
Google maps
ÖBÍ réttindasamtök fagna framkominni þingsályktun um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda og styður þá stefnu að vímuefnavandi sé meðhöndlaður sem heilbrigðismál fremur en refsivert fyrirbæri. Að mati ÖBÍ er tillagan skref í átt að réttlátari og skilvirkari þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóma, sem er einn viðkvæmasti hópur samfélagsins.
Réttindasjónarmið og aðgengi
ÖBÍ leggur áherslu á að fólk með vímuefnavanda sé veitt viðeigandi meðferð til að takast á við fíknisjúkdóma. Mikilvægt er að tryggja að allir hópar, þar á meðal fatlað fólk og einstaklingar með samþættar greiningar (geðraskanir og fíkn), hafi raunverulegt aðgengi að meðferðarúrræðum. Það er alvarlegt að fólki sé neitað um geðheilbrigðisþjónustu vegna vímuefnavanda. Þessir hópar ættu nú þegar að hafa aðgang að þjónustu innan kerfisins og úrræðaleysið sem þessi hópur upplifir er óásættanlegur.
Samþætting þjónustu og einstaklingsmiðuð nálgun
ÖBÍ styður þá hugmynd að starfshópur greini sérstaklega þá hópa sem ekki fá viðhlítandi þjónustu. Slík greining þarf að byggja á samráði við notendur þjónustunnar og samtök þeirra. Að mati ÖBÍ er það lykilatriði að samþætta heilbrigðis-, félags- og geðheilbrigðisþjónustu til að tryggja að fólk falli ekki á milli kerfa.
Fjármögnun og sjálfbærni
Það vekur áhyggjur hjá ÖBÍ og fleirum að hluti þjónustu við fólk með fíknisjúkdóma sé fjármagnaður með söfnunarfé, eins og hjá SÁÁ. Að mati ÖBÍ á ríkið að bera ábyrgð á að tryggja stöðuga og sjálfbæra fjármögnun meðferðarúrræða, svo þjónustan sé ekki háð óvissu eða skorti á fjármagni.
Áhersla á forvarnir og snemmtæka íhlutun
ÖBÍ styður eindregið aukna áherslu á forvarnir og fræðslu, sérstaklega meðal ungs fólks. Slík nálgun er bæði mannúðleg og hagkvæm fyrir samfélagið til lengri tíma litið.
ÖBÍ hvetur Alþingi til að samþykkja tillöguna en bendir jafnframt á mikilvægi þess að fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs sitji við borðið, hér er mikil samleið á milli hópa og mikilvægt að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður til hliðsjónar.
Ekkert um okkur án okkar!
Virðingafyllst,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Gunnar Alexander Ólafsson
hagfræðingur ÖBÍ
Rósa María Hjörvar
stafrænn verkefnastjóri ÖBÍ
Viðhlítandi þjónusta vegna vímuefnavanda
54. mál, þingsályktunartillaga.
Umsögn ÖBÍ, 18. nóvember 2025

