
Google maps / ja.is
ÖBÍ réttindasamtök vilja koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna (námsstyrkir og endurgreiðslur), 47. mál.
Skortur á lögbundnu svigrúmi vegna fötlunar og veikinda
Í frumvarpinu er kveðið á um breytingu á styrkjakerfi námslána er varðar kröfur um námsframvindu fyrir niðurfellingu höfuðstóls námslána. Mikilvægt er að þessari breytingu fylgi ákvæði sem veitir námsmönnum sem sökum fötlunar, námserfiðleika eða alvarlegra veikinda sé veitt aukið svigrúm til að uppfylla kröfur um námsframvindu og til að ljúka námi innan tilskilinna tímamarka.
Námslánakerfið gerir ráð fyrir að nemendur ljúki námi innan ákveðins tíma til að fá hluta lánsins felldan niður sem styrk. Fatlaðir nemendur sem þurfa lengri tíma missa því rétt til styrks eða niðurfellingar, þrátt fyrir að vera í fullu námi miðað við eigin getu og aðstæður. Eitt af markmiðum laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna er að tryggja tækifæri til náms „án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti“. Til að uppfylla þetta markmið þarf að lögfesta heimild til undanþágu frá kröfum um námsframvindu og tímamörk við niðurfellingu höfuðstóls námslána.
Þá hefja fatlaðir námsmenn oft nám síðar á lífsleiðinni, en í núverandi kerfi er einungis hægt að velja að endurgreiða námslán með tekjutengingu ef námi er lokið fyrir 35 ára aldur. Þetta brýtur gegn hugmyndinni um jöfn tækifæri og aðlögun að fjölbreyttum námsferlum. Þá útilokar þetta marga fatlaða námsmenn frá sveigjanlegum greiðsluleiðum og brýtur gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar (65. gr.).
Niðurfelling námslána vegna sérstakra aðstæðna lántaka
ÖBÍ leggur áherslu á nauðsyn þess að setja í lög heimild til niðurfellingu námslána vegna verulegra fjárhagserfiðleika lántaka, alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka, eða annarra sérstakra ástæðna. Í núgildandi lögum er heimild til afskriftar námslána við 66 ára aldur ef lántaki er í fjárhagserfiðleikum. Þessi heimild ætti að ná til allra lántaka óháð aldri, sérstaklega þeirra sem vegna fötlunar eða varanlegra veikinda hafa ekki tök á að nýta menntun sína til tekjuöflunar.
Allir geta veikst alvarlega eða orðið fyrir slysi hvenær sem er á lífsleiðinni. Slíkt áfall hefur oft á tíðum miklar breytingar í för með sér, meðal annars fjárhagslegar. Það getur m.a. leitt til þess að viðkomandi geti ekki nýtt sér menntunina til að afla tekna. Það sama á við um þá sem sökum alvarlegra og varanlegra veikinda eða afleiðinga slysa hafa ekki náð að ljúka námi en sitja uppi með námslán og afborganir af þeim.
Í skýrslu Vörðu rannsóknaseturs vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks frá desember 2023 kemur skýrt fram að stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi býr við sárafátækt og lífsskilyrði þeirra eru töluvert verri en launafólks. Staða fatlaðs fólks hefur ekki vænkast á þeim tíma sem liðinn er frá því skýrslan var birt.
Á sama tíma er menntun mjög mikilvæg fyrir fatlað fólk þar sem hún gefur fólki frekari möguleika á vinnumarkaði og meiri möguleika á sveigjanlegum störfum. Þó eru atvinnutækifæri fatlaðs fólks almennt mun takmarkaðri en annarra.
Undanþága námslána frá gjaldþrotaskiptum
ÖBÍ legguráherslu á að undanþága námslána frá áhrifum gjaldþrotaskipta skv. 2. mgr. 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna verði felld brott. Undanþáguákvæðið gerir það að verkum að námslánin fyrnast ekki með sama hætti og aðrar skuldir. Þetta skapar ójafnræði milli kröfuhafa og getur leitt til þess að fatlaðir einstaklingar sem hafa orðið gjaldþrota sitji uppi með námslán til æviloka. Umboðsmaður skuldara hefur gagnrýnt þetta ákvæði og kallað eftir breytingum sem tryggja endapunkt fyrir þá sem eru varanlega ógjaldfærir.
Aðgengi að upplýsingum og þjónustu
Vakin er athygli á að lög nr. 60/2020 kveða ekki á um að Menntasjóður námsmanna skuli tryggja aðgengilega þjónustu og upplýsingagjöf fyrir fatlaða einstaklinga. Samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir nr. 38/2018 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ber stjórnvöldum að tryggja að fatlaðir einstaklingar hafi jafnan aðgang að opinberri þjónustu, þar með talið menntakerfi og tengdum stuðningskerfum.
Að lokum
Fatlaðir nemendur þurfa oft að leggja í mikla tilfinningavinnu til að aðlaga sig að kerfi sem er ekki hannað með þeirra þarfir í huga. Þetta „fötlunarstrit“ felur í sér aukinn tíma, kostnað og andlegt álag sem hefur bein áhrif á námsframvindu og lífsgæði. Ef námslánakerfið tekur ekki mið af þessari ósýnilegu vinnu, verður það óraunhæft og ósanngjarnt fyrir þennan hóp.
Menntun er lykilatriði fyrir fatlað fólk til að komast inn á vinnumarkaðinn og auka sjálfstæði sitt. Hins vegar eru atvinnumöguleikar fatlaðs fólks almennt takmarkaðri, sem þýðir að fjárhagsleg endurgreiðsla námslána getur orðið óviðráðanleg. Ef námslánakerfið býður ekki upp á undanþágur eða niðurfellingar við slíkar aðstæður, getur það leitt til langvarandi skuldasöfnunar og félagslegrar útilokunar.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ réttindasamtaka
Sunna Elvira Þorkelsdóttir
lögfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka
Menntasjóður námsmanna (námsstyrkir og endurgreiðslur)
47. mál, lagafrumvarp
Umsögn ÖBÍ, 2. október 2025

