
ÖBÍ réttindasamtök (ÖBÍ) fagna markmiðum stöðumatsins um að hvetja til umræðu um stöðumat, viðfangsefni og framtíðarsýn opinberrar þjónustu ásamt áherslum og valkostum.
Í fyrsta kafla stöðumatsins kemur fram að öll nýtum við opinbera þjónustu í daglegu lífi og hefur hún því áhrif á okkur öll. ÖBÍ tekur undir þau orð en vill jafnframt benda á að sumt fólk þarf að nýta fleiri bjargráð opinberrar þjónustu til að getað lifað sjálfstæðu og öruggu lífi, t.d. fjölbreyttur hópur fatlaðs fólks sem treystir á greitt aðgengi að opinberri þjónustu. Því er mikilvægt að áherslur stöðumatsins og val á leiðum til að leysa lykilviðfangsefni matsins taki mið af þeim hindrunum sem fatlað fólk mætir í samskiptum sínum við opinbera þjónustuveitendur, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.
ÖBÍ vill koma eftirfarandi athugasemdum og tillögum á framfæri.
Bætt gæði og þjónustustig
Fyrsta lykilviðfangsefnið snýr að auknum gæðum þjónustunnar með því að innleiða notendamiðaðar lausnir þar sem hlustað er á þarfir notenda. Þá kemur fram að efla þarf starfsfólk í að sinna mismunandi notendum og þjónustuleiðum.
ÖBÍ veitir fötluðu fólki ráðgjöf því að kostnaðarlausu. Mikil þörf er á þessari þjónustu sem er vel sótt af fötluðu fólki í leit að úrlausn sinna mála. Ástæður að baki málanna eru í grunninn þær sömu og fyrri ár: Réttindi fólks til framfærslu eru brotin sem og önnur mannréttindi eða þá ekki virt af stjórnsýslunni: ríki, sveitarfélögum og stofnunum.
Í skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar (GEV) frá febrúar á þessu ári má lesa áfellisdóm yfir meirihluta sveitarfélaga landsins í velferðarmálum. Samkvæmt skýrslunni hafa reglur margra sveitarfélaga um stoð- og stuðningsþjónustu verið óuppfærðar um árabil og eru þær í ósamræmi við gildandi lög og reglugerðir. Afleiðingin er sú að réttindi og þjónusta verða misjöfn eftir búsetu, sem gengur gegn markmiðum jafnræðis og inngildingar. Sveitarfélög eru ólík að stærð, fjárhagsstöðu og getu, en það má ekki leiða til þess að einstaklingar sem þurfa á þjónustu að halda falli milli kerfa. Því þarf að tryggja samræmd verkferli, skýr hugtök og gagnsæjar verklagsreglur sem ná þvert á sveitarfélög.
Í eftirfylgni Ríkisendurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018, sem kom einnig út í febrúar 2025, er ályktað að leggja þurfi aukna áherslu á innra eftirlit þjónustuveitenda og skilja betur á milli áherslna í ytra og innra eftirliti. Þá þurfi að nýta lagaheimild um frumkvæðiseftirlit með virkari hætti til að kanna kerfisbundið virkni stjórnunarkerfa þeirra sem þjónustuna veita, þ.m.t. reglur, verklagsreglur og innra eftirlit.
ÖBÍ telur brýnt að allir þjónustuveitendur opinberrar þjónustu á báðum stjórnsýslustigum rói í sömu átt og víki ekki frá lögbundnum skyldum sínum. Eðlilegast væri að stjórnvöld myndi útbúa mælitæki og sameiginlega ferla fyrir þjónustuveitendur sem sinna sams konar málaflokkum. Það myndi samræma aðgerðir, auka skilning og auðvelda eftirlit enda séu mælingar samræmdar. Síðast en ekki síst myndi það auka þjónustustig fyrir notandann.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem nú hefur verið lögfestur, leggur ríka áherslu á að ríki og sveitarfélög hafi virkt og sjálfstætt eftirlit með framkvæmd réttinda, og að samtök fatlaðs fólks séu þátttakendur í því ferli samkvæmt 33. gr. samningsins.
ÖBÍ leggur til að hönnun á mælitækjum og sameiginlegum ferlum fyrir þjónustuveitendur sem sinna sams konar málaflokkum verði bætt við kafla 4.3.1 um gæði. Jafnframt leggur ÖBÍ til að bætt verði við áhersla um virkt eftirlit og aðhald með þjónustuveitendum opinberrar þjónustu á báðum stjórnsýslustigum.
Aukið aðgengi og jafnræði
Annað lykilviðfangsefnið leggur áherslu á að tryggja öllum hópum samfélagsins gott aðgengi að þjónustu út frá mismunandi þörfum og búsetu. Aðgengi að þjónustu er mismikið eftir aðstæðum. Kerfin okkar eru almennt ekki hönnuð með þarfir fatlaðs fólks í huga heldur til að mæta þörfum flestra, sem jafnframt eru í minnstri þjónustuþörf. Þannig myndast svokallaðir jaðarhópar, sem þyrftu sjaldnast að vera á jaðrinum ef mótun kerfa fylgdu hugmyndafræði algildrar hönnunar. Vegna þessa geta ekki öll notað rafræn skilríki eða stafrænar lausnir. ÖBÍ hefur lengi bent á leiðir til að bæta kerfin með það fyrir augum að opna aðgang fyrir fleiri notendur.
Áherslur stjórnvalda til að mæta vanda er að ýta frekar fólki inn í umboðskerfi þar sem það er öðrum háð. Þegar öðrum er falin umsýsla með öllum mikilvægustu málum sem snerta einstakling er ekki aðeins sjálfræðið tekið af honum heldur skapast hætta því eftirlitið með umboðskerfinu er takmarkað.
ÖBÍ bendir á að sumir einstaklingar muni ekki sjálfir geta notað rafræn skilríki, sama hvað verður gert og umboðskerfið á að móta utan um þá. Þannig er eftirlit líka einfaldara, kostnaður minnkar sem og álag á einstaklinga og aðstandendur. Kerfið á að bæta fyrir annað fatlað fólk frekar en að hrinda því út í ósjálfbjarga aðstæður.
Tæknilausnum sem ætlað er að opna þjónustuleiðir og auka skilvirkni hafa oft á tíðum búið til nýjar hindranir. Móttökur þjónustustofnana og -fyrirtækja eru oft ómannaðar, og hafa símanúmer og netföng fjarlægð af heimasíðum. Ætlast er til að öll spjalli við rafmenni, fari inn á mínar síður eða skrái sig inn á snertiskjá í anddyri. Þetta er til bóta fyrir flest en lokar fyrir þjónustu á önnur. Það verður að vera til önnur leið fyrir þau.a Hvati fyrir fólk að fara stafrænu leiðina er mikilvægur en áfram verður að vera hægt að fá aðstoð frá starfsfólki.
Hagræðing og aukin skilvirkni
Seinasta lykilviðfangsefni stöðumatsins beinir kastljósinu að hagræðingu opinberrar þjónustu og aukna skilvirkni í rekstri með því að halda áfram að nýta tæknilausnir og hagnýta gögn, auka samvinnu og samræmingu og efla stofnanir og sveitarfélög.
ÖBÍ telur mikilvægt að réttindi þeirra sem nota opinbera grunnþjónustu séu ávallt í forgangi við endurskipulag og innleiðingar hjá þjónustuveitendum hins opinbera, bæði er varðar nýtt verklag sem og tæknilausnir. Gott samráð á frumstigi við fjölbreytta notendahópa spilar hér lykilhlutverki, en sagan hefur sýnt okkur að erfitt er að breyta uppskriftinni þegar deigið er komið í formið og á leiðinni inn í ofninn.
Í áherslukafla 4.3.3 um skilvirkni er áhersla um aukna samhæfingu og samstarf milli mismunandi stofnana og við þjónustuaðila á markaði. ÖBÍ telur þessa áherslu jákvæða og leggur til að orðið „sveitarfélög“ verði bætt við upptalningu samstarfsaðila.
Í sama kafla má finna áherslu um að fjarlægja óþarfa kröfur til almennings, atvinnulífs og stjórnsýslunnar. ÖBÍ telur þetta áhersluatriði varhugavert, en líkt og fram hefur komið er víða pottur brotinn þar sem opinberir þjónustuveitendur fylgja ekki lögbundnu hlutverki sínu á kostnað notenda sem treysta á að ákveðin grunnþjónusta sé til staðar og aðgengileg. ÖBÍ leggur til að fjármála- og efnahagsráðuneytið skilgreini ítarlega hvaða kröfur ráðuneytið telur íþyngjandi og af hverju.
Í áherslukafla 4.3.4 um nýsköpun er áhersla um uppbyggingu á sveigjanleg upplýsingakerfi sem geta fljótt aðlagast breyttum aðstæðum og nýjum áskorunum.
Jafnframt að unnið verði áfram í að vinda ofan af eldri kerfum og opnað fyrir nýrri lausnir sem auka fjölbreytileika og nýsköpun. Í sama kafla má finna áherslu um þróun og prófunum á nýjum aðferðum og lausnum sem geta bætt þjónustuna enn frekar. ÖBÍ telur tæknýjungar geta boðið upp á mörg sóknarfæri og bætt þjónustu fyrir notendur, en varhugavert er að setja öll eggin í sömu körfu. Líkt og fram kemur í kaflanum um aukið aðgengi má finna ýmis dæmi þar sem innleiðing tæknilausna án varaleiða sviptir suma hópa samfélagsins aðgengi að borgarlegum réttindum og lögbundinni þjónustu. Ótækt er að fatlað fólk sem ekki getur nýtt opinbera þjónustu þurfi að höfða dómsmál til þess að hreyfa við málum.
ÖBÍ leggur til að fyrir neðan punktinn sveigjanleiki og aðlögunarhæfni, bætist eftirfarandi punktur við:
„Tryggt aðgengi fyrir alla notendur: Þrátt fyrir innleiðingu nýrra tæknilausna verða eldri viðmót þjónustuveitenda opinberra þjónustu en til staðar í formi varaleiða til að tryggja öllum sem ekki geta nýtt sér tæknilausn þjónustuveitenda, greitt aðgengi að þjónustunni.“
ÖBÍ áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á seinni stigum.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ
Kjartan Þór Ingason
verkefnastjóri ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir
félagsráðgjafi ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Stöðumat og valkostir um stefnu um opinbera þjónustu
Mál nr. S-216/2025. Fjármála- og efnahagsráðuneytið. Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
Umsögn ÖBÍ, 18. nóvember 2025

