Skip to main content
Stafrænt aðgengiUmsögn

Frumvarp um breytingu á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (Hljóðbókasafn og Kvikmyndasafn)

By 18. desember 2025janúar 5th, 2026No Comments
Hljóðnemi og manneskja bakvið hann, úr fókus

Hljóðbókasafn Íslands sinnir gífurlega mikilvægu hlutverki í samfélagi sem setur síauknar kröfur á færni fólks og getu. ÖBÍ hvetur ráðuneytið til þess að vernda þessa þjónustu og þróa í takt við þarfir notenda, en ekki draga úr og takmarka, til hagsbóta fyrir öll.

ÖBÍ réttindasamtök fagna yfirlýsingu þess efnis að auka eigi aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum, þó erfitt sé að ætla að verði raunin með áformum um lagasetningu sem hér eru til umsagnar: breyting á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (Hljóðbókasafn og Kvikmyndasafn).

Í 21.gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) skulu aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir til þess tryggja aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum. Ákvæðið er áminning um auknar skyldur ríkja gagnvart fötluðu fólki til þess að tryggja almenn réttindi til þátttöku, skoðana – og tjáningarfrelsis oger aðgengi að upplýsingum m.a. grundvöllur þess. Er því um hornstein lýðræðis að ræða og mikilvægt að vanda til verka.

Prentleturshömlun er alvarleg áskorun í samfélagi sem treystir fyrst og fremst á hið ritaða orð, og það er mikil hætta á að þeir hópar sem ekki geta nýtt sér prentað letur einangrist á öllum sviðum samfélagsins. Hér er einnig undir aðgengi að námi, vinnu, lýðræðislegri þátttöku og virku tómstundalífi.

Það er ámælisvert að hvergi sé gerð grein fyrir því í áformunum hvernig þau samræmast SRFF og hvaða áhrif þau hafi á jafnan rétt fatlaðs fólks.

ÖBÍ telur fyrst mikilvægt að koma eftirtöldum atriðum á framfæri:

  • Hljóðbókasafn Íslands er ekki bókasafn í hefðbundum skilningi, hér er um að ræða stofnun sem sinnir aðgengisumbroti fyrir skilgreindan hóp fatlaðs fólks.
  • Hljóðbókasafn Íslands sinnir ekki varðvörslu hlutverki sbr. Kvikmyndasafn, leikmunasafn o.s.frv.
  • Hljóðbókasafn Íslands sinnir ekki rannsóknarstarfi, það er ekki opið fræðimönnum og miðlar ekki til almennings.
  • Hljóðbókasafn Íslands á sér einstaka sögu, sem þjónusta sem er þróuð af fötluðuPage 1 of 3 fólki fyrir fatlað fólk og hefur sérstöðu innan samfélags fötlunarhreyfingarinnar.

Það er erfitt að sjá hvernig Hljóðbókasafn Íslands eigi nokkra faglega samleið með þeim söfnum sem heyra undir Landsbókasafn og fyrirséð að allar tilraunir til sameininga muni vera kostnaðarsamar og valda notendahópnum miklu óöryggi.

Það er virðingarvert að stjórnvöld leggi áherslu á að auka aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum eins og fram kemur í áformunum um lagasetninguna en það verður ekki séð á þeim að slíkt raungerist. Ef vel á að vera, er þörf á mikilli fjárfestingu, bæði hvað varðar aukið framboð á aðgengilegu efni og hvað varðar húsnæði. Eins og er þá er bara brot af útgefnu efni aðgengilegt og engar kvaðir á útgefendum. Húsnæði Þjóðarbókhlöðunnar er barn síns tíma og er óaðgengilegt fötluðu fólki. Rætt hefur verið um máltækni og gervigreind en lítið fjármagn hefur verið sett í sértækar lausnir sem til þurfa eins og komið er. Allar líkur eru á stafrænniu skuld í samræmingu og fjárfestingu í innri kerfum, ef söfnin eiga að geta hagrætt í rekstri í framtíðinni.

Það veldur ÖBÍ sérstökum áhyggjum hvar segir í drögunum að ekki sé gert ráð fyrir auknum kostnaði við rekstur Hljóðbókasafns Íslands í þessum nýja ramma, en á sama tíma ertalað um „ákveðinn“ kostnað í tengslum við sjálfa sameininguna, og að hann verði fundinn innan núverandi áætlana.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að fara í slík áform án skýrra kostnaðar áætlana, enda mýmörg dæmi um að stjórnvöld hafi vanmetið fjárþörf í slíkum verkefnum. Hér er um að ræða bæði breytingar á eldra húsnæði og stafrænum innviðum og því næstum fyrirséð að kostnaður muni margfaldast. Við það bætist svo rekstur þessarar viðkvæmu þjónustu sem ávallt hefur verið undirfjármagnaður og ætti að stórauka ef standa ætti við yfirlýsingar. Reynslan sýnir að í slíkri áætlanagerð verða hagsmunir fatlaðs fólk út undan.

Hljóðbókasafn Íslands óx fram af þörf og er einstakt dæmi um mátt fatlaðs fólks. Blindir frumkvöðlar og ófatlaðir eldhugar bjuggu til þjónustu sem ekki þekktist hér á landi og smátt og smátt náði fleiri hópum. Úr var velferðarþjónusta sem hefur tryggt rétt til náms og þátttöku. Þó að Hljóðbókasafn Íslands hafi ávallt barist í bökkum þá hefur ríkt sátt um starfsemi þess hingað til, vegna sterkra tengsla þess við notendur og sögu þess.

Það sætir því furðu að ráðuneytið hafi ákveðið að fara í þessa vegferð þvert á afstöðu Blindrafélagsins og Félag lesblindra, en þessi félög er fulltrúar annarsvegar þess hóps sem nýtir safnið mest (blindir eldri borgarar) og hins vegar stærsta lántaka hópsins (lesblind börn og ungmenni).

Eftir að farið var af stað með þessi áform hafa fyrrnefnd félög komið sínum sjónarmiðum á framfæri og virðast þau ekki hafa haft nein áhrif á áformin, sem túlka má sem bakslag í mannréttindabaráttu mjög jaðarsetts hóps fatlað fólks. Samráðshópur Hljóðbókasafns Íslands hefur haft einhverja aðkomu að samráði, en fékk einungis sæti í einum af þeim starfshópum sem unnið hafa að undirbúningi. Þannig sat engin fulltrúi notendahópa í húsnæðishópi, tæknihópi né lagavinnuhópi – en öll þessi atriði hafa veruleg áhrif á tækifæri notenda til þess að nýta sér þjónustuna.

ÖBÍ réttindasamtök sjá því miður ekki tilefni til þess að styðja þessi áform um sameiningu Hljóðbókasafns Íslands við Landsbókasafn Háskólabókasafn. Þörfin kemur ekki frá notendum þjónustunnar og er erfitt að sjá að þau fáu sóknarfæri sem gætu leynst í áformunum muni nýtast, þar sem ekkert fjármagn fylgir. Í grunnin virðast áformin vera sparnaðaraðgerð, tilraun til þess að minnka umsýslu ráðuneytis, sem hafa verulegar neikvæðar afleiðingar fyrir mjög jaðarsettan hóp fatlaðs fólks.

Ágæti lesandi, nú hefur þú lesið yfir umsögn ÖBÍ varðandi áformin um lagasetninguna., að öllum líkindum með því að renna augunum yfir textann og þannig meðtekið efni hennar og innihald. Það gerir þú líklega oft á dag til þess að afla upplýsinga um málefni, skipuleggja daginn og stytta þér stundir. Sá hópur sem hér er undir hefur ekki tök á því, getur ekki hagnýtt prentað letur. Það er ágætt að staldra við og íhuga hversu takmarkandi staða það er í nútímasamfélagi og hversu mikilvægt er að vanda til verka þegar fjallað er um einu raunverulega aðgengilegu efnisveituna sem þessi hópur fatlaðs fólks treystir á.

Hljóðbókasafn Íslands sinnir gífurlega mikilvægu hlutverki í samfélagi sem setur síauknar kröfur á færni fólks og getu. ÖBÍ hvetur ráðuneytið til þess að vernda þessa þjónustu og þróa í takt við þarfir notenda, en ekki draga úr og takmarka, til hagsbóta fyrir öll.

Ekkert um okkur – án okkar!

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
stafrænn aðgengisfulltrúi ÖBÍ


Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (Hljóðbókasafn og Kvikmyndasafn)
Mál nr. S-245/2025. Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 18. desember 2025