
Hafnarfjörður / Adobe Stock
ÖBÍ réttindasamtök fagna breytingum í drögum að nýrri reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fasteignasjóður gegnir mikilvægu hlutverki við að jafna stöðu sveitarfélaga og styðja við uppbyggingu og aðlögun húsnæðis og mannvirkja sem nýtt eru í þjónustu við fatlað fólk.
Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og brýnt að reglurnar séu í góðu samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem var lögfestur á Alþingi 12. nóvember, sérstaklega hvað varðar aðgengi, sjálfstætt líf, samfélagsþátttöku og jafnræði óháð búsetu. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Sjóðurinn veiti framlög til endur- og úrbóta
Æskilegt er að það komi skýrt fram að Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga styrki ekki nýframkvæmdir, enda eigi þær að uppfylla kröfur mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar um algilda hönnun og aðgengi fyrir alla. Sjóðnum sé ætlað að bæta aðstöðu og aðgengi að mannvirkjum sem teljast óaðgengileg fötluðu fólki, að einhverju leyti eða öllu, vegna takmarkana í löggjöf þess tíma sem þau voru reist.
Kaup og uppsetning á lyftu
ÖBÍ fagnar ákvæði 4. gr. í drögunum sem heimilar úthlutun til sveitarfélaga vegna kaupa og uppsetningar lyftu í húsnæði í eigu sveitarfélaga eða í byggingum í eigu annarra aðila, þar sem um er að ræða samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila. Sveitarfélög sinna fjölbreyttum lögbundnum hlutverkum og mikilvægt er að allir íbúar geti sótt þjónustu í því húsnæði þar sem hún er veitt.
Í lögum nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að eitt af markmiðum laganna sé að tryggja aðgengi fyrir alla og í byggingarreglugerð er gerð krafa um að gerð sé grein fyrir atriðum er varða aðgengi og algilda hönnun. Á það við um allar byggingar ætlaðar almenningi, svo sem opinberar stofnanir, samkomuhús, skrifstofuhús, sundlaugar, íþróttamiðstöðvar og skólabyggingar, þar á meðal frístundaheimili.
Vert er að árétta að hugmyndafræði algildrar hönnunar og aðgengis fyrir alla nær til þessara mannvirkja, óháð því hvort byggingin sé sérstaklega ætluð til búsetu eða atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
Framlag sjóðsins verður að hámarki 5.000.000 kr., sem mun létta undir með sveitarfélögum. Bent er þó á að kostnaður við kaup og uppsetningu lyftu er mjög hár og að þörf gæti verið á að hækka framlagið til að mæta raunverulegum kostnaði.
ÖBÍ leggur til að innviðaráðuneytið auglýsi þessa nýju heimild vel og hvetji sveitarfélög til að sækja um styrki til að stuðla að bættu aðgengi íbúa um land allt.
Fjölbreyttar búsetugerðir fatlaðs fólks
Samkvæmt 3. gr. reglugerðardraganna er Fasteignasjóði heimilt að úthluta samtals 464 milljónum króna í sérstök framlög, sem nema allt að 50% af heildarkostnaði tiltekinna framkvæmda sem lúta að úrbótum á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða í byggingum í eigu annarra aðila, þar sem um er að ræða samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila, á árunum 2025–2026.
Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir hvað varðar búsetu og þjónustu. Sumir eiga eða leigja húsnæði á almennum markaði á meðan aðrir leigja íbúðir hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum eða sveitarfélögum, bæði í sértækum búsetuúrræðum og í almennum félagslegum leiguíbúðum.
Samkvæmt viðbótarsvari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá Degi B. Eggertssyni um félagslegar leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga eiga sveitarfélögin samanlagt um 5.287 félagslegar leiguíbúðir í öllum flokkum. Þótt skilyrði fyrir leigu á almennum félagslegum leiguíbúðum geri ekki kröfu um fötlun eða örorkumat umsækjenda, er hlutfall fatlaðra leigjenda með örorkumat í slíkum íbúðum nokkuð hátt í sumum sveitarfélögum.
Með lögfestingu SRFF hvílir ríkari lagaleg skylda til að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum og þjónustu sem er opin eða veitt almenningi, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Dæmi eru um að fatlað fólk hafi ekki fengið úthlutað lausri félagslegri leiguíbúð í eigu sveitarfélags vegna þess að íbúðin var ekki aðgengileg.
ÖBÍ óskar eftir staðfestingu frá innviðaráðuneytinu á því hvort heimild í 3. gr. a. reglugerðardraganna, sem heimilar styrki vegna úrbóta á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga, gildi einnig um almennar félagslegar leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga. Ef ekki, leggur ÖBÍ til að í reglugerðinni verði sérstaklega kveðið á um heimild Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til að úthluta framlögum til sveitarfélaga vegna endurbóta á almennu leiguhúsnæði í þeirra eigu, í samræmi við hugmyndafræði algildrar hönnunar og aðgengis fyrir alla.
Fatlað fólk býr í eigin húsnæði eða á almennum leigumarkaði í óhentugu og óaðgengilegu húsnæði. Það er því líklegra til að þurfa félagslega aðstoð við athafnir daglegs lífs, sem það gæti sinnt betur ef heimilið væri betur lagað að þörfum þess. Styrkir til aðlögunar og breytinga á húsnæði í einkaeigu eru ekki til staðar hér á landi og því lítið hægt að gera m.t.t. til úrbóta.
ÖBÍ leggur til að heimilað verði að úthluta styrkjum til þessa samkvæmt e-lið 2. gr. reglugerðardranna, sem heimilar allt að 30% framlagi Fasteignasjóðs af heildarkostnaði verkefna sem falla vel að hlutverki sjóðsins en falla þó ekki undir aðra liði 2. gr.
Aðgengilegir vinnustaðir
Nýtt örorkulífeyriskerfi tók gildi 1. september síðastliðinn og mun meðal annars stuðla að fjölgun fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Með breytingunni gefst ríki og sveitarfélögum tækifæri til að verða leiðandi í inngildingu fatlaðs fólks í atvinnulífið og vera fyrirmynd fyrir fyrirtæki í einkaeigu.
Óaðgengileg hönnun húsnæðis og nærumhverfis þrengir verulega að tækifærum fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku, aðgengis að þjónustu og þátttöku í samfélaginu. Því miður hafa hvorki ríki né sveitarfélög gengið fram með góðu fordæmi í þessum efnum og hvetur ÖBÍ báða aðila til þess að gera betur og sýna þar með áhuga og vilja.
ÖBÍ óskar eftir staðfestingu frá innviðaráðuneytinu á því hvort heimild í 3. gr. a, sem heimilar styrki vegna úrbóta á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga, gildi einnig um almennt atvinnuhúsnæði í eigu sveitarfélaga. Ef ekki, leggur ÖBÍ til að í reglugerðinni verði kveðið á um heimild Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til að úthluta framlögum til sveitarfélaga vegna endurbóta á almennu atvinnuhúsnæði í þeirra eigu, í samræmi við hugmyndafræði algildrar hönnunar og aðgengis fyrir alla.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Drög að reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Mál nr. S-4/2026. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 22. janúar 2026

