
Við birtum upp skammdegið með notalegri samverustund þar sem ilmandi kakó, jólakaffi og brakandi piparkökur bíða okkar. Við slökum á við kertaljós og njótum upplestrar þriggja höfunda sem lesa upp úr nýjum bókum sínum. Hlý og hátíðleg stund sem gleður í desembermyrkrinu.
Fríða Ísberg les brot úr bók sinni Huldukonan, Ólafur Haukur Símonarson les úr bók Janne Teller Ekkert sem hann þýddi yfir á íslensku & Ísak Hilmarsson les upp úr nýrri bók sinni Fæðingarsögur feðra.
Huldukonan
Konurnar í Lohr fjölskyldunni skilja ekki að Sigvaldi þeirra, með alla sína augljósu mannkosti, hafi aldrei gengið út. Ennfremur fá þær ekki skilið þá fráleitu ákvörðun hans að gerast einsetumaður í eyðivík. Dag einn birtist Sigvaldi á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku í fanginu og neitar að svara því hver sé móðir barnsins.
Ekkert
Það rennur uppp fyrir Pierre Anthon að ekki taki því að gera neitt, af því að ekkert hafi þýðingu þegar allt komi til alls. Hann kemur sér fyrir uppi í tré og ögrar þaðan bekkjarsystkinum sínum. Þau reyna að sannfæra hann um tilgang lífsins með aðferðum sem fara að lokum út í öfgar. Verlaunabók sem gefin hefur verið út á 36 tunumálum.
Fæðingarsögur feðra
Fæðingarsögur feðra inniheldur sögur frá feðrum af fæðingum barna þeirra. Sögurnar í bókinni eru nafnlausar og skrifaðar af feðrunum sjálfum. Þær veita góða innsýn í upplifun og sjónarhorn feðra af meðgöngu, fæðingu og fyrstu augnablikunum í lífi barna þeirra. Sögurnar eru jafn ólíkar og þær eru margar og koma frá feðrum á mismunandi aldri. Þær segja frá flestum tegundum fæðinga, frá keisaraskurðum, fæðingum í heimahúsi, á sjúkrahúsi, í sjúkrabíl, á fæðingarheimilum og einnig erlendis. Með bókinni vilja höfundar opna á umræðuna um upplifun feðra af fæðingum og vekja athygli á hlutverki þeirra og þátttöku í barneignarferlinu. Eins er von um að bókin hvetji til umræðu um upplifun fólks af fæðingum barna sinna, hvort sem er við hitt foreldri barnsins eða á milli kynslóða.