Skip to main content
HeilbrigðismálMálefni barnaUmsögn

Drög að aðgerðaáætlun um bætta talmeinaþjónustu við börn 2026-2028

By 13. janúar 2026janúar 15th, 2026No Comments
„Talmeinafræðingur æfir munn- og andlitshreyfingar með ungum dreng fyrir framan spegil.“

„Þjónusta við börn og fullorðna með talmein og málþroskavanda hefur verið tilviljunarkennd og vanrækt til fjölda ára.“

ÖBÍ réttindasamtök hafa tekið til umfjöllunar aðgerðaáætlun um bætta talmeinaþjónustu við börn fyrir árin 2026–2028. Að mati ÖBÍ er áætlunin mikilvæg og tímabær. Áætlunin tekur á helstu áskorunum er varða aðgengi barna að talmeinaþjónustu.

Samráð við notendur

Samráð við notendur er grundvöllur velgengni í allri þróun heilbrigðisþjónustu. Að mati ÖBI á það sérstaklega við þegar um er að ræða málefni fatlaðs fólks, eins og fram kemur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem nú hefur verið lögfestur. Það vekur því furðu að við gerð þessarar aðgerðaráætlunar hafi hvorki verið haft samráð við ÖBÍ, né heldur aðildarfélög ÖBÍ sem hafa beinan snertiflöt við þennan tiltekna málaflokk. Þar má nefna til dæmis Málefli, Einhverfusamtökin og Fjólu.

Að mati ÖBÍ endurspeglar aðgerðaráætlunin skort á samráði við ÖBÍ og aðildarfélög sem hafa sérþekkingu á málefninu,og geldur áætlunin fyrir það.

Þegar kemur að því að bæta talmeinaþjónustu verður að skoða óhefðbundin tjáskipti og tjáskiptaleiðir sem byggjast á tæknilausnum. Þar hefur TMF tölvumiðstöð (TMF) sinnt lykilhlutverki í þekkingarmiðlun í áratugi, og því er það mikilvægt leita jafnframt til TMF hvað mótun framtíðarþjónustu í málaflokknum.

Tilviljunarkennd þjónusta

Þjónusta við börn og fullorðna með talmein og málþroskavanda hefur verið tilviljunarkennd og vanrækt til fjölda ára. Það er með öllu óskiljanleg nálgun að ekki sé lagt upp með í aðgerðaráætluninni að nýta þekkingu og þá reynslu sem fulltrúar notenda búa yfir. Þessi hópur er gríðarlega stór og fjölbreyttur og innan hans fyrirfinnast mjög afmarkaðir hópar sem hafa miklar sérþarfir. Það er forsenda framþróunar að tryggja þátttöku allra í breytingaferlum.

Skipulag þjónustu og ábyrgðarskipting

Í aðgerðaráætluninni er lagt upp með að farið verði yfir þjónustuþörf og ábyrgðarskiptingu, sem er mikilvægt. Að mati ÖBÍ á það ekki að hafa áhrif á þjónustuþega hvernig stjórnvöld ákveða að skipta þjónustu á milli sín, þ.e. milli ríkis og sveitarfélaga. Það eru ýmsar leiðir færar til að auka þjónustu. Það er gott markmið að tryggja meiri samfellu í þeim hluta talmeinaþjónustu sem snýr að heilbrigðiskerfinu, heilsugæslu og öðrum heilbrigðisstofnunum. Sú samfella ætti nú þegar að vera fyrir hendi.

Talmeinaþjónusta er ekki eingöngu heilbrigðisþjónusta, hún snýr m.a. að endurhæfingu, félagsfærni og mörgum öðrum þáttum sjálfstæðs og daglegs lífs. Hér má líta til Sjónstöðvarinnar sem gott fordæmi fyrir heildrænni þjónustu sem sinnt er í nærumhverfi með miðlægum hætti. Mestu máli skiptir að eiga virkt samtal við notendur til þess að tryggja jákvæða þróun.

Fjármögnun og framkvæmd

Það veikir gæði aðgerðaráætlunarinnar að nokkrar aðgerðir eru settar fram án kostnaðargreiningar eða skilgreindra fjárveitinga. Þessi aðgerðaráætlun er því áætlun en ekki fullburða aðgerðaskjal sem er fullfjármagnað.

Það er ábyrgðarhluti að stjórnvöld fari af stað með aðgerðaráætlun sem er vanfjármögnuð í þessum viðkvæma málaflokki sem hefur verið vanræktur allt of lengi.

Þetta er nefnt í ljósi þeirrar stöðu þar sem ríkisstofnanir ekki hafa sinnt lögbundnu hlutverki sínu innan málaflokksins, sökum fjárskorts. Dæmi um slíkt er að skráningu hefur ekki verið sinnt.

ÖBÍ lýsir sig reiðubúið til þess að taka þátt í samtali og samráði um þessa aðgerðaráætlun, bæði í heild og möguleika á því að taka þátt í einstökum aðgerðum.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Drög að aðgerðaáætlun um bætta talmeinaþjónustu við börn 2026-2028 | Samráðsgátt | Mál: S-262/2025
Heilbrigðisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 13. janúar 2026