
„Fólk með hreyfihömlun lifir við ýmiss konar hindranir í umhverfinu og þegar rýma þarf húsnæði eða sveitarfélag vegna yfirvofandi hættu þarf það að vita af því að viðbragðsaðilar viti af því og geti hjálpað því í öruggt skjól“
1. Inngangur
Það er staðreynd að fatlað fólk er í meiri hættu á að láta lífið og verða fyrir skaða á líkama og sál en fólk almennt þegar neyðarástands skapast. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er fatlað fólk um fjórfalt líklegra til að láta lífið en almennt gerist þegar neyðarástand skapast.
Til að hægt sé að bregðast rétt við á hættustundu þarf að liggja fyrir áfallaþol svæða og byggða. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og því þarf að gæta sérstaklega að þeim íbúum sem eru viðkvæmastir í slíkum aðstæðum. Þar má nefna börn, aldraða og fatlað fólk. Aðstæður og þarfir fatlaðs fólks eru ýmis konar og því þarf að gæta sérstaklega að því. Sum búa á stofnunum eða í félagslegum íbúðum, sum nýta sér félagsþjónustu sveitarfélags síns en það er langt frá því að vera algilt.
Fatlað fólk reynir að lifa sem sjálfstæðustu lífi en í neyðaraðstæðum er það öðrum frekar háð aðstoð. Mörg alþjóðleg dæmi eru um að fatlað fólk verði hamförum að bráð vegna óaðgengilegra flóttaleiða og þess að ekki var hægt að ná til þess í tæka tíð.
Reynslan sýnir að geta viðbragðsaðila til að koma fötluðu fólki hratt og örugglega til aðstoðar er takmörkuð. Ekki er nægilega gert ráð fyrir því í áætlunum, viðbragðsaðilar fá ekki nægilega þjálfun í að koma því til bjargar, búnaði er ábótavant auk þess sem þekking á staðsetningu og aðstæðum fólks er oft lítil sem engin.
Það þurfa að vera til viðmið svo að öll viðbrögð og skilaboð viðbragðsaðila í aðdraganda hamfara, í hamförum og að þeim loknum, séu með þeim hætti að öllum íbúum viðkomandi samfélags finnist að því sé borgið á öllum stigum og sé það í raun.
Fólk með hreyfihömlun lifir við ýmiss konar hindranir í umhverfinu og þegar rýma þarf húsnæði eða sveitarfélag vegna yfirvofandi hættu þarf það að vita af því að viðbragðsaðilar viti af því og geti hjálpað því í öruggt skjól. Sum eru háð öruggri rafmagnstengingu vegna notkunar rafrænna hjálpar- eða lækningartækja, t.d. öndunarvéla. Fólk með skerta sjón eða heyrn getur átt erfitt með að taka á móti tilkynningum og því þar að tryggja að þær séu í aðgengilegu formi fyrir öll. Fólk með þroska- eða skynræna hömlun getur átt erfitt með að átta sig á leiðbeiningum og skort getu til að bregðast sjálfstætt við. Það getur einnig átt erfitt með að átta sig á skyndilegum breytingum á umhverfi þess sem raska venjum. Áætlanir þurfa að liggja fyrir um hvernig hægt sé koma til móts við það.
2. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er að lögfesta samninginn. Ástæða þess að ráðist var í gerð samningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var sú staðreynd að fatlað fólk nýtur síður mannréttinda en fólk almennt.
Samkvæmt 11. gr. SRFF skulu aðildarríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttindalögum, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir. ÖBÍ lítur svo á að slíkar ráðstafanir felist m.a. í því að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks við gerð laga, reglugerða og áætlana. Í tengslum við neyðaraðstoð þarf að auki að taka tillit til ýmissa annarra ákvæða samningsins.
3. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins
3.1. Um skilgreiningu á hugtakinu viðbragðsáætlun sbr. 12. tl. 3. gr.
Í skilgreiningu á hugtakinu Viðbragðsáætlun í 12. tl. 3. gr. frumvarpsins segir að í viðbragðsáætlun sé m.a. fjallað um sérstöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu. Í athugasemd við ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu segir að um sé að ræða nýmæli frá núgildandi lögum. Enn fremur segir að slíkir hópar séu viðkvæmari en aðrir fyrir því að verða fyrir skaða eða mismunun og kunna þar af leiðandi að lenda í lakari stöðu vegna ýmissa þátta eins og félagslegra, efnahagslegra og landfræðilegra aðstæðna eða líkamlegs ásigkomulags. Þessir hópar geta staðið frammi fyrir aukinni áhættu, haft takmarkaðan aðgang að úrræðum eða tækifærum og þurfa sérstakan stuðning og vernd til að tryggja velferð sína og jafna þátttöku í samfélaginu. Viðkvæmir hópar geta verið mismunandi eftir samhengi en sem dæmi má nefna börn, aldraða, fatlað fólk og fólk sem talar ekki íslensku o.s.frv.
ÖBÍ telur jákvætt að með frumvarpinu sé stigið skref í átt að því að taka ríkara tillit til fatlaðs fólks. ÖBÍ telur þó að vísa beri sérstaklega til fatlaðs fólks í þessu sambandi og að ekki nægi að fella fatlað fólk undir viðkvæma hópa. Ákvæði SRFF kveða sérstaklega á um að tryggja beri mannréttindi fatlaðs fólks og í 11. gr. er kveðið á um mannréttindi fatlaðs fólks í tengslum við neyðarástand. Þessu sjónarmiði er m.a. haldið á lofti í skýrslu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna um 11. gr. SRFF. Er þar vísað til þess að við gerð SRFF hafi verið horfið frá því að fella fatlað fólk undir viðkvæma hópa og mannréttindamiðuð nálgun samningsins undirstrikuð. ÖBÍ leggur því til að efni 11. gr. SRFF verði tekið upp í frumvarpið.
3.2. Um 11. gr. Samráðshópur ríkislögreglustjóra
Í 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um samráðshóp ríkislögreglustjóra. Ekki er gert ráð fyrir hagsmunasamtökum fatlaðs fólks þar á meðal. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. SRFF skulu aðildarríki samningsins hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd við ákvarðanatöku varðandi málefni fatlaðs fólks. Með vísan til þess og fyrrnefndrar 11. gr. samningsins telur ÖBÍ rétt að hagsmunasamtök fatlaðs fólks, þ.m.t. ÖBÍ, ættu aðild að samráðshópnum.
3.3. Um 38. gr. Aðgengi fjölmiðla og samstarf
Í 38. gr. frumvarpsins segir: “Í almannavarnaástandi skulu viðbragðsaðilar leitast við að tryggja aðgengi og samstarf við fjölmiðla í þágu upplýsingagjafar og miðlunar upplýsinga til almennings.“ Að mati ÖBÍ er ekki fullnægjandi að „leitast við“ að tryggja öryggi. Fólk með skerta sjón eða heyrn, auk annarra, getur átt erfitt með að taka á móti tilkynningum, enda þarf að gæta þess að þær séu í aðgengilegu formi fyrir öll. Þess hefur ekki alltaf verið gætt fram til þessa. Það nægir ekki að leitast við að tryggja aðgengi. Það verður að tryggja aðgengi.
3.4. Um 44. gr. Almenn borgaraleg skylda við almannavarnir
Samkvæmt 4. mgr., 44. gr. frumvarpsins getur einstaklingur verið undanþeginn borgaralegri skyldu í þágu almannavarna sé heilsufari hans, eða annars einstaklings sem hann ber ábyrgð á, svo háttað að öryggi og/eða heilsu hans, eða aðila sem hann ber ábyrgð á, stefnt í sérstaka hættu. Að mati ÖBÍ tryggir orðalag ákvæðisins ekki að fatlað fólk sé undanþegið og leggur áherslu á að úr því verði bætt.
4. Ýmis réttindi fatlaðs fólks sem tryggja þarf í tengslum við almannavarnir
Í þessum kafla eru talin upp ýmis atriði sem taka verður tillit til varðandi stöðu fatlaðs fólks í tengslum við almannavarnir. ÖBÍ vekur jafnframt athygli á nýlegri yfirlýsingu nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem birt var 10. september 2024. Nefndin starfar á grundvelli SRFF og hefur eftirlit með framkvæmd samningsins. Í yfirlýsingunni ákallar nefndin aðildarríki samningsins að tryggja tiltekin réttindi fatlaðs fólks í hamförum sem þar eru tiltekin.
4.1. Samráð og aðkoma fatlaðs fólks
▪ Tryggja þarf aðkomu fatlaðs fólks við gerð laga, reglna og viðbragðsáætlana og samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sbr. 3. mgr. 4. gr. SRFF.
4.2. Réttindi fatlaðs fólks
▪ Fatlað fólk verður að njóta jafnréttis á við aðra við framkvæmd neyðaraðstoðar, sbr. 5. gr. og 11. gr. SRFF.
▪ Tryggja þarf viðeigandi aðlögun þegar við á, sbr. 3. mgr. 5. gr. SRFF, sbr. skilgreiningu viðeigandi aðlögunar í 2. gr. SRFF. Þ.m.t. þarf að tryggja nauðsynleg hjálpartæki, lyf og persónulegan stuðning, þ.m.t. aðstoðarfólk þegar það á við.
▪ Tryggja þarf studda ákvarðanatöku í stað staðgengilsákvarðanatöku, sbr. 12. gr. SRFF. Það er að fötluðu fólki sé gert kleift að taka eigin ákvarðanir, eftir atvikum með stuðningi, í stað þess að ákvarðanir séu teknar fyrir það.
▪ Tryggja þarf að stuðningur við sjálfstætt líf fatlaðs fólks rofni ekki, sbr. 19. gr. SRFF.
4.3. Aðgengi
▪ Upplýsingar, þ.m.t. tilkynningar og viðvaranir, verða að vera aðgengilegar fötluðu fólki. Hér er m.a. vísað til þeirra sem notast við táknmál, punktaletur, textun, auðskilið mál o.fl.
▪ Húsnæði, þ.m.t. fjöldahjálparmiðstöðvar og neyðarskýli, þurfa að vera aðgengileg fötluðu fólki. Hér er m.a. vísað til hjólastólaaðgengis, hljóð- og sjónrænna leiðbeininga sem og skynræns aðgengis. Sama á við um bifreiðar og annan búnað sem notaður er við neyðaraðstoð, m.a. til flutninga á fötluðu fólki, lækninga- og hjálpartækja.
4.4. Þekking og fræðsla
▪ Til staðar þurfa að vera upplýsingar og þekking um þarfir ólíkra hópa fatlaðs fólks. Áætlanir þurfa að innihalda skýrar leiðbeiningar um hvernig taka eigi tillit til fatlaðs fólks.
▪ Lögregla og annað björgunarfólk þarf að fá þjálfun í hvernig eigi að koma til móts við þarfir ólíkra hópa fatlaðs fólks.
▪ Tryggja þarf að til staðar séu upplýsingar um fatlaða einstaklinga á svæðum sem neyðaráætlanir taka til sem og upplýsingar um sérstakar þarfir þeirra.
5. Lokaorð
ÖBÍ réttindasamtök hafa í hátt á þriðja ár átt gagnlega fundi með Almannavörnum og fleiri aðilum sem koma að almannavarnaáætlunum og -aðgerðum. Ekki var leitast eftir samráði við ÖBÍ við gerð frumvarpsins. Að ósk ÖBÍ áttu samtökin fund með lögfræðingi Dómsmálaráðuneytisins og komu skriflegum athugasemdum á framfæri.
ÖBÍ minnir á að í 3. mgr. 4. gr. SRFF segir að við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samningsins og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. ÖBÍ er reiðubúið til samráðs, ráðgjafar og samvinnu á öllum stigum málsins. Frekari athugasemdum verður komið á framfæri gerist þess þörf.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Frumvarp til laga um almannavarnir
Mál nr. S-114/2025. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 15. ágúst 2025
ÖBÍ réttindasamtök eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

