
ÖBÍ styður áform um að festa í sessi rafræna og stafræna málsmeðferð en leggur ríka áherslu á að tryggt sé að viðmiðum um stafrænt aðgengi fyrir fatlað fólk verði fylgt. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) ber aðildarríkjum að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis fyrir fatlað fólk þar á meðal hvað varðar rafræna þjónustu. Einnig er vísað til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/2102 um aðgengi vefsetra opinberra aðila og smáforrita þeirra fyrir fartæki sem tekin hefur verið upp í EES samninginn. Minnt er á yfirstandandi áform ríkisstjórnarinnar um innleiðingu tilskipunarinnar og áform um að innleiða evrópska aðgengisstaðalinn EN 301 549 sem inniheldur WCAG staðalinn sem leiðbeinir um hvernig skuli ganga frá vefefni þannig að það sé aðgengilegt öllum.
Í skýringu með þeim drögum sem hér eru til umsagnar segir að fjórða markmið þeirra sé að bæta réttaröryggi með öruggari birtingu gagna og auknu aðgengi að þeim. Skilgreining á hugtakinu aðgengi þarf þó að vera skýrt, sérstaklega þegar um fatlað fólk og aðgang þess að stafrænum lausnum er að ræða. Sé ekki tekið tillit til stoðtækja, túlkaþjónustu eða annarrar aðlögunar – til dæmis með því að fylgja WCAG-staðlinum – verða lausnir einfaldlega óaðgengilegar.
Í sömu markmiðum er talað um aukna skilvirkni og betri þjónustu, sem er mikill ávinningur fyrir alla. Stór hópur fatlaðs fólks verður þó, vegna skorts á aðgengislöggjöf, af þeim umbótum sem felast í þessari þróun, þrátt fyrir að fatlað fólk sé einmitt sá hópur sem hefur hvað mestan ávinning af slíkum breytingum. Vel útfærðar stafrænar lausnir geta jafnvel auðveldað fötluðu fólki að nýta sér þjónustu betur en í raunheimum, en núverandi staða gerir það að verkum að margir verða að treysta á varalausnir og umboðsleiðir.
Afleiðingin er sú að réttarstaða fatlaðs fólks í stafrænni stjórnsýslu er veik og ótrygg, nema skýr viðmið um aðgengi verði mótuð og fylgt eftir.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ
Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ
Áform um rafræna og stafræna málsmeðferð hjá sýslumönnum og dómstólum
Mál nr. S-122/2025. Dómsmálaráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 31. júlí 2025
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) eru heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi. Hlutverk samtakanna er að koma fram fyrir hönd fatlaðs fólks í hverskyns hagsmunamálum.

