Skip to main content
Málefni barnaMenntamálUmsögn

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (miðlægur nemendagrunnur)

By 19. nóvember 2025nóvember 20th, 2025No Comments
Frá 1. maí 2023. Fólk á Arnarhóli með spjöld. Mægður með kröfuspjald með lógói ÖBÍ og textanum: Fötluð börn eru líka börn.

Frumvarpið miðar aðallega að því að bæta þjónustu við nemendur og styrkja stefnumótun og ákvörðunartöku í menntamálum. ÖBÍ fagnar allri markvissri vinnu sem stuðlar að velferð og velsæld barna, jafnt fatlaðra og ófatlaðra.

Það eru ýmis atriði sem þarf að hafa í huga til að tryggja réttindi barna og þá sérstaklega fatlaðra barna sem eru sérstaklega viðkvæmur hópur. ÖBÍ – réttindasamtök leggur áherslu á að:

1.

Tryggt verði að forráðamenn hafi aðgang að öllum upplýsingum sem skráðar eru í miðlægan gagnagrunn.

2.

Tryggt verði öryggi upplýsinganna og að skýrar og strangar reglur verði settar um hverjir hafi aðgang að þessum upplýsingum og hvernig þeim er deilt. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða nemendur með sérúrræði eða fatlanir þar sem upplýsingarnar sem eru skráðar kunna að vera viðkvæmar persónuupplýsingar.

3.

Samræming verði á upplýsingum um nemendur á landsvísu, þannig að staðreyndir um stöðu, námsframvindu og stuðning sem viðkomandi börn fá séu bæði áreiðanlegar og aðgengilegar fyrir þau sem bera ábyrgð á þjónustu og stuðningi. Ef miðlægi gagnagrunnurinn er áreiðanlegur og samræmdur, þá verður auðveldara fyrir skóla og sveitarfélög að tryggja að börn með sérþarfir fái viðeigandi stuðning og úrræði.

4.

Áhersla verði lögð á að kerfið verði ekki nýtt til að draga úr þjónustu eða aðlögun fyrir börn. Ef upplýsingar eru ekki meðhöndlaðar á réttan hátt, getur það leitt til að einstaklingar verða útskúfaðir eða að þeim séu ekki tryggð þau réttindi sem þeim ber samkvæmt lögum. Það þarf því að vera viðeigandi eftirlit með því hvernig upplýsingar um nemendur eru notaðar og deilt innan kerfisins.

Ekkert um okkur án okkar!

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Andrea Valgeirsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka


Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (miðlægur nemendagrunnur)
Mál nr. S-227/2025. Mennta- og barnamálaráðuneytið [Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála] Umsögn ÖBÍ, 19. nóvember 2025