Skip to main content
AðgengiViðtal

Aðgengi að öllum stöðum og betri lífskjör

By 1. október 2021ágúst 31st, 2022No Comments
Elmar Logi Heiðarsson er fulltrúi Sjálfsbjargar í notendaráði um málefni fatlaðs fólks hjá Akureyrarbæ, en notendaráðin eru nýjung hjá ÖBÍ. Þeim er ætlað að skoða mál er geta haft áhrif á stöðu og velferð fatlaðs fólks og fá inn til sín mál sem fatlaðir einstaklingar geta haft áhrif á.

Hvaða mál eru að þínu mati brýnast að setja á oddinn í réttindabaráttu fatlaðs fólks? „Almennt aðgengi að öllum stöðum og að getað unnið með sína getu án þess að fá bakreikning, krónu fyrir krónu, næstum því, það drepur allan vilja og er alls ekki hvetjandi. Örorkulífeyrinn ætti svo að minnsta að vera sambærilegur lágmarkslaunum svo hægt sé að lifa mannsæmandi lífi,“ segir hann.

Finnst þér eitthvað hafa þokast áfram síðan þú fórst að koma að þessum málum eða stöndum við í stað? „Það þokast allt áfram þótt yfirleitt sé það tvö skref áfram og eitt afturábak. Mér finnst viðhorf flestra breytast þegar maður útskýrir hlutina frá manns eigin sjónarhorni. En þetta gerist allt rosalega hægt.“

Nú situr þú í notendaráði hjá Akureyrarbæ. Finnst þér þú mæta skilningi hjá bænum? „Notendaráðið hérna á Akureyri er rosalega skilvirkt og finnst mér vinnan þar alveg til fyrirmyndar,“ segir Elmar Logi. „Samvinnan við bæjarstjórnina gengur mjög vel en mætti vera hraðari. En mér finnst bæjarstjórnin vera að hlusta og treysta okkar skoðunum og það er mikilvægast.“

Er baráttan nægilega skilvirk að þínu mati, er réttum aðferðum beitt og svo framvegis? „Það er alltaf hægt að gera betur, en að mínu mati er allt í þá áttina. Það er langtímamarkmið hér á Akureyri sem við erum að vinna eftir og treysti ég því að það gangi upp með þessari vinnu.“

Áttu þér draumsýn um hvernig hlutirnir verða í framtíðinni? 

„Draumasýnin er gott aðgengi alls staðar, helst ósýnilegt sem maður þarf ekki að pæla í. Mannsæmandi bætur svo maður þurfi ekki að hafa endalausar áhyggjur og betra viðhorf og skilningur frá stjórnvöldum.“

Texti: Steingerður Steinarsdóttir. Myndir: Auðunn Níelsson

Tímarit ÖBÍ 1. tbl. 2021 | Öryrkjabandalag Íslands (obi.is)