Skip to main content
AlmannatryggingarAtvinnumálUmsögn

Drög að reglugerð um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur

By 15. ágúst 2025ágúst 20th, 2025No Comments
„Barnshafandi kona situr á Pilates-reformer tæki með æfingabolta við bakið og heldur á Pilates-hring.“

„Dæmi eru um að aðstæður tengdar meðgöngu kvenna hamli því að þær geti stundað endurhæfingu. Raunar virðist ÖBÍ sem við núverandi framkvæmd missi konur í slíkri aðstöðu allan rétt á endurhæfingarlífeyri“

Inngangur

ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum. Í þessari umsögn eru gerðar ýmsar athugasemdir við reglugerðardrög um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur sem samtökin telja mikilvægt að ráðuneytið takið til skoðunar. Þá telja samtökin sum atriði þarfnast frekari skýringa.

Almennar athugasemdir

ÖBÍ telur að í núverandi framkvæmd upplifi fólk of mikla óvissu tengda rétti til endurhæfingar og endurhæfingarlífeyris og að óvíst sé hvort reglugerðadrögin séu til þess fallin að leysa þann vanda. Nokkuð algengt er að fólk fái synjanir á umsóknum sínum um endurhæfingarlífeyri þrátt fyrir að hafa fengið endurhæfingaráætlun frá fagaðila. ÖBÍ telur mikilvægt að reynt verði að tryggja samræmi og þekkingu innan kerfisins til að fækka slíkum tilvikum verulega. Þá er það reynsla ÖBÍ að oft eigi fólk í erfiðleikum með að átta sig á hver er viðeigandi aðili til að leita til varðandi gerð endurhæfingaráætlunar. Í samræmi við markmið laga nr. 104/2024 um að taka betur utan um notendur kerfisins en nú er leggur ÖBÍ til að úr þessu verði bætt, t.d. með bættri upplýsingagjöf eða aðkomu samhæfingarteymis.

Ekki kemur fram í reglugerðardrögunum hve reglulega þarf að endurnýja endurhæfingaráætlanir. ÖBÍ hvetur til þess að dregið verði úr því álagi sem fylgir ítrekuðum endurnýjunum. Það væri í samræmi við markmið laga nr. 104/2024 um að stuðla að framfærsluöryggi og létta álagi af notendum kerfisins.

Athugasemdir við einstakar greinar reglugerðardraganna

Athugasemdir við 7. gr.

Í 7. gr. segir að viðhaldsmeðferð eða skaðaminnkandi meðferð teljist ekki til viðurkenndrar meðferðar samkvæmt reglugerðinni og geti því ekki verið grundvöllur sjúkra- og endurhæfingargreiðslna. ÖBÍ gerir alvarlega athugasemd við þetta. Nauðsynlegt er að ráðuneytið færi fram skýringar á því hvað nákvæmlega er átt við með viðhaldsmeðferðum eða skaðaminnkandi meðferðum í þessu samhengi. Að mati ÖBÍ eru mörg dæmi um slíkar meðferðir sem eðlilegt er að telja til endurhæfingar og eru til þess fallnar að auka líkur á atvinnuþátttöku.

Athugaemdir við 8. gr.

Í 8 gr. segir að ef einstaklingur, sem hefur þegið sjúkra- og endurhæfingargreiðslur á meðan hann bíður eftir því að meðferð eða endurhæfing hefjist, hefur ekki meðferð eða endurhæfingu í kjölfarið, þrátt fyrir að eiga kost á því, fái ekki greiddar sjúkra- og endurhæfingargreiðslur að nýju fyrr en hann hefur meðferðina eða endurhæfinguna. Að mati ÖBÍ er nauðsynlegt að bæta málslið við þetta ákvæði þess efnis að ef gildar ástæður eru fyrir því að einstaklingurinn hóf ekki meðferð eigi hann þó rétt á greiðslum.

Á meðal markmiða með sjúkra- og endurhæfingargreiðslum skv. lögum nr. 104/2024 var að tryggja samfellu sjúkra- og endurhæfingargreiðslna á öllu tímabilinu þegar fólk er á biðtíma eftir þjónustu eða of veikt fyrir endurhæfingu til að stuðla að framfærsluöryggi. Í því sambandi er mikilvægt að tekið verði skýrt fram að ef einstaklingur sem hefur hafið endurhæfingu verður ófær um að ástunda endurhæfingu áfram vegna heilsubrests eigi ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar við með sama hætti og ef viðkomandi gat ekki hafið endurhæfingu í upphafi.

Í tengslum við framangreint vill ÖBÍ nefna að dæmi eru um að aðstæður tengdar meðgöngu kvenna hamli því að þær geti stundað endurhæfingu. Raunar virðist ÖBÍ sem við núverandi framkvæmd missi konur í slíkri aðstöðu allan rétt á endurhæfingarlífeyri. ÖBÍ telur að í slíkum tilvikum geti konur þurft á greiðslunum að halda og þörf sé á að tryggja þann rétt.

Athugaemdir við 9. gr.

Í 9. gr. segir að almennt skuli miða við að heilsubrestur eða fötlun valdi því að hlutaðeigandi geti hvorki stundað vinnu né nám. Að mati ÖBÍ þarf að skýra betur hvað hér er átt við í tengslum við hugtakið fötlun. Eins og fram kemur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fötlun afsprengi samspils milli fólks með skerðingar annars vegar og umhverfis og viðhorfa hins vegar sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra.

Samkvæmt 9. gr. skilyrði að nám verði að vera líklegt til að auka líkur á endurkomu á vinnumarkaði til að það geti talist liður í endurhæfingu eða viðurkenndri meðferð. Að mati ÖBÍ er þörf á að upplýsa nánar hvernig mati á því verður háttað.

ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBí


Drög að reglugerð um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur
Mál nr. S-111/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
Umsögn ÖBÍ, 15. águst 2025