Skip to main content
AðgengiAlmannavarnirUmsögn

Drög að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga

By 23. september 2025No Comments
Á myndinni sést neyðarútgangaopnun út á svalir í skrifstofubyggingu. Við útganginn er settur hallandi álkanti sem myndar ramp yfir þröskuld til að auðvelda fólki í hjólastól eða með aðra hreyfihömlun að komast á flóttasvæði á annari hæð.

Það er staðreynd að fatlað fólk er í meiri hættu á að láta lífið og verða fyrir skaða á líkama og sál en fólk almennt þegar neyðarástand skapast. Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er fatlað fólk um fjórfalt líklegra til að láta lífið en almennt gerist þegar neyðarástand skapast.

Við gerð viðkvæmni- og áhættumats fyrir aðlögunaráætlunar vegna loftslagsbreytinga er því afar mikilvægt að líta fyrst til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks. Bæði til að undirbúa það fyrir það sem orðið getur og byggja upp viðnámsþrótt þess en einnig til að styrkja stoðir innviða með það fyrir augum að tryggja öryggi allra.

Aðstæður og þarfir fatlaðs fólks eru ýmis konar. Sum búa í búsetuúrræðum eða í félagslegum íbúðum, sum nýta sér félagsþjónustu sveitarfélags síns en það er langt frá því að vera algilt. Fatlað fólk reynir að lifa sem sjálfstæðustu lífi en í neyðaraðstæðum er það öðrum frekar háð um aðstoð. Mörg alþjóðleg dæmi eru um að fatlað fólk verði hamförum að bráð vegna óaðgengilegra flóttaleiða og þess að ekki var hægt að ná til þess í tæka tíð. Þekking viðbragðsaðila á aðstæðum og staðsetningu fatlaðs fólks er afar takmörkuð og því einnig geta þeirra á að koma því í öruggt skjól.

Tillögur að sértækum aðgerðum

Þrátt fyrir að fram komi í aðgerðalistanum að „… mikilvægt [sé] að huga að viðkvæmum og jaðarsettum hópum sem eru alla jafna líklegri til að standa hallari fæti gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.“ (aðgerð 0.B.1.3) og að greina þurfi „… þarfir viðkvæmra og jaðarsettra hópa svo hægt sé að mæta þeim betur í aðlögunaraðgerðum“ vantar skýrar og sértækar aðgerðir til að koma til móts við þessa hópa og einstaklinga.

Hér eru tillögur ÖBÍ að sértækum aðgerðum fyrir aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna loftslagsbreytinga:

Aðgengi að neyðarviðbrögðum og almannavörnum

Aðlaga viðvörunarkerfi að þörfum fatlaðs fólks (sjón-, heyrnar- og hreyfihamlaðra). Þjálfa viðbragðsaðila og uppfæra búnað til að geta sinnt fötluðu fólki í rýmingu. Gera leiðbeiningar og viðbragðsáætlanir aðgengilegar öllum.

Aðlögun félagslegra innviða og þjónustu

Tryggja órofna þjónustu við fatlað fólk í neyðartilvikum og þróa viðbragðsáætlanir fyrir þjónustuaðila sem sinna fötluðu fólki, bæði á landsvísu og eftir landshlutum. Bæta tækjabúnað viðbragðsaðila svo þeir hafi tök á að bregðast rétt við í aðstæðum.

Samráð og þátttaka fatlaðs fólks í stefnumótun

Halda samráðsfundi í samstarfi við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Tryggja þátttöku fatlaðs fólks með aðgengilegum rýmum, rit- og táknmálstúlkum og stafrænum lausnum.

Greining á viðkvæmni fatlaðs fólks í áhættumati

Safna gögnum um staðsetningu og aðstæður fatlaðs fólks. Þróa sértæka lýðheilsuvísa sem taka mið af fötluðu fólki. Meta áhrif loftslagsvár á fatlað fólk

Fræðsla og vitundarvakning

Þróa fræðsluefni í samvinnu við samtök fatlaðs fólks. Gera efni aðgengilegt á táknmáli og textað, auðlesnu máli, í hljóðformi og stafrænt. Fræða starfsfólk í heilbrigðis- og félagsþjónustu um áhættu vegna loftslagsbreytinga.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er að lögfesta samninginn. Ástæða þess að ráðist var í gerð samningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var sú staðreynd að fatlað fólk nýtur síður mannréttinda en fólk almennt.

Samkvæmt 11. gr. SRFF skulu aðildarríkin gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðlegum mannúðarlögum og alþjóðlegum mannréttindalögum, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir. ÖBÍ lítur svo á að slíkar ráðstafanir felist m.a. í því að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks við gerð laga, reglugerða og áætlana. Í tengslum við neyðaraðstoð þarf að auki að taka tillit til ýmissa annarra ákvæða samningsins.

Ekkert um okkur án okkar!

Með vinsemd og virðingu,

Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ

Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ

Sigurður Árnason
lögfræðingur ÖBÍ


Drög að aðgerðalista aðlögunaráætlunar vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi
Mál nr. S-155/2025. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 23. september 2025