Skip to main content
HeilbrigðismálUmsögn

Lyfjalög og lækningatæki (EES-reglur)

By 1. október 2025október 2nd, 2025No Comments

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um lækningatæki (EES-reglur), 157. löggjafarþing. Þingskjal 70 — 70. mál.

ÖBÍ réttindasamtök styðja innleiðingu reglugerðar (ESB) 2022/123 og markmið frumvarpsins um samræmd viðbrögð við lyfjaskorti. Lyfjaskortur er veruleg ógn við heilsu og virkni fatlaðs og langveiks fólks og því mikilvægt að allir leggist á eitt til þess að tryggja gagnsæi, aðgengi og öryggi.

ÖBÍ fagna því að sett verði skýr lagastoð til að safna upplýsingum við „bráða ógn“ og „meiri háttar atburð“, og að það verði gert í tengslum við samhæfingu EES/EMA og sameiginlegar skrár yfir „mikilvæg lyf“ og „mikilvæg lækningatæki“.

ÖBÍ bendir aftur á móti á mikilvægi þess að sjúklingahópar hafi óskert aðgengi að mikilvægum lyfjum, óháð lyfjaformi. Enn fremur telur ÖBÍ brýnt að sjúklingahópar hafi greiðan aðgang að upplýsingum um aðgengi að lyfjum. Í því samhengi mætti leggja til að Lyfjastofnun þróaði einhvers konar mælaborð með rauntímaupplýsingum um birgðarstöðu.

Auk þess er mikilvægt að fulltrúar sjúklingahópa og notenda hafi aðkomu að greiningu og mati á lyfjaframboði hér á landi. Það þarf að vera sjálfsagður hluti af öllu viðbragði og skipulagi innan heilbrigðiskerfisins að fulltrúar sjúklinga séu hafðir með í ráðum.

Virðingarfyllst,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka

Rósa María Hjörvar
Verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka


Lyfjalög og lækningatæki (EES-reglur)
70. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 1. október 2025