Skip to main content
AlmannatryggingarAtvinnumálHeilbrigðismálUmsögn

Drög að reglugerð um samþætt sérfræðimat

By 15. ágúst 2025ágúst 20th, 2025No Comments
Karlmaður með stoðfót við störf í timburverksmiðju.“

„ÖBÍ vill vekja athygli á því að skilgreiningin á hjálpartækjum er enn of þröng samkvæmt lögum“

Það er von ÖBÍ að framkvæmd á einstaklingsbundnu og heildrænu mati á getu fólks til virkni á vinnumarkaði verði farsæl og feli í sér framför hvað varðar mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Það er í höndum stjórnvalda að tryggja að svo megi verða.

Við framkvæmd á samþættu sérfræðimati ber að leggja til grundvallar hugmyndafræði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skilgreiningu samningsins á fötlun. Samkvæmt e-lið formálsorða samningsins viðurkenna aðildarríki hans að hugtakið fötlun er í þróun og að fötlun er afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra. Stjórnvöld bera mesta ábyrgð þegar kemur að því að tryggja fötluðu fólki fulla og árangrusríka samfélagsþátttöku og mannsæmandi lífsskilyrði.

ÖBÍ leggur áherslu á að umhverfisþáttum og persónubundnum þáttum verði gefið fullt vægi við framkvæmd matsins og að læknisfræðilegir þættir verði ekki ráðandi líkt og nú er.

ÖBÍ vill vekja athygli á því að skilgreiningin á hjálpartækjum er enn of þröng samkvæmt lögum og byggir enn á læknisfræðilegri nálgun. Fólk fær ekki úthlutað hjálpartækjum til atvinnuþátttöku. Eitt af megin markmiðum laga nr. 104/2024 er að skapa hvata fyrir fólk með skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku. Markmiðum laganna verður ekki náð að fullu nema einnig verði gerðar breytingar á hjálpartækjalöggjöfinni og viðhorfi gagnvart hjálpartækjum af hálfu stjórnvalda breytist. Það er ljóst að aukin atvinnuþátttaka fólks skilar sér í hagkvæmni og samkvæmt því er rétt að líta á hjálpartæki sem fjárfestingu fremur en útgjöld.

Ólíkt B- og D- þáttum samkvæmt viðauka við drögin fylgir E- þáttum enginn kvarði til að lýsa mismunandi stigum. Ekki hafa komið fram skýringar á hvers vegna sá munur er gerður og hvort munur verður á framkvæmd mats á B- og D- þáttum annars vegar og E- þáttum hins vegar. ÖBÍ telur þörf á að upplýst verði um þetta nánar.

ÖBÍ kallar einnig eftir skýringum á því hvers vegna matslið um samfélagsþátttöku, félagslíf og borgaralega aðild (D9) var sleppt í þeim drögum sem hér eru til umsangar.

ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að reglugerð um samþætt sérfræðimat
Mál nr. S-110/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 15. ágúst 2025


ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.