvangi. Umræðuna hefur mátt skilja sem svo að íslenska ríkinu sé skylt samkvæmt tilskipun 2008/115/EB að koma á fót sérútbúinni varðhaldsmiðstöð (e. specialised detention center). Að mati ÖBÍ felur tilskipunin ekki í sér slíka skyldu. Það sem raunverulega skiptir máli er að hætt verði þeirri framkvæmd sem nú er viðhöfð að vista umsækjendur um alþjóðlega vernd í fangelsum við óviðunandi aðstæður. Það sem tilskipunin áskilur hins vegar er að vægari úrræða sé ætíð leitað áður en notast er við varðhald hafi viðkomandi ríki ákveðið að fara þá leið að notast við varðhald. Þá er lögð áhersla í tilskipuninni á að tryggja, meðalhóf, mannúð og mannréttindi.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Áform um frumvarp til laga um brottfararstöð
Mál nr. S-138/2025. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 5. ágúst 2025


ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.