Skip to main content
RéttarkerfiSRFFUmsögn

Drög um breytingar á almennum hegningarlögum (öryggisráðstafanir)

By 12. október 2025október 17th, 2025No Comments

ÖBÍ telur líklegt að flestir þeir einstaklingar sem munu verða fyrir áhrifum af frumvarpi um breytingu á almennum hegningarlögum , verði það að lögum, teljist til fatlaðra einstaklinga. ÖBÍ leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að á öllum stigum málsins verði horft til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Ástæða þess að ráðist var í gerð samningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var sú staðreynd að fatlað fólk nýtur síður réttinda sinna, þ.m.t. grundvallar mannréttinda, en fólk almennt. Samningnum er því ætlað að stuðla að því að jafna þann mun.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. SRFF skulu aðildarríkin tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra, njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis og sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er, skuli fötlun ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu. Samkvæmt 2. mgr. skulu aðildarríkin tryggja fötluðu fólk sem svipt er frelsi sínu á einhvern hátt mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og tryggja að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samningsins, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

ÖBÍ er reiðubúið til samráðs og samvinnu á öllum stigum þessa máls. Minnt er á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr., SRFF skulu aðildarríkin, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningnum til framkvæmda og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks. Áskilinn er réttur til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að frumvarpi til laga um breytinga á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (öryggisráðstafanir)
Mál nr. S-184/2025. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 12. október 2025