
Adobe Stock
ÖBÍ réttindasamtök fagna þingsályktunartillögu um vernd barna og ungmenna á stafrænum vettvangi og eru sammála mikilvægi þess að tryggja varnir gegn skaðlegum áhrifum samfélagsmiðla á börn hér á landi.
ÖBÍ bendir á að fötluð börn eru almennt útsettari fyrir hverskonar ofbeldi, áreiti og misnotkun, það á ekki síður við á stafrænum vettvangi. Það verður hinsvegar líka að hafa í huga að þessi tækni getur einnig haft jákvæðar hliðar fyrir fatlaða einstaklinga. Stafræn tækni gerir fötluðum oft kleift að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum og brúar bilið á milli fatlaðra og ófatlaðra, óháð búsestu eða aðstæðum.
Börn sem glíma við skólaforðun, veikindi eða fötlun hafi í mörgum tilfellum haft gagn af því að geta fylgt jafnöldrum sínum á samfélagsmiðlum á meðan önnur hafa orðið fyrir ofbeldi og einelti á sömu miðlum.
Auka verður þekkingu og fræðslu um tækni sem stenst kröfur laga um meðferð persónuupplýsinga, vefstjórn og öryggi. Samhliða þarf að tryggja menntun allra barna í tæknilæsi, gagnrýnni hugsun, fjármálalæsi, kynfrelsi og ofbeldisvörnum. Það ber því miður oft við að fötluð börn eru undanskilin slíkri fræðslu og hafa því ekki nauðsynleg verkfæri til að takast á við þennan flókna raunveruleika þegar þau hafa aldur til að taka þátt á samfélagsmiðlum.
Mikilvægt er að allir hagaðilar, þar á meðal fulltrúar sérkennara og fatlaðs fólks séu hluti af þróun löggjafarinnar til að koma í veg fyrir að þessi hópur barna verði fyrir óvæntum afleiðingum sem nú þegar glímir við einangrun og jaðarsetningu.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingafyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Rósa María Hjörvar
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtaka
Vernd barna og ungmenna á stafrænum vettvangi
261. mál, þingsályktunartillaga
Umsögn ÖBÍ, 4. desember 2025

