
ÖBÍ réttindasamtök taka undir að efla þurfi sveitarstjórnarstigið þannig að sveitarfélög geti sinnt lögbundnum verkefnum og þjónustu við íbúa, auk þess að styrkja lýðræðislegt hlutverk þeirra.
Í 4. gr. sveitarstjórnarlaga er viðmiðið um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum 1.000 manns, svo þau teljist sjálfbær og geti annast lögbundin verkefni. Samkvæmt tölum frá Byggðastofnun fyrir árið 2024 eru 29 af 62 sveitarfélögum með íbúa undir 1.000. Þrjú fámennustu sveitarfélögin hafa 52 og 53 íbúa. Þetta endurspeglar mikinn breytileika í burðum, sérhæfingu og getu og kallar á skýrari sameiginleg viðmið, gagnsæi og aðhald þannig að þjónusta ráðist ekki af búsetu.
Eitt mikilvægasta lögbundna verkefni sveitarfélaga er þjónusta við fatlað fólk. ÖBÍ leggur áherslu á að sveitarfélög og þjónustusvæði um land allt hafi skýrar og uppfærðar reglur, virkt samráð og stjórnsýslulega og fjárhagslega burði til að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu óháð póstnúmeri. ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Sameiginleg samráðsgátt sveitarfélaga
Mörg vandamál sem fatlað fólk mætir í dag eiga rætur sínar að rekja í því að ákvarðanir eru teknar, og reglugerðum breytt án samráðs við þau sem málið varðar. Þrátt fyrir að reglur sveitarfélaga hafi víðtæk áhrif á daglegt líf íbúa, sérstaklega fatlað fólk sem treysta á lögbundna þjónustu, er samráð á sveitarstjórnarstigi almennt ómarkvisst og misjafnt.
Reynslan sýnir að þar sem virkt samráð hefur verið viðhaft, t.d. í skipulagsmálum, eykst bæði gæði ákvarðana og traust almennings. Reykjavíkurborg hefur sett á fót samráðsgátt sem að sumu leyti er til fyrirmyndar, en notkun hennar í velferðartengdum málum er mjög takmörkuð þar sem aðeins örfá mál hafa farið þar í gegnum umsagnarferli síðan árið 2023. Flest sveitarfélög landsins bjóða hins vegar enga slíka leið fyrir íbúa eða samtök til að leggja inn umsagnir um fyrirhugaðar reglur, samþykktir eða áætlanir.
Til að tryggja jafna og lýðræðislega aðkomu leggur ÖBÍ til að stofnuð verði ein miðlæg samráðsgátt sveitarfélaga, rekin undir yfirstjórn innviðaráðuneytis, þar sem allar reglugerðir, samþykktir, þjónustu- og verklagsreglur sem vísað er áfram úr sveitarstjórn til nefnda, ráða eða sviða, verði birtar áður en þær taka gildi.
Slík gátt myndi skapa samræmda og gagnsæja ferla fyrir allt sveitarstjórnarstigið og tryggja að almenningur, þjónustunotendur og hagsmunasamtök geti tekið virkan þátt í mótun reglna sem snerta líf þeirra. Hún myndi jafnframt styðja við ákvæði 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um þátttöku fatlaðs fólks í ákvarðanatöku og við ákvæði 10. og 14. gr. sveitarstjórnarlaga um lýðræðislega þátttöku íbúa. ÖBÍ leggur til að í sveitarstjórnarlög verði kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að nýta slíka samráðsgátt. Gáttin ætti að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Lágmarks samráðstími verði þrjár vikur, með skýrum kynningargögnum á auðlæsilegu máli.
- Aðgengiskröfur í samræmi við WCAG staðallinn (auðlæsiform, skjálesanleiki, og hljóðyfirlestur).
- Svörunarskylda þar sem birt er yfirlit yfir umsagnir og hvernig tekið var tillit til þeirra.
Að mati ÖBÍ myndi sú nálgun fella samráð inn í réttindagrundvöll stjórnsýslunnar í stað þess að það sé einungis valkvætt eða háð vilja einstakra sveitarfélaga. Hún myndi jafnframt styðja við valdeflingu og upplýsingajafnræði milli íbúa, sveitarstjórna og ríkis.
Uppfylla ekki skyldur sínar í gerð reglna
Frumkvæðisathugun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) frá febrúar 2025 sýnir að víða skortir sveitarfélög grundvallarreglur og uppfærðar verklagsheimildir um stoð- og stuðningsþjónustu. Aðeins sex sveitarfélög voru með allar reglur uppfærðar og í samræmi við lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í einstaka tilvikum giltu reglur frá 2011 eða jafnvel 2006.
Þessi staða vekur djúpstæðar áhyggjur af þjónustuöryggi fatlaðs fólks. Reglur sveitarfélaga eru ekki formsatriði, þær eru réttindatæki sem eiga tryggja að einstaklingar geti treyst á jafna og fyrirsjáanlega þjónustu. Þegar reglur eru úreltar eða vantar með öllu, er hætta á að þjónustan verði handahófskennd og byggi á ólíkum túlkunum eða fjárhagslegu svigrúmi hverrar sveitarstjórnar. Þetta leiðir til þess að réttindi fatlaðs fólks ráðast í reynd af póstnúmeri, sem brýtur gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og 5. gr. laga nr. 38/2018, sem kveður á um rétt til þjónustu í heimabyggð.
Ríkisendurskoðun hefur einnig bent á að styrkja þurfi innra eftirlit og að beita lögbundnu frumkvæðiseftirliti markvissar, þar sem þjónustuveitendur og sveitarfélög hafa ekki tryggt nægjanlegt aðhald eða gæðastýringu. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur ríka áherslu á að ríki og sveitarfélög hafi virkt og sjálfstætt eftirlit með framkvæmd réttinda, og að samtök fatlaðs fólks séu þátttakendur í því ferli samkvæmt 33. gr. samningsins.
ÖBÍ telur því nauðsynlegt að í 9. kafla sveitarstjórnarlaga verði skýrt kveðið á um reglulegt eftirlit með gildandi reglum sveitarfélaga og samræmi þeirra við lögbundnar skyldur, sérstaklega á sviði félagsþjónustu og þjónustu við fatlað fólk. Slíkt eftirlit þarf að vera sýnilegt og markvisst, með árlegum úttektum, birtingu niðurstaðna og skýrum kröfum um úrbætur innan tiltekins frests. Það er forsendan fyrir því að réttindi verði ekki háð getu einstakra sveitarfélaga, heldur verði tryggð um land allt. ÖBÍ leggur áherslu á að við framkvæmd slíks eftirlits verði notast við stöðluð matsviðmið sem byggjast á aðgengi, jafnræði, gagnsæi og valdefling þjónustunotenda.
Eftirlit ráðherra — beiðni um skýringar á framkvæmd
Í svörum ráðuneytis í greinargerð frumvarpsins varðandi umsögn ÖBÍ kemur fram að ekki sé talið tilefni til að tilgreina sérstaklega í 110. gr. laganna reglubundið eftirlit ráðherra með reglum sveitarfélaga, þar sem slíkt eftirlit sé þegar heimilt samkvæmt 109. gr.
ÖBÍ virðir það sjónarmið en telur nauðsynlegt að tryggt sé að eftirlitið verði framkvæmt í reynd, sérstaklega þar sem nýjustu úttektir sýna að sveitarfélög uppfylla ekki lagaskyldur um reglur og verklag. Ef ekki erkveðið á um slíkt eftirlit með skýrum hætti eða það útfært með reglugerð, er hætta á að eftirlitið verði ómarkvisst og ósýnilegt.
ÖBÍ óskar því eftir svörum um eftirfarandi atriði:
- Hvernig verður það tryggt að almennt eftirlit verði framkvæmt reglubundið með þjónustureglum sveitarfélaga og samræmi þeirra við lög nr. 38/2018 og nr. 40/1991?
- Verður sett fram verklagsregla eða árleg skýrsla um niðurstöður eftirlits, þar sem birt eru helstu frávik og ábendingar um úrbætur?
- Hvernig verður tryggð aðkoma samtaka fatlaðs fólks og annarra hagsmunaaðila að forgangsröðun, framkvæmd og eftirfylgni eftirlits, í samræmi við 33. gr. SRFF?
- Hvaða úrræði og tímamörk verða fyrir hendi þegar alvarleg frávik eða réttindabrestur koma í ljós, svo tryggt sé að einstaklingar þurfi ekki sjálfir að sækja rétt sinn með endurteknum kærum og kvörtunum?
Skýr framkvæmd eftirlits er forsenda þess að réttindi og þjónusta ráðist ekki af innri burðum einstakra sveitarfélaga heldur verði tryggð jafnt um allt land.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011
Mál nr. S-180/2025. Innviðaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 13. október 2025

