
Hvar er skilti um undanþágu P merkta bíla? Mynd: Stefán Vilbergsson
Merkingar
Mikilvægt er að merkingar séu skýrar, með læsilegu letri og greinilegum litaskilum við bakgrunninn. Gerð ljósaskilta má ekki valda óþægindum eða flogaköstum.
Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir í 6.2.3. gr.:
„Fyrir byggingar og aðkomu að þeim þar sem gerð er krafa um algilda hönnun skal eftirfarandi uppfyllt:
a. Við ákvörðun lýsingar skal tekið sérstakt tillit til þarfa hreyfihamlaðra, blindra og sjón¬skertra. Hugað skal að því við ákvörðun lýsingar og val á lit byggingar, að öll lita- og birtuskilyrði við innganga séu þannig að allar aðkomu- og inngangsleiðir séu afgerandi og skýrar svo sjónskertir og aldraðir eigi auðvelt með að átta sig á staðsetningu þeirra.
b. Allar merkingar skulu vera skýrar, greinilegar og auðlesnar. Merkja skal eða afmarka alla stóra glerfleti sem eru í gönguleiðum á skýran og greinilegan hátt. Merking skal vera í 0,90 m hæð og í 1,40-1,60 m hæð með áberandi hætti.“
Sömu viðmið eiga að gilda um skilti í borgarlandinu.
Gönguleiðir
Mikilvægt er að skilti hindri ekki gönguleiðir. Lágmarksbreidd gönguleiðar er 1,80 m þar sem vænta má mikillar umferðar, þar líklegt er að fólk mætist. Lausaskilti, útstillingar og markísur, auglýsinga- og upplýsingaskilti á gönguleiðum mega ekki skerða þá lágmarksbreidd.
Framkvæmdasvæði
Aðgengi í kringum framkvæmdasvæði er mikið vandamál í borginni. Mikilvægt er að bráðabirgðaskilti og girðingar hindri ekki gönguleiðir. Jafnframt er ekki ásættanlegt að efni frá framkvæmdasvæði spillist yfir á gönguleið, henni þarf að halda hreinni og hindrunarlausri fyrir fatlað fólk. Hjáleiðir þurfa að vera vel merktar og aðgengilegar öllum, að öðrum kosti þarf að finna aðrar hjáleiðir.
Ekkert um okkur án okkar!
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ
Endurskoðun á samþykkt um skilti í Reykjavík
Samráð 23. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar.
Umsögn ÖBÍ, 25. september 2025

