Skip to main content
Flóttafólk og innflytjendurUmsögn

Útlendingar (sameiginleg vernd)

By 30. október 2024september 1st, 2025No Comments

Með því frumvarpi sem hér er til umsagnar er lagt til að tækifæri þeirra sem hingað hafa flúið frá Úkraínu til að sækja um stöðu flóttamanns skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 (útl.) verði seinkað. Með umsögn þessari vill ÖBÍ vekja athygli á stöðu fatlaðs fólks frá Úkraínu sem dvelur hér á landi á grundvelli 44. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem hér fer á eftir leggur ÖBÍ til að gerð verði breyting á 18. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999. Hvetur ÖBÍ allsherjar- og menntamálanefnd til að beina tilmælum þess efnis til viðeigandi ráðuneyta.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999, teljast “flóttamenn” tryggðir í íslenskum almannatryggingum frá komudegi til landsins. Hvað varðar fatlað fólk á flótta þýðir þetta að þeir sem fá stöðu flóttamanns geta sótt um örorkumat og eftir atvikum örorkulífeyri skv. 1. mgr. 24. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) frá komudegi. Almenna reglan skv. a-lið 1. mgr. 24. gr. atl. er að einstaklingar sem setjast hér að geta ekki sótt um örorkumat fyrr en að liðnum þremur árum frá skráningu lögheimilis. Þannig njóta flóttamenn undanþágu frá skilyrðinu um þriggja ára búsetu.

Undanþágan hefur hins vegar ekki verið talin eiga við um þá sem veitt er dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Samkvæmt 44. gr. útl. fá þeir sem veitt er vernd vegna fjöldaflótta útgefið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þeir sem flýja hingar frá Úkraínu eru því ekki undanþegnir skilyrðunum um þriggja ára búsetu.

Ljóst er að fatlað fólk á flótta er oft með skerta starfsgetur og getur verið háð örorkulífeyri um framfærslu. Fyrstu þrjú árin hér á landi án möguleika á örorkumati geta því verið fötluðu fólki mjög erfið.

Eftir að fjöldaflóttinn frá Úkraínu hófst hafa verið gerða ýmsar breytingar á lögum til að tryggja betur stöðu þeirra sem hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Sem dæmi má nefna breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og atvinnuleysistryggingar. Af einhverjum ástæðum hefur fyrrnefndu reglugerðarákvæði ekki verið breytt til að tryggja framfærslu fatalaðs fólks sem flúið hefur frá Úkraínu.

Til að tryggja betur framfærslu fatlaðs fólks sem flúið hefur hingað til lands vegna innrásar Rússa í Úkraínu leggur ÖBÍ því til að gerð verði breyting á 18. gr. reglugerðar nr. 463/1999 þannig að undanþága ákvæðisins eigi einnig við um handhafa dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hvetur ÖBÍ allsherjar- og menntamálanefnd til að beina tilmælum þess efnis til viðeigandi ráðuneyta.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Útlendingar (sameiginleg vernd)
302. mál, lagafrumvarp.
Umsögn ÖBÍ, 30. október 2024