
Dæmi um algilda hönnun. Roberts Campus í Kaliforníu, Bandaríkjunum.
Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka um áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna stofnunar nefndahúss.
Fagna ber öllum áformum sem fela í sér aukna skilvirkni í rekstri og þjónustu hins opinbera við almenning. Tillögur um að koma á fót sameiginlegu húsi fyrir nefndir, s. k. nefndahús, eru því einkar skynsamlegar enda eiga þær að fela í sér sparnað og hagræðingu, samþættingu kerfa og aukið gagnsæi og sýnileika. Með tilkomu nefndahúss felast margs konar tækifæri sem ekki mega glatast.
Almenningur á að hafa greiðan aðgang að opinberum stofnunum og gæta þarf vel að því að húsnæðið sé aðgengilegt öllum. Gert sé ráð fyrir að fatlað fólk geti tekið þátt í nefndastörfum, komið fyrir nefndir og starfað í nefndahúsi. Það sé enn fremur staðsett með góðri tengingu og á hindrunarlausri leið við almenningssamgöngur.
Huga þarf að ljós- og hljóðvist sem og litahönnun. Merkingar þurfa að vera greinilegar og upplýsingakerfi þurfa að uppfylla aðgengisstaðla.
Lagt er til að hér verði notast við jafnréttismat opinberra framkvæmda sem Framkvæmdasýslan – Rikiseignir innleiddi fyrir tæpum tveimur árum síðan við mat á hentugu húsnæði og endurbætur á því.
Með vinsemd og virðingu,
Alma Ýr Ingólfsdóttir
formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Stefán Vilbergsson
verkefnastjóri ÖBÍ réttindasamtökum
Áform um nefndahús
Mál nr. S-179/2025. Forsætisráðuneytið.
Umsögn ÖBÍ, 30. september 2025

