
ÖBÍ
„Það er brýnt að skapa samfélagssáttmála um umferðarmenningu“
Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka um uppfærslu á verklagsreglum vegna starfsemi stöðvalausra hjóla- og smáfarartækjaleiga á borgarlandi Reykjavíkur.
ÖBÍ réttindasamtök taka undir umsagnir Blindrafélagsins og flestra annarra sem gera athugasemdir við umrætt frumvarp.
Það dylst fáum að skerpa þarf á reglum um starfsemi stöðvalausra hjóla- og smáfarartækjaleiga þar sem farartækin, sérstaklega svokallaðar rafskútur, eru oft skilin eftir eins og hráviði eftir notkun. Flestir notendur virðast að vísu virða tilmæli um að gæta tillitssemi við aðra vegfarendur en of margir svartir sauðir eru í hjörðinni til að réttlæta áframhaldandi skort á traustri umgjörð utan um þjónustu og notkun.
Smáfarartæki sem skilin eru eftir á miðri gönguleið eru hindrun fyrir hreyfihamlað, blint og sjónskert fólk, sem er öðrum fremur háð greiðum umferðarleiðum. Það getur skapað hættuástand þegar það neyðist til að sveigja af leið, jafnvel út á umferðargötu til að komast fyrir hindrunina sem þjónustukaupi hefur valdið með kæru- og hugsunarleysi sínu.
Það er til bóta, sér í lagi fyrir hjólreiðafólk, að smáfarartæki séu vel sýnileg með endurskinsmerkjum og ljósabúnaði en gerir lítið til að koma til móts við blint og sjónskert fólk.
Bent hefur verið á að víða erlendis verði notendur að skila af sér smáfarartækjunum á afmörkuð svæði. Réttast er að slík stöðvarskylda verði innleidd hérlendis.
Það þarf að leggja áherslu á að fræða notendur um tilhlýðilega notkun smáfarartækjanna og að þeir gangist undir skilmála um notkun. Ef notandinn er undir lögaldri verði forsjáraðili að gangast undir ábyrgð fyrir viðkomandi. Það er brýnt að skapa samfélagssáttmála um umferðarmenningu ef vilji er áfram fyrir því að leigð smáfarartæki séu á götunum.
Þá þarf að innleiða skilvirka ábendingarleið sem almenningur getur notað á skjótan og einfaldan hátt til að kvarta við borgina undan illa lögðum smáfarartækjum. Sú leið þarf að vera aðgengileg fyrir alla og uppfylla WCAG staðalinn.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Uppfærsla á verklagsreglum vegna starfsemi stöðvalausra hjóla- og smáfaratækjaleiga á borgarlandi Reykjavíkur
Reykjavíkurborg – Umhverfis- og skipulagssvið. Samráð 20.
Umsögn ÖBÍ, 14. ágúst 2025

