
Reuters
Með frumvarpi um málefni innflytjenda er lagt til að fjárhagsaðstoð sem nú er veitt skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 verði veitt af Vinnumálastofnun í stað sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsaðstoð til erlendra ríkisborgara sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Enn fremur er lagt til að aðstoðin verði takmörkuðu við einstaklinga sem fengið hafa vernd og þolendur mansals. Þá er lagt til að heimilt verði að skilyrða fjárhagsaðstoðina við að viðkomandi taki þátt í aðlögunaráætlun.
ÖBÍ telur að mismunun felist í því að fjárhagsaðstoð verði háð slíkum skilyrðum í tilviki þessara hópa en ekki annarra sem þarfnast slíkrar aðstoðar. Hafa ber í huga að skylt er að tryggja öllum lágmarksframfærslu skv. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem og jafnræði skv. 65. gr. hennar.
Þá telur ÖBÍ ekki geta komið til greina að skilyrða framfærsluaðstoð til fatlaðs fólks sem hefur takmarkaða getu til virkni á atvinnumarkaði. Á það bæði við um fatlað fólks sem fengið hefur vernd og aðra erlenda ríkisborgara sem hafa átt lögheimili skemur en tvö ár á Íslandi, en samkvæm áformunum á síðarnefndi hópurinn ekki að eiga rétt á fjárhagsaðstoð. Þá ber að horfa til þess að þau skilyrði sem sett eru geta verið óaðgengileg fötluðu fólki, t.d. íslenskunám í tilviki fólks sem ekki getur notað talmál.
Af áformunum er ennþá óljóst hvort með einstaklingum sem fengið hafa vernd sé hvort tveggja átt við flóttamenn skv. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og handhafa dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. lagnna. Yrði síðari hópurinn undanskilinn væri um mismunun að ræða.
ÖBÍ vill vekja athygli á að fatlaðir handhafar verndar á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga sæta í dag mismunun um framfærslu. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráninu í tryggingaskrá teljast „flóttamenn” tryggðir í íslenskum almannatryggingum frá komudegi til landsins. Í því felst m.a. að þeir geta sótt um örorkumat og eftir atvikum örorkulífeyri frá sama tíma. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála gildir undanþága ákvæðisins aðeins fyrir flóttamenn skv. 37. gr. laga um útlendinga. Þannig eigi undanþágan ekki við í tilviki þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd en er veitt dvalarleyfi skv. 74. gr. útl.
ÖBÍ gagnrýnir að í mati á áhrifum áformanna er hvergi vísað til Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Það er ljóst að fatlað fólk af erlendum uppruna er á meðal allra viðkvæmustu hópa samfélagsins.
Í Grænbók í málefnum innflytjenda og flóttafólks kemur m.a. fram að fyrir fötluðum innflytjendum liggji fleiri áskoranir en fötluðum innfæddum þar sem til viðbótar við áskoranir fötlunar þeirra bætist sértækar áskoranir sem stafi af stöðu þeirra sem innflytjendur. Sértæk staða fatlaðra innflytjenda og fjölskyldna þeirra felist oft í tungumálaáskorunum, þeir búi við veikt félagslegt bakland, séu líklegri til að vera úr hópi lágtekjufólks eða undir fátæktarmörkum og að upplýsingar um málefni er varði fötlun séu síður aðgengilegar.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd g virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um málefni innflytjenda
Mál nr. S-123/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 15. ágúst 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

