
Kvikmyndin Snerting var sýnd í Bíó Paradís í ágúst 2024 með sjónlýsingu á íslensku fyrir þau sem eru blind eða sjónskert.
ÖBÍ réttindasamtök fagna öllum tilraunum til þess að styrkja stöðu íslenskunar. Að geta beitt móðurmálinu, í starfi og leik, er grundvöllur aðgengis og forsenda þess að fólk geti notið sín í samfélaginu.
Samkvæmt Samningi sameinuðu þjóðana um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) merkir „mismunun á grundvelli fötlunar“ hvers konar greinarmun útilokun eða takmörkun á grundvelli fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi séu viðurkennd, þeirra sé notið eða þau séu nýtt, á jafnréttisgrundvelli, á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála og menningarmála, sem borgari eða á öðrum sviðum. Hugtakið tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, þ.m.t. þegar fötluðu fólki er neitað um viðeigandi aðlögun. Enn fremur segir í 9. gr. SRFF:
„Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu. […] Aðildarríki skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.“
Það mikilvægt að benda á að auk íslensku þá er íslenskt táknmál opinbert tungumál á Íslandi og á bæði að njóta verndar og vera hluti af menningarlegri þróun. Að því sögðu er það borðleggjandi að íslensku táknmáli verði bætt við sem fjárfestingarkosti í fjárfestingu í íslenskri menningu fyrir streymisveitur.
Aðgengismál hafa því miður verið lengi í ólestri í íslenskum menningariðnaði, þar sem lítið er um að efni sé aðlagað að þörfum fatlaðs fólks, hvort sem um ræðir sjónlýsingar, textun, táknmál eða auðskilið mál. Það er skylda stjórnvalda að tryggja að ekki sé mismunað á grundvelli fötlunar.
ÖBÍ bendir á að hægt er að setja inn aðgengiskröfur sem viðmið um fjárfestingu, og gæti textun og sjónlýsingar á íslensku verið hluti af henni, en flestar streymisveitur bjóða í dag upp á þessar aðgengisþjónstur á öðrum tungumálum.
Í þessu samhengi má einnig nefna auðlesið mál sem nýtist fjölbreyttum hópifólks og er grundvallaratriði þegar kemur að aðgengi fólks með þroskahömlun. Það er tilvalið að hafa sérstakt viðmið um fjárfestingu í efni á auðlesnu máli á íslensku.
Hér er ekki átt við að allt efni eigi að standast allar kröfur, enda fer það mikið til eftir inntaki og formgerð hverju sinni. Hér er um að ræða úrræði sem hægt er að beita og beina fjárfestingu inn í þennan annars vanrækta málaflokk, til hagsbóta fyrir öll.
Að sama skapi væri eðlilegt að innlend framleiðsla þyrfti að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur um aðgengi fyrir öll til þess að njóta opinberra styrkja. Á þann hátt væri þesss að auka aðgengi fyrir fólk með fötlun að innlendu sem og erlendu efni á íslensku.
Ekkert um okkur – án okkar!
Virðingarfyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir,
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar,
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna
Mál nr. S-174/2025. Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 24. október 2025

