
AdobeStock
Í 10. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árétta aðildarríki samningsins að sérhver manneskja eigi eðlislægan rétt til lífs og skulu aðildarríki gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið hans á árangursríkan hátt til jafns við aðra. Í samningum er einnig lögð rík áhersla á að fatlað fólk njóti löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum, sbr. einkum 12. gr. samningsins.
Í umfjöllun um málefni dánaraðstoðar hefur verið bent á sérstök sjónarmið hvað varðar fatlað fólk, m.a. af hálfu Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. (OHCR, 2021) Fyrst og fremst leggur ÖBÍ því áherslu á að í meðförum Alþingis á málinu verði sjónarmið er varða fatlað fólk virt í hvívetna og áhrif á það könnuð sérstaklega.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að framkvæmdar hafi verið kannanir á viðhorfi til dánaraðstoðar á Íslandi á meðal almennings, lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúklinga. Ekki virðast liggja fyrir upplýsingar um viðhorf fatlaðs fólks. ÖBÍ telur þörf á að sjónarmið fatlaðs fólks verði könnuð og lögð til grundvallar.
Um er að ræða vandmeðfarið og flókið mál sem krefst ítarlegrar og breiðrar umræðu. Þeim sem mæla fyrir tillögu um það ber að upplýsa yfirvöld, umsagnaraðila og þá sem efni tillögunnar kann að snerta um kosti þess og galla sem mest má. Meðal þess sem upplýsa má betur um að mati ÖBÍ er reynsla þeirra ríkja sem hafa heimilað dánaraðstoð, þ.m.t. hvað stöðu fatlaðs fólks varðar.
ÖBÍ leggur ríka áherslu á að verði tillagan samþykkt verði allra leiða leitað til að girða fyrir að lög sem kynnu að vera sett á grundvelli hennar verði til þess að fatlað fólk verði fyrir eða upplifi þrýsting um að óska dánaraðstoðar. Leggja ber áherslu á að undirstrika yfirráð fólks, þ.m.t. alls fatlaðs fólks, yfir eigin lífi og líkama.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Dánaraðstoð
23. mál, þingsályktunartillaga
Umsögn ÖBÍ, 8. desember 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

