- This event has passed.
Morgunbollinn: Listvinnzlan um menningu og mannréttindi

Listvinnzlan er vinnustaður þar sem list, mannréttindi og sköpunarkraftur mætast.
Kynning um Listvinnzluna sem er framsækið menningar-, mannréttinda- og nýsköpunarverkefni sem skapar raunveruleg atvinnutækifæri fyrir fatlað listafólk og tryggir aðgang að faglegu vinnuumhverfi, stuðningi og virkri þátttöku í íslensku menningarlífi.
Á viðburðinum segja Margrét M. Norðdahl, stofnandi Listvinnzlunnar, Elín Sigríður María Ólafsdóttir (ESMÓ) og Þórir Gunnarsson (Listapúkinn) frá því hvernig Listvinnzlan hefur þróast í lifandi vinnustað og listmiðstöð í hjarta Reykjavíkur. Þau fjalla um hvers vegna slíkur vettvangur er nauðsynlegur, hvernig hann sameinar list, menningu, velferð og mannréttindi — og hvernig Listvinnzlan er skýr framkvæmd inngildingar og valdeflingar í verki.
Gestir fá innsýn í daglegt starf Listvinnzlunnar og Listsmiðjunnar: hvernig listafólk vinnur þar á eigin forsendum, fær faglegan stuðning, þróar sjálfstæðan listferil, skapar sér tekjur og verður virkur þátttakandi í menningarlífi landsins. Rætt verður um réttindavinnu, nýsköpun og samfélagsleg áhrif — og hvers vegna aðgangur að vinnu, list og sköpun skiptir sköpum fyrir samfélagið allt.
Á meðan viðburðinum stendur verða verk eftir listafólk Listsmiðjunnar sýnd á veggjum og fá gestir þannig tækifæri til að kynnast fjölbreyttum röddum og sjónarhornum listafólks Listvinnzlunnar.
Listvinnzlan hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2023 og var tilnefnd til Hvatningarverðlauna ÖBÍ réttindasamtaka árið 2025 fyrir brautryðjendastarf á sviði listsköpunar fatlaðs fólks og fjölgun atvinnutækifæra.
Viðburðurinn er fyrir öll sem hafa áhuga á listum, mannréttindum, inngildingu, nýsköpun og samfélagslegri breytingu — og vilja heyra hvernig hægt er að byggja vinnustað þar sem öll tilheyra.




