
Google maps
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn. ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.
ÖBÍ telur ljóst að vel flestir þeir einstaklingar sem munu verða fyrir áhrifum af áformunum verði þau að lögum geti talist til fatlaðra einstaklinga.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) telst til fatlaðs fólks m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Samkvæmt e) lið formálsorða SRFF viðurkenna aðildarríki hans að hugtakið fötlun er í þróun og að fötlun er afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra.
ÖBÍ leggja áherslu á að frelsissviptingar og nauðung fatlaðs fólks eru mannréttindabrot og allra leiða ber að leita til að draga úr beitingu þeirra. Þegar málefni varðar fatlað fólk jafn ríkulega og það mál sem hér er til umsagnar verður að gera mannréttindi fatlaðs fólks að grundvallar gildi í öllum undirbúningi og framkvæmd.
SRFF var fullgiltur af Íslands háflu árið 2016. Með fullgildingunni skulbatt ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum, reglum og viðeigandi framkvæmd í samræmi við samninginn.
ÖBÍ vill minna á að óskert löghæfi, sjálfsákvörðunarréttur og frelsi einstaklingsins eru á meðal grundvallar þátta í samningnum. Í tengslum við frumvarpið ber sérstaklega að hafa í huga 12. og 14. gr. samningins. Samkvæmt 12. gr. samningins viðurkenna aðildarríki hans að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.
Samkvæmt 14. gr. skulu aðildarríkin tryggja að fatlað fólk til jafns við aðra njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis. Þau séu ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum. Áskilið er að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu. Þá segir að sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samningsins, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.
Samningnum er ætlað að leiðbeina aðildarríkjum hans um hvernig megi draga úr beitingu nauðungar og frelsissviptinga í garð fatlaðs fólks. Mannréttindi þeirra sem áformin taka til verða því að vera meginmarkmið og grundvöllur lagasetningarinnar.
ÖBÍ tekur heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma um þetta mál í sameiginlegri umsögn Geðhjálpar og Þroskahjálpar.
ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls. ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Áform um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn
Mál nr. S-127/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 20. ágúst 2025

