
AdobeStock
ÖBÍ réttindasamtök hafa áhyggjur af því að reglugerðardrögin um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum, eins og þau liggja fyrir tryggi ekki nægilega réttindi, aðgengi og jafnræði allra barna.
Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem nú hefur verið lögfestur af Alþingi, eiga fötluð börn rétt á menntun án mismununar, þar sem tekið er mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra. ÖBÍ bendir á að reglugerðin leggur megináherslu á samræmi og samanburð, án þess að kveða skýrt á um að jafnræði náist með aðlögun.
Í 8. gr. þingsályktunartillögunnar er fjallað um stuðning við nemendur. ÖBÍ telur orðalag greinarinnar of veikt og matskennt. Stuðningur við fötluð börn má ekki byggjast á heimild eða undanþágu, heldur er hann lögbundinn réttur, sbr. SRFF.
ÖBÍ leggur áherslu á að:
- skýrt komi fram að fatlaðir nemendur eigi rétt á nauðsynlegri aðlögun og stuðningi við samræmt námsmat,
- stuðningur skuli vera einstaklingsmiðaður og ákveðinn í samráði við barnið sjálft, foreldra eða aðra aðstandendur og viðeigandi fagfólk,
- stuðningur taki mið af fjölbreyttum þörfum.
ÖBÍ lýsir áhyggjum af því að undanþágur (9. gr.) frá samræmdu námsmati séu settar fram án þess að fullreynd hafi verið viðeigandi aðlögun. Slík framkvæmd getur leitt til kerfisbundinnar útilokunar fatlaðra barna og er í andstöðu við markmið um þátttöku og inngildingu.
ÖBÍ bendir á að krafa um rafrænt námsmat kalli á skýrar og bindandi kröfur um aðgengi. Í reglugerðinni skortir ákvæði sem tryggja að rafræn próf séu aðgengileg öllum nemendum, óháð fötlun.
ÖBÍ hefur verulegar áhyggjur af því að birting niðurstaðna eftir skólum og sveitarfélögum geti skapað hvata til að draga úr þátttöku fatlaðra barna í samræmdu námsmati eða beita undanþágum í stað raunverulegrar aðlögunar.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum
Mál nr. S-6/2026. Mennta- og barnamálaráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 19. janúar 2026

