Skip to main content
AtvinnumálUmsögn

Drög að reglugerð um vinnumarkaðsúrræði

By 15. ágúst 2025ágúst 19th, 2025No Comments

„fram til þessa hefur ekki tekist að tryggja fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu vinnu við hæfi og getu, þar hafa stjórnvöld ekki sýnt gott fordæmi“

Inngangur

Stefnt hefur verið að gerð þessarar reglugerðar um vinnumarkaðsúrræði frá því lög nr. 104/2024 voru samþykkt 22. júní 2024 sem fólu í sér umfangsmiklar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga. Einn megin tilgangur laganna var að auka atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu. Því miður er það mat ÖBÍ að drögin að reglugerðinni séu ekki í samræmi við það sem stefnt var að við gerð frumvarps að ofangreindum lögum og að drögin uppfylli ekki tilgang laganna. Að mati ÖBÍ fela drögin hvergi nærri í sér fullnægjandi stuðning við fatlað fólk til atvinnuþátttöku.

Í frumvarpi að lögum nr. 104/2024 kom fram að mikilvægt væri að efla forvarnir sem komið gætu í veg fyrir brotthvarf af vinnumarkaði, að fjölga virkum vinnumarkaðsaðgerðum og stuðningsúrræðum fyrir fólk með mismikla starfsgetu, þ.m.t. með endurskoðun reglna sem gilda um vinnusamninga öryrkja. ÖBÍ fær ekki séð að verið sé að leggja til fjölgun vinnumarkaðsaðgerða og stuðningsúrræða heldur fremur úrfærslu fyrirliggjandi úrræða.

Athugasemdir við einstakar greinar reglugerðardraganna

Athugasemdir við greinar í II. kafla

Í 8. gr. er fjallað um möguleika atvinnuleitenda á að fá vinnu hjá frjálsum félagasamtökum. ÖBÍ saknar þess að þessi möguleiki standi fólki með skerta getu til virkni á vinnumarkaði ekki til boða. Að mati ÖBÍ væri um að ræða mjög góða leið til að auka möguleika fólks á að verða virkt á ný eftir áföll, slys eða sjúkdóma. Því leggur ÖBÍ til að fólki með skerta getu til virkni á vinnumarkaði verði gefinn kostur á að vinna fyrir frjáls félagasamtök. Að sama skapi telur ÖBÍ að búferlastyrkur skv. 9. gr. gæti nýst einstaklingum sem nýta vinnumarkaðsaðgerðir vegna skertrar getu til virkni á vinnumarkaði.

Athugasemdir við 10. og 11. gr.

Í 10. grein er fjallað um styrk vegna ráðningar atvinnuleitanda sem á rétt á örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar. Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi atvinnurekanda sem nemur fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Heimilt verði að greiða styrk skv. 2. mgr. fyrstu tvö ár atvinnuleitanda í starfi. Að þeim tíma liðnum lækkar hlutfall styrksins um 10% með 12 mánaða millibili þar til 25% lágmarksendurgreiðsluhlutfalli er náð. Vinnumálastofnun verði þó heimilt að miða tímabundið við 50% lágmarksendurgreiðsluhlutfall ef geta atvinnuleitanda til virkni á vinnumarkaði hefur að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar minnkað á gildistíma samnings.

Í 11. gr. er fjallað um styrk vegna ráðningar atvinnuleitanda sem á rétt á hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar. Vinnumálastofnun verði heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi atvinnurekanda sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta í allt að 12 mánuði. Ef um er að ræða örorkulífeyrisþega á hann rétt á að fá 75% af föstum launun en ekki hærri en hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta sem nema kr. 575.246. Ef um er að ræða greiðsluþega sem á rétt á hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingagreiðslum er Vinnumálastofnun heimilt að greiða styrk til handa hlutaðeigandi atvinnurekanda sem nemur fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta sem er 364.895 kr.

Engar skýringar fylgja drögunum um hvers vegna þessi mikli munur er gerður á greiðslu styrkja annars vegar til þeirra sem eiga rétt á örorkulífeyri og hins vegar þeirra sem eiga rétt á hlutaörorku eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslum. Svo virðist sem stefnt sé að því að skapa meiri hvata fyrir atvinnurekendur til að ráða til vinnu einstaklinga sem eiga rétt á fullum örorkulífeyri fremur en þá sem eiga rétt á hlutaörorku og sjúkra- og endurhæfingargreiðslum, n.t.t. lægri greiðslur til atvinnuveitenda og skemmri greiðslutími. Sem fyrr segir er lagt til að greiða megi styrk vegna fyrr nefnda hópsins í 24 mánuði en þess síðarnefnda aðeins 12 mánuði. Að mati ÖBÍ eru 12 mánuðir langt frá því að vera fullnægjandi og ekki í þeim anda sem frumvarpið og kynningar á breytingum á örorkulífeyriskerfinu boðuðu.

Að mati ÖBÍ fela drögin hvergi nærri í sér þann stuðning sem fólk sem metið verður með hlutaörorku og fólk í endurhæfingu þarf á að halda. Einn meginn tilgangurinn með lögum nr. 104/2024 var að skapa hvata fyrir þessa hópa til þátttöku á atvinnumarkaði. Ef ekki stendur til að tryggja betri stuðning fyrir hópinn er veruleg hætta á að markmiðum laganna verði ekki náð. ÖBÍ kallar eftir því að tillögurnar verði teknar til endurskoðunar með það í huga.

Þá er tekið undir þau sjónarmið í umsögn Þroskahjálpar um þetta mál að fyrir hóp fólks feli tillögur 11. gr. reglugerðardraganna í sér afturför frá núverandi úrræðum. Að öllu framangreindu virtu styður ÖBÍ að óbreyttu ekki drögin.

Athugasemdir við 12. gr.

Í 12 gr. er fjallað um heimild Vinnumálastofnunar til að gera samning við atvinnurekendur um vinnustaðaþjálfun atvinnuleitenda sem eiga rétt á örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda telst þjálfunin vinnumarkaðsúrræði skv. b- eða d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Markmið samningsins yrði að viðkomandi atvinnuleitandi fái tækifæri til að þjálfa sig og undirbúa fyrir frekari þátttöku á vinnumarkaði.

Gildistími samnings um vinnustaðaþjálfun skv. 1. mgr. getur að hámarki verið þrír mánuðir og er óheimilt að framlengja gildistíma samningsins vegna sama atvinnuleitanda. Um leið og ÖBÍ fagnar þessum möguleika er það mat samtakanna að gildistími slíks samnings sé of stuttur og leggur til að gildistíminn verði sex mánuðir í stað þriggja. Meginrökin fyrir þessari tillögu að lengri gildistíma er sú að atvinnuleitendur sem eiga rétt á örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslum er fjölbreyttur hópur með fjölbreyttar áskoranir og þar á meðal þeirra eru nýjar áskoranir og aðstæður á vinnustöðum. Til að auka möguleika til þess að festa sig betur á vinnustað og fara í langtímaráðningasamband, telur ÖBÍ nauðsynlegt að fólk fái lengri tíma til að ná utan um nýjar áskoranir og aðstæður.

Athugasemdir 15. gr.

ÖBÍ er mótfallið því að fólk með skerta starfsgetu verði beitt viðurlögum eins og mælt er fyrir um í 15. gr. ÖBÍ telur að jákvæðir hvatar til atvinnuþátttöku fremur en viðurlög til þess fallna að ná markmiðum með lögum nr. 104/2024.

Aðrar athugasemdir

ÖBÍ telur mikilvægt að Félags- og húsnæðismálaráðuneytið komi á stuðningi við að tryggja viðeigandi aðlögun vinnustaða í þágu fatlaðra einstaklinga sem þess þarfnast. Í mörgum tilvikum getur slíkur stuðningur vera forsenda fyrir því að einstaklingurinn geti fengið starf. Stuðningurinn gæti m.a. verið í formi sjóðs sem gerir atvinnurekendum kleift að sækja um styrk til að láta slíkar ráðningar verða að veruleika.

Þá vill ÖBÍ ítreka að taki reglugerðin að óbreyttu gildi þá eru þær aðgerðir sem boðaðar voru í kjölfar þeirra breytinga sem eiga sér stað á örorkulífeyriskerfinu ekki í samræmi við meginmarkmið laga nr. 104/2024 og þær kynningar á breytingunum sem fram hafa farið. Að óbreyttu yrði ekki allt fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu betur sett en það var fyrir breytingar.

Þá er vert að nefna að fram til þessa hefur ekki tekist að tryggja fötluðu fólki og fólki með skerta starfsgetu vinnu við hæfi og getu, þar hafa stjórnvöld ekki sýnt gott fordæmi. Ljóst er að fleira fólk mun fara á hlutaörorku en örorku hvar upphaflegt markmið var að auka hvata til atvinnuþátttöku. Að óbreyttu munu framangreind ákvæði reglugerðardraganna ekki verða við því með þeim afleiðingum að áfram mun fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu lifa í óvissu og óöryggi.

ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ

Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBí


Drög að reglugerð um vinnumarkaðsúrræði
Mál nr. S-109/2025. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 15. ágúst 2025


ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.