
GettyImages
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um drög að frumvarpi til laga um réttindavernd fatlaðs fólks. Mál nr. S-186/2025. ÖBÍ réttindasamtök eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.
1. ÚRVEL verði falin verkefni undanþágunefndar
Helstu athugasemdir ÖBÍ varða þennan hluta frumvarpsins. ÖBÍ ítrekar áður framkomnar athugasemdir við þau áform að leggja niður undanþágunefnd og fela Úrskurðarnefnd velferðarmála verkefni hennar. ÖBÍ telur að mestu máli skipti að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt þegar mál sem heyrt hafa undir undanþágunefnd eru annars vegar. Þau miklu vandamál sem verið hafa í tengslum við nauðung verða ekki leyst með því einu að auka skilvirkni í ákvarðanatöku. Verði af þessum áformum leggur ÖBÍ áherslu á að tryggð verði fullnægjandi þekking innan ÚRVEL svo mannréttindi fatlaðs fólks verði gætt til hins ítrasta.
ÖBÍ telur að tryggja verði betur en verið hefur fjölbreytta þekkingu sérfræðiteymis, þ.m.t. þekkingu á mannréttindum og hugmyndafræði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Einnig verði að tryggja aðkomu fatlaðs fólks að ferli ákvarðanatöku um undanþágu frá nauðung. Minnt er á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr., SRFF skulu aðildarríkin, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningnum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks.
2. Að leggja niður réttindavakt skv. 3. gr. laganna
ÖBÍ leggur áherslu á að verði réttindavaktin lögð niður, gangi áform um útvíkkun á verkefnum samráðsnefndar skv. 36. gr. laga nr. 38/2018 eftir. Tryggja verður að til staðar verði áhrifaríkur vettvangur fyrir eftirlit með réttundum fatlaðs fólks í hinum víðasta skilningi. ÖBÍ ítrekar áður framkomna athugasemd um að með brottfalli réttindavaktarinnar fellur aðkoma Háskóla Íslands að slíku eftirliti niður, og leggja samtökin til að aðkoma fræðasamfélagsins verði tryggð.
3. Hlutverk réttindagæslu fyrir fatlað fólk og sýslumanna
ÖBÍ ítrekar hve mikilvægt er að réttindagæslan sinni áfram stuðningi við fatlað fólk á einstaklingsgrundvelli. Minnt er á að fatlað fólk á í mun meiri hættu en aðrir á að verða fyrir mannréttindabrotum, misnotkun og ofbeldi. Nauðsynlegt er að með löggjöf og í framkvæmd sé ætíð stuðlað að því að tryggja fötluðu fólki réttindi og vernd til jafns við aðra. ÖBÍ hvetur stjórnvöld til að tryggja ætíð nægt fjármagn til að réttindagæslan geti sinnt þessu hlutverki af fullum mætti.
Hvað hlutverk sýslumanna varðar leggur ÖBÍ áherslu á að gengið verði úr skugga um að hjá embættunum sé í hvívetna unnið samkvæmt hugmyndafræði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að tryggt verði að starfsfólk sýslumanna fái fræðslu um samninginn og málefni fatlaðs fólks.
4. Umboðsmenn
ÖBÍ telur ný ákvæði um umboðsmenn til mikilla bóta. ÖBÍ lýsir þó þeirri afstöðu sinni að hið opinbera eigi ávallt að leggja áherslu á að finna leiðir til að tryggja jafnan aðgang að stafrænum lausnum, sbr. 9. gr. SRFF.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Drög að frumvarpi til laga um réttindavernd fatlaðs fólks
Mál nr. S-186/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 10. október 2025

