
ÖBÍ
Umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um tillögu til þingsályktunar um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma. ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) árétta að fatlað fólk hefur takmarkað aðgengi að húsnæðismarkaðnum. Samkvæmt nýjustu skýrslu HMS, Staðan á leigumarkaði frá september 2025, býr 41% örorkulífeyristaka í eigin húsnæði samhliða 79% launþega í fullu starfshlutfalli.
Einnig er vert að benda á skýrslu sem Varða rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmdi um húsnæðismál fatlaðs fólks og er frá nóvember 2023, en þar kemur fram að 70% fatlaðs fólks sem býr í eigin húsnæði eignaðist húsnæðið sitt fyrir örorkumat.
Verði þingsályktunartillagan samþykkt, leggur ÖBÍ til að efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis beini þeim tilmælum til fjármála- og efnahagsráðherra að aðgerðaráætlunin geri grein fyrir ójafnri stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði. Jafnframt að tilgreint verði hvernig aðgerðir áætlunarinnar geti jafnað stöðu þeirra til jafns við ófatlað fólk með bættu aðgengi að fasteignalánum.
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ
Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma
77. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 22. október 2025

