Skip to main content
AlmannatryggingarKjaramálUmsögn

Almannatryggingar (eingreiðsla)

By 28. nóvember 2025No Comments

ÖBÍ réttindasamtök lýsa yfir stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar um að bæta í lög um almannatryggingar ákvæði um að greiðsluþegar sem hafa fengið greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða ellilífeyri eða fengið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur á árinu 2025 skulu fá eingreiðslu í desember.

ÖBÍ gerir alvarlega athugasemd við að ákvæðið nái einungis til lífeyristaka sem eru skráðir með lögheimili á Íslandi. Sambærilegar eingreiðslur fyrri ára náðu einnig til lífeyristaka með lögheimili erlendis. Ætlunin með frumvarpinu er að ná til tekjulægstu greiðsluþeganna samkvæmt lögum nr. 100/2002, um almannatryggingar og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Lífeyristakar með lögheimili erlendis fá einnig greiðslur samkvæmt þessum sömu lögum og hluti þeirra er í hópi tekjulægstu greiðsluþeganna.

Samkvæmt frumvarpinu tekur eingreiðslan ekki til einstaklinga sem fá greitt ráðstöfunarfé, sem heimilt er að greiða þegar örorku- eða ellilífeyrisgreiðslur falla niður vegna dvalar á stofnun hér á landi, sbr. 38. og 39. gr. laga um almannatryggingar. Ráðstöfunarfé er tekjutengt og á því einungis tekjulægsti hópur rétt á þessum greiðslum, en hámarksupphæð ráðstöfunarfés er 104.321 króna á mánuði fyrir skatt.

Sem fyrr segir er markmið frumvarpsins að tryggja tekjulægstu greiðsluþegunum eingreiðsluna. Engin málefnaleg rök eru færð fyrir því að tryggja eingreiðsluna ekki tekjulægstu greiðsluþegunum úr hópi þeirra sem hafa lögheimili utan Íslands eða þeirra sem fá greitt rástöfunarfé vegna dvalar á stofnunum. Kann frumvarpið að þessu leiti að fela í sér mismunun á grundvelli búsetu í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Einnig kann það að fara gegn ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 883/2004. Reglugerðin gengur út frá því að þeim sem njóta tekna úr almannatryggingakerfum sé frjáls för innan EES-svæðisins og gerir kröfu um að jafnræðis sé gætt.

ÖBÍ fagnar því að eingreiðslan er óskattskyld, eins og eingreiðslur fyrri ára og að eingreiðsla sú fá sömu hækkun (4,3%) og lífeyrir almannatrygginga fékk með fjárlögum 2025. Að lokum telur ÖBÍ að æskilegra væri að ákvæði um eingreiðslu yrði tekið upp í meginmál laganna í stað þess að vera til bráðabirgða.

Ekkert um okkur án okkar!

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Almannatryggingar (eingreiðsla)
236. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 28. nóvember 2025