
ÖBÍ réttindasamtök styðja markmið tillögunnar um endurskoðun á skipulagi leik-, grunn- og framhaldsskóla um að bæta menntakerfið og styrkja þjónustu við börn og fjölskyldur. Tillagan miðar að því að efla aðgengi, stuðning og jöfnum tækifærum. ÖBÍ telur þó brýnt að við vinnuna verði sérstaklega gætt að réttindum og þörfum fatlaðra barna, sem eru einn viðkvæmasti hópurinn innan menntakerfisins.
Í dag stendur stór hluti fatlaðra barna frammi fyrir hindrunum í námi, skorti á stuðningi, og takmörkuðu aðgengi. Mikilvægt er öll vinna og breytingar verði í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
ÖBÍ leggur áherslur á eftirfarandi:
-
- Að tryggt verði að öll skólastig hafi fagþekkingu og aðgengi fyrir fötluð börn.
- Einstaklingsmiðaðar námsleiðir, námskrá verður að tryggja aðlögun, sveigjanleika og fjölbreyttar námsleiðir.
- Símalausir skólar, þó markmiðið sé gott verður að tryggja að börn sem nota síma/spjaldtölvur sem hjálpartæki eða samskiptatæki séu undanþegin.
- Mikilvægt er að tryggja að það fjármagn sem fylgir hverjum nemanda taki mið af stuðningsþörf hvers og eins.
- Að við endurskoðun kennaramenntunar verði sérkennslufræði og inngildandi kennsluhættir gert að skyldunámi í grunnmenntun kennara.
Ekkert um okkur án okkar!
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Endurskoðun á skipulagi leik-, grunn- og framhaldsskóla
10. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 27. nóvember 2025

