Skip to main content

Átak í aðgengismálum

Tryggja skal aðgengi fatlaðs fólks að samgöngum, byggingum, umhverfi og samgöngutækjum. Upplýsingar og sjónvarpsefni skal mæta þörfum fatlaðs fólks.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samkomulag um bætt aðgengi fyrir fatlað fólk

Samkomulagið er milli stjórnvalda og ÖBÍ. Ríki og sveitarfélög taka hér höndum saman um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo dæmi séu tekin. Alls verður um 700 milljónum kr. varið í úrbætur á aðgengismálum á tímabili átaksins til loka árs 2022. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur fram helming fjármagns í úrbætur á móti sveitarfélögum.

Tilgangur átaksins er að uppfylla markmið í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra en sveitarfélög á Íslandi gegna lykilhlutverki við að ná því markmiði.

Framlög til sveitarfélaga

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leikur stórt hlutverk í átakinu og stuðningur til sveitarfélaga vegna úrbóta í aðgengismálum fatlaðs fólks verður stóraukinn. Jöfnunarsjóður mun veita fjárstyrki til úrbótaverkefna en framlag sjóðsins verður 50% á móti framlagi sveitarfélaga.

Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs er samkvæmt nýlegri reglugerð heimilt, á árunum 2021 og 2022, að úthluta samtals 363 milljónum kr. í sérstök framlög til úrbótaverkefna. Heildarupphæð styrkja á tímabilinu geta því numið yfir 700 milljónum kr.

Umsókn sveitarfélaga um styrk úr Jöfnunarsjóði

Sveitarfélög eru hvött til að senda inn umsókn um framlag vegna úrbóta í aðgengismálum fatlaðs fólks. Á vef stjórnarráðsins er eyðublað til útfyllingar: „Framlög vegna úrbóta í aðgengismálum fatlaðs fólks. Umsókn.“ Eyðublaðið er staðsett neðst á síðunni og hlaða þarf því niður til að fylla út. Umsóknarfrestur er til og með 31. desember 2022.

Það sem þarf að koma fram er eftirfarandi:

1. Hvað er sótt er um:

  • Úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða þar sem um er að ræða byggingar í eigu annarra aðila en sveitarfélaga þar sem um samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða.
  • Úrbætur til að biðstöðvar almenningssamgangna verði aðgengilegar öllu fötluðu fólki, svo og útivistarsvæði og almenningsgarðar.
  • Úrbætur sem lúta að viðeigandi aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru skv. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. Fylgigögn

  • Nákvæm verkefnalýsing
  • Fjárhagsáætlun staðfest af verktaka
  • Teikningar af framkvæmdum

3. Aðrar upplýsingar:

  • Heiti og nr. sveitarfélags:
  • Dagsetning umsóknar:
  • Framkvæmdastjóri sveitarfélags:

Umsókn sendist á netfangið: gudni.g.einarsson@srn.is

Aðgengisfulltrúar

Í samkomulaginu er einnig fjallað um nauðsyn þess að opinberir aðilar skipi aðgengisfulltrúa og að hlutverk þeirra verði að sjá til þess að gerðar séu úttektir á aðgengi, þ.e. á þjónustu og starfsemi viðkomandi aðila í víðum skilningi. Leiði úttekt í ljós að úrbóta sé þörf hlutast aðgengisfulltrúi til um að gerðar séu tímasettar áætlanir um úrbætur. Um þetta er fjallað í aðgerð A.3 í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra.

Verkefnisstjóri og sumarstörf

Samstarfsteymi, skipað fulltrúum allra samningsaðila, sér um framkvæmd átaksins og árangur þess. ÖBÍ hefur ráðið Guðjón Sigurðsson sérstakan verkefnisstjóra, með stuðningi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem vinnur með sveitarfélögum að mótun verkefna í samstarfi við aðgengisfulltrúa og aðra sem sinna aðgengismálum einstakra sveitarfélaga, sem gætu verið vel til þess fallin að falla undir styrkveitingu Jöfnunarsjóðs.

Félagsmálaráðuneytið réði í samvinnu við ÖBÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga námsfólk til sumarstarfa 2021 til að vinna að aðgengismálum hjá sveitarfélögunum. Samband íslenskra sveitarfélaga mun vekja athygli sveitarfélaga á átakinu og þeim möguleikum sem standa til boða í tengslum við framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga